Málefni aldraðra

Fjármálaáætlun 2018-2022

1.   Umfang

Starfsemi á þessu málefnasviði er á ábyrgð félags- og jafnréttismálaráðherra velferðarráðuneytisins. Það skiptist í þrjá málaflokka, en þeir eru:

  • Bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra.
  • Bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, öldrun.
  • Þjónusta við aldraða og aðrar greiðslur.

Undir málaflokkinn bætur samkvæmt lögum um almannatryggingar, nr. 100/2007, falla bótaflokkarnir ellilífeyrir og ráðstöfunarfé.

Undir málaflokkinn bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, nr. 99/2007, falla bótaflokkarnir heimilisuppbót, uppbót á lífeyri og bifreiðakostnaður.

Undir  málaflokkinn  þjónusta  við  aldraða  og  aðrar  greiðslur  fellur  eftirlaunasjóður aldraðra. Sjóðurinn greiðir lífeyri til þeirra sem fæddir eru 1915 eða fyrr og maka þeirra sem njóta lítilla eða engra réttinda úr lífeyrissjóði.

Tryggingastofnun ríkisins ber ábyrgð á framkvæmd greiðslna er falla undir málefnasviðið.

Málefnasviðið er þverfaglegt og tengist öðrum málefnasviðum Stjórnarráðsins sem fjalla um málefni aldraðra. Um stefnu í þjónustu við aldraða er fjallað nánar um í kafla um málefnasvið nr. 25 um hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og í kafla um málefnasvið nr. 24 um heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa og eru þau málefnasvið á ábyrgð heilbrigðisráðherra velferðarráðuneytisins.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Útgjöld málefnasviðsins eru nánast alfarið lífeyrisgreiðslur og skýrast útgjaldabreytingar milli ára einkum af ákvörðunum um hækkun á bótafjárhæðum, lagabreytingum, fjölda aldraðra og tekjum þeirra.

Mótuð hefur verið stefna um aukinn sveigjanleika við starfslok og töku lífeyris frá almannatryggingum. Með lögum nr. 116/2016, um breytingar á lögum um almannatryggingar, lögum um félagslega aðstoð og lögum um málefni aldraðra, sem öðluðust gildi 1. janúar 2017, var sveigjanleiki við starfslok og upphaf lífeyristöku aukinn og gefast fólki nú auknir möguleikar á að sníða starfslok að persónulegum högum og óskum hvers og eins. Þannig er nú unnt að flýta lífeyristöku frá 65 ára aldri og jafnframt verður unnt að fresta lífeyristöku lengur en áður gegn hækkun lífeyris til frambúðar. Þá verður frá 1. janúar 2018 heimilt að taka lífeyri að hálfu hjá lífeyrissjóðakerfinu frá 65 ára aldri, mögulega samhliða minnkuðu starfshlutfalli, og að taka hálfan lífeyri hjá almannatryggingum á móti. Er það í samræmi við stefnu stjórnvalda um að fólk hafi meira frelsi um starfslok en áður hefur verið, enda sýna rannsóknir að aldraðir sem stunda vinnu séu almennt heilsuhraustari og njóti meiri lífsgæða en þeir sem ekki eiga kost á því að stunda vinnu.

Þessi stefna er nátengd þeirri stefnu stjórnvalda að lífeyrisaldur hækki í áföngum vegna þess að á sama tíma þarf að veita þeim sem ekki geta eða vilja vinna lengur möguleika á flýta lífeyristöku. Talið er mikilvægt að aldraðir geti nýtt starfsgetu sína og reynslu með því að sveigjanleg starfslok verði meginregla. Einnig er talið að aukinn sveigjanleiki til lífeyristöku stuðli að hagkvæmara fyrirkomulagi framleiðslu og geti þannig aukið hana enn frekar. Árið 2017 verður unnið að útfærslu á töku hlutalífeyris í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið sem og framkvæmd undirbúin í samstarfi við Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóði.

Það er stefna stjórnvalda að hækka lífeyristökualdur almannatrygginga í áföngum úr 67 árum í 70 ár. Gerð hefur verið áætlun um framkvæmd aldurshækkunarinnar og er gert ráð fyrir að hún komi til framkvæmda í áföngum, nánar tiltekið á 24 árum. Mun lífeyristökualdur þannig hækka um tvo mánuði á ári fyrstu tólf árin og síðan um einn mánuð á ári næstu tólf árin þar á eftir. Mikilvægt er talið að samsvarandi breytingar verði gerðar á lífeyrissjóðakerfinu og verður haft samráð við fjármála- og efnahagsráðuneytið við undirbúning málsins. Gert er ráð fyrir að efnahagsleg áhrif hækkunar lífeyristökualdurs verði þau að fólki fjölgi á vinnumarkaði og þannig aukist framleiðsla með beinum hætti og skatttekjur aukist.

Einnig hefur verið mótuð stefna um áframhaldandi störf eldri starfsmanna eftir vilja og getu hvers og eins og tengist það stefnu stjórnvalda um seinkun lífeyristökualdurs. Markmiðið er að eldri starfsmönnum verði til dæmis gert kleift að færa sig til í starfi eða fá minni ábyrgð og þannig auðveldað að vinna lengur, meðal annars til að ekki komi til snemmtöku lífeyris. Einnig er gert ráð fyrir að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað í áföngum í því skyni að hvetja fólk til að vinna lengur og að eldri starfsmenn geti bætt stöðu sína með atvinnu eftir að lífeyristökualdri er náð.

Framangreindar stefnur voru mótaðar meðal annars í þeim tilgangi að bregðast við áskoruninni um breytta aldurssamsetningu þjóðarinnar og fjölgun aldraðra. Það er almennt viðurkennt að í því séu fólgin lífsgæði að fá að halda áfram störfum kjósi fólk það og að mikilvægt sé að auka frelsi og valmöguleika fólks eftir efnum og aðstæðum hverju sinni.

Með lögum nr. 116/2016 hafa enn fremur verið bætt verulega kjör þeirra ellilífeyrisþega sem hafa áunnið sér lítinn eða engan rétt í lögbundna lífeyrissjóðakerfinu vegna lítillar atvinnuþátttöku á vinnualdri og sem þurfa því í ríkum mæli að reiða sig á almanna- tryggingakerfið hvað varðar framfærslu á efri árum. Hafa ellilífeyrisþegum sem hafa áunnið sér full réttindi með búsetu hér á landi verið tryggðar með lögum ákveðnar lágmarks- fjárhæðir bóta sem geta aðeins lækkað vegna annarra tekna.

Helstu áskoranir innan málefnasviðsins er áframhaldandi fjölgun aldraðra sem fyrirsjáanleg er á næstu áratugum sem og breytt aldurssamsetning þjóðarinnar. Þetta má rekja til hærri lífaldurs og færri fæðinga hér á landi. Reiknað er með að hlutfall fólks 67 ára og eldra af mannfjölda muni hækka úr 12% í 19% árið 2040 og verði aldraðir þá orðnir um 76.000 talsins. Árið 2060 er gert ráð fyrir að þetta hlutfall verði orðið 22% eða um 97.000 manns. Þá er áætlað að frá árinu 2050 muni fólk á vinnualdri (skilgreint á aldursbilinu 20–65 ára) þurfa að framfleyta hlutfallslega fleira eldra fólki en yngra, andstætt því sem nú er. Þannig verða mun færri á vinnumarkaði til að standa undir velferðarsamfélaginu verði ekkert að gert. Þær ráðstafanir sem helst er talið unnt að grípa til í því skyni að mæta þessari þróun eru aðallega skattahækkanir, lækkun bóta eða hækkun lífeyristökualdurs. Þeim ráðstöfunum sem gripið hefur verið til hér á landi og verið er að þróa í samræmi við framangreindar stefnur er ætlað að bregðast við fyrirsjáanlegum auknum útgjöldum almannatrygginga vegna þessarar þróunar og til að stuðla að því að almannatryggingakerfið verði í stakk búið til að tryggja áfram lágmarksframfærslu ellilífeyrisþega svo að ekki þurfi að koma til þess að draga úr stuðningi ríkisins við aldraða eða hækka skatta.

Þá er það áskorun í málaflokkunum og í samræmi við stefnu stjórnvalda að lífeyriskerfið sé einfalt og gagnsætt og þar með notendavænt. Það auðveldar borgurunum að þekkja rétt sinn og skilja hann ef kerfið er einfalt. Hagsmunir borgaranna eru fólgnir í því að réttur þeirra sé fyrirsjáanlegur og að þeir geti á einfaldan hátt reiknað út réttindi sín í almannatryggingum. Þá er mikilvægt að tryggja að samspil tekna ellilífeyrisþega og ellilífeyris sé með þeim hætti að hvati til virkrar þátttöku á vinnumarkaði sé til staðar. Fjölgun innflytjenda sem ekki  hafa  áunnið  sér  rétt  til  lífeyris  í  fyrra búsetu-  eða  starfslandi  af  einhverjum ástæðum er áhættuþáttur. Leita þarf leiða til að auka stuðning við þann hóp eldri borgara sem ekki hefur áunnið sér full réttindi hér á landi þar sem búseta þeirra er of stutt til að veita þeim fullan rétt, til dæmis innflytjendur, og tryggja þannig framfærslu þeirra sem hér búa á efri árum.

3.   Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn málefnasviðsins er að aldraðir njóti fullra lífsgæða á efri árum og geti framfleytt sér sjálfir með tekjum sínum, einkum úr lífeyrissjóðum og/eða með vinnu. Þeir sem geta það ekki fái greiddar sér til framfærslu bætur frá almannatryggingum í samræmi við lögbundin réttindi, auk annars stuðnings opinberra aðila. Með greiðslum, þjónustu og stuðningi opinberra aðila verði öldruðum gert kleift að framfleyta sér og lifa sjálfstæðu lífi.

Meginmarkmið málefnasviðsins er að aldraðir geti búið sem lengst á heimilum sínum með þjónustu og aðstoð eftir þörfum og að þeim öldruðum sem þess þurfa verði tryggðar bætur vegna elli sér til framfærslu. Með því móti verði stuðlað að því að aldraðir geti framfleytt sér sjálfir og lifað sjálfstæðu lífi. Í því skyni að tryggja að meginmarkmiðinu verði náð er lögð áhersla á að atvinnuþátttaka aldraðra verði aukin, að frítekjumark vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega verði hækkað, að innleiddur verði sveigjanleiki við starfslok, að staða þeirra sem eiga lítil réttindi í almannatryggingum vegna búsetu erlendis verði bætt og að lífeyristökualdur hækki í áföngum úr 67 árum í 70, bæði í almannatryggingum og í atvinnutengda lífeyrissjóðakerfinu.

4.   Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

tur samkvæmt lögum um almannatryggingar, lífeyrir aldraðra. Tvö markmið hafa verið sérstaklega skilgreind fyrir málaflokkinn.

  1. Auka  atvinnuþátttöku  aldraðra  og  möguleika  á  sveigjanlegum  starfslokum. Mikilvægt er að auka atvinnuþátttöku aldraðra og með því móti að stuðla að því að aldraðir fresti töku lífeyris frá almannatryggingum. Aldraðir á vinnumarkaði eru verðmætt vinnuafl sem býr yfir mikilli reynslu og þekkingu. Þá sýna rannsóknir að aldraðir sem stunda vinnu séu almennt heilsuhraustari og njóti meiri lífsgæða en aðrir aldraðir. Sveigjanleg starfslok hafa verið lögfest í almannatryggingum en mikilvægt er að vel verði staðið að kynningu og innleiðingu þeirra í því skyni að aldraðir verði lengur á vinnumarkaði.
  2. Hækka heildartekjur ellilífeyrisþega. Mikilvægt er að aldraðir hafi sem hæstar ráðstöfunartekjur þannig að þeir geti lifað sjálfstæðu lífi og þurfi síður á lífeyri almannatrygginga að halda vegna framfærslu sinnar. Lífeyrisgreiðslur aldraðra frá lífeyrissjóðakerfinu hafa aukist á undanförnum árum og munu halda áfram að gera það eftir því sem atvinnutengda lífeyrissjóðakerfið þroskast. Þá hefur séreignarsparnaður rutt sér til rúms á sama tíma og er stefnt að því að auka hlut séreignalífeyrissparnaðar í ráðstöfunartekjum aldraðra. Einnig er mikilvægt að aldraðir hafi tækifæri til þátttöku á vinnumarkaði og geti þannig aflað sér aukinna ráðstöfunartekna með vinnu eftir vilja og getu hvers og eins en mikilvægur þáttur í því er að innleiða í áföngum sérstakt frítekjumark á atvinnutekjur aldraðra.

 

Nr.
Markm
HM #
Mælikvarðar
Staða 2016
Viðmið 2018
Viðmið 2022
1
Auka atvinnu-
þátttöku aldraðra og möguleika á
sveigjanlegum starfslokum
 
Hlutfall þeirra
sem fresta töku lífeyris
44,9% (67
ára)
16,9% (70 ára)
53% (67 ára)
18% (70 ára)
65% (67,7
ára)
19% (70 ára)
Hlutfall
ellilífeyrisþega með atvinnutekjur
16,5%
17%
18,5%
2
Hækka
heildartekjur ellilífeyris-
þega
 
Hlutfall aldraðra
sem fá greiðslur frá Trygginga-
stofnun ríkisins af íbúafjölda 67 ára og eldri
81,3%
80%
75%

 

NR.

Tengist markmiði

nr.

Aðgerð

Tíma- áætlun
Kostnaður
Ábyrgðar- aðili
1
1
Hækka lögbundinn lífeyristökualdur í áföngum
2018–
2041
 
VEL
2
1
Kynningarátak á auknum sveigjanleika og
hækkun bóta vegna seinkunar lífeyristöku
2017–
2019
 
VEL
3
1
Endurskoða aldurshámark, til dæmis í lögum
um opinbera starfsmenn
2017–
2018
 
VEL og FJR
4
1 og 2
Hækka frítekjumark vegna atvinnutekna
2018–
2022
 
VEL
5
2
Hvetja til aukins séreignarlífeyrissparnaðar
2017–
2020
 
VEL og FJR
 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn