Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 10/2012

Riftun: Fyrirframgreiðsla

 

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í málinu nr. 10/2012

 

Riftun: Fyrirframgreiðsla.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 14. mars 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 8. apríl 2012, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 24. júlí 2012, lagðar fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 24. september 2012.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 7. júní 2011, tók álitsbeiðandi á leigu kjallaraíbúð að D, í eigu gagnaðila. Um var að ræða tímabundinn leigusamning til eins árs frá 1. júní 2011 til 1. júní 2012. Álitsbeiðandi flutti úr íbúðinni í október 2011.

 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðilum beri að endurgreiða álitsbeiðanda fyrirframgreiðslu að fjárhæð 80.000 kr., auk dráttarvaxta til greiðsludags.

Í álitsbeiðni kemur fram að leki og mygla hafi verið í íbúðinni. Hinn 9. október 2011 hafi álitsbeiðandi sent tilkynningu til gagnaðila. Í henni hafi verið bent á samskipti aðila vegna ástands íbúðarinnar, þ.e. leka og myglu í svefnherbergi og geymslu. Lekinn hafi valdið skemmdum á svefnherberginu, parketi og hjónarúmi. Vandamálið hafi uppgötvast 26. júlí 2011 og hafi gagnaðilum verið tilkynnt um og sýndur lekinn strax. Gagnaðilar og maður frá tryggingafélagi hafi komið og skoðað skemmdirnar og leitað uppruna lekans og hafi veggur verið opnaður til þess. Heimsóknirnar hafi verið nokkrar og ein þeirra farið fram þegar álitsbeiðandi og eiginkona hans hafi ekki verið heima. Hafi gagnaðilar farið inn í íbúðina ásamt tveimur verktökum og borað göt í því skyni að þétta steypuvegg. Síðar hafi annar gagnaðila ásamt öðrum manni sett spónaplötu fyrir gatið á veggnum og sagst ætla að mála plötuna og festa við vegginn tímabundið. Hafi hann útskýrt að það gæti tekið allt næsta sumar að laga vegginn og hann vildi sjá hvort það kæmi annar leki. Álitsbeiðandi greinir frá því í tilkynningunni að hann hafi borgað fulla leigu fyrir ágúst en í september hafi hann og gagnaðilar gert með sér munnlegt samkomulag um 20.000 kr. afslátt. Í tilkynningunni greinir enn fremur að tveir mánuðir hafi liðið og platan sé hvorki máluð né föst og bæði lekinn og myglan hafi komið upp aftur. Þetta hafi verið tilkynnt öðrum gagnaðila 28. september 2011. Álitsbeiðandi greinir einnig frá því að ofnar í íbúðinni hafi verið óvenju kaldir og 8. október 2011 hafi þeir verið ískaldir. Hafi annar gagnaðila sagt að slökkt væri á ofnum hjá gagnaðilum yfir sumartímann eða takmarkað flæði í ofnunum en ofnarnir hjá álitsbeiðanda væru gamlir og það þyrfti líklega að skipta þeim út. Hinn 2. október 2011 hafi annar gagnaðila rætt við álitsbeiðanda vegna húsaleigunnar þann mánuð en álitsbeiðandi hafi haldið að afslátturinn myndi vera uns ástand íbúðarinnar yrði lagað. Hafi álitsbeiðandi boðist til að borga 20.000 kr. ef vandamálið yrði leyst. Gagnaðili hafi komið með hita- og rakamæli og sé hitinn í íbúðinni á milli 22 og 23 gráður (sem álitsbeiðanda finnist frekar kalt) og rakinn á bilinu 46 til 67 gráður en hann hafi farið stökum sinnum í 71 gráðu í svefnherberginu. Í íbúðinni séu engir gluggar og veðrið á haustin sé kalt hafi verið ómögulegt að hafa hurð opna á kvöldin. Álitsbeiðandi greinir frá því að markmið tilkynningarinnar hafi verið að lýsa aðstæðum þessa síðustu tvo mánuði fyrir tilkynninguna. Ástandið hafi valdið þeim miklum vandamálum og höfuðverkjum vegna myglu. Þá hafi álitsbeiðandi tekið eftir því að klósett íbúðarinnar var farið að leka 29. september 2011.

Álitsbeiðandi greinir frá því að gagnaðilar hafi sakað hann og eiginkonu hans um að hafa myndað mygluna. Einum og hálfum mánuði fyrir flutning álitsbeiðanda hafi ekkert flæði verið í ofnum íbúðarinnar og grunar álitsbeiðanda að gagnaðilar hafi slökkt á ofnunum þar sem þau hafi talað um að þau hefðu of heitt í íbúðinni. Hafi álitsbeiðandi þurft að kaupa sér færanlegan rafmagnsofn að fjárhæð 12.000 kr. Álitsbeiðandi hafi borgað fyrir októbermánuð og eftir það hafi gagnaðilar beðið hann um að flytja út fyrir lok mánaðarins. Aðstæðurnar hafi verið hræðilegar og samskiptin óbærileg. Álitsbeiðandi segir að upp hafi komið heilsuvandamál hjá þeim hjónum vegna ástands íbúðarinnar og annað þeirra misst úr vinnu í þrjá daga. Álitsbeiðandi kveðst hafa flutt út 19. október 2011. Álitsbeiðandi kveðst hafa farið 30. október 2011 í íbúðina til að þrífa hana, sækja dót og skila lyklum. Íbúðin hafi verið í óreiðu vegna framkvæmda og búið að brjóta niður vegginn og svo virst sem búið væri að laga vandamálið. Ómögulegt hafi verið að þrífa íbúðina vegna óreiðunnar eftir framkvæmdirnar. Álitsbeiðandi greinir enn fremur frá því að hann hafi borgað októbermánuð og sumar eigur hans hafi enn verið í íbúðinni þegar framkvæmdirnar fóru fram.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi fengið afnot af leiguíbúðinni viku fyrir tímabundinn samning þeirra og hann hafi ekki þurft að borga aukalega fyrir þá viku. Við gerð leigusamningsins hafi álitsbeiðanda verið gert það ljóst að fyrirframgreiðsla væri trygging gagnaðila ef eitthvað kæmi upp á. Álitsbeiðandi hafi átt erfitt með að greiða leigu í upphafi leigutímans og hafi gagnaðilar sýnt honum fullan skilning og gefið honum frest. Hafi álitsbeiðandi gengið frá fyrstu greiðslu 8. júní 2011. Íbúðin hafi verið nýmáluð þegar álitsbeiðandi tók við henni. Í fyrstu hafi allt gengið vel, gagnaðilar hafi fært eldhússkápa til að koma fyrir borðuppþvottavél í eigu álitsbeiðanda, borað gat á steyptan vegg til að koma fyrir tölvusnúru og gert við sturtuklefa eftir að álitsbeiðandi hafi tekið hann í sundur. Þegar gagnaðilar hafi komið úr sumarfríi 27. júlí 2011 hafi álitsbeiðandi tilkynnt um raka í íbúðinni. Gagnaðilar greinar frá því að þar sem þau hafi farið í heilmiklar framkvæmdir 2008 á lóð sem útveggurinn snýr að, skipt um dren við sökkul, veggurinn tjöruborinn, einangraður og lagður takkadúkur yfir, skipt um jarðveg í garðinum og upp við vegginn, hafi frétt um raka og myglu orðið töluvert áfall. Íbúðin hafi verið í útleigu frá 2008 og aldrei hafi komið upp rakavandamál eða annað. Gagnaðilar kveðast hafa kallað til sérfræðinga í epoxi-þéttingum á steypu sem hafi sprautað efninu í vegginn. Meira hafi ekki verið hægt að gera nema fylgjast með hvort rakinn myndi myndast aftur. Rífa hafi þurft hluta af einangrun af útveggnum og sett spónaplata yfir sárið. Hafi álitsbeiðanda verið gert kunnugt að gagnaðilar gætu ekki gert meira á þessum tíma nema fylgjast með gangi mála. Framkvæmdirnar hafi tekið rúmlega klukkutíma og hafi gagnaðilar boðist til að veita 20.000 kr. afslátt af leiguverði fyrir september, þ.e. álitsbeiðandi myndi greiða 60.000 kr. í stað 80.000 kr. Gagnaðilar greina frá því að sambýliskona álitsbeiðanda hafi flutt í íbúðina í lok júní 2011. Í ágústmánuði hafi álitsbeiðandi kvartað undan kulda í íbúðinni og hafi gagnaðilar sett hita- og rakamæli í íbúðina til að fylgjast með því. Samkvæmt mælinum hafi hitastigið verið eðlilegt. Gagnaðilar segja ásakanir álitsbeiðanda um að þau hafi skrúfað fyrir heita vatn íbúðarinnar séu úr lausu lofti gripnar. Lagnagrind hússins sé staðsett í íbúð álitsbeiðanda. Ofnakerfið fyrir húsið (íbúð gagnaðila og álitsbeiðanda) sé ein heild og ef skrúfað væri fyrir íbúð álitsbeiðanda væri einnig skrúfað fyrir íbúð gagnaðila. Álitsbeiðandi hafi haldið áfram að kvarta undan hitastigi íbúðarinnar í september og hafi mælirinn sýnt eðlilegt hitastig en rakastig verið hátt á vissum tímabilum. Gagnaðilar kveðast hafa bent álitsbeiðanda á að rakastigið væri hátt og hafi það sést greinilega á því að gluggarnir í íbúðinni hafi verið blautir og pollar í þeim. Hafi álitsbeiðandi viljað meina að þetta væri vegna þess að hann væri að þurrka fötin sín. Gagnaðilar greina frá því að álitsbeiðandi hafi ekki opnað glugga í íbúðinni vegna þess að sambýliskonu hans hafi verið svo kalt. Í október 2011 hafi álitsbeiðandi greitt 60.000 kr. í stað 80.000 kr. Hafi gagnaðilar spurt álitsbeiðanda hvort hann hafi óvart greitt honum of lága leigu og álitsbeiðandi hafi svarað með miklum hroka og neitað að greiða fulla leigu. Hafi álitsbeiðandi sagt að hann vilji ekki greiða fulla leigu vegna þess að það væri gat á veggnum. Hafi gagnaðilar ítrekað að platan yrði að vera á veggnum meðan rakastig íbúðarinnar væri hátt til að fylgjast með því hvort frekari raki væri að myndast og leigan yrði ekki lækkuð frekar. Hafi álitsbeiðandi sagt að hann vildi hætta að leigja íbúðina en þar sem hann væri ekki kominn með aðra íbúð hafi hann viljað fá nokkra daga frest til að ákveða hvaða mánaðamót hann myndi vilja fara úr íbúðinni. Hafi gagnaðilar ítrekað að hann ætti eftir að greiða 20.000 kr. og þær myndu dragast af tryggingarfjárhæðinni. Hafi álitsbeiðandi reiðst við þetta og beðið um að öll samskipti færu fram í gegnum tölvupóst. Hinn 11. október 2011 hafi gagnaðilar fengið tölvupóst frá álitsbeiðanda þar sem þau séu sökuð um aðgerðaleysi vegna raka og kulda í íbúðinni. Gagnaðilar greina frá því að álitsbeiðandi hafi verið vel upplýstur um að platan væri til að fylgjast með því hvort rakinn kæmi upp aftur en á þeim tíma hafi ekki verið raki í veggnum þrátt fyrir mikinn raka í íbúðinni samkvæmt mælinum. Útveggurinn var einangraður að utan og því hafi sárið á veggnum ekki getað leitt kulda inn í íbúðina og rakinn í íbúðinni hafi verið svo mikill að vatnskassinn á klósettinu hafi „grátið“ en ekki lekið frá klósettinu sjálfu. Gagnaðilar hafi ítrekað fyrir álitsbeiðanda að opna glugga betur. Hafi gagnaðilar haft áhyggjur af því að gluggarnir væru aldrei opnir en ekki „sakað leigutaka“ um að mynda myglu í íbúðinni. Gagnaðilar hafi ítrekað við álitsbeiðanda að finna sér aðra íbúð sem fyrst en aldrei beðið hann um að fara úr íbúðinni við næstu mánaðamót. Álitsbeiðandi hafi sagt sjálfur upp samningnum munnlega 6. október 2011. Í kringum 24. október 2011 hafi gagnaðilar orðið vör við að álitsbeiðandi flutti úr íbúðinni. Þann 26. október 2011 hafi íbúðin verið nánast tóm fyrir utan ryksugu og sjónvarp. Rakastig samkvæmt mælinum hafi þá orðið eðlilegt og gagnaðilar reynt að hafa samband við álitsbeiðanda símleiðis til að fá að fara inn í íbúðina og fá fagaðila til að skoða sárið á veggnum. Álitsbeiðandi hafi aldrei svarað í símann og 28. október hafi annar gagnaðila farið inn í íbúðina með fagaðila til að athuga hvort raki væri í veggnum og til að loka honum ef svo væri ekki. Gagnaðilar kveðast hafa verið búin að fá samþykki álitsbeiðanda til að fara út í þessa aðgerð og þar sem hann hafi ekki svarað símtölum hafi þau ákveðið að framkvæma hana. Hinn 1. nóvember 2011 hafi álitsbeiðandi verið búinn að tæma íbúðina að mestu leyti en hún hafi verið óþrifin og mikið rusl í henni. Þá hafi álitsbeiðandi ekki verið búinn að skila lyklunum. Gagnaðilar kveðast hafa haft samband við Kópavogsbæ sem hafi sagt að leigusamningurinn væri enn í gildi og álitsbeiðandi væri enn að þiggja húsaleigubætur vegna íbúðarinnar. Hinn 2. nóvember hafi álitsbeiðandi sent gagnaðilum tölvupóst og sagst vera að bíða eftir endurgreiðslunni. Gagnaðilar hafi ekki svarað póstinum heldur beðið eftir því að hann skilaði lyklunum og gengi almennilega frá íbúðinni. Gagnaðilar hafi viljað fara yfir íbúðina og fullvissa sig um að íbúðin væri í sama standi og þegar álitsbeiðandi hafi fengið hana afhenta. Hinn 4. nóvember hafi álitsbeiðandi hringt í gagnaðila og viljað fá endurgreitt. Hafi gagnaðilar ítrekað að álitsbeiðandi myndi fá 60.000 kr. tryggingu afhenta, þ.e. að frádregnum 20.000 kr. fyrir októbermánuð, um leið og hann væri búinn að skila lyklunum, segja upp leigusamningnum og skila íbúðinni í réttu ástandi. Eftir þetta hafi álitsbeiðandi komið heim til gagnaðila og þau hafi boðið honum að hann fengi endurgreiddar 60.000 kr. ef hann þrifi baðherbergið og skápana í íbúðinni. Hafi álitsbeiðandi ætlað að hugsa málið en gagnaðilar hafi aldrei heyrt í honum aftur. Gagnaðilar greina frá því að íbúðin hafi verið mjög illa farin eftir álitsbeiðanda, hún hafi verið skítug, þá sérstaklega baðherbergi, eldhús, ísskápur og eldavél, og skemmdir á gardínum í stofunni. Hafi gagnaðilar þurft að eyða miklum tíma í að þrífa alla íbúðina, mála hana og laga. Þau hafi misst mánuð úr leigu á íbúðinni vegna þessa. Gagnaðilar segja álitsbeiðanda ekki hafa rift samningnum fyrr en eftir leiðbeiningar frá sýslumanninum í Kópavogi. Þá greina gagnaðilar frá því að á þeim tíma sem álitsbeiðandi var með íbúðina á leigu hafi notkun á heitu vatni aukist mikið og þau hafi fengið bakreikning frá Orkuveitu Reykjavíkur að fjárhæð 27.000 kr. sem jafngildi hálfs árs notkun á heitu vatni miðað við fyrri notkun gagnaðila.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að gagnaðilar hafi vikið sér undan því að lagfæra hluti sem þeim hafi borið lagaleg skylda að sinna samkvæmt ákvæðum húsaleigulaga, nr. 36/1994. Dráttur hafi orðið á viðgerð þegar það hafi byrjað að leka inn í svefnherbergi íbúðarinnar, ofnar hafi verið ískaldir vikum saman, leki við salerni og loftræsting ófullnægjandi. Margoft hafi verið kvartað undan raka og kulda og samningaleiðin reynd en án árangurs. Álitsbeiðandi greinir frá því að hann geti kallað til vitni um ástand íbúðarinnar og umgengi þeirra hjóna. Álitsbeiðandi ítrekar að þrátt fyrir að hann hafi greitt leigu fyrir októbermánuð hafi gagnaðilar farið inn í íbúðina í múrbrot og aðrar framkvæmdir. Hafi gagnaðilar skilið íbúðina eftir í ryki og drullu og leyft sér að halda eftir tryggingarfé því íbúðin hafi ekki verið nægilega vel þrifin. Álitsbeiðandi hafi komið í íbúðina 30. október til að sækja restina af dótinu sínu og þá hafi hún verið skítug eftir framkvæmdirnar. Gagnaðilar hafi aldrei haft samband við álitsbeiðanda um framkvæmdirnar og séu fullyrðingar um það úr lausu lofti gripnar. Einn gluggi sé á íbúðinni og sé hann um 40 cm á hvern kant og því hafi verið ógerlegt að ætlast til þess að unnt væri að laga vandamálið með því að hafa hurð og glugga opin. Kveðst álitsbeiðandi hafa staðið við allar skuldbindingar sínar samkvæmt húsaleigulögum. Þegar viðhaldi íbúðarinnar hafi verið ábótavant hafi leigusamningurinn í raun fallið úr gildi skv. 60. gr. laganna. Álitsbeiðandi hafi þó sagt upp leigunni með góðum fyrirvara strax í byrjun október og telur gagnaðila ekki hafa sinnt lögboðnu viðhaldi húsnæðisins sem sé brot á 19. gr. húsaleigulaga. Íbúðin hafi ekki verið hæf til útleigu í september og október 2011 og því sé eðlileg krafa álitsbeiðanda um afslátt, vegna verulegra skertra afnota af húsnæðinu, að fjárhæð 20.000 kr. skv. 21. gr. húsaleigulaga, fyrir hvorn mánuð um sig. Álitsbeiðandi greinir frá því að hafi gagnaðilar viljað fara að lögum hafi þeim borið að gera skriflega kröfu í tryggingarféð innan tveggja mánaða frá skilum, sbr. 64. gr. húsaleigulaga. Þá hafi gagnaðilar heldur ekki fengið matsmenn. Álitsbeiðandi ítrekar að gagnaðilar hafi farið í óleyfi inn í íbúðina en hann hafi að mestu verið búinn að þrífa hana fyrir framkvæmdir gagnaðila. Hafi álitsbeiðandi ætlað að leggja lokahönd á þrifin 30. október og skila lyklunum. Álitsbeiðandi ítrekar að gagnaðilar hafi verið búin að samþykkja að endurgreiða honum í tölvupósti og þau hafi verið búin að skoða íbúðina oft án þess að kvarta undan umgengi. Álitsbeiðandi telur gagnaðila hafa brotið á stjórnarskrárvörðum rétti sínum til friðhelgi einkalífs þegar þau hafi farið inn í íbúðina.

 

III. Forsendur

Í málinu liggur fyrir tímabundinn leigusamningur, dags. 7. júní 2011, frá 1. júní 2011 til 1. júní 2012. Fjárhæð leigunnar var ákveðin 80.000 kr. á mánuði og greiddi álitsbeiðandi einn mánuð fyrirfram. Var álitsbeiðanda veittur 20.000 kr. afsláttur af leigu septembermánaðar og greiddi því 60.000 kr. fyrir september 2011. Álitsbeiðandi greiddi einnig 60.000 kr. í leigu fyrir október 2011. Gagnaðilar byggja á því að álitsbeiðanda hafi borið að greiða 80.000 kr. í leigu fyrir október 2011 en ekki 60.000 kr. og hafna því að endurgreiða álitsbeiðanda fyrirframgreiðsluna enda hafi þau ekki getað leigt út íbúðina í einn mánuð.

Samningur aðila var tímabundinn leigusamningur. Tímabundnum leigusamningi lýkur á umsömdum degi án sérstakrar uppsagnar eða tilkynningar af hálfu aðila, sbr. 1. mgr. 58. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Uppsögn samningsins var því óheimil án samkomulags aðila.

Þá kemur til skoðunar hvort álitsbeiðanda hafi verið heimilt að rifta samningnum. Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 60. gr. húsaleigulaga er leigjanda heimilt að rifta leigusamningi ef leigusali bætir eigi úr annmörkum á hinu leigða húsnæði skv. 17. gr laganna. Riftunarheimild þessi er bundin því skilyrði að leigjandi hafi gefið leigusala færi á að bæta úr annmörkum á húsnæðinu, sbr. 16. og 17. gr. húsaleigulaga, og leigusali ekki sinnt slíkri kröfu.

Af hálfu álitsbeiðanda er á því byggt að leka hafi orðið vart í íbúðinni í júlí 2011 og hafi gagnaðilum strax verið gert viðvart um hann. Hafi veggurinn verið opnaður og spónaplata sett í staðinn. Þá hafi ofnar verið kaldir og mikill raki og mygla í íbúðinni. Enn fremur hafi klósettið byrjað að leka 29. september 2011. Gagnaðilar byggja á því að viðgerðin hafi tekið rúmlega klukkustund. Rífa hafi þurft hluta af einangrun af útveggjum og hafi spónaplata verið sett í staðinn til að hægt væri að fylgjast með ástandinu. Vegna þessa hafi álitsbeiðanda verið veittur 20.000 kr. afsláttur af leigunni. Í ágústmánuði hafi verið kvartað undan kulda í íbúðinni og hafi gagnaðilar sett hita- og rakamæli í íbúðina og samkvæmt mælinum hafi hitastig verið eðlilegt. Í september hafi mælirinn sýnt eðlilegt hitastig en rakastig verið hátt á vissum tímabilum og hafi gagnaðilar ítrekað við álitsbeiðanda að opna þyrfti glugga til að lofta út. Þegar álitsbeiðandi flutti út hafi rakastig íbúðarinnar verið eðlilegt.

Í málinu liggur fyrir tilkynning álitsbeiðanda til gagnaðila, dags. 9. október 2011, um ástand húsnæðisins. Ekki er um að ræða yfirlýsingu um riftun en í bréfinu er meðal annars bent á að tveir mánuðir séu liðnir og sé spónaplatan hvorki máluð né föst og hafi bæði lekinn og myglan komið aftur og hafi gagnaðila verið tilkynnt það 28. september 2011.

Ljóst er að aðila greinir í verulegum atriðum á um staðreyndir í máli þessu. Fyrir liggur að leki var í umræddum vegg sem var opnaður. Ekki var farið í fullnaðarviðgerð á veggnum þar sem fylgjast átti með því hvort viðgerðin hefði tekist og því sett spónaplata fyrir gatið til bráðabirgða. Ágreiningur er hins vegar um annað í málinu, svo sem hvort hita- og rakastig hafi verið eðlilegt og ef ekki af hvaða orsökum það hafi verið. Leigjandi ber sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði til riftunar á leigusamningi séu fyrir hendi. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að svo hafi verið. Samkvæmt því verður að telja ósannað að skilyrði til riftunar hafi verið fyrir hendi í þessu máli. Kærunefnd bendir hins vegar á að málsmeðferð nefndarinnar felur ekki í sér sönnunarfærslu á borð við þá sem fram fer fyrir dómi. Því gætu mögulega komið fram sannanir sem breyttu þessari niðurstöðu nefndarinnar, væri mál þetta rekið fyrir dómi með þeirri sönnunarfærslu sem þar fer fram. Með vísan til framangreinds er kröfu álitsbeiðanda hafnað.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðilum beri ekki að endurgreiða álitsbeiðanda fyrirframgreiðslu að fjárhæð 80.000 kr., auk dráttarvaxta til greiðsludags.

 

Reykjavík, 24. september 2012

 

Guðfinna Jóh. Guðmundsdóttir

Benedikt Bogason

Ásmundur Ásmundsson


 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira