Hoppa yfir valmynd

Toppnet ehf. kærir úthlutun byggðakvóta Skagastrandar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 þann 2. janúar 2013, hafi ekki verið úthlutað byggðakvóta til bátsins Garps HU-58, (6158).

Aflaheimildir - Úthlutun byggðakvóta - Umsóknarfrestur - Kæruheimild

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru KPMG ehf. f.h. Toppnets ehf., Hafnarhúsi v/Strandgötu, Skagaströnd, dags. 9. janúar 2012, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi 13. janúar 2013 og einnig með pósti 16. sama mánaðar, þar sem kemur fram að við úthlutun byggðakvóta Skagastrandar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 þann 2. janúar 2013, hafi ekki verið úthlutað byggðakvóta til bátsins Garps HU-58, skipaskrárnúmer 6158.


Stjórnsýslukæran er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta af byggðakvóta Skagastrandar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Garps HU-58 (6158) í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukæru.

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingum, dags. 23. og 30. nóvember 2012, sem birtar voru í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 24. nóvember og 1. desember sama ár, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 í nokkrum byggðarlögum, m.a. í Sveitarfélaginu Skagaströnd en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 7. desember 2012 en var síðar framlengdur til og með 14. desember 2012. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 300 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Sveitarfélagsins Skagastrandar sem komu öll í hlut byggðarlagsins Skagastrandar. Úthlutunin var tilkynnt Sveitarfélaginu Skagaströnd með bréfi, dags. 19. október 2012.


Hinn 2. janúar 2013 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Skagaströnd ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Engin ákvörðun var send kæranda, Toppneti ehf. um það efni. Í stjórnsýslukæru segir að kærandi hafi sótt um byggðakvóta fyrir bátinn Garp HU-58 (6158) með umsókn til Fiskistofu sem send hafi með með rafrænum hætti þann 4. desember 2012. Engin umsókn finnist hins vegar á Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta til bátsins Garps HU-58 (6158). Þá verður ekki séð af gögnum málsins að Fiskistofa hafi tekið stjórnvaldsákvörðun um kröfu kæranda í málinu um að úthlutað verði byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Garps HU-58 (6158).

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

Með bréfi, dags. 9. janúar 2012, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi 13. janúar 2013 og einnig með pósti 16. sama mánaðar, tilkynnti KPMG ehf. f.h. Toppnets ehf. atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu að kærð væri til ráðuneytisins úthlutun byggðakvóta Skagastrandar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, að gerð væri krafa um byggðakvóti byggðarlagsins verði endurreiknaður og að umsókn kæranda, Toppnets ehf. um úthlutun byggðakvóta til bátsins Garps HU-58 (6158) verði tekin til greina eins og hún hafi borist fyrir lok umsóknarfrests.


Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að þann 4. desember 2012 hafi starfsmaður KPMG ehf. f.h. Toppnets ehf. fyllt út umsókn um byggðakvóta fyrir bátinn á vefsíðu Fiskistofu á þar til gerðu eyðublaði þar sem notaður hafi verið reiturinn "senda". Ekkert hafi komið fram við sendingu sem bent hafi til þess að umsóknin hafi ekki borist Fiskistofu en kerfi Fiskistofu virðist í þessu tilviki ekki gera ráð fyrir neins konar sjálfvirkri staðfestingu á að umsókn hafi borist. Þegar úthlutun byggðakvóta til útgerða á Skagaströnd hafi verið tilkynnt bréflega til þeirra sem hafi tekist að senda umsóknir hafi komið í ljós að fyrrgreind umsókn fyrir bátinn Garp HU-58 (6158) hafði ekki skilað sér til Fiskistofu. Starfsmaður KPMG ehf. hafi sent inn ótal erindi til Fiskistofu undanfarna áratugi, bæði rafræn og bréflega en að mati kæranda hafi umsóknarform til að senda umsóknir um byggðakvóta verið ónothæft í tölvu KPMG ehf. án þess að nokkur viðvörun um það hafi borist. Ekki sé ljóst hvað hafi farið úrskeiðis við sendingu umsóknarinnar. Tölvan sem umsóknin hafi verið send frá hafi verið á neti frá KPMG ehf. og tölvumenn þar ekki getað fundið svo gamla skrá þannig að ekki sé hægt að sýna vafra tölvunnar umræddan dag. Umsóknin hafi verið prentuð út samdægurs og dagsett 4. desember 2012 sem hafi verið vinnsludagur og sendingardagur umsóknarinnar. Meðfylgjandi sé útskrift af auglýsingu um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem tölvan hafi dagsett 4. desember 2012, sem lesin hafi verið af starfsmanninum áður en umsóknin hafi verið send, sem hafi staðfest að starfsmaðurinn hafi verið að vinna við þessi mál þann dag og einnig hafi starfsmaðurinn skrifað í tímaskýrslu vegna reikningagerðar hálfa klst fyrir hvora umsókn. Leitað hafi verið til Fiskistofu hvort merki væru um að umsóknin hafi borist en tölvudeild þar hafi engin ummerki fundið um sendinguna. Umsókn um byggðakvóta varði of mikla hagsmuni til að það sé réttmætt eða ásættanlegt að umsóknir byggi á ótraustum ferlum eins og umrædd rafræn umsókn hafi sýnt. Við eftirgrennslan hjá öðrum umsækjendum hafi komið í ljós að fleiri hafi lent í vandræðum við að senda inn umsóknir rafrænt, en hafi þó haft samband við Fiskistofu og hafi endað með sendingu á tvö faxtæki til að koma umsóknum til skila. Þó viðurkennt sé að ákveðnir ferlar og frestir verði að vera við umsóknir um byggðakvóta verði á móti að gera þá kröfu að horft sé á tilgang hans og mikilvægi þess að tæknilegar hindranir komi ekki í veg fyrir að umsóknir séu teknar til greina.


Stjórnsýslukærunni fylgdu tiltekin gögn um málið, sem kærandi vísaði til í framangreindu bréfi, m.a. ljósrit af umsókn kæranda, dags. 4. desember 2012.


Með bréfi, dags. 17. janúar 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.


Í umsögn Fiskistofu, dags. 5. febrúar 2013, sem barst ráðuneytinu sama dag, segir að eins og komi fram í stjórnsýslukærunni hafi umsókn um byggðakvóta til bátsins Garps HU-58 (6158) ekki borist til Fiskistofu. Af gefnu tilefni og eftir að umsóknarfrestur hafi verið útrunninn hafi Fiskistofa kannað sérstaklega hvort einhver merki um umsóknina væri að finna í tölvukerfi stofnunarinnar en svo hafi ekki verið. Umsókn sem fylgi kærunni og dagsett sé 4. desember 2012 hafi því ekki borist til Fiskistofu. Þar sem engin umsókn hafi borist vegna framangreinds báts hafi Fiskistofa enga ákvörðun tekið í málinu við úthlutun byggðakvóta Skagastrandar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Að mati Fiskistofu bresti því skilyrði til kæru á þeim grundvelli. Verði hins vegar litið svo á að kæran lúti að þeirri ákvörðun Fiskistofu að úthluta öðrum bátum byggðakvóta á Skagaströnd, en slíkt sé ekki fyllilega ljóst af kærunni, þá undirstriki Fiskistofa að skilyrði til breytinga á úthlutun til annarra báta séu ekki fyrir hendi, þar sem umsóknir þær sem að framan greini hafi ekki borist innan tilskilins frests.


Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu tiltekin gögn í ljósritum, m.a. tölvubréf um málið, yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Skagaströnd fyrir fiskveiðiárið 2012/2013, dags. 2. janúar 2013 og auglýsing Fiskistofu um úthlutun byggðakvóta á Skagaströnd fyrir fiskveiðiárið 2012/2013.


Með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til KPMG ehf. f.h. kæranda, Toppnets ehf. og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 7. mars 2013.


Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá KPMG ehf. f.h. kæranda, Toppnets ehf., um framangreinda umsögn Fiskistofu.

Rökstuðningur

Kæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa, til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Einnig byggir kæruheimild samkvæmt ákvæðinu á því að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið af stjórnvöldum, þ.e. stjórnvaldsákvarðanir samkvæmt 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir m.a.:


"Lögin gilda þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taka ákvarðanir um rétt eða skyldu manna. Þau gilda þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla."Í máli þessu hafa engin gögn komið fram um að umsókn kæranda um byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Garps HU-58 (6158) hafi borist Fiskistofu fyrir lok umsóknarfrests. Einnig hefur engin stjórnvaldsákvörðun verið tekin af Fiskistofu um kröfur kæranda í málinu.


Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að kröfur kæranda í máli þessu beinist ekki að tiltekinni stjórnvaldsákvörðun í skilningi framangreinds ákvæðis 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


Þá er það mat ráðuneytisins að aðrar málsástæður sem koma fram í stjórnsýslukærunni geti ekki haft áhrif á úrlausn málsins.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru þessari.


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Stjórnsýslukæru Toppnets ehf. í máli þessu er vísað frá.


Fyrir hönd ráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Sigríður Norðmann.Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira