Hoppa yfir valmynd

Þórður Heimir Sveinsson, kærir f.h. Hafnarnes Vers hf. ákvörðun Fiskistofu umað setja sérstök skilyrði skv. liðum VII og VIII í útgáfu endurvigtunarleyfis.

Vigtunarleyfi - Endurvigtun - Tilkynningaskylda

Stjórnsýslukæra

Þann 2. apríl 2013 barst ráðuneytinu bréf yðar dags. 11. mars 2013, sem varðar heimild Hafnarness Vers hf. í Þorlákshöfn til endurvigtunar sjávarafla skv. lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Í bréfinu er þess krafist að ráðuneytið „ógildi ákvörðun Fiskistofu frá 28. janúar 2013, er lýtur að því, að setja sérstök skilyrði skv. liðum VII. og VIII. í útgáfu endurvigtunarleyfis kæranda dags. 28.01.2013“. Um forsendur þessara skilyrða er fjallað í bréfi Fiskistofu til Hafnarness Vers hf. dags. 28. janúar 2013.

Um heimild til að skjóta ákvörðunum um rétt eða skyldu lögpersóna til æðra stjórnvalds til úrskurðar fer skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga. Hér er að vísu um takmarkatilvik að ræða, þar sem einungis er krafist ógildingar á fyrirmælum um tilkynningarskyldu í sambandi við eftirlit með starfsleyfisskyldum rekstri. Allt að einu telur ráðuneytið rétt að taka til athugunar hvort þau skilyrði sem þér gerið athugasemd við séu haldin annmörkum að lögum.

Í 2. mgr. 6. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar er mælt fyrir um heimild til endurvigtunar sjávarafla, enda hafi hann áður verið veginn á sjávarvog. Í 1. mgr. 8. gr. laganna er mælt fyrir um heimildir starfsmanna Fiskistofu o.fl. til aðgangs að starfsstöðvum sem hafa með höndum vigtun sjávarafla, þ.m.t. endurvigtun. Þessu tengjast fyrirmæli 4. mgr. 17. gr. laganna, þar sem mælt er fyrir um sérstaka skyldu þess, sem hefur sætt sviptingu vigtunarleyfis, að gera grein fyrir því hvernig hann hyggst tryggja að framkvæmd vigtunar verði í samræmi við lög og reglur. Eðlilegur liður í eftirliti Fiskistofu, við þessar aðstæður, er að gera hlutaðeigandi endurvigtunarleyfishöfum að tilkynna reglulega um framkvæmd vigtunar á starfsstöð sinni, þannig að stofnunin geti hægar komið eftirliti sínu við.

Með vísan til þess og að öðru leyti forsendna hinnar kærðu ákvörðunar, er hún staðfest.

Fyrir hönd ráðherra

Ingvi Már Pálsson.

Arnór Snæbjörnsson.

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira