Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 6/2012

Aðgangur að lóð

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 6/2012

 

Aðgangur að lóð.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 8. febrúar 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Gagnaðili skilaði ekki greinargerð.

Álitsbeiðni var lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. október 2012.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða raðhúsið C, alls sex eignarhluta. Álitsbeiðendur eru eigendur að efri hæð húss nr. X en gagnaðilar eru eigendur neðri hæðar sama húss. Ágreiningur er um aðgang að bakgarði.

Krafa álitsbeiðanda er:

     Að viðurkennt sé að álitsbeiðandi hafi aðgang að bakgarði eignarinnar.
Í álitsbeiðni kemur fram að á heildarlóðinni séu tvær raðhúsalengjur, þ.e. Y og Z. Í raðhúsalengju nr. Y eru fjögur hús auk bílageymslu fyrir fimm bíla. Hús nr. X skiptist í tvær íbúðir, önnur á neðri hæð og hin á efri hæð.

Í eignaskiptasamningi komi fram að lóðinni sé þannig skipt að hverju húsi fylgi 12,5% hlutdeild í lóðinni. Eignarhlutfall neðri hæðar sé 4,95% í heildarlóð og efri hæðar 7,56%.

Í afsali, dags. 4. desember 1987, komi fram að lóð bak við húsið tilheyri neðri hæð og lóð fyrir framan hús tilheyri efri hæð, með eðlilegum umgengnistakmörkunum. Álitsbeiðandi telur þetta brjóta í bága við lög þar sem lóðin sé öll sameign og því eigi ekki að skipta upp aðgengi að lóðinni.

Gagnaðili skilaði ekki greinargerð.

III. Forsendur

Samkvæmt 4. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, telst séreign afmarkaður hluti af húsi eða lóð eins og honum er lýst í þinglýstri eignaskiptayfirlýsingu, skiptasamningi og/eða öðrum þinglýstum heimildum um húsið, ásamt því sem honum fylgir sérstaklega, hvort heldur er húsrými í húsinu sjálfu, bílskúr á lóð þess eða sameiginlegri lóð margra húsa, lóðarhluti, búnaður eða annað samkvæmt sömu heimildum, ákvæðum laga þessara eða eðli máls. Í sameign eru aftur á móti, sbr. 6. gr., allir þeir hlutar húss, bæði innan og utan, og lóðar sem ekki eru ótvírætt í séreign, sbr. 4. gr. Sameign er þannig í raun skilgreind neikvætt miðað við séreign enda er sameign meginregla sem þýðir að jafnan séu löglíkur fyrir því að umþrætt húsrými og annað sé í sameign, eins og segir í greinargerð með frumvarpi því sem varð að lögum um fjöleignarhús. Sameign þarf því ekki að sanna heldur verður sá sem gerir tilkall til séreignar að sanna eignarrétt sinn.

Í máli þessu liggur fyrir þinglýst afsal, dags. 4. desember 1987. Samkvæmt því fylgir baklóð neðri hæð einni og lóð fyrir framan hús tilheyrir efri hæð einni, með eðlilegum takmörkunum vegna umgengni annarra íbúa. Það er álit kærunefndar að hið þinglýsta afsal sé bindandi og álitsbeiðandi hafi því ekki aðgang að baklóð.

IV. Niðurstaða

Kröfu álitsbeiðanda um aðgang að baklóð hússins er hafnað.
 

Reykjavík, 1. október 2012

Kristrún Heimisdóttir

Benedikt Bogason

Ásmundur Ásmundsson


 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira