Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2014

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 40/2014

 

Tímabundinn leigusamningur: Endurgreiðsla tryggingarfjár.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 30. júlí 2014, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B  f.h.  C, hér eftir nefndur gagnaðili.          

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, en greinargerð barst ekki frá gagnaðila.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þann 15. október 2014.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með ódagsettum leigusamningi tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila að D. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 1. júní 2013 til 31. maí 2014. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé. 

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi ekki endurgreitt álitsbeiðanda tryggingu að fjárhæð 240.000 kr. sem álitsbeiðandi hafi lagt fram við upphaf leigusamnings. Þegar reynt hafi verið að fara fram á endurgreiðslu tryggingarinnar hafi gagnaðili tilgreint að íbúðin hafi ekki verið þrifin, skemmdir og skuld í hússjóð (sem sé að fjárhæð 41.358 kr. að sögn gagnaðila) og að álitsbeiðandi hafi sannanlega samþykkt að greiða það.

Álitsbeiðandi hafi haft samband við gagnaðila sem hafi verið staddur úti á landi og farið fram á að skila íbúðinni 2. eða 3. júní ef það væri ekki verra. Það hafi verið auðsótt mál af hálfu gagnaðila þar sem ekki yrði flutt í íbúðina á næstu dögum og álitsbeiðandi hafi fengið stuttan fyrirvara til að tæma íbúðina. Gagnaðili hafi verið beðinn um að úttekt yrði gerð á þrifum og skemmdum en hann hafi sagt að það væri ekki hægt þar sem dóttir hans væri flutt inn og búið að mála. Þá hafi gagnaðili verið inntur eftir kvittunum frá hreingerningafyrirtæki eða vegna viðgerða á meintum skemmdum. Hann hafi ekki getað lagt þær fram. Einnig hafi verið farið fram á ljósmyndir af ástandi íbúðarinnar og þær hafi ekki verið fyrir hendi. Gagnaðili hafi einfaldlega sagt að hann þyrfti ekkert að sanna því hann myndi komast upp með þetta svona.

Álitsbeiðandi tekur fram að hann hafi fengið lán frá félagsþjónustu fyrir tryggingunni og meðfylgjandi sé kvittun fyrir innleggi E. Álitsbeiðandi geti boðið fimm vitni að ástandi íbúðar þegar hann hafi skilað af sér enda hafi ekkert óeðlilegt verið við þrif eða ástand íbúðarinnar. Þá hafi gagnaðili ekki lagt fram nein gögn máli sínu til stuðnings.

 

III. Forsendur

Deilt er um uppgjör við lok leigusamnings. Samkvæmt gögnum málsins gerðu aðilar með sér tímabundinn leigusamning og samkvæmt því sem greinir í álitsbeiðni greiddi álitsbeiðandi gagnaðila tryggingu að fjárhæð 240.000 kr. við upphaf leigutíma. Álitsbeiðandi greinir frá því að gagnaðili hafi ekki endurgreitt tryggingarféð að leigutíma loknum og telur að honum beri að endurgreiða það að undanskilinni greiðslu í hússjóð að fjárhæð 41.358 kr. sem álitsbeiðandi hefur samþykkt að greiða. Gagnaðili hefur ekki mótmælt því sem fram kemur í álitsbeiðni og verður því það sem þar kemur fram lagt til grundvallar við úrlausn málsins.

Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, er leigusala óheimilt að ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Þó er leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans. Að leigutíma loknum skal leigusali segja til þess svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það. Tryggingarfé í vörslu leigusala skal vera verðtryggt, en ber ekki vexti.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili haldi eftir tryggingarfénu á þeim forsendum að íbúðin hafi ekki verið þrifin og að álitsbeiðandi hafi valdið skemmdum á hinu leigða. Álitsbeiðandi hefur mótmælt því og greinir frá því að hann hafi farið fram á úttekt íbúðarinnar við lok leigutíma en gagnaðili hafi ekki orðið við því. Líkt og áður segir er leigusala óheimilt að ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Álitsbeiðandi hefur ekki fallist á bótaábyrgð í máli þessu en hefur samþykkt að greiða skuld við hússjóð. Samkvæmt 63. gr. húsaleigulaga skal leigjandi skila húsnæði að leigutíma loknum í hendur leigusala í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Samkvæmt 65. laganna skal byggingarfulltrúi meta tjón vegna skemmda á hinu leigða húsnæði komi aðilar sér ekki saman um bótafjárhæð. Ljóst er að aðila greinir á um staðreyndir um þetta atriði. Ekki verður ráðið að úttekt hafi farið fram á íbúðinni við upphaf eða lok leigutíma, sbr. XIV. kafla húsaleigulaga. Það er því álit kærunefndar að ekki liggi fyrir viðhlítandi sönnun fyrir því að íbúðin hafi verið óþrifin við lok leigutíma eða að álitsbeiðandi hafi valdið skemmdum á hinu leigða. Kærunefnd fellst því ekki á að gagnaðili hafi heimild til að halda eftir tryggingarfénu vegna skemmda og óþrifnaðar á hinu leigða.

Að framangreindu virtu er það álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé ásamt verðbótum að frádreginni þeirri fjárhæð sem álitsbeiðandi hefur samþykkt að greiða vegna skuldar við hússjóð.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé ásamt verðbótum.

 

Reykjavík, 15. október 2014

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum