Dómstólar

 Fjármálaáætlun 2018-2022 

1.   Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð dómsmálaráðherra. Það skiptist í fjóra málaflokka, en þeir eru:

  • Hæstiréttur.
  • Héraðsdómstólar.
  • Landsréttur.
  • Dómstólasýslan.

Dómstigin samkvæmt gildandi dómstólaskipan eru tvö, átta héraðsdómstólar og Hæstiréttur Íslands sem er æðsti dómstóll ríkisins. Þann 1. janúar 2018 tekur ný dómstólaskipan gildi þegar nýr áfrýjunardómstóll, Landsréttur, tekur til starfa. Þá verða dómstigin þrjú, átta héraðsdómstólar, Landsréttur og Hæstiréttur Íslands. Jafnframt tekur ný stjórn- sýslustofnun dómstólanna til starfa, dómstólasýslan. Dómstólaráð verður lagt niður.

Hlutverk dómstóla er að skera úr réttarágreiningi hvort heldur er á milli einstaklinga eða lögaðila, taka til meðferðar mál sem handhafar ákæruvalds höfða til refsingar lögum samkvæmt, og kveða upp úr um embættistakmörk yfirvalda. Öll dómsmál byrja hjá héraðsdómstólunum. Að ákveðnum skilyrðum uppfylltum verður unnt að áfrýja málum til Lands- réttar. Í sérstökum tilvikum verður unnt að áfrýja niðurstöðum Landsréttar til Hæstaréttar eða í undantekningartilvikum niðurstöðum héraðsdóms til Hæstaréttar. Hlutverk dómstólasýslunnar verður að annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna allra. Ráðuneytið vinnur með dómstólum að dómstólaáætlun sem er hluti af áætlun ráðuneytisins fyrir réttarvörslu- kerfið í heild og kallast réttaröryggisáætlun. Í dómstólaáætlun munu koma fram markmið, mælikvarðar og aðgerðir tengdar dómstólum.

Í eftirfarandi töflu má sjá fjárhagslega þróun málefnasviðsins og einstakra málaflokka á tímabilinu 2015–2017.

 

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Dómarar í Hæstarétti eru nú 10 en eftir gildistöku nýrra laga um dómstóla 1. janúar 2018 skal ekki skipa né setja í embætti dómara við Hæstarétt þar til fjöldi dómara verður orðinn 7. Þegar fjallað er um fjölda mála í Hæstarétti er miðað við öll mál sem þangað er áfrýjað eða eru kærð. Á undanförnum árum hefur fjöldi dæmdra mála verið svipaður eða um 760 mál á ári sem er nokkuð meira en árin þar á undan. Þá hefur málum sem skotið er til Hæstaréttar fjölgað. Er þá bæði átt við áfrýjuð og kærð mál.

Þegar borinn er saman fjöldi mála sem rekinn er fyrir héraðsdómstólum og fjöldi mála í Hæstarétti verður að hafa þann fyrirvara á að ekki er að fullu um sambærilega tölfræði að ræða. Fjöldi mála í héraði er miðaður við fjölda munnlega fluttra einkamála og sakamála en ekki önnur mál. Ekki eru til upplýsingar um málsmeðferðartíma í Hæstarétti. Það verður eitt verkefna dómstólasýslunnar að tryggja að slík tölfræði liggi ávallt fyrir.

Helsta áskorun hjá Hæstarétti á tímabilinu er að aðlaga sig að nýrri dómstólaskipan. Eftir að ný lög um dómstóla taka gildi mun Hæstiréttur fá nýtt hlutverk þar sem einungis verður unnt að áfrýja til dómsins málum í ákveðnum tilvikum og einungis að fengnu leyfi réttarins.

Gert er ráð fyrir að töluverð vinna verði hjá réttinum í byrjun við að vinna úr beiðnum um frýjunarleyfi þar til skýrar línur skapast um þá framkvæmd. Lög gera ráð fyrir að Hæstiréttur ljúki þeim málum sem til hans hefur verið áfrýjað fyrir 1. janúar 2018 og er ljóst að það mun taka Hæstarétt nokkurn tíma að vinna úr þeim. Þegar rétturinn hefur lokið málum sem áfrýjað hefur verið fyrir gildistöku laganna mun áfrýjuðum málum sem til meðferðar eru hjá réttinum fara fækkandi. Þá er gert ráð fyrir að beiðnum um áfrýjunarleyfi muni smám saman fækka þegar framkvæmd réttarins við mat á beiðnum um áfrýjunarleyfi liggur fyrir. Þannig mun rétturinn þurfa að laga sig að breyttu hlutverki samhliða því að ljúka þeim málum sem til hans hefur verið áfrýjað fyrir 1. janúar 2018. Þess ber að geta að ekki er útilokað að með breytingu á lögum verði úrlausn tiltekinna ólokinna mála hjá Hæstarétti fengin Landsrétti um leið og hann tekur til starfa.

Árið 2020 verður Hæstiréttur 100 ára. Hæstiréttur hefur ráðgert að fagna þeim tímamótum meðal annars með útgáfu rits þar sem fjallað verður um sögu dómstólsins og birtar fræðigreinar. Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.

Í Landsrétti munu starfa 15 dómarar auk löglærðra aðstoðarmanna og annars starfsfólks. Unnið er að undirbúningi að starfsemi dómstólsins, s.s. gerð málaskrár, kaupum á upptöku- og afspilunartækjum vegna skýrslutöku í hljóð og mynd, vefsíðu og skipun dómara. Þá er unnið að undirbúningi að því að byggja framtíðarhúsnæði fyrir Landsrétt í Reykjavík en til bráðabirgða verður Landsréttur staðsettur að Vesturvör 2 í Kópavogi.

Dómarar í héraði eru nú 42 og verða það áfram samkvæmt nýjum lögum um dómstóla. Þegar skoðuð er þróun á fjölda dómsmála og meðferð þeirra hjá héraðsdómstólunum er hér eingöngu litið til munnlega fluttra einkamála og sakamála (ákærumál) sem að öllu jöfnu vega einna þyngst hjá héraðsdómstólunum. Fjöldi munnlega fluttra einkamála hefur farið fækkandi síðastliðin sjö ár.

Á sama tíma og munnlega fluttum einkamálum hefur fækkað, dómurum í héraði fjölgað og valdheimildir aðstoðarmanna dómara aukist, hefur meðal málsmeðferðartími lengst frá því að vera 299 dagar árið 2010 í 386 daga á árinu 2016. Lengri málsmeðferðartími kann að vera vísbending um að eðli dómsmála hafi breyst og að umfang þeirra hafi aukist á liðnum árum. Þá hefur einnig fjölgað verulega undanfarin ár þeim málum þar sem þörf hefur verið fyrir sérfróða meðdómsmenn.

Breytingar voru gerðar á málsmeðferðarreglum dómsmála í júlí 2015 sem fólu í sér ýmsar breytingar til einföldunar á meðferð þeirra. Tilgangur þeirra breytinga var að auka skilvirkni. Þá var skyldubundin sáttameðferð í forsjármálum tekin upp hjá sýslumönnum árið 2012 og er ekki heimilt að leggja slík mál fyrir dómstóla fyrr en sáttameðferð hafi áður verið reynd.

Helstu áskoranir héraðsdómstólanna eru eins og hjá Hæstarétti að halda málshraða í viðunandi horfi. Í þjónustukönnun dómstólaráðs meðal lögmanna og ákærenda í byrjun árs 2017 kemur meðal annars fram að 50% svarenda telja málsmeðferðartímann ívið of langan og 16% allt of langan.

Veikleiki í starfsemi héraðsdómstólanna er að málaskrá dómstólanna er komin mjög til ára sinna og eru líkur á að hún endist ekki mikið lengur. Nauðsynlegt er að ráðast í gerð nýrrar málaskrár fyrir héraðsdómsstigið sem styður við rafræna málsmeðferð og rafræna sendingu gagna milli dómstiga. Hafa héraðsdómstólar og dómstólaráð vakið athygli á þessu en einnig að ráðast þurfi í það verkefni að ganga frá uppsöfnuðum dómskjölum og endurnýja húsbúnað og tæki í dómsölum ásamt endurnýjun á almennum tölvubúnaði starfsmanna. Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna þessi áform.

Dómstólasýslan verður sjálfstæð stjórnsýslustofnun sem annast sameiginlega stjórnsýslu dómstólanna. Henni eru falin ýmis verkefni, s.s. að leggja mat á og gera tillögur til ráðherra um auðsynlegar fjárveitingar til dómstólasýslunnar, Hæstaréttar, Landsréttar og sameiginlegar fjárveitingar til héraðsdómstólanna. Þá á dómstólasýslan að vera málsvari dómstólanna gagnvart stjórnvöldum og almenningi, annast skipulagningu símenntunar dómara og annarra starfsmanna í þjónustu dómstóla. Dómstólasýslan mun einnig annast yfirstjórn upplýsinga- og tæknimála dómstólanna en þar undir fellur m.a. skipulagning og umsjón tölvu- og skjala- vörslukerfa og öryggiskerfa. Þegar horft er til hlutverks dómstólasýslunnar er ljóst að verk- efni hennar eru viðameiri en verkefni dómstólaráðs nú, enda ætlað að taka til dómstiganna þriggja.

Helstu áskoranir dómstólasýslunnar verða að koma á fót nýrri stofnun sem er í stakk búin að takast á við ný og umfangsmikil verkefni. Nauðsynlegt er hjá dómstólasýslunni starfi fólk sem hefur þekkingu og menntun til að sinna þeim lögbundnu verkefnum og skyldum sem stofnuninni er ætlað að bera ábyrgð á. Fyrirfram má telja æskilegt að þar starfi lögfræðingur, fjármálastjóri, upplýsinga- og skjalastjóri og tölvunarfræðingur. Svigrúm fjármálaáætlunar er ekki nægjanlegt til að fjármagna slík áform.

3.   Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn varðandi dómskerfið er að á Íslandi njóti borgarar réttaröryggis og grundvallarmannréttinda.

Meginmarkmið málefnasviðsins hér eftir sem hingað til er að traust ríki til dómstóla með ví að tryggja að aðgangur að því sé greiður og málsmeðferð réttlát, sem og tryggja öryggi almennings, gagna og upplýsinga.

Frá stofnun Hæstaréttar 1920 hafa dómstigin verið tvö. Það fyrirkomulag hefur ekki verið gallalaust og hefur til að mynda ekki verið unnt að fá endurskoðun Hæstaréttar á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar í sakamálum. Þá hefur verið gagnrýnt að fordæmisgildi dóma Hæstaréttar líði fyrir mikinn málafjölda. Það hafi aukið hættu á mismunandi niður- stöðum í sambærilegum málum og að mál fái ekki nægilega vandaða málsmeðferð. Einnig verið bent á að óviðunandi sé að sérfróðir meðdómendur skuli ekki á áfrýjunarstigi  taka þátt í meðferð máls sem dæmt hefur verið í héraði af sérfróðum meðdómendum.

Unnið er að þeirri framtíðarsýn sem vikið er að hér að framan að stefnt sé að því að sníða af  þá  vankanta  sem  verið hafa  á  núverandi  kerfi með þeim breytingum sem verða á dómstólaskipaninni 1. janúar 2018. Þá verður stjórnsýsla dómstólanna efld til muna með hinni nýju dómstólasýslu.  Hér verður um mikla réttarbót að ræða fyrir landsmenn  og stefnt er að því markmiði að auka traust almennings til dómskerfisins.

Með breytingunum er stefnt að vandaðri meðferð mála í dómskerfinu innan hæfilegs tíma. Öll mál munu byrja hjá héraðsdómstólunum á fyrsta dómstiginu. Málum verður unnt að áfrýja til Landsréttar með sömu skilyrðum og gilda um áfrýjun mála til Hæstaréttar í dag. Sú mikla réttarbót verður að sönnunarfærsla verður endurmetin fyrir Landsrétti en því hefur ekki verið unnt að koma við í Hæstarétti. Málum sem áfrýjað verður til Hæstaréttar mun fækka og Hæstiréttur mun fá það hlutverk að vera stefnumótandi æðsti dómstól ríkisins. Þá mun stjórnsýsla dómstólanna verða sameinuð í eina hjá nýrri sjálfstæðri stofnun, dómstólasýslunni. Þegar áhrif af nýrri dómstólaskipan verða að fullu fram komin mun heildarfjöldi dómara vera 64 í stað 52. Þá eru fjárhagsleg áhrif metin á um 700 m.kr. á ári eða um 35% aukning til málefnasviðsins 2018 frá upphæðinni á fjárlögum og í fjárauka árið 2016.

Það er því brýnt fyrir dómstigin þrjú auk ákæruvalds, lögreglu og fullnustustofnana sameiginlega að koma á rafrænni málsmeðferð þar sem unnt verður að senda skjöl og önnur gögn, til að mynda hljóð- og myndskrár á milli dómstóla og annarra í réttarvörslukerfinu, þar á meðal til lögmanna. Til að mæta þeirri áskorun þurfa héraðsdómstólar að uppfæra málaskrá sína og koma upp skýrslutökubúnaði í hljóði og mynd til spilunar í Landsrétti og Hæstarétti.

4. Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

 

Nr.

Markm

HM #

Mælikvarðar

Staða 2016

Viðmið 2018

Viðmið 2022

 

 

 

 

1

Aðgangur að

dómstólum sé greiður, máls- meðferð skil-

virk og réttlát og mann- réttindi virt. Dómstólar

njóti trausts.

 

 

 

 

Fjöldi, tegund, og máls- meðferðartími.

 

 

 

 

Unnið að viðmiðum.

 

 

 

 

Viðmið sett.

 

 

 

 

 

 

 

2

 

 

 

 

Öryggi almennings, gagna og upplýsinga sé tryggt.

 

 

 

 

 

Rafræn þjónustugátt sem uppfylli kröfur um öryggi.

Unnið að

söfnun upp- lýsinga um

grunnþarfir og

kröfur til framtíðar,

gagnasam- skiptakerfis fyrir stofnanir réttarvörslu- kerfisins og þá

ytri aðila er þeim tengist.

 

 

 

Útboð á framtíðar samskiptalausn fyrir stofnanir réttarvörslu- kerfisins og þá ytri aðila er þeim tengist.

 

 

Gagnasam- skipti milli stofnana réttarvörslu- kerfisins og ytri aðila er þeim tengist er að fullu rafræn.

 

 

NR.

Tengist markmiði nr.

 

Aðgerð

 

Tíma- áætlun

 

Kostnaður

 

Ábyrgðar- aðili

1

1,2

Heildarfjöldi dómara eykst um 12.

2018–

2022

 

DMR

2

1,2

Landsréttur og Dómstólasýslan taka til starfa.

2018

 

DMR

3

1,2

Milliliðalaus sönnunarfærsla í málsmeðferð.

2018–

2019

 

DMR

4

1,2

Upptaka í hljóð og mynd í dómsölum.

2018

 

Dómstóla-

sýslan

 

 

5

 

 

2

 

Unnið að rafrænu þjónustulagi milli stofnana réttarvörslukerfisins sem tryggir yfirsýn og rekjanleika mála innan þess.

 

 

2016–

2022

 

DMR og

stofnanir réttar-

vörslu-

kerfisins

 

Fjármögnun

 

 

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Áætlun

Útgjaldarammi í m.kr.

2018

2019

2020

2021

2022

2 Dómstólar ...................................................

2.923

2.859

2.819

2.821

2.832

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn