Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 18/2011

Bílastæði og geymsla.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 18/2011

Eignarhald: Bílastæði og geymsla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, mótt. 30. maí 2011, beindi A hdl., f.h. B, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við D, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 14. júní 2011, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 29. júní 2011, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 22. september 2011.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið X nr. 38a, 38b, 38c og 38d byggt árið 2003. Húsið skiptist í samtals 46 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar merkt 0212 að X nr. 38d. Gagnaðili er eigandi íbúðar merkt 0309 að X nr. 38d. Ágreiningur er um hvaða geymsla og bílastæði fylgi eignarhlutunum.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I.   Að bílastæði merkt B66 og B67 teljist eign íbúðar nr. 0212, fnr. Y, í fjöleignarhúsinu að X nr. 38d í samræmi við tilgreiningu í eignaskiptasamningi, skjal nr. Z.

II. Að geymsla merkt 0018 teljist eign íbúðar nr. 0212, fnr. Y, í fjöleignarhúsinu við X nr. 38d í samræmi við tilgreiningu í eignaskiptasamningi, skjal nr. Z

 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi fengið íbúðina í fyrirframgreiddan arf frá móður sinni, C, sem hafi búið í íbúðinni frá því í ágúst 2004. Í kaupsamningi móður hans komi fram að eitt bílastæði í bílageymslu fylgi íbúðinni, merkt B67, og geymsla merkt 0041. Í afsali til móður álitsbeiðanda komi hins vegar fram að með íbúðinni fylgi bílastæði merkt B30 og geymsla merkt 0018. Bæði í kaupsamningi og afsali sé sérstaklega vísað til eignaskiptayfirlýsingar, skjal nr. Z. Í eignaskiptayfirlýsingunni komi fram að bílastæði merkt B66 og B67 fylgi með fasteign álitsbeiðanda auk geymslu merktri 0041. Í upplýsingum frá Fasteignaskrá séu stæði merkt B66 og B67 talin fylgja íbúð álitsbeiðanda. Reynt hafi verið að gera nýjan eignaskiptasamning fyrir fjöleignarhúsið en í drögum að þeim samningi, sem hafnað hafi verið að þinglýsa hjá sýslumanni sökum þess að samþykki allra eigenda í íbúðarhúsinu hafi ekki legið fyrir, komi fram að bílastæði merkt B30 fylgi íbúð álitsbeiðanda.

Afar óljóst sé því hvaða geymsla og bílastæði fylgi íbúð álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi telur óviðunandi að selja íbúð þegar svo mikil óvissa sé uppi. Fyrir liggi að stæði merkt B66 og B67 hafi á undanförnum árum verið nýtt af gagnaðila sem og geymsla merkt 0018, en um réttindi sé að ræða sem tilheyri álitsbeiðanda samkvæmt skráningu Fasteignamats og samkvæmt gildandi eignaskiptasamningi. Af þessum sökum hafi lögmaður álitsbeiðanda sent fyrirspurn til gagnaðila, dags. 26. janúar 2011, þar sem óskað hafi verið eftir upplýsingum um á hverju möguleg eignarheimild gagnaðila byggði varðandi umrædd bílastæði. Bréfinu hafi ekki verið svarað skriflega heldur hafi gagnaðili hringt í lögmanninn og látið honum í té afsal um fasteign gagnaðila, þ.e. íbúð nr. 309. Í afsalinu komi fram að tvö bílastæði í bílageymslu, merkt B66 og B67, fylgi eignarhlutanum og geymsla merkt 0018. Í kaupsamningnum sé sérstaklega vísað til eignaskiptayfirlýsingar, skjal nr. Z, og teljist hún þar með hluti kaupsamnings.

Lögmaður álitsbeiðanda hafi í kjölfarið sent annað bréf, dags. 27. apríl 2011, til gagnaðila þar sem rökstutt hafi verið að eignaskiptasamningur og tilgreining á bílastæðum í honum gilti framar upplýsingum í afsali og óskaði eftir að gera samning við gagnaðila þar sem eignarréttur álitsbeiðanda á umræddum stæðum væri staðfestur. Gagnaðili hafi svarað því með bréfi, dags. 4. maí 2011, þar sem hún teldi að af afsölum af íbúð álitsbeiðanda og íbúð hennar sé skýrt að hún hafi keypt umrædd stæði, ásamt því að drög að eignaskiptasamningi styðji það að ætlun seljanda hafi verið að hún fengi tvö stæði með íbúð sinni en íbúð álitsbeiðanda hafi fylgt eitt stæði.

Álitsbeiðandi greinir frá því að upphaflegur seljandi, bæði álitsbeiðanda og gagnaðila, hafi verið Byggingafélagið E ehf., en félagið sé nú gjaldþrota.

Álitsbeiðandi bendir á að eignaskiptasamningur um íbúðina sé eina gagnið sem tilgreini hvernig fjöleignarhúsinu að X nr. 38d sé skipt milli eignarhluta. Þinglýst afsal sem tilgreinir að tilteknum íbúðum fylgi önnur bílastæði og geymslur en greinir í eignaskiptasamningi ætti ekki að leiða til annarrar niðurstöðu. Til þess sé að líta að álitsbeiðandi sem og móðir hans hafi bæði greitt fasteignagjöld og brunatryggingar af stæðum merktum B66 og B67 í samræmi við eignaskiptasamning og opinberar eignarheimildir um húsið, sbr. skráningu í fasteignaskrá. Samkvæmt 10. mgr. 2. gr. laga nr. 48/1994, um brunatryggingar, skuli vátryggingarfjárhæð byggjast á upplýsingum sem fyrir liggja í fasteignaskrá. Brunatryggingar álitsbeiðanda miði við þá skráningu og við tvö bílastæði í séreign, stæði merkt B66 og B67. Það sama eigi við um fasteignagjöld íbúðarinnar sem miði við opinbera eignaskráningu og þá gjöld af tveimur stæðum en ekki einu. Framangreind opinber gjöld miðist ávallt við tilgreiningu eignarhluta í gildandi eignaskiptasamningi. Eina leiðin til að breyta skráningu á bílastæðum og geymslu sé með breytingu á gildandi eignaskiptasamningi. Til að breyta umræddum samningi sé nauðsynlegt að til staðar sé samkomulag milli allra eigenda í húsinu. Reynt hafi verið að ná slíku samkomulagi en án árangurs. Ekki sé mögulegt að neyða eigendur íbúðanna til að skrifa undir nýjan eignaskiptasamning. Það sé því vandséð hvernig breyta skuli skráningu hjá opinberum aðilum á þessum gjöldum komist kærunefnd að þeirri niðurstöðu að gagnaðili eigi rétt til bílastæða merktra B66 og B67 auk geymslu merktrar 0018. Ekki sé samræmi milli eignaskráningar í afsölum að íbúðum og eignaskiptasamningi í mörgum öðrum tilfellum og sé niðurstaða þessa máls því fordæmisgefandi fyrir hagsmuni annarra eigenda. Af drögum að eignaskiptasamningi megi sjá að eignarhald á átta bílastæðum og sex geymslum sé umdeilt, þ.m.t. bílastæði og geymsla álitsbeiðanda. Komist kærunefndin að þeirri niðurstöðu að fara eigi eftir því sem fram komi í afsali íbúðar álitsbeiðanda þurfi nefndin að rökstyðja hvaða leiðir álitsbeiðanda séu færar til þess að komast undan því að greiða opinber gjöld af umræddum tveimur bílastæðum sem gagnaðili telur sig eiga. Gagnaðili hafi haldið því fram í bréfi sínu frá 4. maí sl. að einhvers konar samkomulag hafi verið milli móður álitsbeiðanda og gagnaðila um greiðslu fasteignagjalda af umræddum bílastæðum. Það samkomulag virðist hafa verið munnlegt og hefur álitsbeiðandi engar upplýsingar þess efnis að greitt hafi verið til móður hans. Álitsbeiðandi tekur fram í því samhengi að móðir hans þjáist af Alzheimer-sjúkdómnum og sé þar með óljóst hvort hún hafi skilið mögulegt samkomulag við gagnaðila og að sama skapi sé nú ekki hægt að leita til hennar varðandi upplýsingar um tilhögun greiðslu fasteignagjalda af þeim sökum að minni hennar hafi hrakað mikið undanfarin ár sökum sjúkdómsins. Álitsbeiðandi telur einnig að ekki skipti máli hvort til staðar hafi verið einhvers konar samkomulag, enda sé eingöngu unnt að miða við opinbera eignaskráningu, sérstaklega þegar nýr og grandlaus eigandi sé skráður eigandi íbúðarinnar. Telji kærunefndin sig ekki geta tekið afstöðu til kröfu álitsbeiðanda þar sem munnlegt samkomulag geti breytt niðurstöðu hennar, er óskað eftir því að veitt verði álit á því hvort tilgreining bílastæða og geymsla í eignaskiptasamningi eða afsali gangi framar þegar ekkert samkomulag hefur verið gert um skiptingu bílastæða og geymsla.

 

Af hálfu gagnaðila er gerð sú krafa að staðfestur verði eignaréttur hennar að bílastæðum merktum B66 og B67 ásamt geymslu merktri 0018 að X nr. 38d samkvæmt afsali, dags. 20. maí 2005. Gagnaðili byggir á því að hún sé þinglýstur eigandi íbúðar nr. 0309, ásamt tveimur bílastæðum merktum B66 og B67 og geymslu merktri 0018. Þann 18. ágúst 2003 hafi gagnaðili ásamt þáverandi eiginmanni sínum gert kaupsamning um umrædda eign. Afsalið hafi verið undirritað 20. maí 2005. Seljandi hafi verið Byggingafélagið E ehf. en það hafi jafnframt byggt húsið. Hafi því verið um að ræða fyrstu sölu íbúðar nr. 0309 og það sama gilti um íbúð nr. 0212 sem móðir álitsbeiðanda keypti.

Samkvæmt kaupsamningi og afsali að íbúð nr. 0212 hafi einungis verið gert ráð fyrir því að eitt bílastæði fylgdi með kaupunum. Hins vegar sé ósamræmi milli bílastæðanúmera í kaupsamningi og í afsali. Í kaupsamningi komi fram að íbúð 0212 fylgi stæði merkt B67 en í afsali sé bílastæðið merkt B30. Hafi ástæðan fyrir þessu misræmi einungis verið það að íbúð gagnaðila áttu að fylgja tvö stæði hlið við hlið.

Í gildandi eignaskiptayfirlýsingu komi fram að íbúð 0212 hafi átt að fylgja tvö stæði en einungis eitt með íbúð 0309. Vegna þessa hafi umboðsmaður álitsbeiðanda krafist staðfestingar á eignarhaldi á umræddum tveimur bílastæðum með bréfi, dags. 27. apríl 2011, sem gagnaðili sé þinglýstur eigandi að. Ljóst sé að eigandi íbúðar 0212 greiði samkvæmt þessu opinber gjöld af tveimur bílastæðum í stað eins. Ekki hafi verið unnt að breyta eignaskiptayfirlýsingu þegar í stað eftir kaupin vegna deilna sem snertu önnur mál. Vegna þessa hafi gagnaðili og móðir álitsbeiðanda, fyrri eigandi íbúðar 0212, gert með sér samkomulag sem hafi falist í greiðslu til þeirrar síðarnefndu vegna þeirra fasteignagjalda sem hún hafi þurft að greiða vegna auka bílastæðis. Þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi fram að því að ný eignaskiptayfirlýsing hafi verið gerð. Nýrri eignaskiptayfirlýsingu hafi á hins vegar verið vísað frá þinglýsingu 30. júlí 2009 vegna vankanta. Umræddar breytingar beri þó með sér að haga átti skiptingu umræddra bílastæða með þeim hætti sem greinir í afsölunum tveimur. Þá greinir gagnaðili frá því að hún greiði í hússjóð sem samsvari tveimur bílastæðum. Gagnaðili kveðst hafa svarað bréfi álitsbeiðanda með bréfi, dags. 4. maí 2011, og alfarið hafnað að staðfesta eignarhald álitsbeiðanda á umræddum bílastæðum. Hins vegar sé eindreginn vilji af hálfu gagnaðila að greiða þau opinberu gjöld sem fallið hafi á álitsbeiðanda vegna aukabílastæðis sem sé með réttu hennar eign.

Gagnaðili bendir á að málatilbúnaður álitsbeiðanda virðist nær eingöngu vera reistur á því að í kaupsamningi og afsölum að íbúðum 0212 og 0309 sé vísað til eignaskiptayfirlýsingarinnar sem greini hins vegar ranglega frá skiptingu bílastæða í húsinu. Gagnaðili telur ljóst að samkvæmt kaupsamningi og afsali hafi móðir álitsbeiðanda einungis ætlað að festa kaup á íbúð með einu bílastæði. Því til stuðnings leggur gagnaðili fram yfirlýsingu F, sem fyrir hönd E ehf., seldi umræddar tvær íbúðir. Hann votti það að móðir álitsbeiðanda hafi einungis viljað eitt bílastæði. Hins vegar hafi gagnaðili viljað kaupa tvö bílastæði og greitt kaupverð samkvæmt því.

Gagnaðili telur að sá eignarréttur sem álitsbeiðandi telji umdeildan hljóti að grundvallast á þinglýstum afsölum að báðum umræddum íbúðum og þá sérstaklega í ljósi þess að telja verði óumdeilt að aðilar hafi viljað haga málum með þessum hætti og að reynt hafi verið að breyta eignaskiptayfirlýsingu samkvæmt því. Geti núverandi eigandi íbúðar 0212 varla eignast betri rétt en upphaflegur kaupandi. Það eitt að eignaskiptayfirlýsingu hafi ekki verið breytt sökum deilna er snerti önnur mál geti varla svipt gagnaðila þeim eignarétti sem varinn sé af 72. gr. stjórnarskrárinnar og gagnaðili hafði öðlast í góðri trú með umræddum kaupum.

 

Í athugasemdum álitsbeiðanda við greinargerð gagnaðila kemur fram að gagnaðili byggi málatilbúnað sinn fyrst og fremst á því að þinglýstar eignarheimildir hans, þ.e. þinglýstur kaupsamningur og afsal að íbúð, gangi framar því er fram komi í gildandi eignaskiptasamningi sem þinglýst hafi verið áður en eignarheimild gagnaðila hafi verið þinglýst. Með því sé lýst kjarna ágreiningsefnisins, hvort gildandi þinglýstur eignaskiptasamningur gildi framar þinglýstu afsali að eign. Gagnaðili virðist telja að einu gögnin um tilgreiningu eignarréttar sem fylgja fasteign sé kaupsamningur og afsal um eignina. Þannig virðist gagnaðili ekki gera sér grein fyrir því að eignaskiptasamningur um íbúðina sé einnig þinglýstur réttur eiganda viðkomandi íbúða, sem geti í einhverju tilviki gengið framar síðar þinglýstum rétti.

Álitsbeiðandi vísar til 3. mgr. 17. gr. laga nr. 26/1994 þar sem meðal annars sé kveðið á um að í eignaskiptayfirlýsingu skuli koma fram lýsing á hverjum séreignarhluta og hvað fylgi honum sérstaklega. Álitsbeiðandi bendir jafnframt á að í 18. gr. sömu laga komi einnig fram hvernig eigandi sem sé ósáttur við hvernig eignaskiptayfirlýsing tilgreini eignarheimildir og telur samninginn ekki í samræmi við raunveruleikann eigi að snúa sér. Álitsbeiðandi geti ekki farið í þann feril, enda vilji hann miða við að eignaskiptasamningurinn sé eina gagnið sem hægt sé að miða við og vilji miða fylgifé eignarinnar við samninginn.

Álitsbeiðandi telur að ekki sé hægt að horfa til þeirrar eignaskiptayfirlýsingar sem reynt hafi verið að þinglýsa af hálfu húsfélagsins, enda hafi hún ekkert gildi þegar hún hafi ekki verið samþykkt í samræmi við reglur laga um fjöleignarhús. sbr. meðal annars 18. gr. þeirra laga. Tilraunir til að breyta eignarheimild einhliða af hálfu stjórnar húsfélags hafi ekkert gildi ef hún hafi ekki verið lögformlega samþykkt. Álitsbeiðandi geri ekki athugasemdir við framlagða yfirlýsingu F og lýsingu þeirra á kaupum móður hans. Álitsbeiðandi eigi ekki möguleika á að staðfesta þá sögu vegna veikinda móður sinnar. Álitsbeiðandi bendir á að gagnaðili hefði auðveldlega getað sýnt fram á að a.m.k. hluta þessarar sögu með því að leggja fram upplýsingar um að hún hafi í raun og veru gert samkomulag um greiðslu á fasteignagjöldum og að hún hafi í raun og veru greitt þau til móður álitsbeiðanda. Ætti það að vera auðvelt með framlagningu á færsluyfirlitum frá þessum tíma eða öðrum gögnum.

Álitsbeiðandi telur að athugasemdir gagnaðila breyti engu um hvernig haldið verði á málinu, henda hafi hann ekki vitað um meint samkomulag um greiðslu fasteignagjalda og því síður hafi hann verið grandsamur um að þau bílastæði sem fylgi fasteigninni, samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu, hafi verið eign annars aðila. Álitsbeiðandi hafi eignast íbúðina með fyrirframgreiðslu arfs en ekki með hefðbundnum hætti og hafi fasteignasali ekki séð um sölu eignarinnar. Óski kærunefnd eftir því og telji hún það nauðsynlegt geti álitsbeiðandi látið henni í té þinglýsta skiptayfirlýsingu sem sé grundvöllur eignarheimildar álitsbeiðanda. Þar komi eingöngu fram að álitsbeiðandi fengi umrædda fasteign „ásamt öllu því sem eigninni fylgir og fylgja ber“. Eftir að álitsbeiðandi hafi fengið eignina hafi hann farið að kanna hvað fylgi henni. Hann hafi kannað þau gjöld sem greidd séu af henni, meðal annars vegna fasteignagjalda og brunatrygginga, og hafi þá komið í ljós að miðað við eignaskiptayfirlýsingu fylgi tvö umrædd bílastæði eigninni sem greitt hafi verið af frá því móðir hans keypti eignina. Þegar hann hafi síðar aflað frekari gagna, meðal annars kaupsamnings og afsals um eignina, hafi hann séð að misræmi væri til staðar. Erfitt sé að sýna fram á framangreint nema með munnlegum málflutningi um kröfuna fyrir dómstólum. Hins vegar geti kærunefndin fjallað um þann grundvallarágreining sem til staðar sé í málinu varðandi gildi þinglýstrar eignaskiptayfirlýsingar gagnvart þinglýstu afsali, þegar misræmi sé á tilgreiningu eignarréttinda í þessum heimildum.

 

III. Forsendur

Samkvæmt 4. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, telst séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls.

Í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu fyrir X nr. 38a, 38b, 38c og 38d, dags. 31. október 2003, kemur fram að eignarhluta álitsbeiðanda 0212 fylgi geymsla í kjallara merkt 0041 og sérnotaréttur af bílastæðum merktum B66 og B67 í bílageymslu. Þá kemur fram að eignarhluta gagnaðila 0309 fylgi geymsla í kjallara merkt 0018 og sérnotaréttur af bílastæði merktu B30 í bílageymslu. Undir eignaskiptayfirlýsinguna skrifar E ehf., sem seldi gagnaðila eignina en Byggingarfélagið E ehf. selur móður álitsbeiðanda eignina.

Með kaupsamningi, dags. 18. ágúst 2003, keypti gagnaðili íbúð merkta 0309 af E ehf., ásamt einu bílastæði í bílageymslu og öllu sem eigninni fylgir og fylgja ber. Afsal er gefið út 20. maí 2005. Þar kemur fram að eigninni fylgi tvö bílastæði í bílageymslu merkt B66 og B67 og geymsla merkt 0018.

Með kaupsamningi, dags. 25. ágúst 2004, keypti móðir álitsbeiðanda íbúð 0212 af E ehf., ásamt geymslu merktri 0041 og einu bílastæði í bílageymslu merktu B67. Afsal er gefið út 5. desember 2005. Þar kemur fram að eigninni fylgi geymsla merkt 0018 og eitt bílastæði í bílageymslu merkt B30.

Í kaupsamningi móður álitsbeiðanda og í afsölum álitsbeiðanda og gagnaðila er vísað til eignaskiptayfirlýsingar, dags. 31. október 2003. Fyrir liggur að þegar kaupsamningur gagnaðila var gerður var ekki búið að gera eignaskiptayfirlýsingu fyrir húsið. Eignaskiptayfirlýsingin var hins vegar gerð áður en móðir álitsbeiðanda keypti. Kaupsamningar og afsöl voru gerð í eftirfarandi röð: 1) Kaupsamningur gagnaðila, dags. 18. ágúst 2003, en þar kemur fram að eitt bílstæði fylgi. 2) Kaupsamningur móður álitsbeiðanda, dags. 25. ágúst 2004, en þar kemur fram að eignarhluta 0212 fylgi geymsla merkt 0041 og bílastæði merkt B67. 3) Afsal gagnaðila, dags. 20. maí 2005, en þar kemur fram að eignarhluta 0309 fylgi geymsla merkt 0018 og bílastæði merkt B66 og B67. 4) Afsal móður álitsbeiðanda, dags. 5. desember 2005, en þar kemur fram að eignarhluta 0212 fylgi geymsla merkt 0018 og bílastæði merkt B30.

Í málinu liggur fyrir yfirlýsing F, dags. 8. júní 2011, þar sem fram kemur að hann hafi selt móður álitsbeiðanda, f.h. E ehf. umrædda íbúð ásamt geymslu og bílastæði eins og fram komi í afsali. Gerð hafi verið mistök í eignaskiptasamningi þar sem ekki hafi verið farið rétt með eignarhluta, aðallega er varði bílastæði og einhverjar geymslur. Þar sem hún hafi ekki átt bifreið hafi hún farið fram á að kaupa eitt bílastæði. Gagnaðili hafi keypt íbúð með geymslu og tveimur bílastæðum. Þetta hafi verið staðfest með afsölum.

Þá kemur fram í álitsbeiðni að fyrir liggur að stæði merkt B66 og B67 og geymsla merkt 0018 hafi á undanförnum árum verið nýtt af gagnaðila.

Ljóst er að eignaskiptayfirlýsingu, kaupsamningum og afsölum aðila ber ekki saman. Ekki var búið að gera eignaskiptayfirlýsinguna þegar kaupsamningur gagnaðila var gerður. Hins vegar var búið að þinglýsa eignaskiptayfirlýsingunni þegar kaupsamningur móður álitsbeiðanda um íbúð 0212 var gerður en þar kemur fram að eignarhlutanum eigi að fylgja sama geymslan sem fylgir íbúðinni samkvæmt eignaskiptayfirlýsingunni merkt 0041 en eingöngu annað bílastæðið af tveimur sem fylgir íbúðinni samkvæmt eignaskiptayfirlýsingunni, þ.e. bílastæði merkt B67.

Samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu hússins fylgir geymsla merkt 0018 eignarhluta gagnaðila 0309 en ekki íbúð álitsbeiðanda og er gagnaðila afsöluð umrædd geymsla með afsali, dags. 20. maí 2005, og er afsalinu þinglýst 9. júní 2005. Móður álitsbeiðanda er síðan afsöluð sama geymsla með afsali, dags. 5. desember 2005. Það er álit kærunefndar með vísan til afsals gagnaðila, dags. 20. maí 2005, að geymsla merkt 0018 fylgi eignarhluta gagnaðila 0309.

Áður en eignaskiptayfirlýsing hússins var gerð keypti gagnaðili eitt bílastæði í bílageymslu, sbr. kaupsamning, dags. 18. ágúst 2003. Í kaupsamningnum er ekki tilgreint hvaða stæði það er. Eftir að eignaskiptayfirlýsingu hússins var þinglýst keypti móðir álitsbeiðanda eitt bílastæði í bílageymslu merkt B67, sbr. kaupsamning, dags. 25. ágúst 2004. Samkvæmt afsali gagnaðila, dags. 20. maí 2005, er honum hins vegar afsalað tveimur bílastæðum merktum B66 og B67 og samkvæmt afsali móður álitsbeiðanda, dags. 5. desember 2005, er henni afsalað einu bílastæði merktu B30. Í afsali móður álitsbeiðanda segir orðrétt: „Kaupanda er kunnugt um að við gerð loka skiptasamnings geta magntölur breyst smávægilega og er hann sáttur við það. Gerð skiptasamnings er á kostnað seljanda.“ Af gögnum málsins er ljóst að bílastæðum og geymslum hússins hafi að einhverju leyti verið víxlað milli eignarhluta eftir að eignaskiptayfirlýsingin var gerð. Telur kærunefnd ljóst að breytingar hafa orðið á því hvaða bílastæði fylgdu eignarhlutum 0212 og 0309. Verði því að leggja til grundvallar afsöl umræddra eignarhluta og gangi þau framar eignaskiptayfirlýsingu hússins. Með vísan til þess er það álit kærunefndar að bílastæði merkt B66 og B67 fylgi eignarhluta gagnaðila og bílastæði merkt B30 fylgi eignarhluta álitsbeiðanda.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hvorki bílastæði B66 og B67 né geymsla 0018 fylgi eignarhluta álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 22. september 2011

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Karl Axelsson

Ásmundur Ásmundsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira