Hoppa yfir valmynd

mál nr. 73/2013

Endurgreiðsla tryggingafjár.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í málinu nr. 73/2013

 

Endurgreiðsla tryggingafjár.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, mótt. 10. október 2013, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.    

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 30. október 2013, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þann 9. desember 2013.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 1. október 2009, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila að C. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingafjár við lok leigusamnings.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða eftirstöður tryggingafjár, þ.e. 120.000 kr., ásamt verðbótum og viðeigandi vanskilavöxtum. 

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi leigt íbúðina í tvö ár. Leigutími hafi verið frá 1. október 2009 til 1. nóvember 2012. Áður en afhending hins leigða húsnæðis hafi farið fram hafi álitsbeiðandi greitt tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningnum, sbr. 39. gr. húsaleigulaga. Tryggingin hafi samsvarað leigugreiðslu fyrir tvo mánuði, þ.e. 240.000 kr. Leigusamningnum hafi verið sagt upp þann 20. september 2012 en samið hafi verið um að álitsbeiðandi myndi greiða leigu fyrir einn mánuð með tryggingarfénu. Eftir standi því 120.000 kr. af upprunalegri tryggingu og hefur gagnaðili ekki enn greitt álitsbeiðanda fjárhæðina þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til þess að fá kröfuna efnda.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga skuli leigusali að leigutíma loknum segja til þess svo fljótt sem verða megi hvort hann geri kröfu í tryggingafé eða hafi uppi áskilnað um það. Ella skuli hann skila leigjanda tryggingarfénu ásamt verðbótum án ástæðulauss dráttar. Leigusala sé aldrei heimilt að halda tryggingarfénu í sinni vörslu án þess að gera kröfu í það lengur en í tvo mánuði frá skilum húsnæðisins, sbr. 1. mgr. 64. gr. húsaleigulaga. Ljóst sé að gagnaðili hafi fyrirgert rétti sínum til að gera kröfu í tryggingaféð þar sem engar athugasemdir hafi borist af hálfu gagnaðila um ástand leiguhúsnæðisins og hann hafi ekki gert kröfu í tryggingaféð. Þvert á móti hafi gagnaðili játað réttmæti kröfunnar en beri fyrir sig ógreiðslufærni sem eigi ekki við rök að styðjast.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að þegar hafi verið samið um málið og gagnaðili fallist á að greiða 120.000 kr. sem uppá hafi vantað. Fjárhæðin muni greiðast í dreifðum greiðslum fjórum til sex talsins yfir næstu mánuði.

Álitsbeiðandi mótmælir því að búið sé að semja um málið.

 

III. Forsendur

Í máli þessu er deilt um uppgjör við lok leigusamnings. Eru aðilar sammála um að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda eftirstöðvar tryggingar að fjárhæð 120.000 kr. Þá krefst álitsbeiðandi einnig viðurkenningar á því að fjárhæðin skuli vera verðtryggð og bera dráttarvexti.

Samkvæmt 4. tölul. 40. gr. húsaleigulaga skal tryggingarfé í vörslu leigusala vera verðtryggt en ber ekki vexti. Það er því álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda eftirstöðvar tryggingar að fjárhæð 120.000 kr. ásamt verðbótum.

Hlutverk kærunefndar er að taka afstöðu til ágreiningsefna milli aðila leigusamnings við gerð og/eða framkvæmd leigusamnings, sbr. 1. mgr. 85. gr. húsaleigulaga. Það er álit kærunefndar að ágreiningur um greiðslu vaxta falli utan þess hlutverks og er krafan um vexti því ekki tekin til greina.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda eftirstöðvar tryggingar, 120.000 kr., ásamt verðbótum.

 

 

Reykjavík, 9. desember 2013

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira