Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2016

Rekstrarkostnaður: uppgjör á hitaveitureikningi

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í málinu nr. 20/2016

Rekstrarkostnaður: uppgjör á hitaveitureikningi

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 1. júní 2016, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 20. júní 2016, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 10. október 2016, og athugasemdir gagnaðila, dags. 31. október 2016, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 11. janúar 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með ótímabundnum leigusamningi, dags. 10. mars 2015, tók álitsbeiðandi á leigu íbúð í eigu gagnaðila frá 1. maí 2015. Leigutíma lauk 30. maí 2016. Ágreiningur er um uppgjör á hitaveitureikningum.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

I. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða að fullu bakreikning vegna mikillar notkunar á heitu vatni.

Í álitsbeiðni kemur fram að í desember 2015 hafi álitsbeiðandi fengið bakreikning að fjárhæð 103.000 kr. frá C vegna mikillar notkunar á heitu vatni sem væri umfram áætlun. Kveðst álitsbeiðandi hafa upplýst gagnaðila um bakreikninginn og óskað eftir því að hún fengi pípulagningamann sem allra fyrst þar sem um bilun í ofnum hlyti að vera að ræða. Gagnaðili hafi ekki sinnt ítrekuðum beiðnum álitsbeiðanda fyrr en um miðjan febrúar 2016 en þá hafi þegar borist tveir reikningar að fjárhæð 30.000 kr. Pípulagningamaðurinn hafi sagt að allir ofnar sem stilltir væru á heitt sendu út frá sér heitt vatn. Ekkert hafi þó gerst fyrr en í apríl, þrátt fyrir að álitsbeiðandi hafi ítrekað ýtt á gagnaðila, en þá hafi pípulagningamaðurinn komið aftur og skrúfað fyrir hitann í öllum ofnum þannig að ískalt hafi verið í íbúðinni. Því næst hafi álitsbeiðandi sent skýrslu til C og óskað eftir niðurfellingu reikninganna vegna bilunar. Það hafi gengið eftir að hluta og hafi álitsbeiðandi fengið 30% afslátt af uppgjörsreikningnum síðan í desember. Álitsbeiðandi hafi þá fengið útreiknað C hver raunnotkun á heitu vatni hefði verið þar sem eftirstandandi reikningar hafi enn verið upp á 140.000 kr. eftir niðurfellinguna.

Álitsbeiðandi telur sig ekki eiga að bera kostnað af umframvatnsnotkun vegna bilunar í ofnakerfi íbúðarinnar. Gagnaðili hafi ekki fallist á það og haldi því fram að álitsbeiðandi hafi einfaldlega notað svona mikið vatn. Álitsbeiðandi hafi óskað eftir skýrslu frá pípulagningamanninum til að staðfesta bilun í ofnakerfi en hann hafi neitað henni um skýrsluna, þar sem hann væri nátengdur gagnaðila, og sagt henni að greiða reikningana og skrúfa niður hitann í ofnunum. Álitsbeiðandi kallaði þá eftir öðrum pípulagningamanni en sá gat lítið gert þar sem hann kom ekki að þessu í upphafi.

Álitsbeiðandi krefst þess að gagnaðili greiði fyrir umframnotkun á heitu vatni vegna bilunar, enda sé hún eigandi íbúðarinnar. Telur álitsbeiðandi að reikningar vegna umframnotkunar hefðu ekki orðið eins háir og raun ber vitni ef gagnaðili hefði brugðist strax við í desember þegar álitsbeiðandi upplýsti hana um hækkun hitaveitukostnaðar. Samkvæmt áætlun C hafi notkun á heitu vatni átt að nema 122.099 kr. en raunnotkun verið 267.815 kr. og fer álitsbeiðandi fram á að gagnaðili greiði mismuninn, 145.716 kr., með vísan til þess að leigusali eigi að annast viðhald á hinu leigða húsnæði, sbr. blaðsíðu þrjú í leigusamningi.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að álitsbeiðandi hafi haft samband í lok desember vegna mjög hás hitaveitureiknings. Gagnaðili hafi sagt álitsbeiðanda að hún myndi hafa samband við pípulagningamann og spurt hvort álitsbeiðandi þekkti til pípara. Gagnaðili hafi fengið þær upplýsingar hjá C að um reikning vegna notkunar á heitu vatni umfram áætlun hafi verið að ræða, auk venjulegs reiknings vegna desember, en að ekki væri hægt að segja til um hvort að þetta gæti verið vegna bilunar. Strax í lok desember hafi gagnaðili haft samband við pípulagningamenn sem hún fann á netinu en biðtími hafi allstaðar verið langur. Þá hafi hún beðið unnusta dóttur sinnar að líta á ofnana en hann hafi ekki komist í janúar. Gagnaðili hafi áfram reynt að fá aðra pípulagningamenn og einnig hvatt álitsbeiðanda til að láta hana vita ef hún þekkti einhvern sem gæti skoðað málið. Gagnaðili búi erlendis en hafi komið til Íslands um miðjan febrúar og þá fengið tengdason sinn til að skoða ofnana. Hann hafi farið yfir alla ofna 17. febrúar 2016 og byrjað á að skrúfa niður í ofnunum þar sem þeir hafi verið stilltir á hæstu stillingu. Aðspurð um ástæður þessa hafi álitsbeiðandi sagst nota ofninn í ganginum til að þurrka föt af krökkunum og að henni finnist kalt í stofunni. Það sé opið upp á loft í íbúðinni og hitinn leiti upp ef ekki sé lokað þangað. Tengdasonur gagnaðila hafi skipt um einn „termómæli“ í eldhúsi en álitsbeiðandi eða unnusti hennar hefðu áður skipt um „termómæli“ þar. Hann hafi þá læst ofnunum á stillingunni „2“ til þess að hann gæti lesið af mælum aftur mánuði síðar til að sjá hvort að eitthvað væri að ofnakerfinu. Hann hafi komið aftur í lok mars og lesið af mælunum og hafi þá allt verið eðlilegt og að um minni notkun hafi verið að ræða vegna læsingar á stillingum ofnanna. Þá hafi álitsbeiðandi ýtt mikið á það að fá niðurfellingu á hluta reiknings ef pípulagningamaðurinn „skrif[aði] til C“. Gagnaðili hafi þá beðið tengdason sinn um að hafa samband við C. Hann hafi sent bréf til C þar sem fram kom að hann hafi læst ofnum þannig að ekki væri hægt að stilla þá á hæstu stillingu auk þess að hafa skipt um „termómæli“. Álitsbeiðandi hafi fengið 40% niðurfellingu á hitaveitureikningunum í kjölfarið.

Gagnaðili hafi þá talið að málinu væri lokið þar sem hún hefði fengið upplýsingar um að reikningurinn væri vegna notkunar álitsbeiðanda á heitu vatni umfram áætlun auk þess sem hún hafi talið álitsbeiðanda verið sátta við 40% niðurfellingu á fyrrgreindum reikningum. Hún hafi aftur á móti fengið tölvupóst frá álitsbeiðanda stuttu síðar með útreikningum á umframnotkun á heitu vatni sem álitsbeiðandi hafi talið að gagnaðili ætti að greiða. Gagnaðili hafi óskað eftir því að fá að kynna sér málið en áður en hún hafi náð að tala við C eða pípulagningamann hafi álitsbeiðandi byrjað að tala um að draga kostnaðinn frá leigugreiðslum. Gagnaðili hafi ekki fallist á það og óskað eftir fullum leigugreiðslum. Álitsbeiðandi hafi þá ekki sagst geta greitt bæði fulla leigu og hitaveitureikninginn. Gagnaðili taldi sig þá hafa verið orðna ringlaða og haldið að C væri að senda sér reikning sem hún ætti sjálf að greiða og því sagt við álitsbeiðanda að hún gæti greitt 40.000 kr. minna í leigu á mánuði þar til gagnaðili hefði kynnt sér málið. Síðar sama dag hafi gagnaðila fundist að álitsbeiðandi væri farin að hóta sér og að hún væri búin að fara með málið til „leigusamtaka“. Gagnaðili kveðst hafa sagt álitsbeiðanda að ef henni bæri að greiða eitthvað myndi hún gera það.

Gagnaðili kveðst hafa fengið þær upplýsingar frá C að um umframnotkun álitsbeiðanda á heitu vatni væri að ræða og að gagnaðila bæri ekki að greiða þann kostnað. Starfsmaður C hafi tekið fram að með því að hafa ofna stillta á hæstu stillingu fari mikið vatn til spillis og að notkunin hafi orðið eðlileg eftir að ofnar hafi verið læstir á stillingunni „2“. Gagnaðili kveðst einnig hafa sent gögnin til pípulagningamanns sem hafi sagt að hún ætti ekki að greiða kostnaðinn vegna umframnotkunar á heitu vatni. Gagnaðili kveðst hafa verið öll af vilja gerð til að aðstoða álitsbeiðanda vegna málsins. Fyrri leigjendur hafi ekki lent í vandræðum vegna notkunar á heitu vatni og ekki sé langt síðan farið hafi verið yfir alla ofna og rafmagn í íbúðinni.

Gagnaðili kveðst hafa lagt sig fram við að eiga góð samskipti við leigjendur og bendir á að ekki hafi verið um bilun að ræða í ofnakerfi og þess vegna hafi pípulagningamaðurinn ekki getað veitt álitsbeiðanda staðfestingu þess efnis. Tengsl gagnaðila við pípulagningamanninn hafi ekki haft neina þýðingu auk þess sem gagnaðili hafi boðist til að fá annan pípulagningamann en álitsbeiðandi ekki viljað það. Álitsbeiðandi hafi fengið annan pípulagningamann en sá hafi ekki heldur staðfest að eitthvað væri að ofnunum. Í leigusamningi komi fram að hiti og rafmagn sé á kostnað leigjanda og geti gagnaðili því ekki borið ábyrgð á notkun leigjanda á slíku, enda sé ekki um bilun að ræða. Álitsbeiðandi hafi flutt út í lok maí og síðan þá hafi notkun á heitu vatni verið fullkomlega eðlileg án þess að nokkuð hafi verið að gert, rétt eins og það hafi verið áður en álitsbeiðandi flutti inn.

Í athugasemdum álitsbeiðanda kemur fram að hún hafi strax tilkynnt gagnaðila að hún þekkti ekki til neinna pípulagningamanna auk þess sem hún hafi talið að það væri ekki í sínum verkahring sem leigjanda að finna pípulagningamann. Álitsbeiðandi hafi aftur á móti kallað til pípulagningamann þar sem hún hafi talið að sá fyrri hafi ekki komist að réttri niðurstöðu og hafi hann komið eftir þrjá daga. Því skilji hún ekki að það hafi tekið svo langan tíma fyrir gagnaðila að útvega pípulagningamann til að skoða ofnana. Álitsbeiðandi kveðst einnig vilja koma því á framfæri að hún hafi ekki verið með ofna stillta á hæstu stillingu og að aðeins hafi verið kveikt á fjórum af átta ofnum í íbúðinni. Tveir ofnar hafi verið í stofunni, stilltir á „3“, en ofninn í forstofunni verið stillur á „4“ í það skiptið. Hann hafi þó ekki alltaf verið stilltur svo hátt. Ofninn í eldhúsinu hafi verið eini ofninn með „termostatíf“ í lagi en hún hafi sjálf skipt um það. Það hafi verið eini ofninn sem ekki sendi út frá sér heitt vatn þegar kveikt var á honum. Það sé ekki rétt að skipt hafi verið um „termóstatíf“ á þeim ofni heldur hafi verið skipt um brotið „termóstatíf“ á ofni inni í öðru herberginu en sá ofn hafi ekki virkað frá því að álitsbeiðandi flutti inn. „Termóstatífin“ hafi, eins og ofnarnir sjálfir, verið komin til ára sinna og þegar hún hafi keypt nýtt „termóstatíf“ fyrir ofninn í eldhúsinu hafi afgreiðslumaðurinn mælt með því að kaupa ný á alla ofnana þar sem þessi gerð væri orðin úrelt og gömul.

Álitsbeiðandi kveður pípulagningamanninn sem kom á vegum gagnaðila hafa lækkað alla ofna niður í stillinguna „2“ og hafi hitinn í íbúðinni þá farið niður í 17 gráður. Álitsbeiðandi sé með tvö börn og því sé slíkt hitastig óásættanlegt. Enn fremur hafi pípulagningamaðurinn ekki komið í lok mars eins og gagnaðili haldi fram heldur um miðjan apríl. Niðurfellingin hafi einungis verið af uppgjörsreikningi en ekkert verið fellt niður af þeim reikningum sem bárust eftir desember, en þeir hafi hljóðað upp á 260.000 kr. samanlagt. Ef gagnaðili hefði brugðist fyrr við hefði mátt koma í veg fyrir þessa háu reikninga. Álitsbeiðandi kveðst alltaf hafa greitt leigu á réttum tíma. Álitsbeiðandi kveðst hafa fengið aðrar upplýsingar frá C en gagnaðili segist hafa fengið og hafi starfsmenn Creynt að aðstoða hana, t.d. með því að reikna út raunnotkun á heitu vatni. Álitsbeiðandi hafi búið í íbúðinni í heilt ár þegar þessi mikla aukning hafi orðið, þannig að áætlun á notkun hafi verið byggð á hennar eigin notkun sem hafi ekki breyst á tímabilinu.

III. Forsendur

Í máli þessu er deilt um hvort álitsbeiðanda eða gagnaðila beri að greiða bakreikning vegna mikillar notkunar á heitu vatni. Álitsbeiðandi byggir sinn málflutning á því að gagnaðili hafi borið ábyrgð á því að ástand ofna hafi ekki verið í lagi og að umframnotkun hafi verið vegna bilunar og hefur lagt fram áætlun um hitaveitukostnað og notkun á heitu vatni máli sínu til stuðnings. Gagnaðili telur aftur á móti að ekki hafi verið um bilun að ræða heldur mikla notkun álitsbeiðanda á heitu vatni. Auk þess byggir álitsbeiðandi sitt mál á því að gagnaðili hefði getað komið í veg fyrir háa reikninga frá desember til apríl með því að láta gera strax við ofna í íbúðinni.

Í húsaleigusamningi aðila, dags. 10. mars 2015, segir í 6. gr. samningsins að leigutaki skuli greiða hitunar- og rafmagnskostnað vegna hins leigða húsnæðis en að leigusali skuli greiða fasteignagjöld, brunatryggingu og húseigandatryggingu vegna húsnæðisins. Í 23. gr. húsaleigulaga segir að leigjandi skuli greiða kostnað af notkun vatns og rafmagns auk hitunarkostnaðar. Það er því álit kærunefndar að álitsbeiðanda hafi borið að greiða rafmagns- og hitaveitukostnað vegna hins leigða húsnæðis.

Álitsbeiðandi byggir málflutning sinn á því að vegna bilunar í ofnakerfi hafi notkun á heitu vatni verið mjög mikil og því beri gagnaðila að greiða bakreikning vegna hitaveitukostnaðar. Þá telur álitsbeiðandi að lækka hefði mátt reikninga vegna hitaveitu hefði pípulagningamaður verið kallaður til þegar í desember. Álitsbeiðandi hefur lagt fram áætlun um hitaveitukostnað og notkun á heitu vatni og telur að gagnaðila beri að greiða mismuninn á áætluðum kostnaði og raunkostnaði samkvæmt framlögðum gögnum. Þar sem engin gögn styðja þá fullyrðingu álitsbeiðanda að um bilun hafi verið ræða, sem hafi orsakað aukna notkun á heitu vatni, er það álit kærunefndar að hann hafi ekki sýnt nægilega fram á að gagnaðila beri að greiða tiltekinn hitaveitukostnað eins og krafist er.

IV. Niðurstaða

Það álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri ekki að greiða bakreikninga vegna hitaveitukostnaðar.

Reykjavík, 11. janúar 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira