Hoppa yfir valmynd

Hafey SK-10, (7143), kærir ákvörðun Fiskistofu dags. 4. september 2014 um að svipta bátinn Hafeyju SK -10 (7143) leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis.

Veiðileyfi - Veiðileyfissvipting - Ítrekun - Meðalhófsreglan - Jafnræðisregla

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 5. október 2014, frá Steindóri Árnasyni skipstjóra, f.h. Hafey SK-10, skipaskrárnúmer 7143, á ákvörðun Fiskistofu dags. 4. september 2014 um að svipta bátinn Hafeyju SK -10 (7143) leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis skv. 1. mgr. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997 um veiði í fiskveiðilandhelgi Íslands, ásamt síðari breytingum.

Kæruheimild er í 6. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum og er kærufrestur einn mánuður. Ákvörðun Fiskistofu var send kæranda með bréfi dags. 4. september 2014 og telst hún vera komin til vitundar kæranda við móttöku bréfsins. Ráðuneytið hefur ekki undir höndum nákvæmar upplýsingar um hvenær bréf Fiskistofu barst kæranda en ætla má að það hafi tekið tvo til þrjá virka daga að berast frá Hafnarfirði til Sauðárkróks þar sem kærandi býr. Kæra telst því vera fram komin innan tilskilins frests skv. 21. gr. laga nr. 56/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sbr. 8. gr. laga nr. 37/1993, stjórnsýslulaga.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu frá 4. september 2014, um að svipta bátinn Hafey SK – 10 (7143) leyfi til grásleppuveiða í eina viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis skv. 1. mgr. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997 um veiði í fiskveiðilandhelgi Íslands, ásamt síðari breytingum.

Málsatvik

Með bréfi Fiskistofu dags. 13. ágúst 2014, var kæranda tilkynnt að samkvæmt fjareftirlitskerfi Fiskistofu, STK, hafi komið í ljós að Hafey SK-10 (7143) hafi farið út frá Sauðárkróki kl. 9:14 þann 24. apríl 2014 og komið til sömu hafnar sama dag kl. 19:26. Báturinn hafi landað 1.691 kg. af óslægðri grásleppu þann 25. apríl 2014 og 2.418 kg. þann 26. apríl 2014, en leyfi bátsins til slíkra veiða rann út þann 23. apríl 2014.

Með tölvupósti dags. 15. ágúst 2014, svaraði kærandi bréfi Fiskistofu þar sem hann kvaðst hafa ætlað að draga upp netin þann 23. apríl 2014 á síðasta degi veiðileyfisins, en sökum veikinda hafi hann ekki komist til verksins. Kærandi hafi því farið þann 24. apríl 2014 og tekið inn mestan afla og lokið verkinu þann 25. apríl 2014.

Með ákvörðun dags. 4. september 2014 svipti Fiskistofa Hafey SK-10 (7143) veiðileyfi í viku frá útgáfu næsta veiðileyfis til grásleppuveiða á grundvelli 1. mgr. sbr. 2. mgr. 21. gr. laga um nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands vegna brots á 7. gr. laganna og 1. gr. reglugerðar nr. 72/2014, um hrognkelsaveiðar 2014. Þá kom einnig fram í ákvörðuninni að kærandi yrði látinn greiða gjald skv. 3. gr. laga nr. 37/1992, um ólögmætan sjávarafla.

Með tölvupósti dags. 5. október 2014 sendi kærandi stjórnsýslukæru til ráðuneytisins þar sem framangreind ákvörðun er kærð og gerð krafa um að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi dags. 13. október 2014, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna og einnig staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið. Umsögn Fiskistofu barst með bréfi dags. 13. október 2014. Með bréfi dags. 16. október 2014 var kæranda gefinn kostur á að koma að athugasemdum við umsögn Fiskistofu og framlagðra gagna. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 3. nóvember 2014.

Ekki þótti tilefni til að senda athugasemdir kæranda til Fiskistofu og var málið tekið til úrskurðar hjá ráðuneytinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.

Málsástæður og lagarök kæranda

Með stjórnsýslukæru fer kærandi fram á að ákvörðun Fiskistofu um að svipta Hafey SK-10 (7143) veiðileyfi til grásleppuveiða í viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis verði felld úr gildi. Byggir kærandi kröfu sína á því að hann hafi verið með flensu og ekki komist til að fjarlægja netin. Í kæru segir að kærandi viti til þess að einfalt sé að fá heimild til þess að fresta upptöku neta með því að hringja eitt símtal til veiðiheimildasviðs Fiskistofu og telur því að líta ætti til þess að ef hann hefði hringt hefði hann að öllum líkindum fengið framlengingu. Skipstjóri Óskars SK-13 (7022) hafi hringt inn til veiðiheimildarsviðs Fiskistofu eftir ráðleggingu frá eftirlitsmanni Fiskistofu sem var um borð í bátnum og fengið framlengingu á leyfi þann 23. apríl 2014.

Þá telur kærandi einnig að taka eigi tillit til þess að Hafey SK-10 (7143) sé með heimild til að vera með 140 net í sjó en sé ekki með nema 103 – 105 net í sjó hverju sinni. Þannig nýtir hann ekki nema 74% af veiðiheimildum alla jafna. Þá kveðst kærandi einnig gera út bátinn Séra Árna SK-101 (6389) sem hafi verið með gilt grásleppuveiðileyfi en engin net í sjó.

Um tilkomna áminningu segir kærandi að hann hafi verið sviptur veiðileyfi vegna ógreidds reiknings til Fiskistofu. Fiskistofu hafi láðst að tilkynna kæranda um sviptinguna og því hafi kærandi farið á sjó án tilskilinna leyfa. Kærandi telur að honum hefði átt að vera tilkynnt um sviptinguna og ekki nægi að vísa til þess að kærandi hefði getað aflað sér upplýsinga um málið á Ugga þjónustuvef Fiskistofu eins og Fiskistofa hafi tjáð honum. Þá hafi það aldrei komið fram á Ugga að veiðileyfið hafi fallið úr gildi heldur hafi komið þar fram að hann væri með gilt veiðileyfi.

Kærandi vísar til þess í kæru að Otur SI-100 (2471) hafi verið staðinn að ólöglegum grásleppuveiðum þar sem báturinn var með tvöfalt magn af leyfilegum netum í talsverðan tíma. Landhelgisgæslan hafi fylgst með brotinu á fjareftirlitskerfinu og tekið bátinn. Einu viðurlögin í því máli hafi verið sekt upp á 400.000 kr. sem sé mun minna en sú sekt sem kæranda er gert að greiða í þessu máli og þá sé kærandi auk þess sviptur veiðileyfi. Þá viti kærandi einnig til áþekks máls þar sem skipstjóri Víkings SK-78 (7418) hafi ekki getað dregið öll netin upp áður en leyfið rann út. Skipstjóra hafi láðst að hringja og fá framlengingu og var tekinn til yfirheyrslu hjá sýslumanni og sektaður um 80.000 kr. fyrir brotið.

Málsástæður og lagarök Fiskistofu

Samkvæmt 7.gr. laga nr. 73/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 72/2014 um hrognkelsaveiðar 2014, með síðari breytingum eru veiðar á grásleppu óheimilar nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. Leyfi Hafeyjar SK-10 (7143) til grásleppuveiða gilti til 23. apríl 2014. Samkvæmt gögnum fjareftirlitskerfis Fiskistofu, STK, hafi Hafey SK-10 (7143) farið út frá Sauðárkróki þann 24. apríl 2014 kl. 09:14 og kom til sömu hafnar síðar þann dag kl. 19:26. Upplýsingar séu um að Hafey SK-10 (7143) hafi landaði afla daginn eftir, þ.e. 25. apríl 2014 alls 1.691 af óslægðri grásleppu og þann 26. apríl 2014 alls 2.418 kg. af óslægðri grásleppu.

Kærandi bar fyrir sig veikindi en kærandi hafi hvorki skilað læknisvottorði sem hann vísar til í kæru sinni né hringt í veiðiheimildarsvið Fiskistofu til að láta vita af meintum veikindum sínum og óskað eftir því að fá viðbótarfrest. Fiskistofa segir að það sé á ábyrgð leyfishafa að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og reglum er leyfið byggir á og hefði því átt að senda annan mann til að vitja netanna fyrst fyrirséð var að kærandi gat ekki vitjað þeirra sjálfur sökum veikinda.

Ákvörðun Fiskistofu byggir á broti kæranda og ítrekunaráhrifum vegna áminningar sem kærandi fékk þann 16. apríl 2014 og tveggja leiðbeiningabréfa sem sama útgerð fékk, en leiðbeiningarbréf Fiskistofu séu oft undanfari þess að aðilar í útgerð hljóti skriflega áminningu ef þeir brjóta gegn lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða með síðari breytingum og reglugerðum með stoð í þeim.

Rökstuðningur

I. Kærufrestur

Kæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu með tölvupósti þann 5. október 2014. Kæruheimild er í 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. og er kærufrestur einn mánuður frá því aðila var tilkynnt um ákvörðun.

Ákvörðun Fiskistofu var send kæranda með bréfi og telst hún vera komin til vitundar kæranda við móttöku bréfsins. Ráðuneytið hefur ekki undir höndum nákvæmar upplýsingar um hvenær bréf Fiskistofu barst kæranda, en ætla má að bréfið hafi tekið tvo til þrjá virka daga að berast frá með pósti frá Hafnarfirði til Sauðárkróks þar sem kærandi býr. Kæra telst því vera komin innan tilskilins frests skv. 21. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sbr. 8. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

II. Brot gegn 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 72/2014 um hrognkelsaveiðar

Um veiðar á grásleppu gildir ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, þar sem segir að grásleppuveiðar skuli háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Þá kemur einnig fram í 1. gr. laganna að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma. Í 1. gr. reglugerðar nr. 72/2014 um hrognkelsaveiðar 2014, með síðari breytingum segir m.a. að grásleppuveiðar skuli vera háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Hafey SK-10 (7143) hafði leyfi til grásleppuveiða frá og með 23. mars 2014 til og með 23. apríl 2014. Samkvæmt fjareftirlitskerfi Fiskistofu, STK, fór Hafey SK-10 út frá Sauðárkróki þann 24. apríl 2014 kl. 09:14 og kom til sömu hafnar síðar þann dag kl. 19:26. Hafey SK-10 (7143) landaði afla daginn eftir, þ.e. 25. apríl 2014 alls 1.691 af óslægðri grásleppu og þann 26. apríl 2014 alls 2.418 kg. af óslægðri grásleppu.

Óumdeilt er að Hafey SK-10 (7143) hélt til veiða þann 24. apríl 2014 og landaði grásleppuafla á Sauðárkróki dagana 25. og 26. sama mánaðar, en báturinn hafði ekki leyfi til slíkra veiða á þeim tíma. Kærandi ber fyrir sig að hafa ekki komist til veiða þann 23. apríl vegna veikinda og vísar einnig til þess að með því að hringja í veiðiheimildarsvið Fiskistofu hefði kærandi getað fengið frest eins og fordæmi séu fyrir. Ráðuneytið tekur undir með Fiskistofu að það er á ábyrgð leyfishafa að tryggja að farið sé eftir þeim lögum og reglum er leyfið byggir á. Kærandi sem er skipstjóri Hafeyjar SK-10 (7143) hefði átt að senda annan aðila til þess að vitja netjanna þegar ljóst var að kærandi gat ekki gengið til verksins sjálfur. Að öðrum kosti hefði kærandi getað sótt um frest til veiðiheimildarsviðs Fiskistofu líkt og kærandi vísar til í kæru að hefði verið mögulegt. Ráðuneytið telur að í máli sem þessu verði að leggja athafnaskyldu á menn um að sækja sér slíkan frest en ekki vísa til þess að hægt hefði verið að fá frest.

Með vísan til ofangreinds er ljóst að með því að Hafey SK-10 (7143) var haldið til veiða þann 24. apríl 2014 og grásleppuafla úr bátnum landað á Sauðárkróki dagana 25. og 26. apríl 2014 var brotið gegn 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 42/2014 um hrognkelsaveiðar.

III. Ítrekunaráhrif

Í ákvörðun Fiskistofu kemur fram að útgerð Hafeyjar SK-10 (7143) hafi verið veitt áminning þann 16. apríl 2014 skv. 24. gr. l. nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða sbr. 3. mgr. 15. gr. laga, nr. 56/1997, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum og sú áminning hafi ítrekunar áhrif í máli þessu.

Ráðuneytið bendir á að mál þetta varðar brot á 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og 1. gr. reglugerðar nr. 72/2014, um hrognkelsaveiðar 2014. Í 21. gr. laganna er fjallað um viðurlög vegna brota á þeim. Greinin hljóðar svo:

„Fiskistofa skal svipta skip leyfi skv. 6. og 7. gr. laga þessara ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.


Ef veiðitímabili er lokið [...].


Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekað brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.


Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu."


Áminningar og sviptingar veiðileyfa sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár.


Ákvörðunum Fiskistofu um áminningar og veiðileyfissviptingar samkvæmt þessari grein verður skotið til ráðuneytisins enda sé það gert innan eins mánaðar frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar.


Í skýringum í greinargerð er vísað til skýringa við 2. gr. laga nr. 163/2006 en þar segir að hafi hlutaðeigandi útgerð ekki áður gerst brotleg við ákvæði laganna eða reglur settar samkvæmt þeim skuli Fiskistofa bregðast við með öðrum og ekki eins íþyngjandi hætti, þ.e. með því að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot telst vera að ræða, í skilningi þessara lagaákvæða, er eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógnar og hvort það hefur verið framið af ásetningi eða gáleysi. Í þessu sambandi er þó rétt að taka fram að brot gegn reglum varðandi veiðar, afla og aflaheimildir eru oft þannig að afar erfitt er að skera með óyggjandi hætti úr um hvort þau hafi verið framin af ásetningi eða gáleysi. Það atriði eitt og sér getur því almennt ekki ráðið ákvörðun þess hvort brot telst vera minni háttar.


Samkvæmt orðalagi 21. gr. og því sem lesa má úr skýringum í greinargerð við 2. gr. laga nr. 163/2006, verða brot á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands eingöngu fyrir ítrekunaráhrifum vegna fyrri brota á þeim lögum. Ítrekunaráhrif vegna fyrra brots kæranda á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 57/1996, um umgengni við nytjastofna sjávar gætir því ekki í þessu máli. Verður því að meta hvort hér sé um meiriháttar eða minniháttar brot að ræða skv. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands..

IV. Meiriháttar eða minniháttar brot skv. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands

Kæranda mátti vera ljóst að leyfi hans til grásleppuveiða var runnið út og kærandi væri að fara í heimildarleysi þegar kærandi fór út á bátnum þann 24. apríl 2014 og þá eru einnig gögn um að Hafey SK-10 (7143) hafi landað grásleppu á Sauðárkróki þann 25. og 26. apríl 2014. Þær ástæður sem kærandi gefur fyrir því að hafa farið á sjó, þ.e. að hann hafi verið veikur, leysa kæranda ekki undan ábyrgð eins og fjallað var um að framan. Telja verður að það hafi því verið ásetningur hjá skipstjóranum að halda til veiða eftir að leyfi til grásleppuveiða rann út. Þrátt fyrir ásetning verður að líta til þess að brot kæranda átti sér stað strax eftir leyfið rann út og í framkvæmd hefur Fiskistofa heimilað framlengingu á leyfum sé þess óskað. Sá frestur er ekki langur, einn til tveir dagar eftir atvikum. Af gögnum málsins og upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað sér virðast ekki gilda mjög ströng skilyrði um slíkan viðbótarfrest og slík heimild virðist vera auðsótt.

Samkvæmt gögnum sem finna má á heimasíðu Fiskistofu landaði Hafey SK-10 (7143) 15.917 kg. af grásleppu á grásleppuveiðtímabilinu 20. mars 2014 til og með 2. júní 2014. Þar af voru 4119 kg. landað eftir að leyfi Hafeyjar SK-10 (7143) til grásleppuveiða rann út, eða um 25% af heildar grásleppuafla Hafeyjar SK-10 (713) á umræddu tímabili. Þá má einnig sjá á löndunartölum að grásleppuveiði Hafeyjar SK-10 (7743) virðist hafa farið hægt af stað í byrjun þar sem löndun bátsins var ekki mikil og síðan hafi aukist í netunum við lok veiðileyfisins. Þess skal geta að löndun sú sem skráð er þann 26. apríl var sú stærsta hjá Hafeyju SK-10 (7143) á þessu grásleppuveiðitímabili. Löndun Hafeyjar SK-10 (7143) eftir að leyfi til grásleppuveiða rann út var u.þ.b. fjórðungur af heildarafla á umræddu grásleppuveiðitímabili, mögulega vegna meiri fiskigengdar þessa daga.

Ef skoðuð eru saman brot kæranda og framkvæmd Fiskistofu varðandi fresti og viðurlög við áþekkum brotum verður að telja að brot kæranda hafi verið minniháttar í skilningi 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.

V. Ónýtt veiðiheimild vegna færri neta

Kærandi telur að taka eigi tillit til þess að Hafey SK-10 (7143) sé einungis með 103 – 105 net í sjó í einu þó báturinn hafi heimildir fyrir 140. Ráðuneytið bendir á að hvorki er heimild í lögum. nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands né reglum settum samkvæmt þeim að nýta minna af fenginni veiðiheimild, þ.e. að vera með færri net og auka við sóknardaga. Af þeirri ástæðu er þessari málsástæðu kæranda hafnað.

VI. Fyrri brot

Kærandi vísar í stjórnsýslukæru til málsmeðferðar hjá Fiskistofu vegna fyrri brota sem hann telur ábótavant. Þar sem ekki er um ítrekunaráhrif að ræða vegna brota kæranda á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða og lögum nr. 56/1997, um umgengni við nytjastofna sjávar telur ráðuneytið ekki þörf á að taka afstöðu til þeirra málsástæðna kæranda þar sem þau varða ekki þetta mál.

VII. Meðalhófs- og jafnræðisregla stjórnsýslulaga

Fiskistofa og ráðuneytið er í störfum sínum bundin af stjórnsýslulögum nr. 37/1993 og skv. 1. mgr. 11. gr. skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti við úrlausn mála. Þá segir í 12. gr. sömu laga að stjórnvald skuli aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að er stefnt verður ekki náð með öðru vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Í kæru segist kærandi vita til áþekkra mála þar sem aðili hafi sótt netin of seint en ekki verið sviptur veiðileyfi né sektaður um andvirði aflans heldur einungis fengið sekt frá lögreglu. Ráðuneytið bendir á í þessu sambandi að hvert mál verði að meta fyrir sig, í sumum málum gætir ítrekunaráhrifa og öðrum ekki. Þá eru sum mál eingöngu kærð til lögreglu og Fiskistofu ekki gert viðvart um ætlað brot. Ómögulegt er því að bera saman tvö mál án þess að vera með allar upplýsingar um málsatvik og forsendur ákvörðunar.

Í því máli sem hér er til umfjöllunar byggir Fiskistofa á því að ítrekunaráhrifa gæti vegna fyrri brota á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Eins og að ofan greinir þá gætir ekki ítrekunaráhrifa vegna brota á lögum 116/2006, um stjórn fiskveiða við brot á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Ráðuneytið hefur gert athugun á því hvaða málalok hefðu orðið ef Fiskistofa hefði ekki byggt á ítrekunaráhrifum í ákvörðun sinni. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins hefði málinu lokið með áminningu sbr. 4. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Þannig er ljóst að Fiskistofa metur brot kæranda sem minniháttar brot sem er í samræmi við niðurstöðu ráðuneytisins hér að framan. Ráðuneytið hefur ekki heimildir til að veita Hafey SK-10 (7143) áminningu og getur ekki breytt úrskurði Fiskistofu á þann hátt að veiðileyfissvipting verði áminning. Með tilliti til þess hversu íþyngjandi svipting veiðileyfis í eina viku af fjögurra vikna leyfi til grásleppuveiða er og með vísan til jafnræðisreglu 11. gr. og meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, telur ráðuneytið það nægileg viðurlög í máli þessu að kærandi var látinn greiða gjald skv. 3. gr. laga nr. 37/1992, um ólögmætan sjávarafla.

 

Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið rétt að fella úrskurð Fiskistofu um að svipta Hafey SK-10 (7143) leyfi til grásleppuveiða í viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis úr gildi.

Úrskurður

Ráðuneytið fellir ákvörðun Fiskistofu, dags. 4. september 2014, um að svipta skipið Hafey SK-10 (7143) leyfi til grásleppuveiða í viku frá útgáfudegi næsta veiðileyfis úr gildi.

 

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

Jóhann Guðmundsson.

Erna Jónsdóttir.

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira