Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 30/2017

Hljóðhöggseinangrun.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 30/2017

Hljóðhöggseinangrun.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 26. mars 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 26. apríl 2017, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 18. júlí 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar eiga hvor sína íbúðina í fjölbýlishúsi. Íbúð gagnaðila er fyrir ofan íbúð álitsbeiðanda og telur álitsbeiðandi frágang á gólfi þannig að högghljóðsstig sé mjög hátt og yfir leyfilegum mörkum samkvæmt byggingarreglugerð.

Kæra álitsbeiðanda er:

Að gagnaðilum verði gert að skipta um gólfefni þannig að íbúðin uppfylli skilyrði byggingarreglugerðar um leyfilegt hljóðhöggstig.

Í álitsbeiðni kemur fram að mikill hávaði heyrist niður í íbúð álitsbeiðanda frá íbúð gagnaðila. Hafi álitsbeiðandi fengið byggingarverkfræðing og hljóðfræðing PhD, til að hringja í konuna sem átti íbúð gagnaðila á undan núverandi eigendum til að ræða gólfefnið hjá henni. Hafi hún sagt að flísar væru límdar beint á steyptu plötuna og ekki gefið mikið fyrir ábendingar um að slíkt væri ekki heimilt samkvæmt núgildandi byggingarreglugerð sem og þeirri byggingarreglugerð sem í gildi hafi verið þegar húsið var byggt 1991. Álitsbeiðandi hafði farið með málið fyrir kærunefnd húsamála árið 2010 en málinu þá lokið með frávísun. Leggi álitsbeiðandi því fram skýrslu byggingaverkfræðings og hljóðfræðings PhD sem lýsi því hvernig hljóðhöggstigsgildið sé langtum hærra en leyfilegt sé samkvæmt byggingarreglugerðum. Þá hafi álitsbeiðandi kvartað til Heilbrigðiseftirlitsins sem staðfesti með eftirliti 17. mars 2017 að kvörtunin væri á rökum reist. Hljóð, svo sem umgangur og skellir frá efri hæð, hafi borist mjög vel niður í íbúð álitsbeiðanda. Þá bendi heilbrigðiseftirlitið á í vottorði sínu að eigendur íbúðar gagnaðila verði að uppfylla skilyrði byggingarreglugerðar, varðandi högghljóðeinangrun milli rýma, sem í gildi hafi verið þegar fasteignin var byggð.

Í athugasemdum gagnaðila kemur fram að þegar þau hafi keypt eignina í nóvember 2016 hafi þau ekki verið upplýst um þennan galla á eigninni. Þau hafi sett hljóðeinangrandi efni yfir gólfið til bráðabirgða meðan málið væri til lykta leitt.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi fullyrðir, og hefur lagt fram gögn því til stuðnings, að högghljóðeinangrun á milli íbúða sé ófullnægjandi vegna þess að flísar á gólf íbúðar gagnaðila hafi verið lagðar beint á steyptu plötuna. Gagnaðili hefur ekki mótmælt þessari fullyrðingu. Samkvæmt því er óumdeilt að högghljóðeinangrun íbúðar gagnaðila er ekki í samræmi við kröfur byggingarreglugerðar eins og hún hljóðaði þegar þetta var gert.

Ákvæði 13. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fjallar um skyldur eigenda í fjöleignarhúsi en skv. 3. tölul. ákvæðisins ber þeim að taka eðlilegt og sanngjarnt tillit til annarra eigenda við hagnýtingu séreignar. Ákvæði 2. mgr. 26. gr. laganna kveður á um að eiganda sé skylt á sinn kostnað að halda allri séreign sinni vel við og haga afnotum og hagnýtingu hennar með þeim hætti að aðrir eigendur eða afnotahafar í húsinu verði ekki fyrir ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði, þ.e. meiri ama, ónæði og óþægindum en óhjákvæmilegt er og eðlilegt þykir í sambærilegum húsum. Í 4. mgr. segir að sinni eigandi ekki eðlilegu og nauðsynlegu viðhaldi og umhirðu séreignar sinnar, þannig að sameign hússins eða einstakir séreignarhlutar líði fyrir vanræksluna og liggi undir skemmdum eða viðhaldsleysið valdi verulegum ama eða rýrnun á verðmæti annarra eigna, geti aðrir eigendur (húsfélagið) eftir a.m.k. eina skriflega áskorun og aðvörun látið framkvæma viðhald og viðgerðir og aðrar ráðstafanir á kostnað hans. Er eiganda skylt að veita óhindraðan aðgang að séreign sinni í því skyni. Þurfi húsfélag að leggja út fyrir kostnaði vegna þessa fylgir endurkröfunni lögveð í eignarhlutanum, sbr. 48. gr. Telur kærunefnd að álitsbeiðandi eða húsfélag eignarinnar geti þannig, eftir að hafa veitt gagnaðilum skriflega áskorun og aðvörun, látið framkvæma á kostnað þeirra viðgerð á gólfi þannig að það uppfylli kröfur byggingarreglugerðar frá 1979 um hljóðhöggseinangrun, enda valdi skortur á slíkri einangrun álitsbeiðanda ónauðsynlegu og óeðlilegu ónæði.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðandi eða húsfélag eignarinnar geti, að undangenginni skriflegri áskorun og aðvörun til gagnaðila, látið framkvæma á kostnað þeirra viðgerð á gólfi þannig að það uppfylli kröfur byggingarreglugerðar frá 1979 um hljóðhöggseinangrun.

Reykjavík, 18. júlí 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira