Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 9/2016

Myglusveppur: endurgreiðsla leigu

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 9/2016

Myglusveppur: endurgreiðsla leigu

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 8. mars 2016, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 20. apríl 2016, lögð fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. ágúst 2016.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. 20. september 2015, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð að C. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá 1. september 2015 til 31. maí 2016. Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda leigu fyrir febrúarmánuð 2016 vegna riftunar leigusamnings án samráðs við álitsbeiðanda.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi eigi rétt á endurgreiðslu á leigu fyrir febrúarmánuð, samtals 150.000 krónur.

Í álitsbeiðni kemur fram að í byrjun árs 2016 hafi álitsbeiðandi haft samband við gagnaðila, sem hafi framleigt henni íbúð að C með vitund eiganda íbúðar, vegna myglusvepps sem hún hafi fundið á tveimur stöðum inni í eldhúsi á leiguhúsnæðinu. Annars vegar hafi hún fundið myglusvepp bakvið eldavél og hins vegar á vegg sem frystiskápur hafi staðið upp við en bæði tækin hafi staðið við útvegg. Skömmu áður hafi álitsbeiðandi haft samband við eiganda íbúðarinnar og beðið hana um að fá fagaðila til að koma og líta á mygluna. Fyrr um veturinn hafi álitsbeiðandi einnig haft samband við eigandann vegna gruns um myglusvepp, bæði vegna raka, lyktar og heilsufarslegra ástæðna. Í janúar 2016 hafi eigandinn komið í íbúðina til að skoða mygluna og sagt að þetta væri einungis vegna þess að álitsbeiðandi loftaði ekki nægilega vel út. Hún hafi sagt henni að þrífa og mála yfir mygluna. Álitsbeiðandi hafi þá hringt í Heilbrigðiseftirlitið þar sem hún hafi fengið þær upplýsingar að þetta væri algengur staður þar sem mygla myndast og þá yfirleitt vegna lélegrar einangrunar. Það þyrfti að rífa burt efnið og setja nýtt. Þá hafi álitsbeiðandi hringt í gagnaðila og sagt henni frá þessu. Gagnaðili hafi fengið smið til að koma og skoða íbúðina og hafi hann talið margar ástæður fyrir því að það gæti hafa myndast mygla, t.d. gat í vegg utan frá sem leiði 30 cm inn í klæðninguna, ekkert dren sé meðfram húsinu, engin ofn sé inni í rýminu til að koma flæði á loftstreymi og gólfið liggi lægra í eldhúsinu heldur en jarðvegur fyrir utan svo líklegast leki raki þar inn í grunninn. Smiðurinn hafi tekið það fram að alls ekki væri hægt að rekja mygluna til þess eins að það væri illa loftað út. Gagnaðili hafi látið álitsbeiðanda vita að smiðurinn hafi hringt í sig og sagt henni frá öllu sem fram hafi farið á milli hans og álitsbeiðanda. Gagnaðili hafi sagt álitsbeiðanda að hún hafi ákveðið að rifta leigusamningnum við eigandann vegna þess að hún hafi ekkert viljað gera í málunum og að hún hafi fengið leiguna fyrir febrúar endurgreidda sem og tryggingu. Hinn 8. febrúar 2016 hafi verið búið að rýma íbúðina. Rúmlega mánuði síðar hafi álitsbeiðandi einungis fengið trygginguna til baka en gagnaðili hafi ekki svarað símatölum frá henni. Álitsbeiðandi hafi sent gagnaðila bréf í pósti 25. febrúar 2016 með kröfu um endurgreiðslu og veitt frest til 3. mars. Hinn 8. mars hafi bréfið enn verið ósótt í pósthúsinu. Álitsbeiðandi fari fram á að gagnaðili endurgreiði sér leiguna, samtals 150.000 krónur.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að hún kannist ekki við að hafa ekki svarað símtölum frá álitsbeiðanda. Hún hafi fengið símaskilaboð frá henni 8. febrúar 2016 þar sem álitsbeiðandi hafi beðið um endurgreiðslu tryggingar, samtals 150.000 krónur, sem gagnaðili hafi gert. Gagnaðili hafi fengið annan póst degi síðar þar sem álitsbeiðandi hafi spurt um endurgreiðslu leigunnar en gagnaðili hafi ekki vitað um stöðuna á þeim málum því hún hafi ekki verið búin að skila íbúðinni. Hinn 19. febrúar 2016 hafi hún fengið annan póst frá álitsbeiðanda um endurgreiðslu leigunnar. Hún hafi svarað henni á þá leið að hún hafi ekki fengið leiguna endurgreidda og að myglan hafi að öllum líkindum myndast vegna þess að álitsbeiðandi hafi ekki loftað nægilega vel út. Gagnaðili hafi tekið eftir því þegar hún hafi þrifið íbúðina að í gluggakistu stofugluggans hafi verið mygla sem hún teldi að hafi komið vegna þess að ekki hafi verið loftað nógu vel út og að vatn hafi lekið af gluggarúðum sem ekki hafi verið þurrkað þannig að þar hafi myndast mygla vegna raka.

Gagnaðili telji að endurgreiðsla á leigunni komi ekki til greina þar sem að hún hafi ekki fengið leiguna frá sínum leigusala, þ.e. eiganda íbúðarinnar.

III. Forsendur

Í málinu liggur fyrir tímabundinn leigusamningur frá 1. september 2015 til 31. maí 2016. Fjárhæð leigunnar var ákveðin 150.000 krónur á mánuði og greiddi álitsbeiðandi einn mánuð fyrirfram.

Álitsbeiðandi krefst þess að fá endurgreidda leigu fyrir febrúarmánuð 2016 að fjárhæð 150.000 krónur. Álitsbeiðandi fullyrðir að hún hafi flutt úr íbúðinni 5. febrúar 2016 og rýmt hana 8. febrúar að beiðni gagnaðila sem hafi lofað að endurgreiða henni leigu fyrir febrúar en gagnaðili framleigði álitsbeiðanda íbúðina. Gagnaðili hafði sjálf rift leigusamningnum við sinn leigusala vegna myglusvepps eftir að álitsbeiðandi hafði greitt leigu fyrir febrúarmánuð. Gagnaðili hefur ekki mótmælt þessari fullyrðingu álitsbeiðanda en telur sig ekki bundna af samkomulagi aðila vegna þess að hún hafi ekki fengið febrúarmánuð endurgreiddan frá sínum leigusala. Kærunefnd telur að álitsbeiðandi eigi rétt á endurgreiðslu á leigu fyrir febrúarmánuð í samræmi við samkomulag aðila þar um óháð því hvort gagnaðili hafi fengið endurgreiðslu frá sínum leigusala eða ekki enda um tvö óskyld réttarsambönd að ræða.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðandi eigi rétt á endurgreiðslu leigu að fjárhæð 150.000 krónur.

Reykjavík, 18. ágúst 2016

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira