Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 36/2015

Hagnýting sameignar: Ákvörðun húsfundar. Geymslusvæði. Matsmaður

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 36/2015

Hagnýting sameignar: Ákvörðun húsfundar. Geymslusvæði. Matsmaður.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 2. september 2015, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C og D, hér eftir nefndir gagnaðilar. Var málið sameinað máli nr. 18/2015 hjá kærunefnd húsamála, en óskað hafði verið eftir því með bréfi nefndarinnar, dags. 29. júní 2015, að álitsbeiðandi myndi skila nýrri álitsbeiðni þar sem málatilbúnaður hennar hafi verið óskýr í álitsbeiðni nr. 18/2015.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 18. september 2015, athugasemdir álitsbeiðanda, mótt. 28. september 2015, og athugasemdir gagnaðila, dags. 8. október 2015, lagðar fyrir nefndina. Auk þess skilaði álitsbeiðandi frekari athugasemdum þann 22. október 2015, sem gagnaðilar svöruðu með athugasemdum þann 8. nóvember 2015.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. febrúar 2015.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhús, alls þrjá eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi efstu hæðar hússins en gagnaðilar eru eigendur fyrstu og annarrar hæðar. Ágreiningur er um hvort heimilt sé að ráða matsmann í samræmi við húsfund og hvort ráða eigi fagmann í framhaldi af því. Einnig snýst ágreiningur um hvort framkvæmdir sem einn gagnaðila lét framkvæma hafi verið óheimilar.

Kröfur álitsbeiðanda eru að mati kærunefndarinnar:

I. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eða húsfélagið megi ráða matsmann vegna vandamála í vatnslögnum hússins.

II. Sé það mat matsmannsins að það sé vandamál í vatnslögnum þá verði viðurkennt að heimilt sé að ráða fagmann til að gera við vatnslagnirnar.

III. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eða húsfélagið megi ráða fagmann til að fjarlægja framkvæmdir sem E, forsvarsmaður gagnaðilans B hafi gert í óleyfi.

IV. Að viðurkennt verði að E skuli bæta þau skemmdarverk sem hann hafi valdið á húsinu á sinn kostnað eða kostnað gagnaðila, B.

Í álitsbeiðni kemur fram lýsing á samskiptum álitsbeiðanda við gagnaðila málsins. Að mati álitsbeiðanda hafa fyrrgreindar kröfur verið samþykktar á húsfundum fjöleignarhússins. Framkvæmdir á vatnslögnum þeirra hafi verið mjög nauðsynlegar og vísar álitbeiðandi til þess að matsmaður hafi verið sammála henni um að vatnslagnir hússins væru í slæmu ástandi. Hafi gagnaðilinn, B, farið í óheimilar framkvæmdir, m.a. gert gat á útvegg hússins og grafið skurð frá húsinu og að skúr sem standi á lóð fjölbýlishússins og lagt þar raflagnir og jafnvel vatnslagnir líka. Hafi gatið á útveggnum valdið óhreinindum hjá inntakinu og miklum kulda og trekk á göngum í húsinu. Gagnaðili, B, hafi þar að auki að sögn álitsbeiðanda málað yfir allar raflagnir rafmagnskassa hússins til þess að fela nýjan svartan kapal sem gagnaðili, E hafi sett í rafmagnskassa hússins. Að mati álitsbeiðanda muni þurfa að setja upp nýjan rafmagnskassa þar sem ekki sé hægt að ná málningunni af samkvæmt starfsmanni F.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að erfitt sé að átta sig á um hvað málið snúist og óskuðu þau því eftir betri útskýringum frá álitsbeiðanda um efni álitsbeiðni hennar. Krafa þeirra sé að málinu verði vísað frá vegna óskiljanlegra framlagðra gagna og ónákvæmra spurninga í álitsbeiðni. Til vara fara gagnaðilar fram á að álitsbeiðandi geri betur grein fyrir því um hvað mál hennar fjalli og að álitsbeiðni verði höfð stuttorð og skiljanleg.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kveður hún málið liggja skýrt fyrir og gagnaðilar séu að tefja málið. Gagnaðili, C, hafi valdið skemmdum á eigum annarra íbúa hússins.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að málflutningur álitsbeiðanda sé enn óskýr og mjög erfitt að átta sig á honum. Greina þó gagnaðilar frá því í greinargerð sinni að þegar gagnaðilinn, B, hafi keypt miðhæð hússins þá hafi álitsbeiðandi verið mjög erfið í öllum samskiptum sínum við gagnaðila og háttsemi hennar á tímum verið undarleg. Hún hafi oft og tíðum verið að angra íbúa jarðhæðarinnar með háttalagi sínu. Hafi gagnaðili E reynt að koma af stað viðgerðum á húsinu árið 2012, en álitsbeiðandi hafi ekki viljað samþykkja framkvæmdirnar og neitað að skoða málið frekar. Það sé því rangt hjá álitsbeiðanda að hún hafi ekki viljað láta gera við húsið líkt og álitsbeiðandi heldur fram. Varðandi bílskúr á lóð hússins þá sé hann í eigu miðhæðarinnar og sé eigandi búinn að fá leyfi fyrir honum frá byggingarfulltrúa. Gagnaðili, B, hafi talið að húsfélagið hefði samþykkt að skipt yrði um rafmagnssnúrur sem lægju í bílskúrinn áður en álitsbeiðandi hafi keypt íbúð sína. Mótmæla gagnaðilar því að borga fyrir þær viðgerðir sem álitsbeiðandi hefur greitt fyrir þar sem hún hafi ekki sýnt fram á að þær hafi verið gerðar á sameign hússins. Einnig segja gagnaðilar að húsfundur sem álitsbeiðandi hafi boðað til sé ekki lögmætur þar sem hann hafi ekki verið boðaður með nægum fyrirvara. Sama eigi við um fund með lögmanni álitsbeiðanda 15. maí 2015.

Álitsbeiðandi hefur skilað inn frekari athugasemdum vegna þess máls, til rökstuðnings máli sínu, en gagnaðili hefur mótmælt þeim staðhæfingum sem þar hafa komið fram.

III. Forsendur

Gagnaðilar fara fram á frávísun málsins á þeirri forsendu að kröfur álitsbeiðanda séu óljósar og erfitt sé að átta sig á þeim auk þess sem framlögð gögn séu illskiljanleg. Álitsbeiðandi hefur með athugsemdum, dags. 28. september 2015 og 22. október 2015, rökstutt álitsbeiðni sína frekar.

Ákvæði 5. gr. reglugerðar um kærunefnd fjöleignarhúsamála, nr. 881/2001, kveður á um að áður en kærunefnd taki mál til meðferðar skuli það að jafnaði hafa hlotið afgreiðslu innan húsfélags. Ekki er að sjá að álitsbeiðandi hafi haft uppi kröfu á húsfundi um að ráðinn yrði matsmaður til að skoða vatnslagnir hússins og sama gildir um kröfu um að ráða fagmann til að gera við vatnslagnir. Auk þess er ekki að finna beinan rökstuðning fyrir kröfum álitsbeiðanda í álitsbeiðni en samkvæmt áðurnefndu ákvæði reglugerðarinnar ber að gera skýra kröfu um tiltekna niðurstöðu fyrir nefndinni og rökstyðja kröfuna eins ítarlega og unnt er. Þá liggur ekkert fyrir um að framkvæmd hafi verið skemmdarverk á eigninni. Telur kærunefnd því að vísa beri frá máli þessu með vísan til 7. gr. reglugerðar um kærunefnd fjöleignarhúsamála, nr. 881/2001.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að vísa beri málinu frá nefndinni.

Reykjavík, 10. febrúar 2016

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira