Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 45/2013

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 26. nóvember 2013 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 45/2013.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 22. mars 2013, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar sem hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að eiga rétt á þeim vegna dvalar sinnar erlendis á tímabilinu frá 21. desember 2012 til 31. janúar 2013 sem hann vísvitandi lét hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur, að viðbættu 15% álagi, fyrir fyrrgreint tímabil, samtals að fjárhæð 221.726 kr. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 3. maí 2013. Hann krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Vinnumálastofnun telur að hin kærða ákvörðun hafi verið rétt.

Kærandi sótti síðast um atvinnuleysisbætur 2. maí 2011.

Vinnumálastofnunar barst ábending þess efnis að kærandi hafi farið til útlanda 21. desember 2012 og komið heim 15. febrúar 2013. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 15. febrúar 2013, var kæranda tilkynnt að stofnunin hefði undir höndum upplýsingar þess efnis að hann hafi verið í útlöndum á sama tíma og hann þáði greiðslur atvinnuleysisbóta. Kæranda var bent á að skila inn skýringum og athygli hans vakin á því að skv. c-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar væri skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysisbóta að viðkomandi væri staddur hér á landi. Jafnframt var athygli hans vakin á því að hann gæti þurft að sæta viðurlögum skv. 59. eða 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ef hann hefði látið hjá líða að veita Vinnumálastofnun upplýsingar um för sína til útlanda.

Þar sem kærandi skilaði ekki inn neinum skýringum var mál hans tekið fyrir á fundi hjá Vinnumálastofnun 27. febrúar 2013 og með bréfi, dags. 4. mars 2013, var kæranda tilkynnt að greiðslur til hans hefðu verið stöðvaðar þar sem ekki hefðu borist umbeðnar skýringar frá honum.

Vinnumálastofnun barst síðan skýringarbréf kæranda, dags. 5. mars 2013, þar sem hann kvaðst hafa verið á Íslandi frá 1. janúar til 2. febrúar 2013. Kvaðst hann hafa millifært af reikningi sínum yfir á reikning unnustu sinnar og skattyfirvalda og greitt sekt á lögreglustöðinni við Hlemm 11. febrúar 2013. Að auki hafi hann fengið vottorð frá flugfélaginu Wow air þess efnis að hann hafi ekki ferðast með þeim á þessu tímabili. Þá hafi hann lagt fram yfirlit yfir debet-kortafærslur sínar þennan tíma og greitt símareikninga frá Nova í janúar og febrúar.

Mál kæranda var endurupptekið og á fundi Vinnumálastofnunar voru skýringar hans ekki metnar gildar, þar sem fyrir hafi legið staðfesting frá tollyfirvöldum þess efnis að kærandi fór til útlanda 21. desember 2012 og kom til baka 15. febrúar 2013. Reiknisyfirlit kæranda frá Íslandsbanka hafi ekki sýnt neinar úttektarhreyfingar á tímabilinu 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013 sem gætu staðfest að kærandi hefði verið á Íslandi á þeim tíma. Sama hafi átt við reikningsyfirlit vegna símanotkunar frá Nova. Þá mat Vinnumálastofnun fullyrðingar kæranda, þess efnis að hann hafi ekki getað fengið vottorð frá flugfélaginu Icelandair um það hvort hann hafi ferðast með flugfélaginu á ákveðnu tímabili, ekki trúanlegar þar sem starfsmaður Vinnumálastofnunar hafi haft samband við flugfélagið og fengið þær upplýsingar að það gæti gefið út þess konar vottorð.

Var kæranda í kjölfarið tilkynnt um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 22. mars 2013.

Í kæru kæranda kemur fram að hann hafi gleymt að tilkynna dvöl sína í útlöndum í desember 2012. Hann telji, í ljósi þess að hann hafi ekki brotið af sér áður gagnvart Vinnumálastofnun, beitingu 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vera óhóflega þunga refsingu.

 

Í greinargerð sinni til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 25. júní 2013, greinir Vinnumálastofnun frá því að lög um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna eða sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verða atvinnulausir. Stofnunin vísar til 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og athugasemda með 23. gr. frumvarps því er varð að lögum nr. 134/2009. Þar komi meðal annars fram að til greina komi að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðisins þegar atvinnuleitandi gefi stofnuninni „vísvitandi rangar upplýsingar“ sem leiði til þess að atvinnuleitandi teljist ranglega tryggður að fullu eða hluta. Þá sé gert ráð fyrir því að Vinnumálastofnun beiti viðurlögunum ef atvinnuleitandi starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma  og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur án þess að tilkynna stofnuninni um að atvinnuleit sé hætt skv. 35. gr. a. eða 10. gr. laganna.

Vinnumálastofnun bendir á að samkvæmt upplýsingum frá tollyfirvöldum hafi kærandi farið til útlanda 21. desember 2012 og komið aftur til landsins 15. febrúar 2013. Þá bendir stofnunin á að frá því að kæranda barst bréf stofnunarinnar, dags. 15. febrúar 2013, hafi hann þvertekið fyrir að hafa verið í útlöndum á umræddu tímabili. Upplýsingarnar sem Vinnumálastofnun hafi fengið frá tollyfirvöldum stafi frá opinberum aðilum sem beri meðal annars að hafa eftirlit með ferðum einstaklinga til og frá Íslandi. Vinnumálastofnun hafi því ekki tilefni til að efast um sannleiksgildi upplýsinga er berist frá tollyfirvöldum og séu fengnar með vísan til heimildar Vinnumálastofnunar skv. 4. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi skilað inn kvittun frá Lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu þar sem fram komi að sekt sem kærandi hafi fengið 12. desember 2012 hafi verið greidd 11. febrúar 2013. Sektin hafi þó verið greidd með peningum en ekki korti svo ekki hafi verið hægt að staðfesta að kærandi hafi sjálfur farið og greitt sektina. Engin hreyfing sé á bankakorti kæranda sem beri saman um að hann hafi tekið út einhverja seðla í aðdraganda þess að hann hafi farið og greitt sektina. Kærandi hafi lagt fram hreyfingaryfirlit frá Nova til að sýna fram á að farsími hans hafi ekki verið notaður í janúar og febrúar 2013. Er það mat Vinnumálastofnunar að það hreyfingaryfirlit segi ekkert um hvort kærandi hafi verið á Íslandi eða ekki, enda sé ekki hægt að sýna fram á að kærandi hafi sjálfur verið að nota farsíma sinn. Yfirlýsing flugfélagsins Wow air staðfesti einungis að kærandi hafi ekki flogið með þeim og kærandi hafi ranglega sagt að hann gæti ekki fengið samskonar yfirlýsingu frá flugfélaginu Icelandair.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi hafi skilað inn reikningsyfirliti yfir bankakortið sitt hjá Íslandsbanka frá 2. janúar 2012 til 28. febrúar 2013 og sé það skoðað séu reglulegar hreyfingar á korti kæranda, hraðbankaúttektir, millifærslur og greiðslur í verslunum eða þjónustustöðum, frá ársbyrjun 2012 og allt fram í nóvember 2012. Á tímabilinu frá 3. desember 2012 til 4. febrúar 2013 séu ekki aðrar færslur en millifærslur til unnustu kæranda og innborganir vegna launa. Aðeins ein færsla sé af öðrum toga á reikningi kæranda og sé hún framkvæmd 20. desember 2012, degi áður en kærandi hafi farið til útlanda, en þá séu teknar út 142.690 kr. af reikningi kæranda. Engin færsla af reikningsyfirliti kæranda á tímabilinu 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013 sýni það að kortið hans hafi verið notað á því tímabili á Íslandi. Færsla um greiðslu til tollstjóra sé dagsett 18. febrúar og úttekt úr hraðbanka á Dalvegi sé dagsett 28. febrúar 2013.

Með vísan til framangreinds sé það mat stofnunarinnar að kærandi hafi með því að leggja fram fyrrgreind gögn vísvitandi reynt að fá greiðslur atvinnuleysisbóta án þess að eiga rétt til þeirra. Hafi það því verið mat Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi sæta viðurlögum skv. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun bendir á að kærandi segi orðrétt í kæru; „Þegar ég fór erlendis í desember gleymdi ég einfaldlega að láta vita af því“. Þrátt fyrir að hafa ítrekað staðhæft við Vinnumálastofnun að hann hafi ekki verið í útlöndum á tímabilinu 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013, viðurkenni kærandi í kæru sinni að hann hafi farið til útlanda. Vinnumálastofnun telur að framkoma kæranda við meðferð málsins og viðurkenning hans á að hafa farið til útlanda þremur mánuðum eftir að mál hans kom upp hjá stofnuninni staðfesti að kærandi hafi vísvitandi veitt rangar upplýsingar svo hann hafi talist ranglega tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar og beita beri ákvæði 60. gr. þeirra laga.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 1. júlí 2013, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 15. júlí 2013. Frekari efnislegar athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 12. ágúst 2013, var kæranda tilkynnt um að mál hans myndi tefjast hjá nefndinni sökum mikils málafjölda.

 

2.

Niðurstaða

Mál þetta lýtur að því hvort kærandi hafi aflað atvinnuleysisbóta með sviksamlegum hætti í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar með því að vera í útlöndum frá 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013 án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um ferðir sínar.

Með setningu 4. gr. laga nr. 103/2011 var orðalagi fyrsta málsliðar 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar breytt. Frá og með 3. september 2011 hefur ákvæðið verið svohljóðandi:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Í  athugasemdum greinargerðar við 4. gr. frumvarps þess er síðar varð að lögum nr. 103/2011, kemur fram að lagt sé til að orðin „í umsókn um atvinnuleysisbætur“ verði felld brott enda eigi það ekki að skipta máli hvar eða með hvaða hætti hinn tryggði veitir Vinnumálastofnun vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum. Enn fremur sé lagt til að litið sé á það að hinn tryggði láti vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum sem atvinnuleysisbóta sé aflað með sviksamlegum hætti. Sé því lagt til að því verði bætt við 60. gr. laganna og hafi þá sömu afleiðingar og það að gefa Vinnumálastofnun rangar upplýsingar.

Samkvæmt gögnum þessa máls, sbr. meðal annars viðurkenningu kæranda sjálfs í kæru, var hann í útlöndum á tímabilinu frá 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013. Hann tilkynnti Vinnumálastofnun ekki um þessa ferð og þegar stofnunin óskaði eftir skýringum á ferðum hans með bréfi, dags. 15. febrúar 2013, þvertók hann í bréfi, dags. 5. mars 2013, fyrir að hafa ekki verið á Íslandi frá 1. janúar til 28. febrúar 2013.

Samkvæmt framangreindu ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar skal sá sem veitir vísvitandi rangar upplýsingar sem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögunum ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í ákvæðinu um tilkynningu á breytingu á högum, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Með vísan til alls framangreinds, þess að með því að reyna vísvitandi að fá greiddar atvinnuleysisbætur án þess að eiga rétt til þeirra og þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun, verður hún staðfest.

Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að standa skil á ofgreiddum atvinnuleysisbótum ásamt 15% álagi fyrir tímabilið frá 21. desember 2012 til 15. febrúar 2013 alls 221.726 kr. en innifalið í þeirri fjárhæð er 15% álag.

 


 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 22. mars 2013 í máli A, þess efnis að kærandi skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 221.726 kr., er staðfest.

 

 

Brynhildur Georgsdóttir,

formaður

 

 

                        Hulda Rós Rúriksdóttir                                 Helgi Áss Grétarsson

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum