Hoppa yfir valmynd

Rimý ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu um synjun um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012.

Veiðigjöld - Sérstakt veiðigjald - Lækkun veiðigjalds - Samstæður félaga

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 5. febrúar sl., kærði Guðmundur Jóelsson endurskoðandi. f.h.Rimý ehf. samkvæmt umboði, til ráðherra sjávarútvegsmála, ákvörðun Fiskistofu dags. 19. janúar sl. um synjun um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012. Þess er krafist að breyting verði gerð á ákvörðun Fiskistofu, þannig að félagið „njóti sanngirni í ákvörðun á lækkun sérstaks veiðigjalds.“ Skilja verður erindið þannig að óskað sé lækkunar á álögðu sérstöku veiðigjaldi.

Um meðferð kærunnar fer skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Málsatvik og sjónarmið Rimý ehf.

Með bréfi dags. 18. desember sl. óskaði Rimý ehf. eftir lækkun sérstaks veiðigjalds hjá Fiskistofu. Í bréfi Guðmundar Jóelssonar f.h. Rimý ehf. til Fiskistofu dags. 9. nóvember sl, sem fylgdi kærunni, er gerð grein fyrir sjónarmiðum félagsins í tilefni af kærunni. Í bréfinu segir:

Vísað er til fundar [hjá Fiskistofu 7. nóvember sl.]. Eins og fram kom á fundi okkar benda yfirgnæfandi líkur til að umbjóðendur mínir séu í þeim hópi sem ættu að eiga möguleika á lækkun gjaldsins en að félagslegt fyrirkomulag rekstrarins kunni að vera þar Þrándur í Götu. Því er hér á eftir að finna lýsingu á rekstrarfyrirkomulagi útgerðarmannsins Jens Valgeirs Óskarssonar í Grindavík, en útgerðarrekstur hans spannar marga áratugi.


Fram til ársins 2002 var rekstur Jens á hans kennitölu en í ársbyrjun 2003 færði hann reksturinn yfir í einkahlutafélagið Jens Valgeir og í reynd fer rekstur hans fram í því félagi þar sem stærstur hluti veiðiheimilda hans er frá fortíðinni. Aðeins hafa þar bæst við tvenn kvótakaup, þ.e. árin 2005 og 2007 (sbr. meðf. gögn) og nánast allar eignir, skuldir og rekstur eru gerð upp í því félagi.


Síðan gerist það árið 2006 að Jens Valgeir ehf. kaupir útgerðarfélagið Rimý ehf. frá Bíldudal með kvóta upp á ca 64 tonn og bátinn Ask GK65 (skipaskrárnúmer 1811). Í því félagi eru eingöngu eignfærðar umræddar veiðiheimildir og báturinn en skuldir eru engar utan skuldarinnar við móðurfélagið. Einhverra hluta vegna hafa mál þróast þannig að allar veiðiheimildir Jens í dag eru skráðar á Rimý ehf þrátt fyrir að rekstur hans í reynd sé allur í móðurfélaginu. Sennilega er þetta þannig til komið vegna þess að báturinn Askur varð við kaupin fiskiskip útgerðarinnar og ekki þótti skipta máli hvoru megin hryggjar hann lá. M.ö.o. má segja að „eggið hafi þarna breyst í hænu“.


Í viðræðum okkar Sigurjóns kom fram, að í þessu tilviki gerir kerfið ráð fyrir, að umsókn um lækkun veiðigjalds verði að fara fram í nafni Rimý ehf. þar sem aflaheimildirnar eru skráðar þar. Slík framsetning virðist sjálfkrafa svipta Jens möguleikanum á lækkun veiðigjaldsins og þannig virðist tilgangur reglugerðarinnar alls ekki ná til hans þrátt fyrir að miklar líkur séu á að hann eigi að njóta lækkunar, sé litið raunhæft á málið.


Því er það beiðni mín f.h. Jens, að mál hans verði skoðað sérstaklega vegna þessara óvenjulegu aðstæðna og möguleikar á að réttlæti nái fram að ganga í hans tilviki. Ég læt hér fylgja með öll þau gögn sem ég tel nauðsynleg til að upplýsa málið betur og er reiðubúinn til að veita viðbótarupplýsingar og vinna umsóknina öðruvísi að forskrift Fiskistofu, sé þess óskað. Ég hef leitast við að fylla út umsóknareyðublaðið eftir því sem hægt er og fylgir það með gögnunum, útprentað.


Vænti þess eindregið að umsókn þessi mæti skilningi og að raunverulegur tilgangur þessa möguleika til lækkunar nái til Jens, sé hans „pakki“ í heild með þeim hætti og að formsatriði leiði ekki til ósanngjarnrar niðurstöðu.

Í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu dags. 19. janúar sl. er fjallað ítarlega um umsókn Rimý ehf. um lækkun sérstaks veiðigjalds. Þar segir m.a:


Ástæða þess að ekki er um rétt til lækkunar að ræða er að útreiknuð vaxtagjöld eru lægri en 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna, sbr. 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 74/2012 um veiðigjöld og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds. Engin vaxtagjöld eru tilgreind í framtali Rimý ehf. fyrir árið 2011 og viðbót við vaxtagjöld til útreiknings á lækkun, vegna skulda sem bókfærðar eru hjá Jens Valgeir ehf. en sú greiðsla er á árinu 2011 kr. 1.100.000 skv. umsókn. Um þetta vísast til 3. töluliðar 2. mgr. 6. gr. reglugerðar nr 838/2012 [....] sbr. reglugerð nr. 859/2012.


Að auki gerir Fiskistofa þær athugasemdir að gögn um hlutdeildakaup Jens Valgeirs ehf. eru ekki fullnægjandi. Varðandi viðskipti 9. nóvember 2005 þá er samningur óundirritaður og ekki kemur fram hver kaupandi er. Varðandi viðskipti 27. september 2007 vantar afrit af kaupsamningi. Í fyrrnefndum viðskiptum vantar sundurgreiningu á söluverði hlutdeilda í einstökum tegundum og í samningi dags. 31. júlí 2006 vantar sundurgreiningu á verði hlutdeilda og skipa sem seld eru með sama samningi. Ennfremur virðast hlutdeildir sem fylgdu með í samningi um kaup á hlutafé í Rimý ehf. 31. júlí 2006 vera bókfærðar hjá Rimý ehf. en ekki hjá Jens Valgeir ehf. og á því ekki að tilgreina þær á bls. 71 í umsókn.


Með vísan til ofangreinds hefur Fiskistofa ákveðið að sérstakt veiðigjald sem lagt var á Rimý ehf. fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 verði ekki lækkað.


Í bréfi Rimý ehf., til ráðuneytisins dags. 5. febrúar sl. eru fyrri sjónarmið félagsins, í bréfi dags. 9. nóvember sl. áréttuð, en auk þess er því lýst yfir að gögn um hlutdeildarkaup, sem Fiskistofa vísaði til í ákvörðun sinni, verði tekin saman. Gögnin bárust ráðuneytinu með bréfi dags. 26. febrúar sl.

Í bréfi ráðuneytisins til Fiskistofu dags. 3. apríl sl. var óskað eftir umsögn stofnunarinnar um stjórnsýslukæruna. Þess var sérstaklega óskað að stofnunin mundi fara yfir þau gögn sem bárust með bréfi dags. 26. febrúar sl. og taka til skoðunar hvort skilyrði væru til endurupptöku máls vegna nýrra upplýsinga, sbr. 1. tl. 24. gr. stjórnsýslulaga. Í bréfi Fiskistofu dags. 12. apríl sl. er gerð nánari grein fyrir forsendum ákvörðunar stofnunarinnar dags. 19. apríl sl., og m.a. tekið fram að hin nýju gögn, sem vörðuðu viðskipti með aflahlutdeildir, gæfu ekki tilefni til endurupptöku málsins, þar sem umsókn hafi verið hafnað þegar af þeirri ástæðu að vaxtagjöld og nýtingargjöld væru of lág til þess að skapa rétt til afsláttar.

Í athugasemdum Rimý ehf. við umsögn Fiskistofu, í bréfi dags. 29. apríl sl., eru fyrri sjónarmið áréttuð um að taka skuli tillit til „rekstrar [félagsins] í heild“, sbr. bréf til Fiskistofu dags. 9. apríl sl. og til ráðuneytisins 5. febrúar sl.

Forsendur og niðurstaða

Árið 2006 var félagið Rimý ehf. keypt af Jens Valgeir ehf. Frá þeim tíma virðist Rimý ehf. hafa ráðið yfir báti með skráða aflahlutdeild. Fjárskuldbinding hvílir á Rimý ehf. gagnvart móðurfélaginu Jens Valgeir ehf., sem árið 2011 nam 62,7 m.kr. skv. ársreikningi. Rimý ehf. virðist telja að „formsatriði“ í reglugerð nr. 838/2012 um tímabunda lækkun sérstaks veiðigjalds gangi lengra til að þrengja rétt til lækkunar sérstaks veiðigjalds en lög um veiðigjöld nr. 74/2012 heimila. Eins og málið er vaxið er ljóst að þar er átt við ákvæði sem varða þá aðstöðu þegar skuldir vegna kvótakaupa eru ekki hjá handhafa aflahlutdeildanna sem greiðir veiðigjöldin. Um þetta má m.a. vísa til bréfs Rimý ehf. til ráðuneytisins dags. 5. febrúar sl., en þar segir:


Í umræðunni við aðdraganda setningar laga og reglugerðar um hið umdeilda sérstaka veiðigjald kom það fram, bæði beint og óbeint, að ívilnandi ákvæði varðandi lækkun gjaldsins væru til þess ætluð, að þeir sem á slíku þyrftu að halda, ættu kost á að njóta slíks. Yfirgnæfandi líkur benda til þess, að umbjóðandi minn sé í þeim hópi og það er, vægast sagt, óþolandi fyrir hann ef að stíf og einstrengisleg túlkun á formsatriðum verði til þess að svipta hann þessum sjálfsagða rétti sem hann á í þessu máli.


Af þessu tilefni er ástæða til að rekja þau lagaákvæði sem hér um ræðir og tilgang þeirra. Fyrirmæli ákvæðis II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld eru svohljóðandi:


Á fiskveiðiárunum 2012/2013 til 2017/2018 skal félag eða einstaklingur með atvinnurekstur sem greiða skal sérstakt veiðigjald skv. 13. gr. eiga rétt á lækkun þess vegna vaxtakostnaðar við kaup á aflahlutdeildum til ársloka 2011 samkvæmt þessu ákvæði enda séu eftirfarandi skilyrði uppfyllt:


a. Keypt aflahlutdeild sé enn í höndum viðkomandi og hann hafi greitt veiðigjöld af aflamarki samkvæmt henni fyrir viðkomandi fiskveiðiár.


b. Vaxtaberandi skuldir viðkomandi í árslok 2011 samkvæmt skattframtali hans fyrir það ár án bókfærðra tekjuskattsskuldbindinga og að frádregnum peningalegum eignum séu hærri en svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt framtali fyrir sama ár.


Séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt skal lækka sérstakt veiðigjald á hverju fiskveiðiári frá 2012/2013 til 2017/2018 um sem nemur vaxtagjöldum samkvæmt skattframtali fyrir árið 2011 í sama hlutfall og skuldir skv. b-lið 1. mgr. eru sem hlutfall af vaxtaberandi skuldum í heild eftir að frá þannig reiknuðum vaxtagjöldum hafa verið dregin 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna, sbr. b-lið 1. mgr. Lækkunin skal þó aldrei vera meiri en sem svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt skattframtali fyrir sama ár.

Fjárhæð til lækkunar veiðigjaldsins skal taka breytingu samkvæmt vísitölu neysluverðs frá desember 2011 til desembermánaðar næst fyrir upphaf viðkomandi fiskveiðiárs.


Taka skal tillit til vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeildum á árinu 2012 sem gerð hafa verið fyrir gildistöku laganna með sama hætti og gildir um fyrri ár.


Taka skal tillit til skulda vegna kvótakaupa sem eru ekki hjá handhafa aflahlutdeildanna sem


greiðir veiðigjöldin.


Ráðherra setur reglugerð um nánari framkvæmd þessa ákvæðis. [undirstrikun ráðuneytis].


Þessi fyrirmæli komu í frumvarp það sem varð að lögum um veiðigjöld við þriðju umræðu á Alþingi, samkvæmt tillögu meirihluta atvinnuveganefndar. Í áliti nefndarinnar, sem fylgdi tillögunni, segir:


[...]


... leggur meiri hlutinn til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið. Þar verði kveðið á um rétt útgerðarfyrirtækja eða einstaklinga með atvinnurekstur í útgerð til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi vegna vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeild til ársloka 2011 að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Téð skilyrði verða þau að keyptar aflahlutdeildir séu enn í eigu kaupanda sem þegar hafi greitt veiðigjöld og að vaxtaberandi skuldir útgerðar, án bókfærðra tekjuskattsskuldbindinga, að frádregnum peningalegum eignum í árslok 2011 séu hærri en sem nemi reiknuðu stofnverði fastafjármuna hennar eins og það er metið samkvæmt reglum 5. mgr. 10. gr. Lækkunin miðist við það hlutfall vaxtagjalda sem fram kemur í skattframtali 2011 sem svarar til vaxtaberandi skulda, án bókfærðra tekjuskattsskuldbindinga, að frádregnum peningalegum eignum í hlutfalli við vaxtaberandi skuldir í heild eftir að frá þannig reiknuðum vaxtagjöldum hafa verið dregin 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna. Lækkunin skal þó aldrei vera hærri en sem svarar 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna samkvæmt framtali fyrir sama ár. Þá leggur meiri hlutinn til að framangreind fjárhæð til lækkunar veiðigjaldsins taki breytingu samkvæmt vísitölu neysluverðs frá desember 2011 til desember næst fyrir upphaf viðkomandi fiskveiðiárs.


Með þessu telur meiri hlutinn að verulegu leyti komið í veg fyrir að skuldir vegna fjárfestinga í öðru en fastafjármunum og veiðiheimildum hafi áhrif á lækkun veiðigjaldsins. Frá vaxtagreiðslum eru dregin 4% af verðmæti fastafjármuna en vextir af þeim eru reiknaðir sem hluti 8% árgreiðslunnar. Standa þá eftir vextir sem ætlað er að séu komnir til vegna kaupa á veiðiheimildum beint eða með yfirtöku félaga sem áttu slíkar heimildir. Þau takmörk eru einnig sett að sú fjárhæð sem gengur til lækkunar á veiðigjöldum sé ekki meiri en 4% af ófyrnanlegum eignum, sem að mestu leyti eru keyptar veiðiheimildir og bókfærð viðskiptavild vegna yfirtöku á félögum. Tillagan gerir ráð fyrir að fjárhæðir þessar verði miðaðar við árið 2011 og framreiknaðar frá lokum þess hverju sinni.
Áhrif þessa ákvæðis eru þau að hinn heimilaði frádráttur takmarkast við þær skuldir sem til staðar kunna að vera vegna kaupa á kvóta, beint eða að félag með kvóta hefur verið keypt á yfirverði og síðan sameinað kaupandanum. Með því að draga peningalegar eignir frá vaxtaberandi skuldum og setja það hámark að skuldir sem ívilnunin miðast við umfram uppreiknaða rekstrarfjármuni séu ekki hærri en ófyrnanlegar eignir er byggt fyrir að skuldir sem standa á móti öðrum en eignum í fiskveiðum og keyptri kvótaeign komi til álita við ívilnunina. Rökin fyrir því að draga síðan verðmæti fastafjármuna frá skuldastofninum áður en ívilnunin er reiknuð eru þau að með árgreiðsluaðferðinni hefur vaxtakostnaður vegna fastafjármunanna verið tekinn til greina við ákvörðun veiðigjaldanna. Takmörkun lækkunarinnar við 4% af ófyrnanlegum eignum er nauðsynleg vegna þess að fjárfestingar í hlutabréfum eða öðrum peningalegum eignum kunna að hafa verið afskrifaðar í bókum félagsins en miklar skuldir vegna þeirra sitja inni í fyrirtækinu. Með peningalegum eignum í þessu samhengi er átt við bókfært verð hlutabréfa, verðbréfa og annarra peningakrafna þannig að að þeim frátöldum standa einungis eftir bókfærðar eignir rekstrarfjármuna og ófyrnanlega eigna. Til að fyrirbyggja möguleika til bókhaldslegra lagfæringa á forsendum ívilnunarinnar er grunnur hennar miðaður við árslok 2011 eins og hann liggur fyrir í framtali. Þess í stað er gert ráð fyrir að vaxtafjárhæðin verði verðbætt þau fimm ár sem hún verður við lýði.


[...] Þá leggur meiri hlutinn til að taka skuli tillit til skulda vegna kvótakaupa sem eru ekki hjá handhafa veiðiheimildanna sem greiðir veiðigjöldin. Er síðara ákvæðinu komið til móts við ábendingar þess efnis að í einhverjum tilvikum kunni skuldir vegna kvótakaupa að vera á nafni annars félags en þess sem er skráður handhafi veiðiheimilda og mun því greiða veiðigjöld.


Fyrirmæli 5. og 6. gr. reglugerðar nr. 838/2012, sbr. reglugerð um breyting á henni nr. 859/2012, um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds, mæla fyrir um nánari framkvæmd þessara ákvæða, en þau eru svohljóðandi:

5. gr.

Ákvörðun lækkunar.

Gjaldandi sérstaks veiðigjalds skv. 4. gr. á rétt á lækkun gjaldsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013, um fjárhæð sem nemur því hlutfalli vaxtagjalda samkvæmt skattframtali 2012 (tekjuárið 2011); sem vaxtaberandi skuldir skv. 5. tl. 2. gr. að frádregnum peningalegum eignum skv. 3. tl. 2. gr., eru sem hlutfall af vaxtaberandi skuldum skv. 5. tl. 2. gr., eftir að frá þannig reiknuðum vaxta­gjöldum hafa verið dregin 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna.


Lækkun sérstaks veiðigjald skal ekki vera hærri en 4% af bókfærðu verðmæti ófyrnanlegra eigna, sbr. 2. tl. 2. gr. samkvæmt skattframtali 2012 (tekjuárið 2011).

Fjárhæð lækkunar sérstaks veiðigjalds ákvarðast aldrei hærri en álagt sérstakt veiðigjald.

6. gr.

Skuldir vegna kaupa á aflahlutdeild hjá öðrum en handhafa þeirra.

Heimilt er, samkvæmt beiðni gjaldanda sérstaks veiðigjalds skv. 4. gr. (handhafa aflahlut­deildar), að taka tillit til skulda annars aðila vegna kaupa á aflahlutdeild við ákvörðun skv. 5. gr., að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:

1. Handhafi aflahlutdeildarinnar tók ekki á sig fjárskuldbindingar vegna kaupanna, þ.e. með greiðslu reiðufjár eða skuldsetningu.


2. Aflahlutdeild og skuld vegna kaupa á henni eru bókfærðar hjá öðrum aðila sem hefur gert samkomulag við handhafa aflahlutdeildarinnar um nýtingu hennar gegn greiðslu.Séu skilyrði 1. mgr. uppfyllt er heimilt við ákvörðun lækkunar sérstaks veiðigjalds (hjá hand­hafa aflahlutdeildar) að taka tillit til skulda og vaxtagjalda annars aðila, vegna keyptra aflahlutdeilda, sem hér segir:


1. Óefnislegar eignir, sbr. 2. tl. 2. gr. skulu hækkaðar um fjárhæð sem svarar til kaupverðs á þeirri aflahlutdeild sem fellur undir ákvæði 1. mgr. Miða skal við meðalnafnverð allra keyptra aflahlutdeilda hjá viðkomandi aðila.


2. Vaxtaberandi skuldir, sbr. 5. tl. 2. gr. skulu hækkaðar um fjárhæð sem svarar til skulda sbr. 2. tl. 1. mgr., en þó eigi um hærri fjárhæð en sem nemur hækkun óefnislegra eigna sbr. 1. tl.


3. Vaxtagjöld sbr. 6. tl. 2. gr. skulu hækkuð um 4% af hækkun vaxtaberandi skulda skv. 2. tl., en þó eigi um hærri fjárhæð en sem nemur greiðslu fyrir nýtingu aflahlutdeildarinnar sbr. 2. tl. 1. mgr. miðað við eitt ár. [leturbr. ráðuneytis]Þær viðbætur sem færðar eru hjá handhafa aflahlutdeildar skv. 2. mgr. koma til frádráttar við ákvörðun mögulegrar lækkunar veiðigjalds hjá því félagi sem ber skuldsetninguna.


Með beiðni samkvæmt þessari grein skal gera sérstaka grein fyrir þeim aflahlutdeildum sem falla undir 1. tl. 1. mgr. og leggja fram þá samninga eða aðra löggerninga sem eru til grundvallar þeirri aðstöðu sem lýst er í 2. tl. 1. mgr. Með beiðninni skal fylgja staðfesting allra hlutaðeigandi félaga um réttmæti þessara upplýsinga. Eftir því sem við á skal byggt á ársreikningum hlutaðeigandi félaga og skattframtölum 2012 (tekjuárið 2011). Ákvæði 3. mgr. 7. gr. skulu eiga við, eftir því sem við á, um mat á þeim upplýsingum sem fjallað er um í þessari grein.


Í ákvörðun Fiskistofu dags. 19. janúar sl. er rakið að útreiknuð vaxtagjöld Rimý ehf. eru lægri en 4% af reiknuðu stofnverði rekstrarfjármuna, sbr. 2. mgr. ákvæðis II til bráðabirgða við lög nr. 74/2012 um veiðigjöld og 1. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds. Þar er tilfært að engin vaxtagjöld eru færð í framtali Rimý ehf. fyrir árið 2011. Sú viðbót við vaxtagjöld til útreiknings á lækkun, vegna skulda sem bókfærðar eru hjá öðrum aðila, þ.e. Jens Valgeir ehf., skv. heimild 3. tl. 2. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar, nemi 1.100.000 kr. á árinu 2011. Reiknað stofnverð rekstrarfjármuna nemi hins vegar 30.000.000 kr., en 4% af þeirri fjárhæð eru 1.200.000 kr.

Í umsókn er tilfært að greiðsla að fjárhæð 1.100.000 kr. sé innt af hendi af Rimý ehf. í gjald fyrir nýtingu aflaheimilda. Þetta virðist byggt á misskilningi. Í skattframtali Rimý ehf. 2012 er þessi fjárhæð færð til tekna í reitinn 1040 (starfsemi undanþegin virðisaukaskatti). Þar er væntanlega um að ræða tekjur af „kvótaleigu“, þ.e. af sölu aflamarks. Í ársreikningi félagsins er þessi fjárhæð færð sem „kvótaleiga“ undir rekstrartekjur. Af þeim sökum sýnist rétt að líta framhjá greiðslunni.

Hvað sem þessu líður vekur athygli að Rimý ehf. hefur ekki framvísað samkomulagi um nýtingu aflahlutdeildar, bókfærðrar hjá móðurfélaginu (Jens Valgeir ehf.) þrátt fyrir skilyrði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðar nr. 838/2012. Þá ber skattframtal og ársreikningur félaganna ekki með sér að Rimý ehf. inni af hendi greiðslu fyrir nýtingu aflahlutdeilda. Af þessum ástæðum og að öðru leyti með vísan til forsendna, er hin kærða ákvörðun staðfest.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er staðfest.


Fyrie hönd ráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira