Umhverfismál

Fjármálaáætlun 2018-2022

1.   Umfang

Starfsemi á málefnasviði umhverfismála er á ábyrgð umhverfis- og auðlindaráðherra. Það skiptist í sex málaflokka, en þeir eru:

  • Náttúruvernd.
  • Skógrækt og landgræðsla.
  • Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands.
  • Meðhöndlun úrgangs.
  • Varnir gegn náttúruvá.
  • Stjórnsýsla umhverfismála.

Eftirtaldir ríkisaðilar falla undir málefnasviðið: Hekluskógar, Landgræðsla ríkisins, Mannvirkjastofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Ofanflóðasjóður, Skipulagsstofnun, Skógræktin, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Umhverfisstofnun, úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, Úrvinnslusjóður, Vatnajökulsþjóðgarður, Veðurstofa Íslands og Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Einnig heyra undir málefnasviðið Endurvinnslan hf. og átta náttúrustofur víðsvegar um landið sem eru á forræði sveitarfélaga en fá rekstrarstyrk í gegnum fjárlög.

Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla. Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru: náttúruverndaraðgerðir, rekstur náttúruverndarsvæða, innviðauppbygging og landvarsla, gróður- og jarðvegsvernd, stöðvun eyðingar jarðvegs og gróðurs, eftirlit með nýtingu lands, endurheimt raskaðra vistkerfa, þar með talið birkiskóga, og uppbygging og sjálfbær nýting skóga.

Rannsóknir og vöktun á náttúru Íslands. Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru: grunnrannsóknir á náttúru og auðlindum Íslands, vöktun á náttúruvá og náttúru landsins, vöktun áhrifa landnýtingar og á umhverfisþætti, miðlun og hagnýting rannsókna.

Meðhöndlun úrgangs. Helsta verkefni málaflokksins er að leggja á tiltekna vöruflokka úrvinnslu- og/eða skilagjald til að skapa hagræn skilyrði fyrir viðeigandi nýtingu úrgangs til að draga úr sóun, svo sem með endurnotkun, endurvinnslu og endurnýtingu og stuðla þannig að lágmarks förgun.

Varnir  gegn  náttúruvá.  Helstu  verkefni  sem  falla  undir  málaflokkinn  eru:  gerð hættumats vegna ofanflóða, eldgosa, vatns- og sjávarflóða, frumathugun og hönnun varnarmannvirkja, uppbygging og viðhald varnarmannvirkja.

Stjórnsýsla umhverfismála. Helstu verkefni sem falla undir málaflokkinn eru: stjórnsýsla náttúruverndarmála, mat á verndargildi og friðlýsingar, að tryggja sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda, að tryggja heilnæmt umhverfi og öruggar neysluvörur, umsjón með mannvirkjagerð, brunavörnum, rafmagnsöryggi og eftirlit með byggingarvörum, skipulagsmál og mat á umhverfisáhrifum, miðlun upplýsinga til almennings, þátttökuréttindi almennings og að tryggja réttláta málsmeðferð, loftslagsmál, stjórn vatnamála, fráveitumál og fleira.

2.   Starfsemi og helstu áskoranir

Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum var undirritað í New York í apríl 2016 og veitti Alþingi síðar heimild til fullgildingar samkomulaginu. Lýst hefur verið yfir ætlun um að vinna að sameiginlegu markmiði með 28 ríkjum ESB og Noregi innan Parísarsamningsins. Unnið er að útfærslu á sameiginlegu markmiði um 40% minnkun losunar til 2030 miðað við 1990. Í mars 2016 var sett af stað verkefni um endurheimt votlendis í samræmi við sóknaráætlun í loftslagsmálum. Landgræðslu ríkisins var falið að annast framkvæmdina í samræmi við tillögur samráðshóps um endurheimt votlendis. Í mars 2017 var lögð fram skýrsla til Alþingis þar sem farið er yfir alþjóðlegar skuldbindingar Íslands í loftslagsmálum, sem er að finna í Kýótó-bókuninni og Parísarsamningnum, auk Evrópureglna á grunni EES- samningsins. Farið er yfir stöðuna varðandi losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi og spár fram til 2030. Fram kemur að Ísland muni ekki standa við sín markmið í Kýótó-bókuninni fyrir árið 2020 og Parísarsamningnum árið 2030 að óbreyttri þróun.

Þingsályktun um landsskipulagsstefnu 2015-2026 var samþykkt á Alþingi vorið 2016. Samþykkt hennar markar tímamót í skipulagsmálum hér á landi þar sem í fyrsta sinn er sett fram heildstæð stefna ríkisins á landsvísu um skipulagsmál. Landsskipulagsstefna samþættir áætlanir á vegum stjórnvalda um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra landnýtingu. Reiknað er með að frumvarp um skipulag haf- og strandsvæða verði að lögum á árinu 2017.

Ný lög um gerð landsáætlunar um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum tóku gildi í mars 2016. Þetta er í fyrsta sinn hér á landi sem unnið er að heildstæðri áætlun sem nær yfir allt landið og er markmið laganna að móta stefnu, samræma og forgangsraða tillögum um slíka uppbyggingu og viðhald ferðamannasvæða, ferðamannastaða og ferðamannaleiða á Íslandi. Lögin skapa umgjörð um stefnumótun á sviði uppbyggingar innviða og verndar náttúru og menningarsögulegra minja á áningarstöðum ferðafólks á Íslandi með það að leiðarljósi að draga úr álagi vegna nýtingar í þágu ferðamennsku. Á grunni laganna er gerð stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára auk þriggja ára verkefnaáætlunar sem er hluti af og innan ramma tólf ára áætlunarinnar.

Í júlí 2016 var skipuð nefnd sem hefur það verkefni að kanna forsendur fyrir stofnun þjóðgarðs innan svokallaðrar miðhálendislínu. Hlutverk nefndarinnar er að draga saman helstu sjónarmið og fyrirliggjandi þekkingu er varðar nýtingu og vernd miðhálendisins, með langtímahagsmuni þjóðarinnar að leiðarljósi. Fyrirsjáanlegt er að álag aukist á miðhálendinu með aukinni ásókn ferðafólks og er því mikilvægt að kanna hvaða stjórntæki séu ákjósanlegust til að stýra álagi til lengri tíma.

Með forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands frá janúar 2017 fer umhverfis- og auðlindaráðuneytið nú með mál er varða Þingvallaþjóðgarð í stað forsætisráðuneytisins áður.

Í júní 2016 voru samþykkt lög um nýja skógræktarstofnun, Skógræktina. Með lögunum eru fimm landshlutaverkefni í skógrækt og Skógrækt ríkisins sameinuð í eina stofnun. Markmið hinna nýju laga er að auka skilvirkni og samræmingu í stjórnsýslu skógræktarmála, auka faglega getu og yfirsýn og styrkja byggð. Í október 2016 var undirritaður samningur um áframhaldandi endurheimt Hekluskóga. Skógræktin og Landgræðsla ríkisins annast framkvæmd verkefnisins og þar með talið samstarf við þá aðila sem að því koma. Reiknað er með að frumvörp um ný skógræktar- og landgræðslulög verði að lögum á árinu 2017.

Samþykkt voru ný lög í september 2016 um timbur og timburvörur en tilgangur laganna er að koma í veg fyrir markaðssetningu á ólöglega höggnum við og vörum úr slíkum viði.

Í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu hefur verið unnið að gerð nokkurra frumvarpa þar sem markmiðið er m.a. að einfalda stjórnsýslu vegna leyfisskyldrar atvinnustarfsemi og framkvæmda og gera hana skilvirkari. Um er að ræða frumvarp til breytinga á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem gert verður ráð fyrir að tiltekin starfsemi geti verið háð skráningarskyldu í stað starfsleyfis og að umsóknir og skráningar fari í gegnum rafræna miðlæga gátt. Einnig frumvarp til breytinga á lögum um mannvirki og skipulagslögum, þar sem markmiðið er að lækka byggingarkostnað, og frumvarp til breytinga á lögum um mat á umhverfisáhrifum. Í maí 2016 voru gerðar breytingar á byggingarreglugerð með það að markmiði að lækka byggingarkostnað íbúðarhúsnæðis. Þar á meðal var dregið úr leyfisskyldu vegna minniháttar framkvæmda.

Breytingar á útgjöldum til málefnasviðsins á milli áranna 2016 og 2017 skýrast einkum af auknum fjárveitingum til stofnanna sem fara með lögbundin verkefni á grunni laga nr. 60/2013 um náttúruvernd sem tóku gildi í nóvember  2016. Þá hefur verið veitt  auknu fjármagni til landvörslu vegna sívaxandi fjölda ferðamanna til landsins og til uppbyggingar innviða á fjölförnum ferðamannastöðum.

Segja má að helstu áskoranir innan málefnasviðsins séu þrjár. Í fyrsta lagi að finna leiðir til að bregðast við þeim skuldbindingum í loftslagamálum sem Ísland hefur undirgengist með Parísarsamkomulaginu. Í öðru lagi að tryggja sjálfbæra nýtingu lands, endurheimt vistkerfa og vernd náttúrunnar, meðal annars samfara auknu álagi vegna verulegrar fjölgunar ferðamanna er sækja landið heim. Í þriðja lagi að finna leiðir til að tryggja ásættanlegt vöktunar- og varnarstig vegna náttúruvár, en hætta á mann- og eignatjóni hefur vaxið umtalsvert bæði vegna aukins ferðamannastraums um áhættusvæði árið um kring vegna áhrifa loftslagsbreytinga á veðurfar og aukinnar skjálftavirkni í megineldstöðvum.

Helstu áhættuþættir innan málefnasviðsins tengjast helstu áskorunum með beinum hætti. Í fyrsta lagi hætta af náttúrhamförum með tilheyrandi áhrifum á mannslíf, eignir og náttúru og í öðru lagi hætta á að unnin verði frekari spjöll á náttúru Íslands vegna ósjálfbærrar nýtingar.

3.   Framtíðarsýn og meginmarkmið

Framtíðarsýn fyrir málefnasviðið er að innan fárra ára hafi á grunni aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum orðið viðsnúningur í nettólosun gróðurhúsalofttegunda hér á landi og Ísland færst nær settu markmiði í tengslum við Parísarsamkomulagið. Árangur hefur náðst í náttúruvernd og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda, meðal annars með vistkerfisnálgun, aukinni fræðslu, upplýsingamiðlun og bættu samráði við hagsmunaaðila. Beinar aðgerðir til verndar náttúru hafa verið efldar og ákvarðanir byggja á bestu vísindalegu þekkingu. Tekið er í ríkari mæli mið af umhverfis- og náttúruvernd við stefnumótun, áætlanagerð og framkvæmdir á vegum stjórnvalda. Vöktun vegna náttúrurvár og vöktun á náttúru Íslands hefur verið efld þannig að nauðsynlegar upplýsingar liggi fyrir á hverjum tíma. Tekin hafa verið skref í átt að grænna hagkerfi meðal annars með áherslu á hringrásarhagkerfið. Breytingar hafa orðið á neyslumynstri landsmanna og sífellt stærri hluti úrgangs er endurnýttur eða endurunninn og förgun úrgangs fer minnkandi. Skilvirkni og gagnsæi í stjórnsýslu málefnasviðsins hefur aukist meðal annars með áherslum á rafræna stjórnsýslu.

Megináherslur innan málefnasviðsins til næstu ára eru fimm. Í fyrsta lagi sú að leiða vinnu við að móta og innleiða aðgerðaráætlun í loftslagsmálum fyrir Ísland til ársins 2030 í því skyni að uppfylla ákvæði Parísarsamkomulagsins, þar sem minni losun gróðurhúsalofttegunda frá röskuðum vistkerfum og binding kolefnis í jarðvegi og gróðri eru hluti af þeim leiðum sem farnar eru til að draga úr nettólosun og móta stefnu í loftslagsmálum til ársins 2050. Í öðru lagi er áhersla á stjórnun nýtingar á viðkvæmum og mikilvægum svæðum með uppbyggingu viðeigandi innviða, friðlýsingum, gerð stjórnunar- og verndaráætlana, auk gerðar sérstakrar áætlunar um vernd miðhálendisins sem mun nýtast til undirbúnings við stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Í þriðja lagi er áhersla á að fjölbreytt og virk vistkerfi séu undirstaða velferðar og að landnýting og endurheimt raskaðra vistkerfa taki mið af aðferðafræði vistkerfisnálgunar sem tekur mið af samspili allra þátta innan vistkerfis, þ.á m. mannsins. Í fjórða lagi er áhersla á græna hagkerfið og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Í fimmta og síðasta lagi einföldun regluverks og aukin skilvirkni í stjórnsýslu með notkun rafræna lausna ásamt áherslu á samþættingu verkefna og aukna samvinnu á milli stofnana.

Meginmarkmið fyrir málefnasviðið er aukin vernd náttúrunnar, aukin sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og aukin lífsgæði landsmanna.

4.   Markmið, mælikvarðar og aðgerðir

Náttúruvernd, skógrækt og landgræðsla. Sett eru tvö markmið fyrir málaflokkinn í samræmi við greiningu á helstu áskorunum. Annars vegar að við lok árs 2022 hafi farið fram mat á ástandi allra friðlýstra náttúruverndarsvæða og að samkvæmt mati sé álag á 95% þessara  svæða  vel  innan  þolmarka.  Fjöldi  friðlýstra  svæða  eru  112  talsins  og  þeim til viðbótar er fyrirhugað að friðlýsa tíu til viðbótar á tímabilinu, alls 122 svæði. Hins vegar að framkvæmt verði heildstætt mat á stöðu og nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda er nái til um 90% landsins.

Markmið 1: Mat á ástandi og sjálfbær nýting friðlýstra náttúruverndarsvæða.

Megintilgangur þessa markmiðs er að tryggja náttúrulega sjálfbærni skilgreindra náttúruverndarsvæða meðal annars með uppbyggingu innviða til að verjast ágangi ferðafólks þannig að náttúran megi þróast sem mest á eigin forsendum. Ef mat á árangri stjórnunar, sem verður innleitt af Umhverfisstofnun árið 2017, sýnir að verndargildi á grundvelli viðmiða um þolmörk er ekki tryggt má nýta það mat til að undirbyggja aðgerðir sem taldar eru nauðsynlegar, svo sem með uppbyggingu innviða og/eða öðrum aðgerðum. Æskilegt er að slíkt mat sé unnið reglulega fyrir öll náttúruverndarsvæði, þar með talin svæði innan þjóðgarða landsins. Matið nýtist einnig sem forsenda fyrir forgangsröðun aðgerða samkvæmt landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðafólk til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Markmiðið  tengist  með  beinum  hætti  meginmarkmiði  málefnasviðsins  er  snýr  að verndun náttúrunnar og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda.

Markmið 2: Innleiðing á vöktun á stöðu og nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda.

Megintilgangur þessa markmiðs er að komið verði á matskerfi og framkvæmt verði heildstætt mat á sjálfbærni nýtingar gróður- og jarðvegsauðlinda, og tryggja að fyrir liggi á hverjum tíma upplýsingar um losun og bindingu kolefnis í jarðvegi og gróðri. Tvö verkefni eru notuð til að ná fram markmiðinu. Annars vegar verkefni Landgræðslu ríkisins um mat á bindingu kolefnis í gróðri og jarðvegi með landgræðslu og hins vegar á samstarfssamningi Landgræðslu ríkisins við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda um mat á gróðurauðlindum. Með kerfisbundinni vöktun er hægt að þróa viðmið um sjálfbæra landnýtingu og vistkerfisnálgun við endurheimt vistkerfa og landnýtingu.

 

 Nr.  Markm  HM #  Mælikvarðar Staða2016  Viðmið 2018 Viðmið2022
1 Í árslok 2022 hafi farið fram mat á ástandi allra friðlýstra náttúruverndarsvæða og að álag 95% þeirra verði innan þolmarka 15.1 Fjöldi metinna svæða Ekkert svæði metið árið 2016 Öll svæði metin,112 talsins 122 svæði metin
Hlutfall svæða innan þolmarka     95%
2 Í árslok 2022 hafi farið fram heildsætt mat á stöðu og nýtingu gróður- og jarðvegsauðlinda er nær til 90% landsins 15.1 Hluti landsins sem matið nær til 0 75% 90%

 

Nr. Tengist markmiði nr. Aðgerð Tíma-áætlun Kostnaður Ábyrgðaraðili
1 1 Innleiðing og framkvæmd mats samkvæmt samræmdu matskerfi fyrir náttúruverndar- svæði 2018–2022   Umhverfisstofnun
2 1 Framkvæmdinnviðaáætlunar á grunnisjálfbærniviðmiða 2018–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið og aðrar stofnanir
3 2 Þýða og staðfæra viðmið um vistkerfisnálganir fyriráætlanagerð og framkvæmdir tengdum endurheimt vistkerfa/landnýtingu 2018   Umhverfis- ogauðlindaráðuneytið
4 2 Innleiðing á vöktun ástöðu og nýtingu gróður- og jarðvegs-auðlindar 2018–2022   Landgræðsla ríkisins

Rannsóknir og vöktun í náttúru Íslands. Sett eru fram þrjú markmið fyrir málaflokkinn. Í fyrsta lagi að við lok árs 2018 liggi fyrir áætlun um eflingu og þéttingu mælanets vöktunarkerfa vegna náttúruvár. Í öðru lagi að við lok árs 2018 liggi fyrir áætlun um vöktun á náttúru Íslands og áætlun um kerfisbundna skráningu berg- og jarðgrunna landsins. Í þriðja lagi að við lok árs 2018 liggi fyrir rannsóknaráætlun um rannsóknir á áhrifum loftlagsbreytinga sem geti varpað ljósi á hvernig bregðast megi við væntanlegum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Markmið 1: Efling og þétting mælanets vöktunarkerfa vegna náttúruvár.

Megintilgangur þessa markmiðs er annars vegar að geta vaktað allar veigamestu tegundir náttúruvár á helstu stöðum á landinu þannig að hægt sé að gefa út viðvaranir í því skyni að vernda líf og eignir landsmanna og auka öryggi ferðafólks.

Markmiðið tengist með beinum hætti þeim þætti meginmarkmiðs málefnasviðsins er snýr að auknum lífsgæðum landsmanna.

Markmið 2: Vöktun á náttúru Íslands og skráning berg- og jarðgrunna.

Megintilgangur  þessa  markmiðs  er   að  á  hverjum   tíma  liggi  fyrir   aðgengilegar upplýsingar um ástand náttúrunnar og upplýsingar um berg- og jarðgrunna landsins. Slíkar upplýsingar eru nauðsynlegur grunnur að sjálfbærri nýtingu jarðrænna auðlinda, m.a. efnisnáma, vatnsauðlindarinnar og jarðhita.

Markmiðið  tengist  með  beinum  hætti  meginmarkmiði  málefnasviðsins  er  snýr  að verndun náttúrunnar og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda.

Markmið 3: Rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga.

Megintilgangur þessa markmiðs er að auka viðnámsþol og aðlögunargetu vegna loftslagstengdrar hættu og náttúruhamfara og að vinna grunn að því að hægt sé að grípa til viðeigandi ráðstafana vegna afleiðinga loftslagsbreytinga sem í framtíðinni verði meðal annars felldar inn í landsbundnar áætlanir, stefnumál og skipulag.

Markmiðið tengist með beinum hætti þeim þætti meginmarkmiðs málefnasviðsins er snýr að verndun náttúrunnar, aukinni sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda og auknum lífsgæðum landsmanna. mEnn fremur er þetta mikilvæg tenging við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um mótun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

 

 

 Nr.  Markm HM#  Mælikvarðar  Staða 2016 Viðmið2018  Viðmið 2022
1 Í árslok 2018 liggi fyriráætlun um eflingu og þéttingu mælanets vöktunarkerfa vegnanáttúruvár á svæðum í forgangi 13.113.213.3 Staða áætlunar Gerðáætlunar ekki hafin. Áætlunliggur fyrir Mælinet hafiverið efld á svæðum í forgangisamkvæmt áætlun
2 Í árslok 2018 liggur fyrir áætlun um vöktun á náttúru Íslands og skráningu berg- og jarðgrunna. 13.113.213.3 Staða áætlunar Gerðáætlunar ekki hafin. Áætlunliggur fyrir Markvissari framkvæmd náttúruverndar, skipulagsmála og sjálfbærrar nýtingar jarðrænna auðlinda á grunni vöktunar og skráningar
3 Í árslok 2018 liggi fyriráætlun um rannsóknir á veigamiklumrannsóknarþáttum varðandi áhrif loftslagsbreytinga. 13.113.213.3 Staða áætlunar Gerðáætlunar ekki hafin Áætlunliggur fyrir Veigamiklum þáttum rannsóknaráætlunar lokið

 

 

Nr. Tengist markmiðinr. Aðgerð Tímaáætlun Kostnaður Ábyrgðaraðili
1 1 Móta og hrinda í framkvæmd áætlun um eflingu vöktunarkerfa vegna náttúruvár 2018–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Veðurstofa Íslands
2 2 Móta og hrinda í framkvæmd áætlun um vöktun á náttúru Íslands og skráningu berg- og jarðgrunna. 2018–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Náttúrufræðistofnun Íslands
3 3 Móta og hrinda í framkvæmd áætlun um rannsóknir á áhrifum loftslagsbreytinga. 2018–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Veðurstofa Íslands

Meðhöndlun úrgangs. Fyrir málaflokkinn hefur verið sett fram það markmið að endurskoða stefnu og markmið fyrir endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs sem ber úrvinnslu- og/eða skilagjald fyrir árslok 2019. Á grunni þess má setja fram frekari markmið til að ná mælanlegum árangri í að minnka förgun úrgangs, fyrir árslok 2022.

Markmið 1: Endurskoðun stefnu og markmið fyrir úrgang.

Megintilgangur þessa markmiðs er að stíga ákveðin skref í innleiðingu hringræna hagkerfisins þar sem markvisst er komið í veg fyrir myndun úrgangs hér á landi. Endurskoðun markmiðasetningar fyrir úrgang sem ber úrvinnslu- og/eða skilagjald leiðir til þess að meira magn úrgangs skilar sér til endurvinnslu og endurnýtingar. Þannig minnkar hlutfall óendurvinnanlegs úrgangs af heildarúrgangi.

Markmiðið  tengist  með  beinum  hætti  meginmarkmiði  málefnasviðsins  er  snýr  að verndun náttúrunnar og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda. Enn fremur er þetta mikilvæg tenging við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um eflingu græna hagkerfisins þar sem það stuðlar að aukinni verðmætasköpun á sama tíma og dregið er úr álagi á náttúruna.

 

 Nr.  Markm  HM #  Mælikvarðar  Staða 2016  Viðmið 2018 Viðmið2022
1 Að fyrir árslok 2019 verði lokið við að endurskoða stefnu og markmið fyrir úrgang er ber úrvinnslu og/eða skilagjald á grunni hringræna hagkerfisins. 12.412.5 Endurskoðun markmiða fyrir úrgang er ber úrvinnslu-og/eða skilagjald Ekki hafið. Endurskoðunstefnu og markmiða lokið 2019 Við lokáætlunar- tímabilsins hefur, ágrundvelli endurskoðunar, náðstmælanlegur árangur í að minnka förgunúrgangs.

 

Nr. Tengist markmiðinr. Aðgerð Tímaáætlun Kostnaður Ábyrgðaraðili
1 1 Unnið að endurskoðun og setningu markmiða um endurvinnslu og endurnýtingu úrgangs er ber úrvinnslu- og/eða skilagjald með hliðsjón af stefnu Evrópusambandsins um hringrænt hagkerfi. 2019   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
2 1 Unnið að framkvæmd úrgangsforvarnastefnunnar Saman gegn sóun 2016–2027, kafli II.B. Felur m.a. í sér fjölgun flokka drykkjarvöruumbúða sem bera skilagjald, að dregið sé úr notkun drykkjarvöruumbúða úr efnum sem ekki er hægt að endurvinna og samstarfsverkefni með drykkjarvöruframleiðendumum að draga úr notkun einnota umbúða. 2019   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
3 1 Framkvæmd aðgerðaáætlunar til að draga úr notkun plastpoka 2016–2018. Felur m.a. í sér samstarfsverkefni með Samtökum verslunar og þjónustu (t.d. setning gjalds á alla burðarpoka og fræðslu og kynningu fyrir almenning) og að til staðar sé einföld og markviss flokkun úrgangs sem dregur úr notkun plastpoka. 2018   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Varnir gegn náttúruvá. Í málaflokknum hefur verið sett fram það markmið að ljúka þeim 5 framkvæmdaverkefnum sem eru yfirstandandi fyrir árslok 2018 og 4-5 framkvæmdaverkefnum til viðbótar fyrir lok árs 2022.

Markmið 1: Að ljúka vinnu við framkvæmdir.

Megintilgangur þessa markmiðs er að stefna að því að ljúka öllum yfirstandandi og ráðgerðum framkvæmdum við gerð ofanflóðavarna fram til ársloka 2022. Um er að ræða tvö verkefni á Ísafirði, eitt verkefni í Vesturbyggð, eitt verkefni í Fjallabyggð og eitt verkefni í Fjarðabyggð. Að auki er fyrirhugað að ljúka við fjögur til fimm ný verkefni á árunum 2019 til 2022, eða alls um níu til tíu ofanflóðaverkefni.

Markmiðið tengist með beinum hætti þeim þætti meginmarkmiðs málefnasviðsins er snýr að auknum lífsgæðum landsmanna með því að tryggja öryggi gegn ofanflóðum.

 

Nr. Markm HM # Mælikvarðar Staða 2016 Viðmið 2018 Viðmið 2022
1 Ljúka öllum verkframkvæm dum (níu til tíu talsins) fyrir árslok2022. 11.5 Fjöldi lokinna verkefna Níu til tíu verkefnum, ólokið Fimm verkefnum lokið Öllum verkefnum lokið
Nr. Tengist markmiði nr. Aðgerð Tímaáætlun Kostnaður Ábyrgðaraðili
1 1 Ljúka við yfirstandandi framkvæmdir 2018   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið AR
2 1 Ljúka við fjórar til fimm fyrirhugaðar framkvæmdir 2019–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Stjórnsýsla umhverfismála. Í málaflokknum hafa verið sett fram þrjú markmið. Í fyrsta lagi að ljúka mótun aðgerðaáætlunar á árinu 2018 er miðar að því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og á grundvelli hennar hefja víðtækt samráð um aðgerðir með öðrum málefnasviðum. Í öðru lagi að ljúka friðlýsingu náttúruverndarsvæða með hliðsjón af verndargildi og forgangsröðun. Í því sambandi er einkum horft til verndar miðhálendisins. Í þriðja lagi að bæta viðmót og aðgengi að stjórnsýslu málaflokksins með því að auka rafræna stjórnsýslu, sjálfsafgreiðslu, skilvirkni og gæði.

Markmið 1: Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

Megintilgangur þessa markmiðs er stíga ákveðin skref í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við stefnu og markmið Parísarsamkomulagsins.

Markmiðið  tengist  með  beinum  hætti  meginmarkmiði  málefnasviðsins  er  snýr  að verndun náttúrunnar og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda.

Markmiðið er dæmi um viðfangsefni sem kallar á víðtækt samráð og samstarf tveggja eða fleiri ráðuneyta. Sem dæmi má vísa til aðgerðar er fellur undir málefnasvið 5 um skatta-, eigna- og fjármálaumsýslu, um samræmt kerfi grænna skatta er styður við markmiðið.

Markmið 2: Friðlýsing náttúruverndarsvæða.

Megintilgangur þessa markmiðs er að stuðla að aukinni náttúruvernd.

Markmiðið  tengist  með  beinum  hætti  meginmarkmiði  málefnasviðsins  er  snýr  að verndun náttúrunnar og sjálfbærni í nýtingu náttúruauðlinda. Enn fremur tengist markmiðið áhersluþáttum málefnasviðsins er snúa að því að móta og virkja áætlun um vernd miðhálendisins og undirbúning að stofnun miðhálendisþjóðgarðs.

Markmið 3: Aukin rafræn stjórnsýsla og skilvirkni í stjórnsýslu.

Megintilgangur   þessa   markmiðs   er   að   bæta   viðmót   og   aðgengi   að   stjórnsýslu málaflokksins  með  því  að  auka  skilvirkni  við  framkvæmd  löggjafar.  Fyrst  verður  lögð áhersla á að auka skilvirkni við starfsleyfisveitingar á sviði hollustuverndar, mengunarvarna og úrgangsmála. Einnig verður áfram unnið að innleiðingu á rafrænni þjónustu í tengslum við mannvirkjagerð, rafmagnsöryggi og brunavarnir. Enn fremur innleiðing á stafrænu skipulagi með því að gera kröfu um aðskipulagsáætlanir sveitarfélaga verði stafrænar.

Markmiðið tengist með beinum hætti þeim þætti meginmarkmiðs málefnasviðsins er snýr að auknum lífsgæðum landsmanna.

 

Nr. Markm HM # Mælikvarðar Staða 2016 Viðmið 2018 Viðmið 2022
1 Á árinu 2018 liggi fyrir stefna og aðgerða- áætlun í loftslagsmálum til ársins 2030. 13.113.213.3 Mótun stefnu og aðgerðaáætlunar Ekki hafið Stefnumótun og aðgerðaráætlun liggur fyrir  
Framkvæmd aðgerðaáætlunar Ekki hafin Framkvæmd hafin Vinna samkvæmt aðgerðaáætlun hafin í víðtæku samráði við önnur málefnasvið
   2 Að í árslok 2022 verði lokið frið-lýsingu tíu náttúruverndar- svæða    15.1 Fjöldi friðlýstrasvæða 112 114 122
3 Í árslok 2022 sébúið að bæta viðmót og aðgengi aðstjórnsýslu með aukinni rafrænni stjórnsýslu. 16.6 Hlutfall stafrænna svæðisskipulaga 0% 25% 100%
Fjöldi stafrænna aðalskipulaga (heildarskipulög) 0 5 25
Fjöldi stafrænna deiliskipulaga (heildarskipulög) 0 25 100
Fjöldi þjónustuleiða í rafrænum gáttum 25 35 55

 

Nr. Tengist markmiði nr. Aðgerð Tímaáætlun Kostnaður Ábyrgðaraðili
1 1 Móta aðgerðaáætlun í loftlagsmálum til 2030     Umhverfis- og auðlindaráðuneytið
2 2 Klára innleiðingu rafrænnar byggingargáttar og þróun rafmagnsöryggisgáttar     Mannvirkjastofnun
3 2 Koma á rafrænni leyfisgátt ásviði hollustuhátta, mengunarvarna og úrgangs     Umhverfisstofnun
4 2 Ákvarða högun stafrænnagagna     Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Skipulagsstofnun
5 3 Þingsályktun umframkvæmdáætlun náttúruminjaskrár     Umhverfis- ogauðlindaráðuneytið
6 3 Gerð stjórnunar- og verndaráætlana fyrir friðlýst svæði 2017–2022   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Þingvallaþjóðgarður, Vatnajökulsþjóðgarður
7 3 Gerð áætlunar um verndunmiðhálendisins 2018–2019   Umhverfis- og auðlindaráðuneytið Umhverfisstofnun
 
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn