Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2017

Rafmagnskostnaður

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 2/2017

Rafmagnskostnaður.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 6. desember 2016, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 27. mars 2017, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 17. maí 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi leigði gagnaðila íbúð. Að leigutíma loknum fékk álitsbeiðandi bakreikning vegna rafmagnskostnaðar. Ágreiningur er um hvort gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda fjárhæð sem nemur nefndum reikningi á þeim grunni að hann sé tilkominn vegna óhóflega mikillar rafmagnsnotkunar gagnaðila.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda 71.419 kr. vegna óhóflegrar rafmagnsnotkunar.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi leigt fasteign í eigu álitsbeiðanda frá 1. maí 2015 til 30. nóvember 2016. Í lok leigutíma hafi álitsbeiðandi krafið gagnaðila um greiðslu 71.419 kr. bakreiknings. vegna notkunar á rafmagni 2. júní 2015 til 31. júlí 2016 umfram áætlanir. Gagnaðili hafi í fyrstu samþykkt að fjárhæðin yrði dregin af tryggingarfé hans en svo fallið frá því samkomulagi. Gagnaðili beri þó ábyrgð á rafmagnsnotkun sinni en aukning í notkun á milli áranna 2015 til 2016 sé svo mikil að réttlætanlegt hefði verið að félagið hefði sent yfirvöld á staðinn. Þá vísi álitsbeiðandi í framlagt yfirlit yfir notkun áranna 2009–2015 sem sýni hina miklu aukningu. Gagnaðili hafi verið með mikinn fjölda af stórum rafmagnstækjum í íbúðinni, meðal annars tvo stóra ísskápa, tvo þurrkara, tvö til þrjú stór fiskabú, sjónvarp, tölvur og önnur minni heimilistæki. Jafnvel þótt rafmagn sé samkvæmt samningi aðila innifalið í leiguverði hafi álitsbeiðandi áætlað þá upphæð með hliðsjón af notkun síðastliðinna þriggja ára. Notkun gagnaðila sé aftur á móti óhófleg og enginn leigusali myndi áætla svo háa upphæð sem rafmagnskostnað.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að neytendasamtök hafi sagt þeim að ekki væri um óeðlilega notkun á rafmagni að ræða og því vilji gagnaðili kanna málið frekar.

III. Forsendur

Aðila greinir á um hvort gagnaðila beri að greiða álitsbeiðanda rafmagnskostnað sem var umfram áætlaða notkun en skilja verður greinargerð gagnaðila svo að hann mótmæli kröfum álitsbeiðanda.

Í samningi aðila segir að þau frávik séu gerð frá reglum húsaleigulaga, nr. 36/1994, um að vatns-, rafmagns- og hitakostnaður sem og hússjóður, sé innifalinn í leiguverði. Ekki sé kveðið á um takmörk á notkunarmöguleikum, hversu mikla notkun álitsbeiðandi vildi hafa innifalda í leiguverði, sem var 220.000 kr. á mánuði, eða leiðbeiningar um hæfilega notkun á vatni, rafmagni eða hita. Kærunefnd telur ekkert í samningi aðila eða húsaleigulögum geta réttlætt að álitsbeiðandi krefji gagnaðila um það sem hann telur óhóflega notkun á rafmagni og er kröfu álitsbeiðanda því hafnað.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að viðurkennt sé að

gagnaðila beri að greiða honum 71.419 kr. vegna meintrar óhóflegrar rafmagnsnotkunar.

Reykjavík, 17. maí 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira