Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2012

Kostnaðarþátttaka: Svalir og svalalokanir. Ákvörðun húsfundar.

 

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 30/2012

 

Kostnaðarþátttaka: Svalir og svalalokanir. Ákvörðun húsfundar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 26. júní 2012, beindi Húseigendafélagið, f.h. A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Álitsbeiðni var lögð fyrir nefndina en gagnaðili skilaði ekki greinargerð. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. október 2012.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls 20 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar C. Ágreiningur er um kostnaðarhlutdeild álitsbeiðanda í svalalokunum.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að honum beri ekki að taka þátt í kostnaði við kaup og uppsetningu á svalalokunum.

Í álitsbeiðni kemur fram að sumarið 2010 hafi verið ákveðið að ráðast í utanhússviðgerðir og þá komið til tals að setja upp svalalokanir á húsið. Á fundi húsfélagsins þann 29. júní 2010 mætti starfsmaður D-arkitekta og kynnti ástandsskoðun og viðhaldsmat á ytra byrði hússins. Kynntar voru tvær lausnir í viðgerðum á vesturhlið hússins þar sem eru svalir; annars vegar að skipta um glugga, svalahurðir og klæða inn á svalir og hins vegar að loka svölunum, en sá síðarnefndi var dýrari kosturinn. Síðar kom í ljós að ekki hefði þurft að skipta um glugga og svalahurðir og jók það því enn fremur á kostnaðarmuninn. Á fyrrgreindum húsfundi hafi komið fram að allir eigendur þyrftu að samþykkja þessa útlitsbreytingu en eigendur hverrar íbúðar hefðu val um hvort þeir létu loka svölum eða klæða inn á þær. Álitsbeiðandi segir utanhússviðgerðir og svalalokanir hafa verið samþykktar á húsfundinum og samþykkt verið að leita tilboða í hvort tveggja.

Álitsbeiðandi segir að umræða hafi skapast á húsfundi um íbúðir á jarðhæð, en álitsbeiðandi er eigandi annarrar þeirra. Hann hafi látið starfsmann D-arkitekta vita daginn eftir fundinn að hann vildi ekki láta setja upp svalalokun hjá sér. Þetta hafi hann ítrekað á næsta húsfundi sem var þann 15. september 2010 og tjáð öðrum fundargestum að hann vildi heldur láta klæða inn á svalirnar, og hafi þetta verið samþykkt á fundinum. Álitsbeiðandi segir einhvern misbrest hafa orðið á því að allar upplýsingar hafi verið skráðar í fundargerð og nefnir sem dæmi að tillaga hans og samþykki hennar hafi ekki skilað sér nema að hluta í hana. Álitsbeiðandi segir fundargerð óljósa og tillögur mótsagnakenndar. Álitsbeiðandi telur sig eingöngu hafa samþykkt útlitsbreytinguna, þ.e. „leyft“ svalalokanir, en ekki að húsfélagið setti þær upp á sinn kostnað.

Álitsbeiðandi segir að hann hafi sent fyrirspurn til D-arkitekta, sem ákveðið var myndu hafa umsjón og eftirlit með framkvæmdunum, þann 23. janúar 2011. Hann hafi fengið svar 7. febrúar og verið tilkynnt að endanleg kostnaðaráætlun muni liggja fyrir í apríl 2011. Álitsbeiðandi segist ekki hafa áttað sig á því strax og greiðsluseðlar hafi farið að berast. Innheimt hafi verið af honum hluta af kostnaði við svalalokanirnar, en það hafi komið í ljós þegar starfsmaður D-arkitekta sendi út upplýsingar um endanlegar greiðslur frá hverjum eignarhluta. Álitsbeiðandi segir að á þeim hafi sést að ekkert tillit hafi verið tekið til mismunandi stærða á svalalokunum og ekki verið horft til þess að samþykkt hafði verið að setja ekki upp svalalokanir á jarðhæð hússins. Álitsbeiðandi gerði athugasemdir við þetta við D-arkitekta og segist hafa fengið svör á þá leið að húsfélagið hefði ákveðið greiðslurnar þannig að kostnaður við framkvæmdirnar skiptust eftir hlutföllum á alla eigendur hússins.

Álitsbeiðandi hafi beint fyrirspurn að gagnaðila og reynt meðal annars að koma á framfæri bréfi með formlegri ósk um endurútreikning á framkvæmdakostnaði en enginn stjórnarmeðlima hafi samþykkt að taka við bréfinu. Samþykkt hafi verið að boða á ný til húsfundar og láta álitsbeiðenda sjálfan leggja málið fyrir húsfélagið. Álitsbeiðandi hafi kynnt sín sjónarmið í málinu þann 5. janúar 2012 og húsfélagið hafi samþykkt kröfur hans um að það endurreiknaði alla útreikninga D-arkitekta við framkvæmdirnar með hans athugasemdir í huga, þ.e. að hann tæki ekki þátt í að greiða fyrir svalalokanir og vinnu við uppsetningu þeirra, ásamt öðru sem ágreiningur hafi verið um, auk þess að húsfélagið réði til þess sérfræðing á sviði fjöleignarhúsamála og laga um fjöleignarhús. Í kjölfar húsfundar hafi húsfélagið haft samband við Eignaumsjón sem hafi tekið að sér að reikna út rétta kostnaðarskiptingu. Síðar hafi komið í ljós að húsfélagið hafi ekki skilað inn þeim gögnum sem þurfti til að reikna út rétta kostnaðarskiptingu.

Gagnaðili skilaði ekki greinargerð.

  

III. Forsendur

Í 1. mgr. 58. gr. laga nr. 26/1994, um fjöleignarhús, segir að æðsta vald í málefnum húsfélagsins er í höndum almenns fundar þess, húsfundar. Af þessu ákvæði má draga þá ályktun að ákvarðanir sem teknar eru á lögmætum húsfundi séu bindandi.

Af gögnum málsins er ljóst að haldinn var húsfundur þann 5. janúar 2012 og þar var samþykkt, með meirihluta atkvæða, tillaga álitsbeiðanda um að honum bæri ekki skylda til að greiða kostnað vegna svalalokana, flísalögn á svalagólfum, vinnu eða efni við svalahurðir og annan kostnað vegna vinnu við annað sem tengist séreignum annarra íbúða en hans.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði við kaup og uppsetningu á svalalokunum.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði við kaup og uppsetningu á svalalokunum.

 

 

Reykjavík, 1. október 2012

 

Kristrún Heimisdóttir

Benedikt Bogason

Ásmundur Ásmundsson

 


 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira