Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 17/2017

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 17/2017

Kostnaðarskipting. Sameiginleg innkeyrsla.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2017, beindi A hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefndur gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, en kaus að gera það ekki.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. júní 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi annarrar íbúðarinnar í tvíbýlishúsi að C x og gagnaðili er eigandi að C xx. Húsinu fylgir sameiginleg innkeyrsla, sem eigendur að C x hafa akstursleyfi í gegnum samkvæmt lóðarleigusamningi en eiga ekki eignarhlut í. Deilt er um kostnaðarþátttöku álitsbeiðanda í viðgerð á hitalögn á téðri innkeyrslu.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að eigendum C x beri ekki að taka þátt í kostnaði vegna viðgerðar á hitalögn í innkeyrslu sem er í eigu gagnaðila og eiganda C xx.

Í álitsbeiðni kemur fram að deilt hafi verið um kostnaðarskiptingu vegna þessa. Hafi Húseigendafélagið og sveitafélagið talið sanngjarnt að álitsbeiðandi, og meðeigandi hennar, bæru hluta af kostnaði þó ekki væri unnt að finna því beint stoð í lögum. Hafi gagnaðili og eigandi C xx aftur á móti talið að álitsbeiðanda og meðeiganda hennar bæri að greiða meira en sem nemi 1/3 hluta þar sem tvær íbúðir séu í fasteign álitsbeiðanda á meðan hin tvö húsin séu einbýlishús. Telur álitsbeiðandi þetta ekki sanngjarnt.

Gagnaðili hefur ekki látið málið til sín taka.

III. Forsendur

Fjallað er um sameiginlega kostnað í 43. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994. Segir þar í 1. mgr. að sameignlegur kostnaður sé allur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, sem snertir sameign fjöleignarhúss, bæði innan húss og utan, sameiginlega lóð þess og sameiginlegan búnað og lagnir, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjórnar húsfélagsins, almenns fundar þess og þeim ráðstöfunum sem einstakur eigandi hefur heimild til að gera.

Af fyrirliggjandi lóðarleigusamningi má sjá að sú kvöð er á lóð gagnaðila að eigendur C x hafa umferðarrétt yfir lóðina. Aftur á móti er ekki að finna ákvæði um skyldu þeirra til að taka þátt í kostnaði við viðhald og framkvæmdir á lóð eða innkeyrslu gagnaðila og eiganda C xx, hvorki í lóðarleigusamningum né fjöleignarhúsalögum. Er það því álit kærunefndar að þar sem skylda álitsbeiðanda til að taka þátt í kostnaði við viðgerð á hitalögn á innkeyrslu á lóðum gagnaðila og eiganda C xx byggist hvorki á lögum nr. 26/1994 né á samningi milli aðila þá sé honum það óskylt.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðanda beri ekki að taka þátt í kostnaði við viðgerð á hitalögn á akstursleið á lóðum gagnaðila og eiganda C xx, sem hún hefur umferðarrétt á.

Reykjavík, 1. júní 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum