Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2015

Útidyr: Sameign/séreign.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 19/2015

 

Útidyr: Sameign/séreign.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 31. maí 2015, beindi húsfélagið A, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, mótt. 2. júní 2015, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 22. júní 2015.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 23 eignarhluta. Gagnaðili er eigandi eins eignarhlutar í húsinu. Ágreiningur er um hvort útidyr hússins falli undir sameign eða séreign.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að standa straum af kostnaði við viðhald og/eða endurnýjun á útidyrum sem séreign hans.   

Í álitsbeiðni kemur fram um sé að ræða tveggja hæða fjölbýlishús. Húsið hafi verið byggt á árunum 1996 til 1997 en í því séu 23 eignarhlutar og hafi hver eignarhluti sér inngang, innopnanlegar hurðar, ýmist frá lóð eða svölum, eftir því hvort um íbúðir á fyrstu eða annarri hæð sé að ræða. Útidyrnar séu hluti af ytra byrði hússins. Undanfarin ár hafi orðið vart við vandamál vegna útidyra í húsinu. Skipt hafi verið um tvær útidyr og hafi þá verið litið svo á að þær væru sameign allra og kostnaðarskiptin farið fram í samræmi við það. Nú sé svo komið að útidyr að sumum íbúðum hafi tekið að leka þannig að tjón hafi hlotist af innandyra sem og íbúðum á neðri hæð.

Á húsfundi þann 22. september 2014 hafi verið afráðið að komið væri að venjubundnu viðhaldi á húsinu vegna viðhalds á opnanlegum fögum og útihurðum. Úttekt hafi verið gerð á húsinu í nóvember 2014 og hafi úttektaraðili skilað skýrslu 1. desember 2014. Í skýrslunni komi fram að víða í húsinu sé leki meðfram útidyrahurðum og körmum í íbúðum. Sums staðar sé lekinn mikill en annars staðar beri lítið á honum. Víða séu bólgumyndanir á veggjum við útidyrahurð og kominn sé fúi í botn- og hliðarstykki hurðarkarms í fimm íbúðum. Þá segi að verð fyrir hurð og karm sé um 190.000 kr., lausaefni um 15.000 kr. og vinna sé 90–110.000 kr. Þá sé ótalinn sendingarkostnaður og kostnaður við förgun. Það megi því segja að kostnaður við hurðarskipti á einni íbúð sé að lágmarki 315.000 kr.

Um málsástæður segir að álitsbeiðandi telji að útihurðar séu séreign hvers íbúðareiganda skv. 6. tölul. 5. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, þar sem þær skilji séreign frá sameign. Álitsbeiðandi telji að hver íbúðareigandi skuli standa straum af kostnaði við viðgerð og eða endurnýjun á útihurð að sinni séreign. Álitsbeiðandi telji að þrátt fyrir 1. tölul. 8. gr. sömu laga þess efnis að útidyr falli undir sameign fjöleignarhúss, sé ljóst að nýtingarmöguleikar annarra íbúa á umræddum útidyrum sé engin. Aldrei hafi verið gert ráð fyrir að aðrir en séreignarhafi gangi um dyrnar, hvorki á teikningum né eignaskiptasamningi. Þá sé lítill sem enginn munur á útidyrum og svalahurðum í húsinu og því fái álitsbeiðandi ekki séð hvernig önnur hurðin skuli vera séreign en hin sameign.

Í greinargerð gagnaðila er í fyrsta lagi bent á álit kærunefndar í máli nr. 48/2014 sem gagnaðili telur taka af allan vafa um að útidyr séu sameign óháð nýtingarmöguleikum annarra í viðkomandi húsi. Í öðru lagi séu útidyr hluti af ytra byrði hússins. Fram komi réttilega í úttekt fagaðila að ástand hurðanna sé misjafnlega slæmt og megi ástæðuna rekja til þess hversu mismikið mæði á hurðunum eftir veðri og vindum. Þar sem útidyrnar séu hluti af ytra byrði hússins sé það mat gagnaðila að það sé beinlínis ósanngjarnt að sumir eigendur skuli standa frammi fyrir því að greiða meira í viðhaldi á ytra byrði hússins en aðrir, þar sem þeirra útidyr standi móts við ríkjandi vindátt á meðan aðrir geri það ekki.

 

III. Forsendur

Í máli þessu snýst ágreiningur um hvorum aðila beri að standa straum af kostnaði vegna viðhalds og/eða endurnýjunar á útidyrum í íbúð gagnaðila. Álitsbeiðandi telur útidyrnar falla undir séreign en gagnaðili telur þær falla undir sameign. Um er að ræða fjöleignarhús á tveimur hæðum þar sem hver eignarhluti hefur sér inngang. Inngangur í íbúðir á fyrstu hæð er frá lóð en á annarri hæð frá svölum.

Samkvæmt 1. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fellur undir sameign fjöleignarhús allt ytra byrði hússins, þ. á m. útidyr. Álitsbeiðandi telur að þrátt fyrir ákvæði 1. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús falli útidyr hússins undir séreign á grundvelli 6. tölul. 5. gr. laganna þar sem segir að undir séreign falli hurðir sem skilja séreign frá sameign og vísar til þess að ljóst sé að nýtingarmöguleikar annarra íbúa á útidyrum gagnaðila séu engir. Gagnaðili byggir meðal annars á því að ástand hurðanna sé misjafnlega slæmt og megi ástæðuna rekja til þess að misjafnlega mæði á hurðunum eftir veðri og vindum.

Útidyr eru hluti af ytri byrði hússins og skv. 1. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús teljast þær sameign en ákvæðið undanskilur sérstaklega svaladyr frá sameign þrátt fyrir að þær tilheyri ytra byrði fjöleignarhúsa. Þegar af þeirri ástæðu fellst kærunefnd ekki á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að standa straum af kostnaði við viðhald og/eða endurnýjun á útidyrum sem séreign hans.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um gagnaðila beri að standa straum af kostnaði við viðhald og/eða endurnýjun á útidyrum sem séreign hans.

 

Reykjavík, 22. júní 2015

Auður Björg Jónsdóttir    

Karl Axelsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira