Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 4/2015

Inneign í hússjóði.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 4/2015

 

Inneign í hússjóði.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 2. febrúar 2015, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 22. febrúar 2015, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 17. mars 2015.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls átta eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á fjórðu hæð hússins. Ágreiningur er um hvort inneign vegna ofgreiddra hússjóðsgjalda tilheyri álitsbeiðanda eða hússjóði. 

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að inneign vegna ofgreiddra hússjóðsgjalda tilheyri íbúð álitsbeiðanda.   

Í álitsbeiðni kemur fram að þegar núverandi gjaldkeri hafi tekið við störfum í ársbyrjun 2013 hafi komið í ljós að ekki hafi verið gerðir ársreikningar. Hann hafi því gert ársreikning aftur til ársins 2007. Í ljós hafi komið að tvær íbúðir hafi verið krafðar um rangar fjárhæðir í hússjóðsgjöld. Önnur íbúðin of lítið en íbúð álitsbeiðanda of mikið. Því telur álitsbeiðandi að myndast hafi inneign í framkvæmdasjóði. Ágreiningur sé um hvort íbúð álitsbeiðanda eða hússjóður eigi þessa inneign.

Í greinargerð gagnaðila segir að gagnaðili hafi gert mistök að því leyti að íbúð álitsbeiðanda hafi verið rukkuð of mikið en kjallaraíbúð of lítið. Sá skaði sem gagnaðili hafi borið af því að rukka kjallarann of lítið sé borinn í sameiningu af öllum íbúðum. Það sem ofgreitt hafi verið á móti, án athugasemda, ætti því að tilheyra öllum íbúðum í hússjóði og renna til sameiginlegra útgjalda. Enginn hafi gert athugasemd og reikningar gagnaðila, hversu vel sem þeir hafi verið gerðir, samþykktir á ársfundum gagnaðila, meðal annars af fyrrum eiganda íbúðar álitsbeiðanda. Þegar hann hafi sjálfur gert réttmætar athugasemdir við þessa skekkju hafi verið brugðist við og hún leiðrétt. Tilvitnuð ákvæði í kaupsamningi telur gagnaðili að eigi ekki við í málinu þar sem kaupsamningi sé eingöngu ætlað að skýra réttarstöðu kaupanda og seljanda í þeirra viðskiptum, en ekki réttarstöðu íbúðar gagnvart húsfélagi.

 

III. Forsendur

Af gögnum málsins verður ráðið að engir ársreikningar voru gerðir fyrir húsfélagið fyrr en álitsbeiðandi tók við stöðu gjaldkera á árinu 2013 en hann sá þá um að gera ársreikninga sjö ár aftur í tímann. Í ljós kom að íbúð álitsbeiðanda hafði greitt of mikið í hússjóð á því tímabili en íbúð í kjallara hússins of lítið. Ágreiningur snýst um hvort inneign vegna ofgreiðslunnar tilheyri íbúð álitsbeiðanda eða framkvæmdasjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 49. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, skulu gjöld í hússjóð ákveðin og þeim skipt í samræmi við reglur 45. gr. laganna um skiptingu sameiginlegs kostnaðar. Þá segir að eigendur geti þó ekki borið fyrir sig óveruleg frávik, en þau skuli jafna við árlegt heildaruppgjör á reikningum húsfélagsins. Í 45. gr. laganna segir í A-lið að allur sameiginlegur kostnaður sem ekki falli ótvírætt undir B- og C-liði skiptist á eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta í viðkomandi sameign. Undir B-lið fellur kostnaður sem skiptist að jöfnu en undir C-lið kostnaður sem skipta skal eftir afnotum.

Í máli þessu er óumdeilt að ofgreitt hafi verið vegna íbúðar álitsbeiðanda í framkvæmdasjóð frá árinu 2006 til 2013 og má því ætla að um sé að ræða kostnað sem fellur undir A-lið 45. gr. laga um fjöleignarhús. Af gögnum málsins verður ráðið að miðað hafi verið við of háa hlutfallstölu vegna íbúðar álitsbeiðanda. Því er ljóst að greiðslur í hússjóð voru ekki inntar af hendi eftir því sem segir í lögum um fjöleignarhús.

Gagnaðili byggir á því að hann hafi tekið ákvörðun um að bera þann skaða sem hafi orðið af því að rukka íbúð í kjallara hússins of lítið og því ætti ofgreiðslan að renna til sameiginlegra útgjalda. Við úrlausn þessa máls horfir kærunefnd hins vegar til þess að gagnaðili tók ákvörðun um að endurreikna hússjóðsgjöld aftur í tímann og leiddi sá endurreikningur í ljós að vegna íbúðar álitsbeiðanda hafi verið ofgreitt í hússjóð í fjölda ára. Kærunefnd telur að eigendur í fjöleignarhúsi eigi rétt á því að húsfélög reikni hússjóðsgjöld í samræmi við gildandi reglur. Þá telur kærunefnd að ekki hafi verið um óveruleg frávik á útreikningum að ræða, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 49. gr. laga um fjöleignarhús.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd að álitsbeiðandi eigi réttilega tilkall til þeirrar inneignar sem hefur myndast í framkvæmdasjóði vegna ofgreiðslu hússjóðsgjalda, en horfa beri til þess að skv. 3. gr. laga um fyrningu kröfuréttinda, nr. 150/2007, er almennur fyrningarfrestur kröfuréttinda fjögur ár. 

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að inneign í hússjóði tilheyri íbúð álitsbeiðanda.

 

Reykjavík, 17. mars 2015

Auður Björg Jónsdóttir

Karl Axelsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira