Hoppa yfir valmynd

Nesbrú ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu um skráningu umframafla og boðuð álagning gjalds samkvæmt lögum nr. 37/1992 um ólögmætan sjávarafla.

Umframafli -Gjaldtaka - Ólögmætur sjávarafli

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 18. október sl. kærðuð þér f.h. Nesbrúar ehf. til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál, ákvörðun „samkvæmt meðfylgjandi bréfi Fiskistofu“, en um var að ræða bréf Fiskistofu til Nesbrúar ehf. dags. 6. september sl. þar sem tilkynnt er um skráningu umframafla og boðuð álagning gjalds samkvæmt lögum nr. 37/1992 um ólögmætan sjávarafla.
    Um meðferð kærunnar fer samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik og málsmeðferð

    Í bréfi Fiskistofu dags. 6. september sl. er rakið að skipið Sæljós GH 2 (1315) hafi farið fram yfir heimild sína til skráningar á svonefndum VS-afla sk. 9. mgr. 11. gr. laga um stjórn fiskveiða, á tímabilinu júní til september 2012, sem leiði til þess að draga verði afla, sem þannig var skráður, frá aflamarki fiskiskipsins. Þar sem ekki sé nægt aflamark bundið við skipið til að reikna aflann til aflamarks komi til álagningar gjalds á útgerð skipsins, Nesbrú ehf., samkvæmt lögum nr. 37/1992, um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Málsatvik eru ágreiningslaus. Þannig hefur Nesbrú ehf. ekki gert athugasemd við það aflamagn sem var skráð á skipið og leiddi til álagningar.
    Með bréfi dags. 25. október sl. leitaði ráðuneytið umsagnar Fiskistofu um kæruna. Umsögnin barst með bréfi dags. 17. desember sl. Leitað var athugasemda Nesbrúar ehf. við umsögn Fiskistofu með bréfi dags. 21. desember sl., en engar athugasemdir bárust.

Sjónarmið Nesbrúar ehf
    Þess er krafist í kærunni, eins og segir í bréfinu dags. 18. október sl., að „tekið verði tillit til þess að við erum á skötuselsveiðum. Og að það gekk þarna yfir þorskvaða sem við ráðum ekkert við. Við fengum á tveim dögum í júlílok 1.640 kg af þorski sem við áttum að koma með í land. Sem löghlýðnir fiskimenn og fyrir það fékk VS sjóður kr. 232.857.-“.

Sjónarmið Fiskistofu

     Í bréfi Fiskistofu dags. 17. desember sl. er málavöxtum lýst allnáið auk þess að lagt er fram yfirlit um landanir og VS-afla Sæljóss GK 2 (1315). Stofnunin fer fram á að kærunni verði vísað frá að hluta eða í heild, en til vara að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Í bréfinu eru niðurstöður stofnunarinnar dregnar svo saman:
Lög um stjórn fiskveiða og lög nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar eru skýr þegar lýtur að reglum um aflaheimildir skips og þegar kemur að aflaskráningu. Þar er ekki gert ráð fyrir því að hægt sé að víkja frá reglum um aflaheimildir og aflaskráningu í tilvikum þar sem ekki er til staðar ásetningur útgerðar um að veiða tilteknar fisktegundir. Ákveðnar reglur í lögunum s.s. reglur um VS afla og flutning aflamarks gefa möguleika á tilteknum sveigjanleika þannig að hægt er að bregðast við þegar skip hefur ekki aflamark en þeirri heild eru takmörk sett í lögum líkt og kunnugt er. Þegar þær heimildir eru fullnýttar er enga heimild að finna til þess að byggja á mati um það hvort ásetningur hafi staðið til þess að veiða umræddan afla eða hvort um óviðráðanleg atvik var að ræða. Af þeirri ástæðu er ekki hægt að breyta niðurstöðu Fiskistofu um skráningu umframafla Sæljós GK2 (1315) á grundvelli þeirra atvika sem lýst er í kærunni. Ákvörðun Fiskistofu tekur mið af því að VS-afla heimild samkvæmt 9. mgr. 11. gr. laga nr. 116/2006 sé nýtt til fulls á viðkomandi tímabili og að lagt verði gjald á þann afla sem er umfram það. Þar sem engin önnur rök hafa komið fram af hálfu kæranda telur Fiskistofa að staðfesta beri ákvörðun stofnunarinnar um skráningu umframafla, komi til þess að ráðuneytið taki þann hluta kærunnar til meðferðar.

Forsendur og niðurstaða

    Líta verður svo á að Nesbrú ehf. krefjist þess að heimild skipsins Sæljóss GK 2(1315) til skráningar á VS-afla verði hækkuð vegna þeirra aðstæðna félagið hefur lýst og/eða að álagt gjald samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla verði lækkað eða fellt niður. Í þessum úrskurði verður einungis fjallað um álagningu vegna VS-afla enda brestur ráðuneytið heimild til endurskoðunar á ákvörðunum Fiskistofu samkvæmt lögum um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, sem ber undir sérstaka úrskurðarnefnd skv. 6. gr. laganna.
    Með vísun til sjónarmiða og forsendna Fiskistofu í hinni kærðu ákvörðun og bréfi dags. 17. desember sl. er hin kærða ákvörðun staðfest. Engin sjónarmið hafa verið færð fram af hálfu stefnanda sem geta stutt kröfur um frávik frá skýrum ákvæðum laga um aflaskráningu.

Úrskurðarorð

    Hin kærða ákvörðun Fiskistofu um skráningu umframafla, er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra

Ingvi Már Pálsson.
Arnór Snæbjörnsson.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira