Landbúnaðarmál

Fjármálaáætlun 2018-2022

1. Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði varðar hagnýtingu auðlinda lands til matvælaframleiðslu og er á ábyrgð atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Málefnasviðið skiptist í tvo málaflokka, en þeir eru:

  • Stjórnun landbúnaðarmála.
  • Rannsóknir, þróun og nýsköpun.

Stjórnun landbúnaðarmála varðar stjórnsýslu Matvælastofnunar, nýtingu auðlinda lands, vöktun og eftirlit stjórnvalda.

Rannsóknir, þróun og nýsköpun varðar aðgerðir stjórnvalda til að stuðla að sjálfbærri hagnýtingu auðlinda, þróun nýrra afurða og aukinni verðmætasköpun matvælaframleiðslu greinarinnar.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Á undanförnum árum hefur matvælaframleiðsla á Íslandi tekið miklum framförum. Þetta má m.a. rekja til rannsókna, nýsköpunar, aukinnar þekkingar og nýrra tæknilausna. Þá hefur þróun og vöxtur annarra atvinnuvega s.s. ferðaþjónustu og orkumála stutt við framgang matvælaframleiðslu.

Stuðningur stjórnvalda við starfsemi landbúnaðar hefur hingað til einkum byggst á fjárhagslegum og byggðatengdum aðgerðum í þágu hefðbundinna búgreina. Stefna stjórnvalda er að breyta áherslum við stjórnun greinarinnar til að auka verðmætasköpun og stuðla að framþróun þekkingarlandbúnaðar. Til að svo verði þarf að leggja aukna áherslu á nýsköpun og stuðla að þróun nýrra afurða og framleiðsluaðferða, s.s. á grunni líftækni.

Heildarframleiðsluvirði landbúnaðar skv. Hagstofu Íslands nam um  65,9  milljörðum króna árið 2016 á grunnverði, sem innifelur vörutengda styrki s.s. beingreiðslur, en vörutengdir skattar eru frádregnir. Virði afurða búfjárræktar var um 67% af heildarframleiðsluvirði, virði afurða nytjaplönturæktar 27% og önnur starfsemi, s.s. landbúnaðartengd þjónusta 6%. Vöxtur framleiðsluvirðis á raunvirði hefur verið um 1,5% á ári að meðaltali frá árinu 2011. Notkun aðfanga vegur þyngst í rekstrarkostnaði bænda og var hún um 44,3 milljarðar króna árið 2016. Kostnaðarþróun aðfanga hefur verið nokkuð sveiflukennd undanfarin ár og hefur aukist um 1,2% á ári að meðaltali frá árinu 2011, enda háð ýmsum ytri þáttum, t.d. heimsmarkaðsverði á fóðurbæti, olíu og gengi krónu. Greidd laun til bænda voru 5,3 milljarðar króna árið 2016 og tekjur af atvinnurekstri námu 9,3 milljörðum króna. Vöxtur raunvirðis launa hefur verið um 2,7% á ári og tekjur af atvinnurekstri hafa aukist um 4,6% að meðaltali. Opinber stuðningur við íslenskan landbúnað telst tiltölulega mikill í alþjóðlegum samanburði, en hefur dregist saman síðari ár.

Í lok árs 2016 voru um 4.200 lögbýli í ábúð. Þar af er áætlað að á 3.200 lögbýlum fari fram búvöruframleiðsla af ýmsu tagi, svo sem mjólkur- og kjöt- garðyrkju- og eggjaframleiðsla. Auk þess stunda bændur ferðaþjónustu, skógrækt og landgræðslu, starfa við hlunnindanýtingu eða sinna annarri vinnu utan bús. Árið 2015 störfuðu um 3.800 manns við landbúnað samkvæmt Hagstofu Íslands, sem er 2,3% fólks á vinnumarkaði. Frá aldamótum hefur  landbúnaðarstörfum fækkað  um  42%,  þegar  um  6.600  störfuðu  við  landbúnað. Samhliða fækkun í stéttinni hafa bú almennt stækkað. Landbúnaður leiðir af sér fjölda annarra starfa, t.d. við vinnslu afurða. Greining á fjölda afleiddra starfa liggur ekki fyrir en reikna má með að þau séu um sjö þúsund, sé tekið mið af vinnuafli í matvæla- og drykkjarvöruiðnaði.

Þann 1. janúar 2017 tóku gildi nýir búvörusamningar. Heildarútgjöld ríkisins til landbúnaðar eru áætluð 15,7 milljarðar króna fyrsta gildisár samninganna. Árið 2016 voru heildarútgjöld 14.929 milljónir króna og er áætluð aukning milli ára um 647 milljónir króna á föstu verðlagi fjárlaga 2016, eða sem svarar til 4,3%. Áætlað er að heildarútgjöld ríkisins til landbúnaðar dragist saman um rúm 8% á gildistíma samningsins til 2026. Samningarnir gilda til 10 ára en gert er ráð fyrir að þeir verði endurskoðaðir tvisvar á samningstímanum; árin 2019 og 2023, þar sem metin verður þróun innan einstakra samninga og hvernig tekist hafi til við að ná settum markmiðum.  Sérstakur  samráðshópur  hefur  verið  skipaður  af ráðherra til að stuðla að aukinni sátt og víðtækara samkomulagi um frekari uppbyggingu íslensks landbúnaðar. Núverandi ríkisstjórn hefur ákveðið að við þessa endurskoðun skuli taka sérstakt tillit til hagsmuna og valfrelsis neytenda og bænda en tryggja um leið að áfram verði staðið við framleiðslu heilnæmra innlendra afurða í umhverfisvænum og samkeppnishæfum landbúnaði. Í því ljósi er lögð áhersla á breiða aðkomu hagsmunaaðila við endurskoðunina og að henni ljúki eigi síðar en árið 2019.

Ef litið er til þróunar búvöruframleiðslu á undanförnum fimm árum hefur framleiðsla á helstu kjöttegundum á hvern íbúa aukist lítillega eða staðið í stað. Nautakjötsframleiðsla hefur verið sveiflukennd milli ára m.a. vegna breytinga á mjólkurframleiðslu, sem haft hefur áhrif á framboð gripa til slátrunar. Samkvæmt Hagstofu Íslands hefur neysla á alifuglakjöti aukist að meðaltali um 3,2% á ári síðastliðinn áratug og 1,8% á nauta- og svínakjöti. Á sama tíma hefur neysla kindakjöts dregist saman um 2,1% á ári að meðaltali. Heilt yfir hefur uppskera grænmetis og korns á hvern íbúa heldur dregist saman síðari ár, nema einna helst á útiræktuðu grænmeti og kartöflum. Ljóst er að neyslumynstur þjóðarinnar breytist ár frá ári og getur þróun ferðaþjónustu einnig haft talsverð áhrif á þróun matvælaframleiðslu næstu ár. Mikilvægt er að nýsköpun og umgjörð landbúnaðargeirans taki mið af þeim tækifærum og áskorunum sem greinin stendur frammi fyrir.

Regluverk og stuðningsaðgerðir í þágu landbúnaðar hafa talsverð áhrif á starfsskilyrði og þróun verðmætasköpunar greinarinnar. Hér má nefna skilyrði um kaup á greiðslumarki, sem er grundvöllur stuðnings frá ríkinu, og háan fjármagnskostnað, sem leitt hefur til þess að ungt fólk hefur síður hafið búskap. Afleiðingin er m.a. hár meðalaldur bænda. Í ljósi þess verður lögð áhersla á nýliðun og stuðning við þróun og nýsköpun starfshátta í þeim tilgangi að gera landbúnað að eftirsóknarverðum starfsvettvangi. Þetta er mikilvægt því greinin stendur frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Hér má nefna lýðfræðilega þróun, breytt eftirspurnarmynstur, kröfur um dýraheilbrigði, aukna samkeppni og skuldbindingar á sviði umhverfis- og loftslagsmála

Markaðsaðgangur með landbúnaðarvörur til Íslands hefur aukist til muna með fríverslunar- og tvíhliða samningum. Landbúnaðarvörur ná yfir vítt svið og varða 1.900 tollskrárnúmer í tollskrá, allt frá lifandi hrossum til gosdrykkja. Af þeim tollskrárnúmerum verða 75% tollfrjáls og 8% á lægri tollum í kjölfar innleiðingar á nýlegum samningi Íslands og  ESB.  Auk þess leiðir samningurinn til aukins innflutnings á landbúnaðarvörum  í samkeppni við íslenskan landbúnað vegna stækkunar tollkvóta, einkum á kjöti og ostum. Innflutningur innan þessara tollkvóta er tollfrjáls og mun verða aukinn í skrefum á fjórum árum eftir innleiðingu, sem verður líklega árið 2017. Samningurinn leiðir til aukinnar samkeppni fyrir innlenda framleiðslu á grunni aukins innflutnings en veitir íslenskum landbúnaði jafnframt tækifæri til aukins útflutnings.

Innleiðing gildandi reglna ESB um lífræna landbúnaðarframleiðslu er hafin. Nýjar reglur samræma skilyrði um lífræna landbúnaðarframleiðslu hér á landi og innan ESB. Það skapar tækifæri til aukinnar verðmætasköpunar á grunni útflutnings lífrænna afurða, þar sem lífræn vottun hér á landi verður sambærileg evrópskri vottun. Auk þess verður til betra regluverk bæði fyrir neytendur og framleiðendur, sem munu þó í einhverjum tilvikum þurfa að bregðast við auknum kröfum s.s. um aðbúnað í sauðfjárrækt.

Þrátt fyrir margvíslegar áskoranir er ljóst að tækifæri íslensks landbúnaðar eru mikil, m.a. á grunni sérstöðu og gæða afurða. Fyrirsjáanlegt er að eftirspurn muni aukast eftir heilnæmum matvælum á grunni sjálfbærrar framleiðslu og takmarkaðra umhverfisáhrifa (vistspor). Þá gera neytendur sífellt auknar kröfur um gæði framleiðsluaðferða s.s. á grunni lítillar lyfjanotkunar og góðrar meðferðar dýra. Forsenda þess að landbúnaður geti brugðist við nýjum áskorunum og nýtt tækifæri framtíðarinnar er markviss og nútímaleg stjórnun matvælaframleiðslu, skilvirkt eftirlit og samfelld nýsköpun. Í því samhengi þarf á næstu árum að auka framleiðni greinarinnar,  draga úr kolefnisfótspori matvælaframleiðslu og stuðla að greinargóðum merkingum í því ljósi. Þá þarf að endurheimta og varðveita landgæði, draga úr sóun matvæla og takmarka orku- og eldsneytisnotkun.

3. Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn stjórnvalda er að Ísland sé leiðandi í framleiðslu heilnæmra matvæla á grunni sérstöðu, hreinleika umhverfis, fagmennsku og gæða.

Meginmarkmið málefnasviðsins er aukin samkeppnishæfni matvælaframleiðslu sem byggir á efnahagslegu, umhverfislegu og samfélagslegu jafnvægiLandbúnaður er auðlindadrifin atvinnugrein og gæta þarf að áhrifum greinarinnar á þróun umhverfis og sameiginlegra auðlinda. Þá er mikilvægt að orðspor og ímynd landbúnaðar sé jákvæð í augum íslenskra neytenda bæði í þéttbýli og á landsbyggð ekki síður en meðal erlendra aðila. Loks verður aukin verðmætasköpun og framleiðni greinarinnar að byggja á samkeppni og heilbrigðum viðskiptaháttum. Aðeins þannig verður stuðlað að aukinni sátt um þróun greinarinnar.

Til að framtíðarsýn og meginmarkmið málefnasviðsins nái fram að ganga verður lögð áhersla á framþróun þekkingarlandbúnaðar. Með því er átt við að aukin verðmætasköpun og hagkvæmni byggi á bestu mögulegu aðferðafræði, tækninýjungum og þekkingu. Til að ná þessu fram verður lögð aukin áhersla á rannsóknir og nýsköpun auk þess sem stuðlað verður að heildarsýn um framþróun greinarinnar í stað áherslu á stuðningsaðgerðir ríkisins við einstakar greinar búvöruframleiðslu. Fyrirhuguð endurskoðun á rekstrarumhverfi greinarinnar mun taka mið af ofangreindum sjónarmiðum.

Meginmarkmið málefnasviðsins er í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem tóku gildi í byrjun árs 2016. Markmiðin fela m.a. í sér verndun, endurheimt og sjálfbæra nýtingu landvistkerfa, að spornað sé við hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og hlúð að nýsköpun.

4.   Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

Stjórnun landbúnaðarframleiðslu. Í kaflanum koma fram markmið um viðfangsefni málaflokksins og lagðar eru til aðgerðir sem miða að því að ná fram auknum árangri. Við markmiðssetningu er litið til þess að skapa jafnvægi milli efnahagslegra, umhverfislegra og samfélagslegra þátta.

Markmið 1. Árleg aukning framleiðni.

Markmiðið felur í sér viðmið um árlega aukningu framleiðni greinarinnar á grunni framleiðni vinnuafls. Mikilvægt er að stjórnvöld fylgist með þróun framleiðni milli ára m.a. við mat á aðgerðum til að auka verðmætasköpun og stuðla að heilbrigðum rekstrarskilyrðum greinarinnar.

Markmið 2. Árlegur samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda.

Markmiðið byggir á grunni Parísarsamkomulagsins, þar sem töluleg viðmið um skuldbindingar samningsríkja koma fram. Hlutverk  stjórnvalda er að skilgreina aðgerðir sem leiði til samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi greinarinnar.

Markmið 3. Aukin sátt um fyrirkomulag og starfsemi landbúnaðar.

Markmiðið felur í sér viðmið um aukna sátt um starfsemi landbúnaðar til að stuðla að auknum fyrirsjáanleika í rekstrarumhverfi greinarinnar.

 

Nr.
Markm
HM #
Mælikvarðar
Staða 2016
Viðmið 2018
Viðmið 2022
1
Árleg aukning framleiðni
2, 13, 15
Framleiðni vinnuafls
Grunngildi46
+1,5%
+1,5%
2
Árlegur samdráttur í losun gróðurhúsa- lofttegunda
13
Losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi
landbúnaðar, mæld í þúsundum tonna af CO2- ígildum
Grunngildi
-2%48
-2%49
3
Aukin sátt um fyrirkomulag og starfsemi landbúnaðar
15
Hlutfall ánægðra landsmanna
Grunngildi50
>65%
>80%

 

NR.
Tengist markmiði
nr.
Aðgerð
Tíma- áætlun
Kostnaður
Ábyrgðar- aðili
1
1
Endurskoða búvörusamninga.
2018–
2019
Verður
forgangsraðað innan ramma
ANR
2
1
Gera matvælastefnu.
2018–
2020
Verður
forgangsraðað innan ramma
ANR
3
1
Endurskoða löggjöf um matvælaeftirlit og dýraheilsu.
2018–
2020
Verður
forgangsraðað innan ramma
ANR
4
1
Endurskoða fyrirkomulag áhættumats og auka vöktun á áhættuþáttum matvælaöryggis, þ.m.t. matvælafalsanir og lyfjaþol smitefna í umhverfi, fóðri, dýrum, matvælum og mönnum.
2018–
2022
75-80
m.kr., verður forgangsraðað innan ramma
ANR
5
1
Þróa gagnagrunna og rafrænar lausnir til að bæta stjórnun, gæði eftirlits og tryggja rekjanleika afurða.
2018–
2020
75 m.kr.,
verður forgangs- raðað innan ramma
ANR
6
2
Móta og framfylgja heildstæðri áætlun um vöktun og ábyrga nýtingu lands.
2018–
2019
Fjármagnað
hluti af búnaðarlaga samningi
ANR/
Matvæla- stofnun
7
2
Móta aðgerðir og hvata til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
2018–
2022
Verður
forgangs- raðað innan
ramma
ANR
8
3
Þróa gögn og fyrirkomulag um birtingu upplýsinga um frammistöðu fyrirtækja sem framleiða matvæli og fóður.
2018–
2019
50 m.kr.,
verður forgangs-
raðað innan ramma
ANR/
Matvæla- stofnun
9
3
Móta heildstæða eftirlits- og viðbragðsáætlun m.t.t. matvælaöryggis, fóðurs, dýraheilsu og dýravelferðar.
2018–
2019
Verður
forgangsraðað innan ramma
ANR/
Matvæla- stofnun

Rannsóknir,  þróun  og  nýsköpun.  Í  kaflanum  er  sett  fram  markmið  og  lagðar  til aðgerðir sem miða að því að ná fram auknum árangri í þróun vara og starfshátta land búnaðar. Í því ljósi er rétt að hafa í huga að bein tengsl eru milli rannsóknastarfs og aukinnar framleiðni.

Markmið  1.  Aukin  nýsköpun  í  virðiskeðju  matvælaframleiðslu  m.t.t.  tækni, landnotkunar og sjálfbærni.

Markmiðið miðar að aukinni fjárfestingu í rannsókna- og þróunarverkefnum í landbúnaði og hagnýtingu niðurstaðna til að auka arðsemi, samkeppnishæfni og gæði framleiðslu.

 

Nr.
Markm
HM #
Mælikvarðar
Staða 2016
Viðmið 2018
Viðmið 2022
1
Aukin nýsköpun í virðiskeðju
matvælaframleiðslu
9
Nýjungar á markaði og nýjar aðferðir í
starfsemi landbúnaðar
Grunngildi
+5%
+5%

 

NR.
Tengist markmiði nr.
Aðgerð
Tíma- áætlun
Kostnaður
Ábyrgðar- aðili
1
1
Efla virðiskeðju landbúnaðarafurða á grunni verkefnis um matarmenningu, með þróun lífrænnar framleiðslu og á grunni samræmdrar ímyndar þekkingarlandbúnaðar.
2018–
2022
Fjármagnað
framlag til verkefnis
samþykkt í fjármála- áætlun
2017–2021
ANR

 

 

 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn