Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 33/2012

Ákvörðunartaka. Framkvæmdir. Verulegar endurbætur.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 33/2012

 

Ákvörðunartaka. Framkvæmdir. Verulegar endurbætur.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 6. júlí 2012, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi       A, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, f.h. húsfélagsins C, hér eftir nefnt gagnaðili.

Með bréfi, dags. 9. ágúst 2012, beindi D, hér eftir nefnd álitsbeiðandi D, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, f.h. húsfélagsins C, hér eftir nefnt gagnaðili.

Með bréfi, dags. 22. ágúst 2012, voru málin sameinuð.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðna voru greinargerð gagnaðila, dags. 31. ágúst 2012, athugasemdir álitsbeiðanda A, dags. 15. október 2012, athugasemdir gagnaðila, dags. 14. nóvember 2012, auk viðbótargagna álitsbeiðanda A, dags. 15. ágúst 2012, 29. ágúst 2012 og 4. september 2012, viðbótargagna álitsbeiðanda D, dags. 17. október 2012, og viðbótargögn álitsbeiðenda beggja, dags. 9. nóvember 2012 og 23. nóvember 2012, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 2. september 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls sjö eignarhluta. Álitsbeiðendur eru eigendur hvort að sinni íbúðinni. Ágreiningur er um gildi ákvarðana sem teknar voru á húsfundi þann 16. maí 2012 um viðhaldsframkvæmdir á húsinu.

Kærunefndin telur að krafa álitsbeiðenda sé:

Að viðurkennt verði að ekki hafi verið staðið réttilega að ákvarðanatöku á húsfundi þann 16. maí 2012, að minnsta kosti er varðar ákvarðanir undir liðum tvö og þrjú og þær því ógildar.

Forsaga málsins er sú að þann 15. júlí 2010 hafi E verkfræðistofa unnið skýrslu um ástand hússins, gert tillögur að viðgerðum og kostnaðaráætlun. Á aðalfundi húsfélagsins þann 12. maí 2011 hafi skýrslan verið lögð fram, hún kynnt og spurningum svarað. Samþykkt hafi verið að fyrsti hluti verksins yrði liður 1.2.2 í skýrslunni. Ákveðið hafi verið að stjórnin ætti að finna aðila sem myndu leita tilboða í verkið sjálft. Á aðalfundi þann 27. febrúar 2012 hafi verið fjallað um tilboð sem stjórn hafi aflað. Samþykkt var að F myndi framkvæma ástandsskoðun, útbúa útboðsgögn og hafa umsjón og eftirlit með framkvæmdum. Tilboð F um að afla tilboða samkvæmt samþykktum aðalfundar þann 12. maí 2011 var samþykkt. Á aðalfundi þann 15. maí 2012 hafi niðurstöður F verið kynntar og fulltrúi F svarað spurningum. Þar kom fram að óheppilegt yrði að skipta verkinu en væri það nauðsynlegt þá var ekki mælt með fleiri áföngum en tveimur. Rætt var um fjármögnun og niðurstaðan varð sú að hver og einn eigandi skyldi fjármagna sinn hluta. Að lokum var samþykkt að leita tilboða í heildarframkvæmdir en þeim yrði svo skipt niður á tvö ár. Á húsfundi þann 11. júní 2012 kom fram að álitsbeiðendur vilji leita til kærunefndar húsamála aðallega vegna þess verkhraða sem ákveðinn var.

 

III. Forsendur

Álitsbeiðendur gera þær kröfur að viðurkennt verði að ákvarðanir húsfundar þann 16. maí 2012 séu ólögmætar.

Með stefnum sem þingfestar voru í Héraðsdómi Reykjavíkur 6. júní 2013 höfðaði gagnaðili mál á hendur álitsbeiðendum. Stefnukröfur kveða á um greiðslu kostnaðar fyrir umþrættar framkvæmdir og byggja á því að umræddar ákvarðanir húsfundar þann 16. maí 2012 hafi verið lögmætar. Þessi gögn liggja fyrir í málinu. Með vísan til litis pendens áhrifa, þ.e. að ekki skuli fjalla efnislega um mál fyrir tveimur handhöfum ríkisvalds á sama tíma, hefur nefndin haft þá stefnu frá upphafi að fjalla ekki um mál á meðan þau eru til meðferðar hjá dómstólum. Málinu er því vísað frá nefndinni.  

 

IV. Niðurstaða

Álitsbeiðnum, dags. 18. júlí 2012 og 9. ágúst 2012, er vísað frá kærunefnd.

 

Reykjavík, 2. september 2013

Auður Björg Jónsdóttir
Valtýr Sigurðsson
Eyþór Rafn Þórhallsson

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira