Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2017

Stærð sérafnotaflatar. Gildi eignaskiptayfirlýsingar og teikninga.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 26/2017

Stærð sérafnotaflatar. Gildi eignaskiptayfirlýsingar og teikninga.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 21. mars 2017, beindi A, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við húsfélagið B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 4. apríl 2017, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 1. júní 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á jarðhæð að fjöleignahúsi og gagnaðili er húsfélag eignarinnar. Deilt er um staðsetningu og stærð sérafnotaflatar íbúðar jarðhæða þar sem texta í eignaskiptayfirlýsingu og teikningum sem henni fylgdu beri ekki saman.

Kærunefnd telur kröfur álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að sérafnotareitur íbúðar álitsbeiðanda sé ekki 11,6 fermetrar eins og lýst sé í texta eignaskiptayfirlýsinga, heldur stærri í samræmi við teikningu sem fylgi eignaskiptayfirlýsingu.

Að kveðið verði á um sérafnotaflöt íbúðar xxx í eignaskiptayfirlýsingu þar sem ekki hafi verið byggðar svalir við eignina eins og til hafi staðið í upphafi.

Í álitsbeiðni kemur fram að íbúðir á jarðhæð hyggist setja upp skjólvegg en ágreiningur sé um hvar mörk sérafnotaflatar liggi. Á teikningum, sem skilað hafi verið inn til sveitafélagsins og séu fylgiskjal eignaskiptayfirlýsingar eignarinnar, sé sérafnotaflöturinn teiknaður stærri en lýst er í texta eignaskiptayfirlýsingarinnar þar sem segi að sérafnotareitur sé 11,6 fermetrar. Á teikningum sé útipallur skráður sem 11,6 fermetrar en síðan sé sérstök punktalína sem nái út fyrir 11,6 fermetra flötinn. Á teikningu sé það merkt sem sérafnotareitur. Telji álitsbeiðandi því að sérafnotareiturinn nái að punktalínu samkvæmt teikningum enda svæðið frá útipalli að punktalínu skýrlega merkt sérafnotareitur á teikningum. Á öllum teikningum nái sérafnotaflötur íbúða jarðhæða út fyrir svalir efri hæða, sem séu 11,6 fermetrar. Samkvæmt teikningum séu skráðar svalir fyrir framan íbúð xxx en þar sé engin punktalína. Þar sem horfið hafi verið frá því að byggja svalir við íbúð xxx fylgi íbúðinni núna sérafnotareitur. Breyta þurfi þessu í eignaskiptayfirlýsingu.

Í greinargerð gagnaðila segir að engu sé við lýsingu álitsbeiðanda að bæta en mikilvægt sé að skorið sé úr ágreiningi þessum.

III. Forsendur

Í eignaskiptayfirlýsingu fjöleignahússins, sem dagsett er 8. desember 2005, segir að íbúð álitsbeiðanda fylgi „geymsla 15,9m2, merkt xxxx. Sérafnotalóð, verönd/útipallur merkt xxxx sjá grunnmynd 1. hæðar, stærð 11,6m2“. Á teikningum sem fylgdu eignaskiptayfirlýsingu er útpallur sýndur að stærð 11,6 fermetrar. Í eignaskiptayfirlýsingu hefur hvorki verið tekið tilllit til punktalína, sem sýndar eru á teikningu og áliltsbeiðandi heldur fram að marki sérafnotaflot hans, né þær tilgreindar í skráningartöflu. Hafa téðar punktalínur því ekkert gildi. Telur kærunefnd að sérafnotaflötur álitsbeiðanda sé 11,6 fermetrar.

Kærunefnd brestur heimild til að breyta eignaskiptayfirlýsingu eignarinnar, svo sem krafið er um, en bendir á ákvæði 18. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1996, sem fjallar um breytingar á eignaskiptayfirlýsingu.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að sérafnotareitur íbúðar álitsbeiðanda sé 11,6 fermetrar, eins og eignaskiptayfirlýsing segir til um.

Öðrum kröfum er vísað frá nefndinni.

Reykjavík, 1. júní 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira