Almennur varasjóður og sértækar fjárráðstafanir

 Fjármálaáætlun 2018-2022

1. Umfang 

Starfsemi á málefnasviðinu er á ábyrgð fjármála- og efnahagsráðherra. Undir því eru tveir málaflokkar, en þeir eru:

  • Almennur varasjóður.
  • Sértækar fjárráðstafanir.

Undir málefnasviðið fellur:

  • Almennur varasjóður til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt 24. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Skal varasjóðurinn nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga;
  • Sértækar fjárráðstafanir sem hafa tvíþætt hlutverk. Annars vegar að fjármagna útgjöld sem fjármála- og efnahagsráðherra ákveður að efna til á grundvelli heimildagreinar fjárlaga, svo sem vegna kaupa á landareignum og fasteignum. Hins vegar að fjármagna eða styðja fjárhagslega við einstaka viðburði og verkefni sem upp koma á fjárlagaárinu samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar hverju sinni.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Eiginleg starfsemi fer ekki fram á þessu málefnasviði og engin útgjöld eru reikningsfærð þar heldur eru fjárheimildir þess millifærðar til stofnana og verkefna á öðrum málefnasviðum þar sem kostnaður sá sem þessum fjárheimildum er ætlað að mæta er gjaldfærður í ríkisreikningi.

Megintilgangur málefnasviðsins er að tryggja að í fjárlögum sé gert ráð fyrir svigrúmi til að bregðast við frávikum frá forsendum fjárlaga í launa- og verðlagsmálum sem upp kunna að koma á árinu, og að mæta öðrum ófyrirséðum útgjöldum sem til falla og ekki verður komist hjá. Þannig er almennum varasjóði ætlað að styðja við það að rekstur málefnasviða og málaflokka verði í samræmi við fjárheimildir ársins, jafnvel þótt að til útgjalda geti komið sem ekki voru fyrirséð við ákvörðun fjárlaga. Á hinn bóginn eru fjárheimildir sem falla til sértækra fjárráðstafana til að færa ríkisstjórn möguleika til að mæta viðameiri tímabundnum útgjaldatilefnum sem upp kunna að koma innan ársins.

3.   Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að hægt sé að bregðast við meiri háttar ófyrirséðum útgjöldum án þess að raska útgjaldaramma fjárlaga.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að koma í veg fyrir að afla þurfi útgjaldaheimilda á fjáraukalögum og að frávik frá fjárlögum verði sem minnst.

4.   Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

Almennur varasjóður. Markmið málaflokksins er að til sé almennur varasjóður til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg og óhjákvæmileg og ekki er unnt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt 24. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. Skal varasjóðurinn nema að lágmarki 1% af fjárheimildum fjárlaga, samkvæmt sömu lagagrein.

Eins og áður hefur komið fram þá fer engin starfsemi fram í þessum málaflokki heldur er hann nokkurs konar geymslustaður fyrir fjárheimildir sem hægt er að grípa til ef slíkar aðstæður skapast. Markmið málaflokksins styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 10.4 um að tekin verði upp stefnumál, einkum í opinberum fjármálum.

Fyrirhugað er að settar verði reglur um ráðstöfun fjár úr varasjóði á grundvelli skilyrða í 1. mgr. 24. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál, sbr. 6. tl. 67. gr. sömu laga.

Ekki eru skilgreindir mælikvarðar eða aðgerðir vegna eðlis málaflokksins.

Sértækar fjárráðstafanir. Markmið málaflokksins er að skapa svigrúm til framfylgja aðgerðum sem fram koma í heimildargrein fjárlaga, s.s. til að kaupa fasteignir, skip og flugvélar eða aðrar eignir.

Sömuleiðis að ríkisstjórn geti mætt tímabundnum útgjaldatilefnum sem upp geta komið á fjárlagaári og talið er nauðsynlegt að sinna. Jafnframt að hægt sé að mæta ýmsum ófyrirséðum útgjöldum af fyrrgreindum toga sem ekki teljast vera á ábyrgð einstakra ráðherra heldur ríkisstjórnarinnar allrar og verða ekki fjármögnuð úr varasjóðum annarra málaflokka.

Undir málaflokkinn falla fjárlagaliðirnir 09-481 Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum og 09-990 Ríkisstjórnarákvarðanir. Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur umsjón með fjárheimildum málaflokksins en útgjaldatilefnin sem ákveðið er að fjármagna úr honum geta heyrt undir ábyrgðarsvið allra ráðuneyta Stjórnarráðsins.

Ekki eru skilgreindir mælikvarðar eða aðgerðir vegna eðlis málaflokksins, en eins og áður hefur komið fram þá fer engin eiginleg starfsemi fram í þessum málaflokki og engin útgjöld eru reikningsfærð á fjárlagaliði hans heldur eru fjárheimildir millifærðar frá honum til ríkisaðila og verkefna þar sem útgjöldin falla til.

 
 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn