Hoppa yfir valmynd

Veiðifélag Mývatns kærir ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.

Fiskrækt - Úthlutun úr sjóði - Verksvið - Leiðbeiningarskylda - Lögmæt sjónarmið

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 5. júlí 2013, sem barst ráðuneytinu sama dag, frá Lex ehf. f.h. Veiðifélags Mývatns, Garði 2, 660 Mývatni, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum fyrir almanaksárið 2013.


Stjórnsýslukæran er byggð á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, þess efnis að hafna umsókn kæranda um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði fyrir almanaksárið 2013 á þeim grundvelli að verkefnið "Gönguhegðun silungs í Mývatni"falli utan verksviðs sjóðsins. Þess er krafist að viðurkennt verði að verkefnið falli undir verksvið sjóðsins.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, ódags. sem birt var í Bændablaðinu 7. febrúar 2013 og einnig í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 2. febrúar 2013, auglýsti Fiskræktarsjóður eftir umsóknum um úthlutun styrkja úr sjóðnum, sbr. 8. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Umsóknarfrestur var til og með 1. mars 2013.


Kærandi sótti um úthlutun styrks úr sjóðnum með umsókn, dags. 28. febrúar 2013, en í umsókninni var lýsing á því verkefni sem umsóknin var byggð á. Með bréfi, dags. 26. apríl 2013, tilkynnti stjórn Fiskræktarsjóðs kæranda þá ákvörðun stjórnarinnar að hafna umsókn veiðifélagsins. Í ákvörðuninni segir m.a.: "Með umsókn yðar til Fiskræktarsjóðs dags. 28. febrúar 2013 var óskað eftir styrk úr sjóðnum vegna verkefnisins: Gönguhegðun silungs í Mývatni. Stjórn Fiskræktarsjóðs telur verkefnið utan verksviðs sjóðsins og hafnar því þessari styrkbeiðni. "


Þá kom fram í ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri þrír mánuðir frá því að kæranda barst framangreind tilkynning, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

Málsástæður með stjórnsýslukæru o.fl.

Með stjórnsýslukæru, dags. 5. júlí 2013, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði Lex ehf. f.h. Veiðifélags Mývatns framangreinda ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.

Í stjórnsýslukærunni kemur fram m.a. að kærandi sé veiðifélag í skilningi 53. tl. 3. gr. laga nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði og starfi á grundvelli VI. kafla laganna. Hlutverk félagsins sé m.a. að stunda fiskrækt á félagssvæðinu, eftir því sem þörf krefji, til að tryggja vöxt og viðgang fiskstofna og sjálfbæra nýtingu þeirra, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr. laganna. Í umsókn kæranda um styrk úr Fiskræktarsjóði komi fram að verkefnið lúti að fiskirannsóknum og fiskrækt. Verkefnið felist í því að afla ítarlegra upplýsinga um dreifingu og gönguhegðun bleikju og urriða í Mývatni og hafi þeir sem áformað var að myndu vinna verkefnið sérhæft sig í framsæknum rannsóknum á atferli fiska og umhverfi þeirra. Tilgangurinn með verkefninu hafi verið að fá svör við spurningum um þessa þætti til að unnt væri að taka mið af þeim við verndun og nýtingu bleikju- og urriðastofna Mývatns. Ástæðan sé einkum sú að síðastliðin ár hafi fáein þúsund silunga verið veiddir í Mývatni sem sé lítið þegar litið sé til þess að árleg meðalveiði í vatninu áratugum saman hafi lengst af verið margfalt það magn. Að mati kæranda kalli lítil stofnstærð silungs í Mývatni undanfarin ár á að rannsóknir verði framkvæmdar svo hægt verði að nýta niðurstöðurnar til umbóta með hliðsjón af nýtingu og verndun silungsins. Umsókn kæranda hafi verið hafnað á þeim grundvelli að verkefnið félli "utan verksviðs sjóðsins".Kærandi telji hins vegar að verkefnið sé á verksviði Fiskræktarsjóðs og sé m.a. vísað til ákvarðana stjórnar Fiskræktarsjóðs um styrkveitingar undanfarin ár. Einnig sé vísað til eldri umsókna kæranda um styrki úr Fiskræktarsjóði og telji kærandi að ekki sé samræmi milli úrlausna sjóðsins á milli ára, m.a. hafi umsókn kæranda vegna sama verkefnis verið hafnað á árinu 2011 á þeim forsendum að Fiskræktarsjóði væri ekki unnt að styrkja verkefnið þar sem "öðrum verkefnum var forgangsraðað framar".Á árinu 2012 hafi kærandi sótt aftur um styrk en þá hafi niðurstaða stjórnar Fiskræktarsjóðs verið sú að verkefnið félli "utan verksviðs sjóðsins".Umrædd ákvörðun stjórnar sjóðsins hafi verið kærð til ráðuneytisins hinn 23. júlí 2012. Með úrskurði ráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2012, hafi ákvörðun stjórnarinnar verið staðfest en í rökstuðningi ráðuneytisins hafi einungis verið fjallað um hvort réttilega hafi verið staðið að úthlutun styrkjanna en ekki hvort styrkumsóknir kæranda hafi fallið undir verksvið sjóðsins. Synjun um styrkveitingu teljist stjórnvaldsákvörðun í skilningi 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2548/1998.


Einnig kemur fram í stjórnsýslukærunni að ágreiningur í málinu sé afmarkaður með þeim hætti að einungis sé óskað eftir að ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs verði ógilt að því er varðar þá niðurstöðu að verkefni kæranda hafi fallið "utan verksviðs" Fiskræktarsjóðs. Ekki sé hins vegar ágreiningur um að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi svigrúm við mat á hvaða umsóknir fái úthlutað úr sjóðnum ár hvert enda sé ljóst að við afgreiðslu umsókna sé Fiskræktarsjóður að úthluta takmörkuðum fjármunum til ýmissa verkefna, ákvarðanir um það efni séu byggðar á mati og því sýnt að ekki geti allir umsækjendur fengið styrki úr sjóðnum, sbr. til hliðsjónar álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 1718/1996, sbr. og athugasemdir við 21. gr. frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993. Kæran sé því ekki sett fram í því skyni að hnekkja því að umsókn kæranda hafi verið hafnað heldur einungis að hnekkja því að verkefnið falli utan verksviðs sjóðsins. Tilgangurinn sé sá að kærandi geti komið til greina sem styrkþegi á komandi árum vegna þessa verkefnis. Styrkir úr Fiskræktarsjóði séu eftirsóknarverðir og geti haft mikla fjárhagslega þýðingu fyrir þá sem vilji stunda rannsóknir til uppbyggingar á fiskrækt hér á landi. Samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð sé ljóst að verksvið sjóðsins sé víðtækt og að fjölbreyttar umsóknir geti komið til greina við úthlutun styrkja. Einnig sé hugtakið fiskrækt skilgreint með víðtækum hætti í lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði en í 15. tl. 3. gr. laganna komi fram að um sé að ræða hvers konar aðgerðir sem ætla megi að skapi eða auki fisk í veiðivatni eða arð af veiðivatni. Í verklagsreglum Fiskræktarsjóðs fyrir árið 2013 komi fram að meginhlutverk sjóðsins sé að veita lán og styrki til verkefna sem þjóni þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Þá komi þar fram að styrkir Fiskræktarsjóðs séu ætlaðir einstaklingum, fyrirtækjum, rannsókna-, þróunar- og háskólastofnunum. Stjórn Fiskræktarsjóðs flokki styrkumsóknir í fimm flokka og hafi umsókn kæranda verið talin falla undir flokk samkvæmt e-lið, sem séu "Verkefni utan verksviðs sjóðsins".Kærandi telji þá afstöðu ekki eðlilega í ljósi þess að verksvið Fiskræktarsjóðs sé víðtækt, m.a. sýni úthlutanir síðustu ára glögglega að veittir hafi verið styrkir til margra nýstárlegra verkefna og séu þar sem dæmi nefnd nokkur verkefni. Verkefni kæranda lúti að fiskirannsóknum og fiskrækt og eigi að taka mið af upplýsingum úr rannsókninni við verndun og nýtingu bleikju- og urriðastofna Mývatns. Með verkefninu sé kærandi að uppfylla það lögbundna hlutverk sitt sem veiðifélag að stunda fiskrækt á félagssvæði sínu, sbr. b-lið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 61/2006. Umsóknin uppfylli því skilyrði 1. gr. laga nr. 72/2008 um að vera til þess að efla fiskrækt auk þess sem rannsóknin sé í vatni og sé tilgangurinn sá að auka verðmæti veiða í Mývatni.


Ennfremur sé bent á að við meðferð þess stjórnsýslumáls sem lauk með úrskurði ráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2012, hafi borist umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs þar sem hafi komið fram m.a. að stjórnin telji "afgreiðslu umræddrar umsóknar falla innan ramma þeirra laga sem gilda um Fiskræktarsjóð".Þá hafi komið þar fram að stjórnin leggi áherslu á að afgreiðsla á umræddu verkefni hafi verið í samræmi við "tilgang laga um styrkveitingar úr sjóðnum til rannsókna og þýðingu þeirra til að efla fiskistofna í ám og vötnum." Af þessu virðist mega ráða að stjórnin hafi talið, eða í það minnsta ekki mótmælt, að umsókn kæranda hafi fallið innan verksviðs sjóðsins en þrátt fyrir það hafi stjórnin einnig talið að umsókn kæranda félli ekki undir verksvið sjóðsins á árinu 2013.


Þá telji kærandi að sú röksemd stjórnar Fiskræktarsjóðs að umsókn hans falli "utan verksviðs" Fiskræktarsjóðs feli í sér brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. til hliðsjónar sjónarmið í áliti umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5364/2008. Í kærunni eru nefnd nokkur dæmi um verkefni, sem kærandi telji vera svipuð og verkefni kæranda, sem hafi fengið styrki úr Fiskræktarsjóði. Auk þess hafi umsókn kæranda fengið aðra meðferð annars vegar á árinu 2011 og hins vegar á árunum 2012 og 2013.


Loks telji kærandi að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi brotið gegn leiðbeiningarskyldu 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kæranda hafi ekki verið leiðbeint um þá annmarka sem stjórn sjóðsins hafi talið vera á umsókn kæranda og vísi um það m.a. til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5192/2007 og athugasemda við 7. gr. í frumvarps þess er varð að stjórnsýslulögum nr. 37/1993.


Með hliðsjón af framanrituðu sé ítrekað að kærandi telji að sú afstaða stjórnar Fiskræktarsjóðs að verkefni kæranda, "Gönguhegðun silungs í Mývatni" hafi fallið "utan verksviðs" sjóðsins sé röng.


Eftirtalin gögn fylgdu stjórnsýslukærunni í ljósritum: 1) umsókn kæranda, dags. 28. febrúar 2013, ásamt fylgiskjali, 2) bréf Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, 3) umsókn kæranda vegna verkefnisins "Gönguhegðun silungs í Mývatni", dags. 8. janúar 2012, 4) bréf Fiskræktarsjóðs, dags. 24. apríl 2012, 5) kæra kæranda til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 23. júlí 2012, 6) úrskurður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins, dags. 19. nóvember 2012, 7) verklagsreglur Fiskræktarsjóðs 2013, 8) útprentun af heimasíðu Fiskistofu, 9) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2005, 10) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2006, 11) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2007, 12) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2008, 13) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2009, 14) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2010, 15) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2011, 16) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2012, 17) úthlutanir úr Fiskræktarsjóði árið 2013, 18) bréf Fiskræktarsjóðs, dags. 9. maí 2011.


Með bréfi, dags. 14. ágúst 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem stjórn Fiskræktarsjóðs kynni að hafa um málið.


Með tölvubréfi frá 1. nóvember 2013 barst ráðuneytinu umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs um málið. Þar er m.a. lýst styrkumsókn kæranda, þ.e. heiti verkefnisins, tegund þess, tilgangi og markmiðum, fjallað um lýsingu á verkefninu, framkvæmdaáætlun, skipulag o.fl. Einnig kemur fram í umsögninni að í verklagsreglum Fiskræktarsjóðs sem gildi fyrir úthlutunarárið 2013 komi m.a. fram að áhersla sé lögð á mikilvægi og nýnæmi með tilliti til fiskræktar, bættrar veiðiaðstöðu og rannsókna í ám og vötnum og með hvaða hætti afrakstur verkefnisins geti aukið verðmæti í ám og vötnum. Það hafi verið mat stjórnar Fiskræktarsjóðs að í umsókninni hafi ekki komið fram hvernig skuli ná tilgangi verkefnisins um mat á stofnstærð og stjórnun veiða eins og lýst sé í umfjöllun um tilgang og markmið. Stjórnin telji að samræmi verði að vera milli tilgangs og markmiða annars vegar og framkvæmdalýsingar hins vegar ef umsókn sé metin tæk til styrkveitinga. Því hafi það verið mat stjórnar Fiskræktarsjóðs að umsækjandi hafi ekki sýnt fram á að fyrirhuguð merking 30 fiska sé rannsóknaverkefni sem falli að þeim verkefnum sem Fiskræktarsjóði beri að styrkja. Vegna framkominna sjónarmiða kæranda taki stjórnin fram að réttara kunni að hafa verið að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún uppfylli ekki gæðakröfur sjóðsins. Í kærunni séu nefnd sjö verkefni sem eigi að vera lík eða a.m.k. svipuð og umrætt verkefni kæranda um "Gönguhegðun silungs í Mývatni".Þegar þrjú af þessum sjö verkefnum séu skoðuð komi í ljós veigamikill munur milli þeirra annars vegar og verkefnis kæranda hins vegar. Ekki komi heldur fram í umsókninni hvernig eigi að nýta niðurstöður um göngur 30 merktra fiska til þess að meta stofnstærð eða hvernig eigi að nýta umræddar niðurstöður "til umbóta með hliðsjón af nýtingu og verndun silungs".Þá telji stjórn Fiskræktarsjóðs það ekki falla undir leiðbeiningarskyldu stjórnarinnar að leiðbeina umsækjendum efnislega um gerð umsókna þannig að þær falli að úthlutunarreglum sjóðsins og kærandi hafi ekki leitað eftir sérstakri aðstoð eða leiðbeiningum varðandi umsókn til Fiskræktarsjóðs, enda giltu sérstakar verklagsreglur um úthlutun úr sjóðnum. Loks sé bent á að stjórn Fiskræktarsjóðs telji að samkvæmt lögum um Fiskræktarsjóð sé úrskurðarvald ráðuneytisins takmarkað við þá þætti málsins sem byggja megi á stjórnsýslulögum, sbr. 8. mgr. 8. gr. laga nr. 72/2008.


Einnig bárust ráðuneytinu með tölvubréfi frá 23. desember 2013 tiltekin gögn með umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs.


Með bréfi, dags. 26. nóvember 2013, veitti ráðuneytið kæranda kost á að gera athugasemdir við framangreinda umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 1. nóvember 2013.


Með bréfi, dags. 4. desember 2013, bárust ráðuneytinu tilteknar athugasemdir við umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs frá Lex ehf. f.h. Veiðifélags Mývatns en þar er áréttað að tilgangur með stjórnsýslukærunni sé einungis að hnekkja því að verkefnið sem umsókn kæranda tók til hafi fallið "utan verksviðs"Fiskræktarsjóðs eins og byggt hafi verið á í hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013. Einnig segir þar að af umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs megi ráða að stjórn sjóðsins dragi fyrri afstöðu sína alfarið til baka og viðurkenni að vegna framkominna sjónarmiða kæranda taki stjórnin fram að "réttara kunni að hafa verið að hafna umsókninni á þeirri forsendu að hún uppfylli ekki gæðakröfur sjóðsins".Kærandi telji því að stjórn Fiskræktarsjóðs virðist ekki lengur gera ágreining um þá afstöðu kæranda að umsókn veiðifélagsins hafi fallið innan verksviðs sjóðsins. Ennfremur telji kærandi nauðsynlegt að mótmæla sérstaklega þeim sjónarmiðum stjórnar Fiskræktarsjóðs sem varði gæði umsóknar kæranda. Kærandi telji að umsókn veiðifélagsins hafi verið vönduð og vel hafi verið skilgreint með hvaða hætti umsóknin væri tæk til styrkveitingar. Þá hafi verið augljóst af umsókninni að samræmi væri á milli tilgangs og framkvæmdalýsingar verkefnisins. Einnig sé því mótmælt að "veigamikill munur" hafi verið á umsókn kæranda og þriggja þeirra sjö verkefna sem vísað sé til í kæru. Stjórn Fiskræktarsjóðs hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings þessum sjónarmiðum sínum. Af þessum sjónarmiðum stjórnar Fiskræktarsjóðs megi þó ráða að stjórnin sé sammála kæranda um að a.m.k. fjögur af verkefnunum hafi verið lík verkefni kæranda. Þá sé því mótmælt að það falli ekki undir leiðbeiningarskyldu stjórnar Fiskræktarsjóðs að leiðbeina umsækjanda um gerð umsókna og sé vísað til rökstuðnings í stjórnsýslukærunni. Að lokum kemur fram í bréfinu að kærandi átti sig ekki á því sem komi fram í umsögn stjórnar Fiskræktarsjóðs að úrskurðarvald ráðuneytisins takmarkist við þá þætti málsins sem byggja megi á stjórnsýslulögum nr. 37/1993 en ljóst sé að allar röksemdir kæranda séu byggðar á stjórnsýslulögum og meginreglum stjórnsýsluréttarins.

 

Rökstuðningur

I. Um Fiskræktarsjóð gilda ákvæði laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum. Þar segir m.a. í 1. gr. að Fiskræktarsjóður sé sjálfstæður sjóður í eigu ríkisins og á forræði ráðherra sem hefur það hlutverk að veita lán eða styrki til verkefna sem þjóna þeim markmiðum að efla fiskrækt, bæta veiðiaðstöðu, styðja við rannsóknir í ám og vötnum og auka verðmæti veiði úr þeim. Í 2. gr. kemur fram að Fiskræktarsjóður lýtur fimm manna stjórn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Í 3. gr. kemur fram að stjórn Fiskræktarsjóðs hafi yfirumsjón með starfsemi sjóðsins og að verkefni stjórnar séu m.a. að taka ákvarðanir um úthlutanir og útgjöld. Í 8. gr. er fjallað um úthlutanir úr Fiskræktarsjóði, m.a. kemur þar fram að stjórn Fiskræktarsjóðs skuli gefa út og láta birta lána- og úthlutunarreglur sem skulu gilda fyrir sjóðinn næsta almanaksár. Um málsmeðferð við veitingu lána og styrkja úr sjóðnum gilda einnig ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II. Fiskræktarsjóður hefur tiltekið ráðstöfunarfé til úthlutunar fyrir almanaksárið 2013 samkvæmt lögum nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum, og ljóst er að ekki er unnt að veita styrki vegna allra umsókna sem hafa borist stjórn sjóðsins. Það er samkvæmt því mat ráðuneytisins að stjórn sjóðsins hafi ákveðið svigrúm til að velja þau verkefni sem ákveðið er að úthluta styrkjum til fyrir almanaksárið 2013.

Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að hlutverk ráðuneytisins við endurskoðun á hinni kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu takmarkist við úrlausn um hvort gætt hafi verið laga og stjórnvaldsreglna við ákvörðunina, þ.m.t. hvort ákvörðunin sé byggð á lögmætum og málefnalegum sjónarmiðum.

Ráðuneytið hefur farið yfir hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu og málsmeðferð stjórnar Fiskræktarsjóðs við ákvörðunina. Það er mat ráðuneytisins að hin kærða ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs í máli þessu hafi ekki verið byggð réttum forsendum en telja verður að umrætt verkefni sem sótt er um styrk til geti fallið innan verksviðs Fiskræktarsjóðs samkvæmt 1. gr. laga nr. 72/2008, um Fiskræktarsjóð, með síðari breytingum.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, í máli þessu og leggja fyrir stjórn Fiskræktarsjóðs að taka að nýju til meðferðar umsókn kæranda um úthlutun styrks úr sjóðnum á árinu 2013. Tekið skal fram að ráðuneytið hefur enga afstöðu tekið til þess hvert skuli vera mat stjórnar Fiskræktarsjóðs á umsókn kæranda í máli þessu.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Hin kærða ákvörðun stjórnar Fiskræktarsjóðs, dags. 26. apríl 2013, um að hafna umsókn kæranda, Veiðifélags Mývatns, um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði á árinu 2013, er felld úr gildi.


Jafnframt er lagt fyrir stjórn Fiskræktarsjóðs að taka að nýju til meðferðar umsókn kæranda um úthlutun styrks úr Fiskræktarsjóði á árinu 2013.


Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Ingimar Jóhannsson

Sigríður Norðmann


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira