Hoppa yfir valmynd

Alda Seafood ehf. kærir ákvörðun Fiskistofu dags. 17. janúar 2013 um synjun um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012.

Veiðigjöld - Sérstakt veiðigjald - Lækkun veiðigjalds - Eignarhald - Eigendaskipti

Stjórnsýslukæra

Með bréfi, dags. 16. apríl 2013, kærði Óttar Már Ingvason f.h. Öldu Seafood ehf. til ráðherra sjávarútvegsmála, ákvörðun Fiskistofu dags. 17. janúar 2013 um synjun um lækkun sérstaks veiðigjalds fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 skv. reglugerð nr. 838/2012. Þess er krafist að í bréfinu að ákvörðuninni verði hrundið, en í því felst beiðni um lækkun eða brottfall álagðs sérstaks veiðigjalds fyrir greint fiskveiðiár.

Um meðferð kærunnar fer skv. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Atvik máls og hin kærða ákvörðun.

Á dögunum 26.-29. nóvember lagði útgerðarfélagið Alda Seafood ehf. fram umsókn hjá Fiskistofu um lækkun á sérstöku veiðigjaldi fyrir fiskveiðiárið 2012/13. Um var að ræða veiðigjöld að fjárhæð xxxx kr., sem lögð voru á félagið Egó export ehf., skráðan eiganda skipsins Flugöldu SI-5 (2289) við upphaf fiskveiðiárins 2012/13. Í umsókninni var farið fram á að skylda til greiðslu gjaldsins verði færð frá Egó export ehf. til Öldu Seafood ehf. og það síðan lækkað að teknu tilliti til efnhags þess félags. Í umsókninni segir:

Þann 1. ágúst 2012 voru fluttar aflahlutdeildir í eigu Öldu Seafood ehf. á Flugöldu SI-5 (2289) af Haföldu SI-7 (7447) sem bæði er skip í eigu [Öldu Seafood ehf.]. Þar sem ekki var búið að þinglýsa afsali á Flugöldu fór reikningur vegna veiðigjalda á EGÓ export ehf. [...].


Meðfylgjandi eru afsöl þess efnis að Alda Seafood ehf. [...], sé löglegur og réttmætur eigandi Flugöldu SI-5, frá og með 4. júlí 2012.

Með umsókninni fylgdu eftirtalin gögn (í þeirri röð sem hér greinir):

1. Yfirlit Fiskistofu dags. 5. nóvember um álagningu sérstaks veiðigjalds á EGÓ export ehf. að fjárhæð xxxx kr., og almenns veiðigjalds, að fjárhæð xxxx kr.

2. Afsal fyrir bátinn Flugöldu SI-5 (2289). dags. 3. júlí 2013 milli Egó export ehf.(afsalsgjafa) og Solmar int. ehf. (afsalshafa).

3. Afsal fyrir bátinn Flugöldu SI-5 (2289). dags. 4. júlí 2013, milli Solmar int ehf (afsalsgjafa) og Öldu Seafood ehf. (afsalsahafa). Í afsali segir að báturinn verði afhentur 1. september 2012. Afsal er fært í þinglýsingarbók sýslumannsins á Siglufirði 28. nóvember 2012.

4. Yfirlit um færslur krókaaflahlutdeildar til og frá Haföldu SI-7 (7447) fiskveiðiárið 2011/12.

5. Kaupsamningur um aflahlutdeildir dags. 16. apríl sl. milli G. Kristjánsson ehf. (seljandi) og Öldu Seafood ehf. (kaupandi). Að auki fylgdu yfirlit um færslur krókaaflahlutdeilda.

6. Upplýsingar af vef Fiskistofu um færslu krókaaflahlutdeildar af Rikka Magg SH-200 á Haföldu SI-7 (7447) 27. apríl 2012.

7. Umboð vegna viðskipta með aflaheimildir, dags. 24. apríl 2012.

8. Upplýsingar af vef Fiskistofu um færslu krókaaflahlutdeildar af Auðuni SF 48 á Haföldu SI-7 (7447) 27. apríl 2012.

9. Kaupsamningur og afsal fyrir bátinn Rósborg ÍS-29 (6579) dags. 16. apríl 2012 (ekki áritað af seljanda) milli Rósborgar ehf. (seljanda) og Öldu Seafood ehf.

10. Staðfesting Fiskistofu á flutningi aflahlutdeildar af Rósborg ÍS (6579) til Haföldunnar SI-7 (7447), dags. 4. maí 2012.

11. Umboð vegna viðskipta með aflaheimildir, dags. 18. maí 2012.

12. Upplýsingar af vef Fiskistofu um færslu krókaaflahlutdeildar af Hansa MB-1á Haföldu SI-7 (7447) 21. maí 2012.

13. Upplýsingar af vef Fiskistofu um færslu krókaaflahlutdeildar af Ingunni Sveinsdóttur AK-91 á Haföldu SI-7 (7447) 21. maí 2012.

14. Umboð vegna viðskipta með aflaheimildir, dags. 28. júní 2012.

15. Upplýsingar af vef Fiskistofu um færslu krókaaflahlutdeildar af Guggu ÍS-63 á Haföldu SI-7 (7447) 3. júlí 2012.

16. Ársreikningur Öldu Seafood ehf. 2011.

Í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu dags. 17. janúar sl. var umsókn Öldu Seafood ehf. um lækkun sérstaks veiðigjalds hafnað, með svohljóðandi rökstuðningi:

Samkvæmt 6. gr. laga um veiðigjöld nr. 74/2012 eru gjaldskyldir aðilar [þeir] einstaklingar og lögaðilar sem fá úthlutað aflamarki, öðrum aflaheimildum eða landa afla á grundvelli laga um stjórn fiskveiða, laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands eða annarra laga er kveða á um stjórn fiskveiða. Samkvæmt 1. mgr. ákvæðis II. til bráðabirgða í sömu lögum getur aðeins greiðandi veiðigjalda fengið lækkun á sérstöku veiðigjaldi. Ennfremur er vísað til 1. tölul. 2. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds, en þar kemur fram að kaup á hlutdeildum sem skapað geta rétt til lækkunar eru ekki talin öðlast gildi fyrr en við skráningu þeirra hjá Fiskistofu. Ljóst er að við upphaf fiskveiðiársins 2012/13 hafði ekki borist nein tilkynning til Fiskistofu um að Alda Seafood ehf. væri eigandi umrædds skips, né heldur hafði eignarheimild félagsins verið þinglýst. Fiskistofa telur því hvorki heimilt að færa álagningu umrædds sérstaks veiðigjalds yfir á Öldu Seafood ehf. né heldur að veita félaginu lækkun á gjaldinu.

Auk ofangreindra atriða stendur það í vegi fyrir afgreiðslu umsóknarinnar að samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hefur framtali félagsins fyrir rekstrarárið 2011 ekki enn verið skilað.

Sjónarmið Öldu Seafood ehf.

Í greindu bréfi Öldu Seafood dags. 16. apríl sl. er hin kærða ákvörðun gagnrýnd. Þar segir að félagið hafi talið sig sýna fram á að óumdeilt væri að umræddar aflaheimildir tilheyrðu Öldu Seafood ehf. Auk kaupsamninga á aflahlutdeild hafi verið lögð fram afsöl sem sýndu að félagið væri löglegur og réttmætur eigandi Flugöldu SI-5 (2289) sem aflahlutdeild hafi verið flutt til. Þá er í bréfinu vísað til álits meirihluta atvinnuveganefndar við þriðju umræðu um frumvarp það sem varð að lögum um veiðigjöld (þskj. 1432). Þar komi fram að tillögu um lækkun sérstaks veiðigjalds vegna kaupa á aflaheimildum hafi verið ætlað að mæta þeirri gagnrýni að ekki væri nægilegt tillit tekið til stöðu þeirra sjávarútvegsfélaga sem fjárfest hafi í aflaheimildum á síðustu árum. Sérstök áhersla er lögð á þessi ummæli í álitinu:

Sérfræðingar virðast telja líklegt að samþykkt frumvarpsins hafi einna verst áhrif á þessi fyrirtæki þar sem aðilar í þessari stöðu hafa minna svigrúm til aðlögunar vegna breyttrar löggjafar en aðrir þeir sem njóta þess að hafa haft meiri tíma til þess að byggja sig upp og skipuleggja reksturinn þar sem þeir hafa lengi haft yfir nægum aflaheimildum að ráða.


Í ljósi alls þessa leggur meirihlutinn til að nýju ákvæði til bráðabirgða verði bætt við frumvarpið. Þar verði kveðið á um rétt útgerðarfyrirtækja eða einstaklinga með atvinnurekstur í útgerð til lækkunar á sérstöku veiðigjaldi vegna vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeild [...].


[...]


Svo að tekið verði tillit til þeirra sem keypt hafa aflahlutdeildir síðustu mánuði leggur meiri hlutinn til að taka skuli tillit til vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflaheimildum á árinu 2012 sem gerð hafa verið fyrir 1. júní, með sama hætti og gildi um fyrri ár. Þá leggur meirihlutinn til að taka skuli tillit til skulda vegna kvótakaupa sem eru ekki hjá handhafa veiðiheimildanna sem greiðir veiðigjöldin. Er síðara ákvæðinu komið til móts við ábendingar þess efnis að í einhverjum tilvikum kunni skuldir vegna kvótakaupa að vera á nafni annars félags en þess sem er skráður handhafi veiðiheimilda og mun því greiða veiðigjöld.

Með vísun til þessara lögskýringargagna telur Alda Seafood ehf. að ekki verði deilt um tilgang laganna og því standi rök til að ákvörðun Fiskistofu verði breytt. Í umsögn Fiskistofu um hina kærðu ákvörðun í bréfi dags. 2. maí sl. er rökstuðningur í ákvörðun stofnunarinnar áréttaður, en með umsögninni fylgdu öll gögn málsins. Með rafbréfi frá 6. maí sl. var Öldu Seafood ehf. gefinn kostur á að gera athugasemdir við umsögn stofnunarinnar og framlögð gögn. Beiðni um athugasemdir félagsins var ítrekuð 15. ágúst sl. Athugasemdir félagsins bárust loks í rafbréfi 15. ágúst sl., en þar segir m.a. að félagið telji afgreiðslu Fiskistofu „ekki vera í samræmi við markmið laga um veiðigjöld“ og að félagið hafi „ekki fengið þá afgreiðslu málsins frá Fiskistofu sem því ber.“ Á það er bent að „umrætt skip var í löglegri eigu umsækjanda þegar aflamarki var úthlutað og jafnframt var það þinglýst kvöð á skipinu að aflahlutdeildir í eigu umsækjanda væru algerlega eign og á forræði umsækjanda“. Því væri ekki fallist á „að þær aflahlutdeildir sem málið varðar hefðu einhverntímann farið úr handhöfn umsækjanda“.

Í bréfi félagsins til ráðuneytisins, dags. 15. ágúst sl. er kæruefnið dregið svo saman að þess sé farið á leit að „úthlutað aflamark á Flugöldu ÓF-15 (2289) tilheyri Öldu útgerð ehf., sem verði þar með gjaldandi veiðigjalda sem lagt var á úthlutað aflamark 1. september 2012. Þá sé ljóst af skýringum með frumvarpi því sem varð að lögum um veiðigjöld að ekki hafi verið meining að meðhöndla þá sem stóðu í breytingum á skipakosti á annan hátt en tilgangur laganna segir til um. Þessu til viðbótar lagði félagið fram ný gögn. Annars vegar hreyfingarlista úr bókhaldi sem sýnir bókfært verðmæti aflahlutdeilda á tímabilinu 31. desember 2011 til 15. ágúst 2013. Af listanum megi ráða, eins og segir í bréfinu, að „engar aflahlutdeildir hafi verið framseldar frá félaginu og ásamt framlögðu afsali að félagið hafi aldrei misst yfirráðarétt sinn yfir umræddum aflahlutdeildum og hafi og sé lögmætur eigandi þeirra.“ Hins vegar lagði félagið fram kvittun fyrir greiðslu á veiðigjöldum vegna Flugöldu ÓF-15 (2289). Kvittunin sýni réttmætan greiðanda, Öldu útgerð ehf. og Fiskistofu sem móttakanda greiðslu.

Forsendur og niðurstaða

Í hinni kærðu ákvörðun taldi Fiskistofa ekki vera skilyrði til að taka til greina beiðni um lækkun sérstaks veiðigjalds vegna fiskveiðiársins 2012/2013, samkvæmt beiðni Öldu Seafood ehf., sem voru lögð á félagið Egó export ehf. vegna fiskiskipsins Flugöldu (2289). Samkvæmt afsali dags. 4. júlí 2012 var Alda Seafood eigandi Flugöldu (2289). Litið er til þess í ákvörðuninni að afsalinu var ekki þinglýst fyrr en 21. nóvember 2012 og tilkynning barst ekki til Fiskistofu um eigendaskiptin fyrr en seint í þeim mánuði. Af gögnum málsins virðist mega ráða að þær aflaheimildir sem voru álagningu veiðigjaldanna til grundvallar hafi fyrir 1. ágúst og eftir 18. september 2012 verið skráðar á annað fiskiskip, Haföldu (7447), sem var í eigu Öldu Seafood. Fram kemur í kæru að Alda Seafood ehf. hafi greitt veiðigjöld sem lögð voru á Flugöldu (2289).

Þeir aðiljar sem ráða yfir fiskiskipi, sem fær úthlutað aflaheimildum, sbr. 2. og 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, teljast skyldir til greiðslu veiðigjalda skv. 6. gr., sbr. 13 og 14. gr. laga um veiðigjöld. Þetta endurspeglast í 4. gr. reglugerðar nr. 838/2012 um tímabundna lækkun sérstaks veiðigjalds, þar sem segir:

Gjaldandi sérstaks veiðigjalds á rétt á lækkun gjaldsins vegna fiskveiðiársins 2012/2013, ef keypt aflahlutdeild, sbr. 1. tl. 2. gr. [reglugerðarinnar], er í handhöfn hans, við upphaf fiskveiðiársins 2012/2013 og á hann hefur verið lögð skylda til greiðslu veiðigjalda af aflamarki samkvæmt henni fyrir það fiskveiðiár.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 689/2011 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2011/12, sem var í gildi á þessum tíma, voru sett skýr fyrirmæli um skyldu til að tilkynna flutninga aflahlutdeildar fyrirfram og að flutningur öðlist ekki gildi fyrr en að fenginni staðfestingu Fiskistofu. Þessi ákvæði hafa ekki þýðingu í þessu máli enda er ekki deilt um áhrif hlutdeildarfærslu milli fiskiskipa.

Í 3. mgr. 17. gr. laga um stjórn fiskveiða er kveðið á um skráningu eigendaskipta að fiskiskipum. Þar segir:

Eigendaskipti á fiskiskipi, eða aðra breytingu á útgerðaraðild fiskiskips, sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni, skal innan 15 daga frá undirritun samnings tilkynna til Fiskistofu. Bæði seljandi og kaupandi, eða leigusali og leigutaki þegar um leigu er að ræða, skulu sameiginlega undirrita tilkynningu um breytta útgerðaraðild á sérstöku eyðublaði sem Fiskistofa leggur til í þessu skyni. Afrit af kaupsamningi eða leigusamningi skal fylgja tilkynningu. Ábyrgð á tilkynningu til Fiskistofu hvílir á kaupanda skips eða leigutaka þess eftir atvikum. Ráðherra getur í reglugerð kveðið nánar á um framkvæmd tilkynningarskyldu. Vanefndir á tilkynningarskyldu varða viðurlögum skv. 25. gr.

Samkvæmt þessu er skylt að tilkynna eigendaskipti innan 15 daga frá undirritun samnings um eigendaskipti að fiskiskipi. Í greininni er ekki mælt fyrir um að gildisskilyrði eigendaskipta sé samþykki eða staðfesting opinbers aðila með sambærilegum hætti og þegar kemur að handhafaskiptum að aflahlutdeildum.

Í 4. mgr. ákvæðis II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld er sett sérstök regla um kaup á aflahlutdeildum á árinu 2012, svohljóðandi:

Taka skal tillit til vaxtakostnaðar vegna kaupa á aflahlutdeildum á árinu 2012 sem gerð hafa verið fyrir gildistöku laganna með sama hætti og gildir um fyrri ár.

Í lögskýringargögnum með því frumvarpi sem varð að lögum um veiðigjöld eru ekki gefnar leiðbeiningar um skýringu þessa ákvæðis, en tilgangur þess er auðsjálega sá að afsláttur vegna kvótakaupa taki til viðskipta sem átt hafi sér stað allt fram til gildistöku laganna, en þau öðluðust gildi 5. júlí 2012. Vegna þess hvernig ákvæði 1. mgr. ákvæðis til bráðabirgða II við lögin taka mið af því að upplýsingar til töku ákvörðunar kæmu úr skattframtölum útgerðarfélaga 2012 (skattárið 2011), er ekki fullljóst með hvaða hætti löggjafinn sá fyrir sér að tryggt væri að ákvæðið næði fram að ganga. Í 7. gr. reglugerðar nr. 838/2012 var umrætt ákvæði fært nánar út. Greinin hljóðar svo:

7. gr.
Kaup aflahlutdeildar á árinu 2012 fram að gildistöku laga um veiðigjöld.

Hafi gjaldandi veiðigjalds keypt aflahlutdeild á tímabilinu 1. janúar til 5. júlí 2012 og vaxtakostnaður hans hefur aukist af þeim sökum, getur hann óskað eftir að tillit verði tekið til þess við ákvörðun lækkunar sérstaks veiðigjalds skv. 5. gr. vegna fiskveiðiársins 2012/2013. Í þeim tilvikum skal umsækjandi tilgreina aflahlutdeildina, kaupverð hennar, fjárhæð lána sem tengjast kaupunum og vaxtagjöld vegna þeirra. Umsókn skulu fylgja gögn vegna kaupanna s.s. myndrit af kaupsamningi og viðkomandi lánasamningi.


Við útreikning á lækkun veiðigjalds vegna þeirra aðstæðna sem í 1. mgr. getur skal bæta kaupverði aflaheimilda við ófyrnanlegar eignir og fjárhæð lána, vegna kaupanna, við vaxtaberandi skuldir. Reikna skal 4% vaxtagjöld af viðkomandi lánum miðað við heilt ár og bæta þeim við vaxtagjöld ársins 2011. Þó er heimilt að miða við vexti af lánum vegna kaupa aflahlutdeildar á árinu 2012 ef gjaldandi veiðigjalds sýnir fram á þá með vísun til gagna skv. 1. mgr. Hafi peningalegar eignir verið notaðar til að fjármagna kaupin að hluta skal lækka peningalegar eignir um þá fjárhæð áður en þær eru dregnar frá vaxtaberandi skuldum.

[...]

Ákvæði þessarar greinar eiga ekki við, enda snýr viðfangsefni hinnar kærðu ákvörðunar ekki að kaupum á aflahlutdeildir heldur eignarhaldi fiskiskips sem á voru skráðar aflahlutdeildir og mynduðu stofn til álagningar sérstaks veiðigjalds. Að því fram kemur í kærunni voru þessar aflahlutdeildir aldrei seldar frá Öldu Seafood ehf., og fær það nokkra staðfestingu í þeim hlutdeildarflutningum sem áttu sér stað eftir að fiskveiðiárið var hafið og öðrum framlögðum gögnum, m.a. þeim sem lögð voru fram með stjórnsýslukæru þessari.

Þrátt fyrir að sérstakt veiðigjald hafi verið lagt réttilega á Egó Export ehf., sem opinberlega skráðan handhafa aflahlutdeildar við upphaf fiskveiðiársins 2012/13, þykir rétt, með vísan til markmiðs 4. mgr. ákvæðis II. til bráðabirgða við lög um veiðigjöld og þess að Alda Seafood ehf. keypti fiskiskipið Flugöldu (2289) fyrir gildistöku laga um veiðigjöld, að fallast á beiðni félagsins um að það njóti mögulegs réttar til lækkunar á veiðigjöldum samkvæmt reglugerð nr. 838/2012. Af þessum ástæðum og að öðru leyti með vísan til forsendna, er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi. Fiskistofa skal taka umsókn Öldu Seafood ehf. til endurskoðunar.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Arnór Snæbjörnsson.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira