Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2013

Upplýsingagjöf. Hússjóðsgjald.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í málinu nr. 20/2013

 

Upplýsingagjöf. Hússjóðsgjald.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 3. apríl 2013, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 22. apríl 2013, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 26. ágúst 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að gagnaðila verði gert að veita áltisbeiðanda skýringar á hússjóðsgjaldi sem álitsbeiðandi hefur verið krafinn um.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi vilji fá útskýringar og reikninga frá september 2009 til apríl 2013.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að hússjóður vegna þeirrar íbúðar sem álitsbeiðandi leigi skiptist þannig að 49.158 kr. séu vegna hitakostnaðar, 3.922 kr. vegna endurvinnslutunnu, og 4.158 vegna stigasjóðs, þ.e. hita og rafmagns í sameign, samtals 57.238 kr. Þar sem framangreindar upplýsingar hafi ekki legið fyrir við ákvörðun hússjóðs 2013 þá hafi hússjóðsgjald verið ákveðið 5.300 kr., en samkvæmt þessum upplýsingum verði hann lækkaður í 4.769 kr. Hússjóðsgjald hafi áður verið 4.100 kr. og hafði verið óbreyttur frá árinu 2009 þrátt fyrir þó nokkra hækkun húsgjalda árið 2012.

 

III. Forsendur

Með álitsbeiðni, dags. 3. apríl 2013, óskaði álitsbeiðandi eftir því að gagnaðila yrði gert að veita honum upplýsingar og skýringar vegna hússjóðsgjalda. Í greinargerð gagnaðila eru þær upplýsingar sem óskað var eftir veittar.

Í 1. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að greini aðila leigusamnings á við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings geti þeir snúið sér til kærunefndar húsamála og óskað eftir álitsgerð um ágreiningsefnið. Erindi til kærunefndar skal vera skriflegt og í því skal skilmerkilega greina hvert sé ágreiningsefnið, hver sé krafa aðila og rökstuðningur fyrir henni, sbr. 2. mgr. 85. gr. sömu laga. Í 5. gr. reglugerðar um kærunefnd húsaleigumála, nr. 878/2001, segir að gera skuli skýrar kröfur um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og skal rökstyðja kröfurnar með eins ítarlegum hætti og unnt er. Nefndin veitir ekki umsagnir um fræðilegar spurningar heldur tekur afstöðu til krafna aðila. Þar sem svar við fyrirspurn álitsbeiðanda hefur borist telur kærunefnd ekki ástæðu til þess að aðhafast í málinu frekar, enda er ekki enn um raunverulegan ágreining að ræða.

 

IV. Niðurstaða

Málinu er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 26. ágúst 2013

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira