Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 16/2011

Skipting kostnaðar: Viðgerðir á vegg

ÁLIT
KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA


í máli nr. 16/2011 Skipting kostnaðar: Viðgerðir á vegg

I.   Málsmeðferð kærunefndar

Með ódagsettu bréfi, mótteknu 6. maí 2011, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 30. maí 2011, móttekin 20. júní 2011, athugasemdir álitsbeiðenda, dags. 26. júní 2011, og athugasemdir gagnaðila, dags. 29. júlí 2011 lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 22. september 2011.

 

II.  Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, sem skiptist í 9 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi kjallaraíbúðar. Ágreiningur er um kostnað viðgerðar á vegg inni í íbúð álitsbeiðanda.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að viðurkennt verði að kostnaður við viðgerð á múrvegg inni í íbúð álitsbeiðanda sé sameiginlegur kostnaður.

Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur sé um það hvort húsfélagið beri skylda til að greiða fyrir viðgerð á burðarvegg, þ.e. þeirri hlið sem snúi að svefnherbergisgangi kjallaraíbúðar. Orsök skemmdanna sé rafinagnstafla hússins, sem sé fest inn í burðarvegginn, en snúi út í sameignina. Múrhúðin á burðarveggnum springi eftir útlínulögun rafmagnstöflunnar og innan þess svæðis myndist einnig sprungur. Veggurinn skemmist eingöngu þar sem rafmagnstaflan sé staðsett inn í veggnum. Að beiðni formanns gagnaðila hafi viðurkenndur múrari tekið vegginn út í febrúar 2011 og sé það mat hans að sprungumyndunin á múrhúð veggjarins íbúðarmegin sé vegna hreyfinga á rafmagnstöflukassa. Þegar álitsbeiðandi keypti íbúðina árið 1997 hafi veggurinn verið með eins múrskemmdum af völdum rafinagnstöflunnar. Hafi seljandi íbúðarinnar sagt að hann hafi fengið munnlegt loforð allra íbúa að húsfélagið skyldi láta laga vegginn á sinn kostnað. Það loforð hafi ekki verið efnt af hálfu gagnaðila fyrr en á aðalfundi hinn 23. febrúar 2003. Þá hafi viðurkenndur múrari verið fenginn til að taka út vegginn og gera við hann á kostnað gagnaðila. Sú viðgerð hafi misheppnast og hafi múrhúðin strax aftur farið að springa á sama stað, þ.e. eftir útlínum rafmagnstöflunnar. Álitsbeiðandi kveðst hafa látið gagnaðila strax vita af þessu og jafnfiamt reynt ítrekað að hafa samband við múrarann til að fá hann til að gera við vegginn. Múrarinn hafi lofað mörgum sinnum að koma en aldrei látið sjá sig. Þáverandi formenn húsfélagsins hafi ekki aðhafist neitt í málinu og neitað að taka málið upp á fundum, þrátt fyrir margítrekað skriflegar beiðnir.

Álitsbeiðandi kveðst hafa beðið núverandi formann að taka málið upp á aðalfundi húsfélagsins í febrúar 2011. Formaðurinn hafi tekið vel í beiðnina og fengið múrarameistara til að taka út skemmdimar á veggnum og gera tilboð. Málið hafi svo verið tekið fyrir á aðalfundi húsfélagsins 28. febrúar 2011. Þar hafi komið upp ágreiningur af hálfu nokkurra íbúðareigenda um hvort húsfélaginu væri skylt að greiða fyrir viðgerðina á veggnum.

Í greinargerð gagnaðila er rökstuðningi álitsbeiðanda alfarið hafnað. Gagnaðili vísar til þess að í 2. tl. 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús komi fram að til séreignar hvers og eins eiganda teljist „Allt innra byrði umliggjandi veggja, gólfa og lofta, þar með talið einangrun“. Rétt sé að umræddur múrari hafi verið fenginn til að skoða og verðmeta viðgerð á innvegg kjallaraíbúðar að beiðni formanns húsfélagsins að undangenginni kröfu álitsbeiðanda. Ekki sé um eiginlegt eða löglegt tilboð að ræða enda sé umræddur múrari ekki starfsmaður C heldur undirverktaki og hafi enga heimild til að gera tilboð í nafni C. Þegar skýringa hafi verið leitað vegna þeirrar fullyrðinga hans um að „múrinn hefði greinilega losnað vegna hreyfingar á töflukassanum“ hafi hann sagt að hann ætti við „að allar byggingar og það sem fast væri inní þeim væri ávallt á einhverri hreyfingu“ en ekki að umrædd skemmd stafaði út frá því að taflan sjálf væri á óeðlilegri hreyfingu. Hafi hann viljað bæta því við að þetta væri ekki alveg rétt orðað hjá sér heldur væri réttast að orða þetta á þann hátt „að múrinn hefði losnað vegna hreyfingar á veggnum“. Einnig hafi hann sagt að svona viðgerð hefði einungis ákveðinn lífltíma og myndi ávallt springa út frá sér. Gagnaðili vísar til þess að umræddur múrari sé fús að veita skriflegt álit ef með þarf.

Gagnaðili hafnar því að umrædd skemmd sé af völdum töflunnar heldur sé orsökin seinni tíma fegrunaraðgerð á vegg sem augljóslega sé fullreynt að gera með þessum hætti sem gert hafi verið. Gagnaðili mótmælir því sem haldið sé fram í álitsbeiðni að allir íbúar hússins hafi gefið seljanda íbúðarinnar munnlegt loforð um viðgerðir. Íbúar íbúða X og Y sem búið hafi í húsinu frá árinu 1997, þegar kaupsamningur álitsbeiðanda hafi verið gerður, kannist ekki við slíkt loforð. Jafnframt sé hvorki loforðsins né þess að húsfélaginu bæri að standa straum af slíkum endurbótum getið í afsali. Ef um slíkt loforð hefði verið að ræða bæri að setja það inn í afsal ásamt dagsettri staðfestingu frá stjóm húsfélagsins sem fylgiskjal. Það hafi ekki verið gert og hafi þessi fullyrðing því ekkert gildi. Hinsvegar sé þar kveðið á um að seljandi taki á sig þá viðgerð ásamt dyrasíma og hafi greiðslu verið haldið eftir þar til þeirri framkvæmd væri lokið. Hafi viðgerðin verið metin á 30.000 kr. af fagmanni á vegum fasteignasölunnar D og samþykkt af hálfu álitsbeiðenda. Framreiknað sé þessi upphæð í dag um 60.000 kr. Athyglisvert sé að álitsbeiðendur leggi ekki sjálf fram afsalið þar sem það myndi að öllum líkum leiða til neikvæðrar niðurstöðu fyrir hana. Haft hafi verið sambandi við seljandann til að sannreyna þessa staðhæfingu um munnlegt loforð íbúa en seljanda reki ekki minni til þess að hafa sett þetta fram með þeim hætti sem álitsbeiðandi fullyrðir. Hún hafi keypt umrædda kjallaraíbúð með þessum ágalla sem hafi verið til staðar frá því fyrri íbúar fóru að reyna endurbætur veggnum og selt íbúðina þannig. Þó hafi það einhvern tímann verið rætt óformlega á húsfundi, að sögn seljanda, hvort auðvelda mætti eiganda endurbætur á veggnum ef það yrði auðvelt og kostnaðarlítið að færa töfluna eitthvað fram. Aldrei hafi verið rætt um eða farið fram á það að gagnaðili greiddi fyrir viðgerðina. Tryggingarféð hafi hún ekki fengið til baka enda hafi það verið samkomulag að kaupandi héldi því, ef ekki yrðu gerðar þær endurbætur á veggnum þegar það væri orðið raunhæft, kaupandi sæi þá um það sjálfur. Gagnaðili telur að með því hafi álitsbeiðandi fengið í upphafi fullar bætur fyrir vegginn. Seljandinn sé fús að staðfesta þetta skriflega. Gagnaðili telur fullvíst að álitsbeiðandi hafi verið fullkomlega meðvituð um ákvæði afsalsins hvað þetta varði enda hafi hún beðið í 6 ár með að leggja fram sína fyrstu kröfu um endurbætur á kostnað gagnaðila. Hafi það þá verið lagt fram með þeim hætti eins og um nýlegar skemmdir væri að ræða, taflan væri laus og að ýta veggnum til. Rangt sé að gagnaðili hafi ekki efnt umrætt „loforð“ þar sem aldrei hafi verið minnst á þetta af þeirra hálfu fyrr en árið 2003 og ekkert sem styðji þá fullyrðingu hvorki úr fundagerðarbók né annað. Fullyrðingin sé ósönn með öllu. Það sé umhugsunarvert hvers vegna álitsbeiðandi hafi beðið svona lengi með að leggja fram kröfu ef hún telur rétt sinn ótvíræðan á hendur gagnaðila. Hvort reynt hafi verið að lagfæra vegginn á þessum 6 árum skuli ósagt en ljóst sé að það hafi þá farið á sama veg og áður. Rúm 7 ár séu liðin frá því gagnaðili greiddi fyrir endurbætur á veggnum sem gert hafi verið árið 2003 af eintómum greiðaskap annarra íbúa. Sú greiðasemi bindi ekki gagnaðila til að standa í innanhússviðgerðum fyrir álitsbeiðanda til frambúðar. Slík kvöð myndi verðfella aðrar íbúðir vegna óvissukostnaðar sem sífellt gæti dúkkað upp og vera fordæmi fyrir kröfum eigenda ámóta íbúða víðs vegar um bæinn þar sem álíka byggingarháttur hafi verið viðhafður.

Álitsbeiðandi fullyrði í rökstuðningi sínum að strax hafi verið látið vita af misheppnaðri viðgerð sem gerð hafi verið að þeirra fyrirmælum og krafist úrbóta en þáverandi formenn húsfélagsins hafi neitað að taka málið upp þrátt fyrir að fjölmargar skriflegar beiðnir hafi verið lagðar fram. Þessi fullyrðing sé hvorki studd með framlögðum bréfum, dagsetninga getið né með afritum úr fundagerðabók. Gagnaðili hafni þessum fullyrðingum sem ósönnum og bendir á að stjórnin hafi fyrst fengið að vita af þessu nær 7 árum eftir umrædda viðgerð eða í desember 2010 og hafi það verið sjálfsagt mál, eins og lög geri ráð fyrir, að ræða öll umbeðin mál.

Gagnaðili hafnar því alfarið að taka þátt í kostnaði við útlitslagfæringar á íbúð álitsbeiðanda og bendir á að álitsbeiðandi hafi þegar fengið tvívegis greitt fyrir umrætt útlitslýti annars vegar frá seljanda við kaupin og síðar frá sameiginlegum sjóði árið 2003. Álitsbeiðandi hafi átt að nota það fé sem fékkst í afslátt af íbúðinni frá fyrri eiganda til viðgerða og klæða vegginn strax með plötum sem hafi að mati múrara og annarra fagmanna verið eina varanlega endurbótin.

Þá bendir gagnaðili á að við byggingu blokkarinnar hafi allur kjallarinn verið skipulagður sem sameign og sá hluti sem nú sé kjallaraíbúð sé ætlað sem leik- og tómstundasvæði íbúa. Byggingaraðilar hafi síðar skipulagt íbúð í kjallara og tekið það rými úr sameign. Hafi kjallaraíbúðin verið ósamþykkt fram til ársins 1973. Þegar umræddur veggur hafi verið steyptur hafi verið tekið úr veggnum í uppslætti til að koma fyrir rafmagnstöflu stigagangsins. Hafi þetta verið gert víða í hverfinu með þessum hætti. Gatinu hafi síðan verið lokað hinu megin með ýmsum hætti oft með krossviðar- eða blikkplötum. Síðar hafi íbúar í þessum íbúðum oft reynt að fegra þetta lýti með því að múra og slétta veggina hjá sér með misgóðum árangri. Árið 2003 hafi álitsbeiðandi gert kröfu um að þetta yrði lagfært á kostnað gagnaðila með þeim rökum að rafmagnstaflan væri laus og á hreyfingu og væri að ýta veggnum sínum inn. Hafi það verið samþykkt að kanna viðgerð á þeim forsendum. Síðar hafi það komið í ljós að rafmagnstaflan væri pikkföst og engin hreyfing á henni og sé svo enn. Engar sprungur séu út frá rafmagns-töflunni sameignarmegin, sem væru ef hún væri laus og á hreyfingu, og ekkert skrölt á henni. Telur gagnaðili fullvíst að umrædd skemmd á vegg íbúðarinnar sé ekki vegna töflunnar heldur sökum þess hvemig þetta hafi upphaflega verið byggt og seinni tíma tilraunir til endurbóta.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að einkasamningurinn í afsali hafi verið á milli seljanda og kaupenda íbúðarinnar og komi gagnaðila ekki við. Sá samningurinn hafi verið gerður til að tryggja að kostnaðarhluti kjallaraíbúðar lenti ekki á kaupendum, þar sem lagfæringu og frágangi á rafmangstöflu hafi ekki verið lokið af hálfu seljanda, eins og fram komi í samningnum. Upphæðinni sem D hafi haldið eftir inn á bankabók, hafi því eingöngu verið ætluð til að tryggja að kostnaður við þá framkvæmd, myndi örugglega ekki lenda á kaupendum, heldur seljanda. Álitsbeiðandi hafi aldrei fengið greiddar út þessar 30.000 kr. sem D hafi haldið eftir eins og gagnaðili haldi fram. Heldur hafi kostnaður við misheppnaða viðgerð á vegg, lent á kaupendum sjálfum, þar sem greitt hafi verið fyrir viðgerðina árið 2003 úr sameiginlegum sjóð húsfélagsins sem álitsbeiðandi hafi ávallt greitt í.

Álitsbeiðandi velti fyrir sér hvers vegna hafi verið talin þörf á að færa rafmagnstöfluna á þessum tíma eins og gagnaðili hafi upplýst um ef skemmdimar á veggnum hafi ekkert með rafmagnstöfluna að gera. Grunur eða vitneskja um að rafmangstaflan hafi verið valdur að sprunguskemmdum sem mynduðust þá á rafmagnstöfluvegg, sem snúi inn í íbúð álitsbeiðanda, virðist þá hafa verið til staðar.

Rangt sé að um nýja skemmdin á veggnum hafi verið að ræða af völdum rafmagnstöflunnar. Þegar gagnaðili hafi ákveðið að taka að sér viðgerðina hafi veggurinn verið í nákvæmlega sama ástandi og þegar íbúðin var keypt 1997. Eigendur hafi ekki hreyft við honum þar sem þau hafi haldið að seljandi myndi klára málið þ.e. lagfæringu og frágangi á rafmangstöflu eins og til hafi staðið og komi fram í einkasamningi milli seljanda og kaupenda. Eigendur hafi því ekki hróflað við veggnum og beðið þolinmóð eftir að seljandi leysti úr málinu. Á endanum hafi álitsbeiðandi ákveðið að ganga í málið og m.a. boðið öðrum íbúum að skoða vegginn. Álitsbeiðendur minnist þess að íbúamir hafi komið að skoða vegginn m.a. E þáverandi formaður húsfélagsins, gjaldkeri þess og umræddur múrarameistari, tveir síðastnefndu búi enn í húsinu og ættu að geta staðfest þetta. Skemmdin á veggnum hafi verið staðbundin sprungumyndun á bakhlið hans, á þeim stað þar sem bakhlið töflunnar sé staðsett, og sprungumyndun formaðist nákvæmlega eftir stærð og útlínum töflunnar.

Rafmagnsfræðingur hafi verið fenginn til að kanna kostnað við að láta færa rafmagnstöfluna og gagnaðili hafi ákveðið að fara ekki í þær framkvæmdir, þar sem hún var talin of viðamikil og kostnaðarsöm. Á aðalfundi húsfélagsins 2003 hafi verið samþykkt að kosta viðgerð ef viðurkenndur múrarameistari yrði fengin í verkið. Þegar að viðurkenndur múrarameistari hafi brotið í burtu múrhúð bakvið töfluna, hafi komið í ljós að hún liggur djúpt inn í burðarvegginn, þannig að þunnt lag múrhúðar sé milli veggjarins og baks töflunnar. Múrarinn hafi talið líklegt að múrhúð veggsins íbúðarmegin springi, af völdum hreyfmgar, sem væru af einhverjum ástæðum á baki töflunnar, sem sé úr einhverskonar blikkefni. Hann hafi ákveðið að best væri að gera við vegginn með því að festa múraranet út í fastavegg og múra svo yfir. Sú viðgerð hafi ekki verið nógu vel gerð og múrhúðin hafi strax farið að springa. Gagnaðili hafi greitt fyrir viðgerðina. Forsvarsmenn gagnaðila hefðu því auðveldlega getað fengið staðfesta þá útskýringu frá múrarameistaranum. Sú ásökun sem komi fram í bréfi gagnaðila um að álitsbeiðandi hafi skáldað skýringu um að taflan valdi skemmdum á veggnum, til þess að styrkja kröfu um að veggurinn yrði lagaður á kostnað gagnaðila sé röng. Sá tími sem liðinn sé frá því að misheppnaða viðgerðin hafi verið framkvæmd árið 2003 sé ekki vegna viljandi aðgerðarleysis álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi hafi m.a. tilkynnti það munnlega til þáverandi gjaldkera sem búi enn í húsinu og til þáverandi formanns húsfélagsins 2003 um hvemig viðgerðin hafi farið og látið vita að ekki næðist í múrarann. Þá hafi álitsbeiðandi óskað eftir að málið yrði klárað af hálfu gagnaðila. Álitsbeiðanda hafi þá verið tjáð að búið væri að greiða reikninginn og málinu væri lokið af hálfu gagnaðila. Enginn vilji hafi verið af hálfu fyrrum stjómar húsfélagsins að gera neitt í málinu og beiðnir álitsbeiðanda í gegnum tíðina ávallt hundsaðar og ekki færðar til bókar. Sú ákvörðun álitsbeiðanda að senda beiðni á núverandi formann hafi verið gerð í von um að málið yrði bókað, tekið fyrir á húsfundi og lokið. Formaðurinn hafi tekið við skriflegri beiðni og pantað múrara sem hafi komið og tekið út vegginn sem gagnaðili rengi nú að rétt sé metið af hálfu múrarameistara. Skilningur álitsbeiðanda sé sá að gagnaðili hafi samþykkt árið 2003 að taka að sér viðgerðina og þar sem viðgerðin hafi strax verið misheppnuð eigi eftir að ljúka málinu. Ekki sé verið að fara fram á endalausar fegrunaraðgerðir á veggnum heldur að gagnaðili ljúki viðgerðinni sem það tók að sér árið 2003 á viðunandi og varanlegan hátt. Hræðsla formanna húsfélagsins um óvissukostað í framtíðinni og hættu á verðfalli íbúða vegna þessa máls sé að mati álitsbeiðanda tilefnislaust.

Gagnaðili bendir á að afsöl séu opinber gögn og öllum aðgengileg. Vísað hafi verið í áætlað samkomulag sem skuldbinda eigi gagnaðila og ætti að standa í afsali, því komi það gagnaðila við. Engin slík skuldbinding sé í afsalinu. Réttilega sé bent á að í afsali sé samningur milli seljanda og kaupenda um uppgjör vegna þessa og það hafi farið fram milli þeirra og komi því ekki gagnaðila við. Bæturnar samkvæmt afsalinu séu til komnar vegna þess að eigandi íbúðarinnar átti að sjá um frágang á innra byrði veggjarins á eigin kostnað. Málinu sé þar með lokið og ekki hægt né löglegt að krefja frekari bóta vegna þessa síðar á hendur seljanda eða þriðja aðila. Í samtali við fasteignasalann sem gerði afsalið hafi komið fram að undantekningarlaust væri það kaupandi sem myndi krefjast þess að haldið væri eftir af kaupverði ef um ólokin verk eða grun um galla væri að ræða. Þessu væri alla jafna ekki haldið í þeirra vörslu lengur en sex mánuði og þá væri gert upp við aðila málsins. Fasteignasalan hafi verið lögð niður árið 2000 og öll útistandandi mál gerð upp enda vaninn að kaupandi fylgi kröfu sinni eftir og innheimti haldlagt fé. Í þessu tilfelli hefði þetta verið gert upp á árinu 1998. Hvemig endanlegt uppgjöri milli þeirra hafi verið háttað komi gagnaðila ekki við. Hinsvegar vill gagnaðili taka fram að aðrir íbúar sem greiða í hússjóðinn hafa greitt fyrir umrædda viðgerð þó svo að þeim hefði ekki borið nein lagaleg skylda til þess. Hvorki íbúum né gagnaðila sé skylt að taka ábyrgð á þeirri vinnu langt umfram ábyrgð iðnaðarmannsins sjálfs ef um galla í framkvæmd vinnunnar hefði verið að ræða. Gagnaðili ítrekar að ekkert hafi heyrst af þessum vegg frá árinu 2003 þar til í desember 2010. Rafmagnstaflan og veggurinn sem hún sé í séu byggð samkvæmt þágildandi byggingareglugerðum og lögleg í alla staði. Taflan sé inni í burðarveggnum en nái ekki til þess hluta veggjarins sem tilheyrir íbúðinni. Ljóst sé þó að langt sé síðan fyrst hafi verið gerð tilraun til að fegra vegginn með þeim hætti sem gert hafi verið fram að þessu og ávallt mistekist. Ný múrhúð nái engri bindingu við slétta málmbakhlið töflunnar, þannig að taflan sjálf sé ekki orsakavaldur lýtisins. Frá upphafi hafi ekki verið gert ráð fyrir að þetta væri gert þar sem ný múrhúð muni heldur ekki ná varanlegri bindingu við múrhúð innveggjarins og springa út frá útlínum gatsins íbúðarmegin vegna hreyfingar byggingarinnar en ekki töflunnar. Ámóta lýti megi sjá víða þar sem múrað hafi verið upp í hurðargöt og glugga í burðarveggjum. I athugasemdum álitsbeiðanda sé talað um þolinmæði þeirra eftir að seljandi gerði við vegginn allt til ársins 2003 en í upphaflega sé talað um að gagnaðili hafi ekki efnt loforð um viðgerðir fyrr en árið 2003. Það loforð hafi aldrei verið til staðar og hefði álitsbeiðanda verið auðvelt að leggja slíka kröfu fram, ef hann hefði talið að húsfélagið skuldaði þeim viðgerð, sér í lagi þar sem hann hafi verið formaður húsfélagsins frá ágúst 1998 til maí 2000. Hefði hann á þessum tíma getað lagt málið fram við sjálfan sig, tekið það upp á húsfundum og látið bóka athugasemdir og kvartanir varðandi málið. Það hafi ekki verið gert og í því felist viðurkenning á að álitsbeiðanda hafi verið fullkunnugt um ákvæði afsalsins og að þau hefðu þegar fengið lýti veggjarins bætt að fullu.

 

III.   Forsendur

Samkvæmt 2. tl. 5. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús fellur allt innra byrði umliggjandi veggja, gólfa og lofta, þar á meðal einangrun, undir séreign fjöleignarhúss. Þá falla allir milliveggir sem ekki eru jafnramt burðarveggur undir séreign sbr. 3. tl. sömu greinar. Samkvæmt 2. tl. 8. gr. sömu laga fellur allt burðarvirki húss, grunnur, grunnplata, sökklar, burðaveggir og þakburðavirki undir sameign fjöleignarhúss. Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 43. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhúss fellir undir sameiginlegan kostnað fjöleignarhús allur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, sem snertir sameign fjöleignarhúss, bæði innan húss og utan, sameiginlega lóð þess og sameiginlegan búnað og lagnir, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjóranr húsfélagsins, almenns fundar þess og þeir ráðstöfunum sm einstakur eigandi hefur heimild til að gera. Samkvæmt 3.tl. sömu greinar fellur jafnframt undir sameiginlegan kostnað skaðabætur innan og utan samninga sem húsfélagi er gert að greiða og tjón á séreignum eða eignum annarra vegna bilunar eða vanrækslu á viðhaldi á sameign og sameiginlegum búnaði, sbr. 52. gr. laganna. Sameiginlegum kostnaði er auk þeirra kostnaðarliða sem sérstaklega eru tilgreindir í 1. mgr., m.a. fólginn í viðbyggingum, breytingum, endurbótum, endurnýjunum, viðhaldi, viðgerðum, umhirðu, hreingemingum, rekstri hússtjómar, tryggingagjöldum o.fl., skv. 2. mgr. 43. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.

í málinu er ágreiningslaust að húsfélagið hefur áður látið framkvæma viðgerð á umræddum vegg. Ágreiningur er hins vegar um það hvort hreyfing á rafmangstöflu sé orsök skemmdanna. Fyrir kærunefnd fer ekki fram hefðbundin sönnunarfærsla eins og fyrir dómi.

Það er álit kærunefndar að húsfélaginu beri að taka þátt í viðgerð á umræddum vegg ef rekja má skemmdimar á veggnum til rafmagnstöflu hússins. Ákvörðun um slíkar framkvæmdir ber að taka á húsfundi.

 

IV.   Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að kostnaður við viðgerð á múrvegg í íbúð álitsbeiðanda sé sameiginlegur kostnaður ef rekja má orsök skemmdanna til rafmagnstöflu hússins.

Reykjavík 22. september 2011

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Karl Axelsson

Ásmundur Ásmundsson

 Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira