Húsnæðisstuðningur

Fjármálaáætlun 2018-2022 

1. Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og jafnréttismálaráðherra velferðarráðuneytisins og fjármála- og efnahagsráðherra. Undir því er einn málaflokkur sem ber sama heiti  og  málefnasviðið  og  heyra  viðfangsefni  þess undir  velferðarráðuneytið  að  undanskildum vaxtabótum og stuðningi til kaupa á fyrstu íbúð sem heyra undir fjármála- og efnahagsráðuneytið.

Málefnasviðið tekur til húsnæðisstuðnings hins opinbera við ólík búsetuform og er ætlað að stuðla að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins, meðal annars vegna lágra launa, þarfar fyrir sérútbúið húsnæði eða vegna annarra félagslegra aðstæðna. Undir málaflokkinn falla vaxtabætur,  stuðningur  til  kaupa  á  fyrstu  íbúð,  húsnæðisbætur  og  leiguíbúðir,  þar á meðal almennar íbúðir.

Ríkisskattstjóri annast framkvæmd vaxtabóta og stuðnings til kaupa á fyrstu íbúð. Vinnumálastofnun annast framkvæmd húsnæðisbóta og sveitarfélög framkvæmd sérstaks húsnæðisstuðnings.  Þá  annast  Íbúðalánasjóður  framkvæmd húsnæðisstuðnings  stjórnvalda vegna leiguíbúða, þar á meðal almennra íbúða í samstarfi við sveitarfélög.

Greiðsla vaxtabóta er meginstuðningur stjórnvalda við íbúðareigendur sem hafa útvegað sér húsnæði með lántöku. Kerfi þetta hefur verið í gildi frá árinu 1990 en um þau gilda lög nr. 90/2003 um tekjuskatt. Vaxtabætur eru bæði tekju- og eignatengdar og eru misháar eftir hjúskaparstöðu. Réttur til vaxtabóta skapast einungis á grundvelli vaxtagjalda af lánum sem tekin eru vegna kaupa á íbúð sem einstaklingur eða hjón/sambýlisfólk á og býr í sjálft.

Húsnæðisbætur eru almennur húsnæðisstuðningur hins opinbera við leigjendur en sá stuðningur var áður veittur í formi húsaleigubóta. Húsnæðisbætur eru mánaðarlegar greiðslur sem miðast við fjölda heimilismanna að teknu tilliti til tekna, eigna og greiðsluþátttöku í húsnæðiskostnaði. Kostnaður vegna húsnæðisbóta greiðist úr ríkissjóði. Um húsnæðisstuðninginn gilda lög um húsnæðisbætur, nr. 75/2016.

Um sérstakan húsnæðisstuðning gilda lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum. Sveitarfélög greiða kostnað vegna sérstaks húsnæðisstuðnings og verður því ekki frekar fjallað um hann hér.

Stofnframlög ríkis og sveitarfélaga eru veitt á grundvelli laga um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum, til að fjölga hagkvæmu leiguhúsnæði fyrir leigjendur undir tilteknum tekju- og eignamörkum.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Vaxabætur. Í upphafi árs 2017 voru skerðingarmörk nettóeignar, þ.e. heildareigna að frádregnum heildarskuldum, í vaxtabótakerfinu hækkuð um 12,5%. Viðmiðunarfjárhæðir og reiknireglur vaxtabóta höfðu þá haldist óbreyttar frá árinu 2011 að öðru leyti en því að tekju- skerðingarhlutfall vaxtabóta var hækkað úr 8% í 8,5% á árinu 2014. Haustið 2016 voru samþykkt lög um aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð, jafnframt því sem gildandi úrræði um nýtingu séreignarsparnaðar skattfrjálst til að lækka höfuðstól veðtryggðra fasteignalána var framlengt um tvö ár, eða fram á mitt ár 2019. Markmið þessa úrræðis er að greiða götu þeirra einstaklinga sem eru að koma sér þak yfir höfuðið í fyrsta sinn, sem eru fyrst og fremst ungt fólk.

Samkvæmt nýja úrræðinu verður heimilt að taka út uppsafnaðan séreignarsparnað skattfrjálst, en háð tilteknum skilyrðum, frá og með 1. júlí 2017 til kaupa á fyrstu íbúð og/eða ráðstafa séreignarsparnaði inn á höfuðstól láns, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og/eða að ráðstafa séreignarsparnaði sem afborgun inn á óverðtryggt lán, sem tryggt er með veði í fyrstu íbúð og sem greiðslu inn á höfuðstól þess. Úrræðið er varanlegt og nær yfir tíu ára samfellt tímabil fyrir hvern einstakling sem nýtir þessa heimild. Skilyrði úttektar á séreignarsparnaði er að hafa ekki áður átt íbúð. Einnig er skilyrði að eiga að minnsta kosti 50% eignarhlut í þeirri íbúð sem aflað er.

Heildartekjutap ríkissjóð vegna framlengingar á úrræðinu um ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán um tvö ár er áætlað tæplega 6 ma.kr. til framtíðar. Tekjutapið dreifist yfir marga áratugi og eru áhrifin framlengingin fremur lítil á afkomu ríkissjóðs á því tímabili sem hér um ræðir. Vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð er áætlað að afkoma ríkissjóðs geti lækkað um 220 m.kr. á árinu 2017, 740 m.kr. 2018 og nálægt 800 m.kr. árlega á tímabilinu 2019–2022 Umræddur stuðningur kemur hins vegar ekki fram í formi sérstakra bóta, eins og vaxtabóta, heldur sem tapaðar tekjur ríkisins af tekjuskatti einstaklinga og sveitarfélaga á útsvarstekjum.

Helstu áskoranir eru hækkandi húsnæðisverð og aukin krafa um hátt eigið fjárframlag við kaup á fasteign. Þetta hefur þyngt róður margra einstaklinga og barnafjölskyldna, sérstaklega hjá yngri aldurshópum, við að eignast sitt eigið húsnæði. Er því ljóst að enn er þörf fyrir áframhaldandi stuðning stjórnvalda í húsnæðismálum.

Húsnæðisbætur. Helsti áhættuþátturinn er varðar útgjöld ríkissjóðs vegna húsnæðisstuðnings við leigjendur í formi húsnæðisbóta er fjöldi efnaminni leigjenda sem eiga rétt til húsnæðisbóta á hverjum tíma. Til að meta þessa áhættu verður að líta til fjölda leigjenda á húsnæðismarkaði en svo virðist sem að hlutfall leigjenda á markaðnum sé líklegt til að lækka samhliða bættri stöðu efnahagsmála og fjárhags heimila. Í því sambandi hefur enn fremur verið bent á að fjöldi þinglýstra kaupsamninga hefur aukist hlutfallslega meira undanfarið en fjöldi þinglýstra leigusamninga sem gæti gefið vísbendingu um fækkun leigjenda. Þá er aðgerðum stjórnvalda, svo sem í formi stuðnings til kaupa á fyrstu íbúð, ætlað að auðvelda landsmönnum að eignast eigið húsnæði.

Leiguíbúðir, þar á meðal almennar íbúðir. Með lögum nr. 52/2016 um almennar íbúðir, sem samþykkt voru sumarið 2016 var lagður grundvöllur að nýrri umgjörð um uppbyggingu á félagslegu leiguhúsnæði. Markmið laganna er að tryggja tekjulægri einstaklingum og fjölskyldum öruggt og viðeigandi húsnæði sem og að stuðla að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu og fari að jafnaði ekki yfir fjórðung tekna. Skal það gert með því að ríki og sveitarfélög veiti stofnframlög til byggingar og kaupa á leiguhúsnæði fyrir tekjulága hópa. Stofnframlag ríkisins nemur að jafnaði 18% af stofnvirði en heimilt er að veita viðbótarframlög upp á 4% og 6% í ákveðnum tilvikum.

Þann 29. maí 2015 gaf þáverandi ríkisstjórn út yfirlýsingu um aðgerðir í húsnæðismálum í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Markmiðið með yfirlýsingunni var að leggja grunn að félagslegu íbúðakerfi, með byggingu allt að 2.300 leiguíbúða á fjórum árum. Ríkisstjórnin hefur nú, til að tryggja að þessi markmið geti gengið eftir, tryggt að framlag ríkisins til stofnframlaga verði allt að þrír milljarðar króna á ári 2017, 2018 og 2019. Rétt er að geta þess í tengslum við aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum að nú um áramótin voru þær húsnæðisbætur sem ríkið greiðir hækkaðar umtalsvert. Þessar hækkanir þjóna þeim tilgangi að styðja við almennan leigumarkað og lækka húsnæðiskostnað tekjulægri leigjenda. Heildarhækkun varanlegra útgjalda ríkisins vegna þessa húsnæðisstuðnings nemur um 2 millörðum á ári. Heildarhúsnæðisbætur sem greiddar eru á árinu 2017 nema nú 6,6 milljörðum króna. Þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa í för með sér hækkun á húsnæðisbótum til flestra sem þeirra njóta, en staða einstaklinga var aftur á móti jöfnuð með því að nú telja allar tekjur einstaklings til lækkunar bóta.

Til samræmis við áherslu stjórnvalda á aðgerðir til að koma til móts við skort á húsnæðismarkaði hefur nú verið skipaður starfshópur fjögurra ráðuneyta um samræmdar aðgerðir stjórnvalda gegn þessum húsnæðisskorti. Um er að ræða forgangsverkefni ráðherranna en jafnframt að  ætlunin að gera ráðstafanir til  framtíðar  sem stuðla  munu að auknum stöðugleika í framboði á fasteignamarkaði til að draga úr þeim framboðsskorti og miklum hækkunum í verði, sem bitna einna helst á tekjulágum hópum á leigumarkaði sem og fyrstu kaupendum.

3.   Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn  málefnasviðsins  er  að  landsmenn  búi  við  öryggi  í  húsnæðismálum  í samræmi við þarfir hvers og eins og að þeir hafi raunverulegt val um búsetuform. Húsnæðismarkaðurinn verði laus undan því að vera mjög sveiflukenndur eins og reyndin hefur verið undanfarin  ár,  ýmist  með  offramboði  af  fasteignum  eða  framboðsskorti eins  og  nú  er reyndin. Eftirlits- og greiningarhlutverk stjórnvalda í húsnæðismálum verði styrkt í því skyni að efla markvissa stefnumörkun á því sviði.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að stuðla að því að fasteignmarkaðurinn nái jafnvægi hvað varðar framboð og eftirspurn. Stuðla verður að því að fyrstu kaupendur og leigjendur sem vilja kaupa fasteign hafi raunhæfa möguleika til þess. Sem stendur er aðgengi íbúðareigenda, leigjenda og búseturéttarhafa að íbúðarhúsnæði á viðráðanlegu verði í samræmi við þarfir hvers og eins ekki nægilega tryggt. Því markmiði verður best náð með því að tryggja nægt framboð af hagkvæmum minni íbúðum. Jafnframt að bæta áætlanagerð í húsnæðismálum og að framboð á húsnæði og nýbyggingar verði í samræmi við þarfir fyrir húsnæði.

Opinber húsnæðisstuðningur þarf að beinast að því að ná betur til efnaminni fjölskyldna en verið hefur en því markmiði verður náð með því að draga úr stuðningi við efnameiri fjölskyldur. Þannig nýtist húsnæðisstuðningurinn betur til að tryggja að fjölskyldur búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins í stað þess að lyfta upp verði á fasteignamarkaði sem hætta er á verði stuðningur of almennur.

4.   Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

HúsnæðisstuðningurHeildarstefna um húsnæðisstuðning til framtíðar liggur enn ekki fyrir. Í ljósi þess er gert ráð fyrir að allar viðmiðunarfjárhæðir vaxtabótakerfisins munu verða þær sömu á tímabilinu 2018 – 2022 og á þessu ári. Það felur í sér að á meðan laun hækka og eiginfjárstaða heimila batnar þá hafa tekju- og eignaskerðingar kerfisins meiri áhrif til lækkunar á vaxtabótum á komandi árum. Auk þess er gert ráð fyrir að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings kaupa á fyrstu íbúð muni hafa áhrif til lækkunar á vaxtabótum samhliða lækkun húsnæðisskulda. Þó ekki liggi fyrir ákvarðanir um húsnæðisstuðning til framtíðar er gengið út frá því að stuðningur til kaupa á fyrstu íbúð sem tekur gildi 1. júlí nk. haldist óbreyttur. 

Nr.
Markm
HM #
Mælikvarðar
Staða 2016
Viðmið 2018
Viðmið 2022
1
Landsmenn
eigi þess kost að eignast
eigið húsnæði og hafi val um búsetuform
10
Hlutfall
fjölskyldna, 25 ára og eldri, sem
eiga fasteign
46%
fjölskyldna skv. álagningu
opinberra gjalda fyrir árið 2016.
48%
fjölskyldna, 25 ára og eldri
51%
fjölskyldna,
25 ára og eldri
 
 
 
 
 
 
2
 
 
 
 
 
Einfaldari húsnæðis- stuðningur.
10
Fjöldi
einstaklinga sem fá greiddar vaxtabætur
29.710
einstaklingar skv. álagningu opinberra
gjalda fyrir árið 2016
10-15% fækkun
frá álagningu opinberra gjalda fyrir árið 2016
20-25%
fækkun frá álagningu opinberra
gjalda fyrir árið 2016
Fjöldi
einstaklinga sem greiða
séreignar-
sparnað inn á lán
Að meðaltali
25.402 einstaklingar
árið 2016
10-15% aukning
frá meðalfjölda ársins 2016
20-25%
aukning frá meðalfjölda
ársins 2016

Aðgerðir birtast hér í fyrsta sinn fyrir málaflokkinn, en talin er ástæða til að skýra næstu skref við stuðning í húsnæðismálum sem styður jafnframt við fyrsta markmiðið.

 

NR.

Tengist markmiði

nr.

Aðgerð

Tíma- áætlun
Kostnaður
Ábyrgðar- aðili
1
1 og 2
Aðgerðir ríkisstjórnarinnar til stuðnings kaupa
á fyrstu íbúð
2017–
2022
 
FJR í
samvinnu við VEL
2
1
Stofnstyrkir til bygginga allt að 1.800 nýrra
almennra íbúða
2018–
2021
 
Íbúðalána-
sjóður
3
2
Óbreyttar viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta
2017–
2022
 
 

 

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn