Hoppa yfir valmynd

Lotna ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu sviptingu fiskiskipsins Kristbjargar ÍS-177, á leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Veiðileyfi - Veiðileyfissvipting - Vigtun

Stjórnsýslukæra

Með bréfi dags. 27. desember sl. kærði Sigmundur Hannesson hrl. f.h.Lotnu ehf., til þess ráðherra sem fer með sjávarútvegsmál, ákvörðun Fiskistofu dags. 30. nóvember sl. um sviptingu fiskiskipsins Kristbjargar ÍS-177, á leyfi til veiða í atvinnuskyni.

Þess er krafist í kærunni, aðallega, að hin kæra ákvörðun verði felld úr gildi. Til vara er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og veitt verði skrifleg áminning í staðinn skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. Til þrautavara er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun verði markaður skemmri tími en hin kærða ákvörðun kveður á um. Jafnframt er þess krafist að hinni kærðu ákvörðun um leiðréttingu aflaskráningar verði breytt þannig að hún nemi 728 kg af þorski í stað 1.092 kg.

Um meðferð kærunnar fer samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik og málsmeðferð

Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til Lotnu ehf. dags. 30. nóvember sl. og brotaskýrslu, sem fylgdi því bréfi, dags. 5. október sl. Þar greinir frá því að við eftirlit með löndun úr Kristbjörgu ÍS-177 (239) í Flateyrarhöfn 31. ágúst sl. hafi eftirlitsmaður Fiskistofu orðið var við að fiski hafi verið ekið frá löndunarstað án viðkomu á hafnarvog. Samkvæmt því sem fram kemur í skjallegum gögnum málsins staðreyndi Fiskistofa í framhaldi þessa að tvö kör, sem vigtarmaður ók framhjá hafnarvigt innihéldu alls 728 kg af óslægðum þorski, en auk þess viðurkenndi vigtarmaðurinn að hann hafi keyrt þriðja karinu fram hjá hafnarvog og til vinnslu, meðan á löndun stóð. Fiskistofa heimfærði þessa háttsemi, þ.e. löndun án vigtunar á hafnarvog, til 1. mgr. 6. gr. og 1. mgr. 9. gr. laga nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar, sbr. einnig 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 224/2006 um vigtun og skráningu sjávarafla. Um viðurlög vegna brotsins fór samkvæmt 23. og 24. gr. laganna, sbr. 63. gr. greindrar reglugerðar.

Í stjórnsýslukæru eru engar ástæður færðar fram til stuðnings kröfum, aðrar en þær að kærandi vilji „eigi una ákvörðunum Fiskistofu“. Þar er um fyllri sjónarmið hins vegar vísað til bréfs Sigurðar Aðalsteinssonar til Fiskistofu dags. 14. nóvember sl., þar sem því er hafnað með vísun til atvika eins og þau horfa við honum á myndbandsupptöku af lönduninni að skipstjóri hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar. Í bréfi Fiskistofu dags. 30. nóvember sl. er tekin rökstudd afstaða til sjónarmiða Sigurðar og þeim hafnað.

 

Forsendur og niðurstaða

Ráðuneytið hefur farið vandlega yfir öll gögn málsins og kynnt sér þá upptöku af brotinu sem vísað er til í bréfi Sigurðar Aðalsteinssonar. Hvað sérstaklega snertir ábyrgð skipstjóra samkvæmt lögum um umgengni um nytjastofna sjávar er tekið undir sjónarmið Fiskistofu. Í dómum í málum sem höfðuð hafa verið til refsiábyrgðar á hendur skipstjórum vegna brots gegn 1. mgr. 9. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar in fine, hefur ströng túlkun verið lögð til grundvallar við mat á því hvort hann hafi tryggt nægilega að réttar og fullnægjandi upplýsingar um afla berist vigtarmanni, sbr. Hrd. frá 10. desember 2009 í máli nr. 206/2009, Hrd. frá 18. janúar 2007 í máli nr. 176/2006, Hrd. frá 5. febrúar 2004 í máli nr. 367/2003, Hrd. 2003, bls. 4681, Hrd. 2001, bls. 1821 og dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember 2012 í máli nr. S-533/2012.


Með vísun til sjónarmiða og forsendna Fiskistofu í hinni kærðu ákvörðun, er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrir hönd ráðherra


Ingvi Már Pálsson.

Arnór Snæbjörnsson.

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira