Hoppa yfir valmynd

709/2017. Úrskurður frá 2. nóvember 2017

Úrskurður

Hinn 2. nóvember 2017 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 709/2017 í máli ÚNU 17020006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. febrúar 2017, kærði Kaffitár ehf. ákvörðun Isavia ohf. um að synja kæranda um gögn er tengjast samkeppni um leigurými á Keflavíkurflugvelli í mars 2014. Úrskurðarnefndin hefur áður fjallað um ágreining sömu fyrirtækja um rétt kæranda til aðgangs að gögnum er varða umrædda samkeppni sbr. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 579/2015 og 586/2015. Í fyrra málinu var deilt um aðgang að öðrum gögnum en mál þetta lýtur að, en í því síðara var hafnað beiðni Isavia ohf. um endurupptöku fyrra málsins.  

Eins og rakið er í fyrri úrskurðum efndi Isavia ohf. þann 19. mars 2014 til samkeppni til að bjóða út leigu á aðstöðu undir verslunar- og veitingarekstur í húsnæði Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og að fyrirtækið hafi komið fram sem væntanlegur leigusali. Skiptist samkeppnin í tvö stig. Á fyrra stiginu, sem nefndist „Request for Qualification“ var kannað hvort þátttakendur uppfylltu þær kröfur um vörur, vörumerki, þekkingu, reynslu og fleira sem Isavia ohf. setti til þátttöku í samkeppninni. Þeim sem uppfylltu kröfur fyrirtækisins var svo boðið að taka þátt á seinna stigi samkeppninnar, sem nefndist „Request for Proposal“, og skila inn annars vegar tæknilegri og hins vegar fjárhagslegri tillögu. Átti fjárhagslegi hlutinn einungis að koma til skoðunar ef tæknilegi hlutinn yrði metinn fullnægjandi. Kærandi mun hafa skilað inn tvíþættum tillögum og komst í gegnum fyrra stig samkeppninnar í tilteknum flokkum hennar. Tæknilegur hluti tillögu kæranda var metinn fullnægjandi og kom fjárhagslegur hluti hennar til skoðunar. Með bréfi 21. ágúst 2014 tilkynnti Isavia ohf. á hinn bóginn kæranda að tillaga hans væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni og þann 1. október 2014 að ekki hefði verið gengið að tillögu hans í samkeppninni. Af gögnum þess máls sem hér er til skoðunar má ráða að Isavia ohf. hafi í kjölfarið gengið til samninga við fyrirtækin Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. Af gögnum málsins verður ráðið að í ferlinu öllu hafi jöfnum höndum verið vísað til fyrrnefnda fyrirtækisins með því nafni, heitinu Lagardère Services eða einfaldlega Lagardère.

Mál það sem hér er til skoðunar er til komið vegna beiðni kæranda í sjö liðum, dags. 5. desember 2016, um gögn. Var þess krafist að fá afhent eftirtalin gögn:

  1. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014.

  2. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014.

  3. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014.

  4. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar.

    1. Beiðnin tekur til allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili.

    2. Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til Lagardère Services, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 1.

    3. Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 2.

  5. Samninga ISAVIA ohf. við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga.

  6. Allar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar.

  7. Allar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna.

Með hinni kærðu ákvörðun, dags. 16. janúar 2017, fékk kærandi afhent gögn sem Isavia ohf. taldi að félli undir beiðni kæranda. Tekið var fram að hluti umbeðinna gagna teldist til vinnugagna og væri undanþeginn upplýsingarétti á þeim grundvelli. Þá hefði Isavia ohf. í samræmi við upplýsingalög nr. 140/2012 og með hliðsjón af erindi Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs, dags. 8. júlí 2016, afmáð mikilvægar viðskiptaupplýsingar úr gögnunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga.

Í kæru eru málavextir raktir frá sjónarhóli kæranda.  Rakið er að í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að 14. gr. upplýsingalaga ætti við um rétt kæranda til gagna frá öðrum þátttakendum í samkeppninni, þ.m.t. öllum fjárhagslegum upplýsingum sem kæmu fram í tilboðum þeirra. Í úrskurðinum hafi verið staðfest að kærandi ætti rétt á aðgangi að tillögum og fylgigögnum annarra þátttakenda í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í. Úrskurðarnefndin hafi einungis talið rétt að synja kæranda um aðgang að tæknilegum upplýsingum í glærusýningu eins bjóðanda. Kærandi hafi þurft að krefjast aðfarar til fullnustu úrskurðarins og hafi verið úrskurðað um aðfarahæfi hans í Héraðsdóms Reykjavíkur þann 14. júní 2015.

Við yfirferð á gögnum úr samkeppninni hafi vaknað spurningar hjá kæranda hvort framkvæmd samkeppninnar og val þátttakenda í kjölfar hennar stæðust grunnreglur íslensks útboðs- og stjórnsýsluréttar. Kærandi telji bréfaskipti Isavia ohf. við valda þátttakendur gefa til kynna að ekki hafi verið gætt jafnræðis á milli þátttakenda við málsmeðferð og val tilboða, m.a. vegna þess að völdum þátttakendum hafi verið veittur kostur á að leggja fram ný tilboð eftir að tilboðsfresti lauk. Með bréfi, dags. 5. desember 2016, hafi kærandi því óskað frekari gagna frá Isavia ohf., þ.m.t. samskipti fyrirtækisins við einstaka þátttakendur fyrir samkeppnina, meðan á henni stóð og fram að samningsgerð.

Í kæru kemur einnig fram að þann 17. janúar 2017 hafi Isavia ohf. afhent 458 bls. af gögnum úr samkeppninni. Af lestri þeirra gagna hafi kærandi orðið þess áskynja að Isavia ohf. hafi einungis orðið við gagnabeiðninni að hluta. Auk þess hafi Isavia ohf. synjað um aðgang að tilteknum upplýsingum úr gögnunum með því að afmá þær. Ekki hafi verið tilgreint með skýrum hætti hvaða gögnum væri haldið frá kæranda eða hvað réði því hvaða upplýsingar væru afmáðar í hverju og einu tilfelli.  

Kærandi telur málsástæður Isavia ohf. fyrir synjun beiðninnar vera haldlausar. Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 578/2015 og 586/2015 hafi verið staðfest að 14. gr. upplýsingalaga ætti við um gagnabeiðnir kæranda eftir samkeppnina en ekki 9. gr. laganna. Í úrskurðunum hafi heldur ekki verið fallist á að gögn tengd samkeppninni væru vinnugögn. Þá hafi málsástæðum um að í gagnaafhendingu fælist ólögmætt samráð skv. 10. gr. samkeppnislaga verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi komist að sömu niðurstöðu í endanlegum úrskurði nr. A-732/2015. Kærandi vísar einnig í úrskurð úrskurðarnefndarinnar nr. 580/2015.

Kærandi segir það hafa sjálfstæða þýðingu fyrir þátttakanda í opinberri samkeppni að geta borið saman fjárhagslegar upplýsingar í tilboðum þátttakenda við fjárhagslegar upplýsingar sem komi fram í seinni tillögum, viljayfirlýsingum og samningum við sigurvegara samkeppninnar. Auk þess skipti máli að fá aðgang að samningsákvæðum sem gætu haft áhrif á verðmæti samninga.

Í kæru eru gerðar sérstakar athugasemdir við synjun Isavia ohf. á afhendingu upplýsinga fyrir hvern og einn lið í gagnabeiðninni. Um 1. tölulið gagnabeiðni segir kærandi að gögn málsins bendi til þess að Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. hafi átt í töluverðum samskiptum fyrir upphaf samkeppninnar, eða í mars 2014. Lagardère travel retail ehf. hafi með tölvubréfi, dags. 17. mars 2014, óskað eftir fundi með starfsmönnum Isavia ohf. og flugfélagsins Icelandair við upphaf forvalstímans en svar Isavia ohf. við póstinum hafi hins vegar ekki verið afhent kæranda.

Um 2. tölulið gagnabeiðni tekur kærandi fram að með tölvupósti, dags. 26. mars 2014, hafi Lagardère travel retail ehf. beint sex spurningum með undirliðum til Isavia skömmu eftir upphaf forvals. Svör Isavia við spurningunum hafi hins vegar ekki verið afhent.

Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 3. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi:

  • Isavia ohf. hafi þann 22. apríl 2014 tilkynnt tilteknum þátttakendum að þeir hefðu öðlast þátttökurétt í seinni hluta samkeppninnar. Tölvubréf Isavia ohf. til þátttakenda vísi til viðhengdra bréfa sem ekki hafi verið afhent.

  • Samkvæmt tölvubréfi frá maí 2014 virðist Lagardère travel retail ehf. hafa sent ýmsar frekari fyrirspurnir til Isavia um samkeppnina en Isavia hafi ekki afhent svör félagsins við spurningunum.

  • Isavia hafi framlengt tilboðsfrestinn í samkeppninni en vísað hafi verið til þess í tilkynningu að beiðnir hefðu komið fram um framlengingu frestsins. Kærandi hafi aðeins fengið beiðni Lagardère travel retail ehf., dags. 14. maí, um framlengingu tilboðsfrests en óski eftir því að fá afhentar aðrar slíkar beiðnir hafi þær borist. Auk þess telur kærandi líklegt að frekari samskipti hafi átt sér stað á milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. um framlengingu frests. Óskað er rannsóknar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 á því hvort frekari samskipti hafi átt sér stað milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. á milli 14. maí 2014 og 13. júní sem ekki hafi verið afhent kæranda.

Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 4. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi:

  • Í bréfi Isavia ohf. til kæranda, dags. 21. ágúst 2014, hafi verið tilkynnt um að kærandi væri ekki fyrsti valkostur í samkeppninni. Ætla megi að hin fjögur fyrirtækin sem tóku þátt í þessum hluta samkeppninnar hafi fengið sambærilegt bréf. Óskað sé afhendingar á þeim bréfum.

  • Í tölvubréfi, dags. 16. september 2014 komi Joe Ísland ehf. á framfæri „nýjum tölum“ fyrir „departure lounge staðinn“ við Isavia ohf. en svar Isavia ohf. hafi ekki verið afhent kæranda. Kærandi segist eiga rétt á tölulegum upplýsingum sem þessum. Einnig hafi verið afmáðar tölulegar upplýsingar í tilboði á fylgiskjölum nr. 118-119.  

  • Joe Ísland ehf. hafi sent tölvubréf milli 16. og 8. október 2014 þar sem settar hafi verið fram ýmsar fyrirspurnir. Svör Isavia ohf. við þeim tölvubréfum hafi ekki verið afhent.

  • Afmáðar hafi verið upplýsingar í tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. til Isavia ohf., dags. 15. september 2014 en krafist sé afhendingar án útstrikunar. Með póstinum hafi fylgt viðhengi með tölulegum upplýsingum sem hafi verið afmáðar og sé krafist afhendingar án útstrikunar.

  • Isavia ohf. hafi með tölvubréfi dags. 23. desember 2014 beðið Joe Ísland ehf. um ársreikning og ábyrgðaryfirlýsingu frá þriðja aðila. Nöfn viðkomandi aðila hafi verið afmáð úr tölvupóstinum en krafist sé afhendingar tölvupóstsins án útstrikunar auk svars Joe Íslands ehf. með fylgigögnum. Tekið er fram að ársreikningar séu opinber gögn sem trúnaður geti ekki gilt um.

  • Afmáður hafi verið texti frá Lagardère travel retail ehf. í tölvubréfi dags. 15. september 2014. Krafist sé afhendingar gagnsins án útstrikunar.

  • Lagardère travel retail ehf. hafi sent nýtt tilboð í viðhengi með tölvupósti, dags. 15. september 2015. Stærstur hluti tilboðsins hafi verið afmáður, þ.m.t. allar fjárhagslegar og tölulegar upplýsingar.

  • Gögn málsins bendi til þess að fulltrúi Lagardère travel retail ehf. hafi verið í samskiptum við þrjá tilgreinda valnefndarmenn. Afhent hafi verið samskipti Lagardère travel retail ehf. við tvo þeirra en ekki við valnefndarmanninn Frank Grey. Krafist er afhendingar á öllum samskiptum þess nefndarmanns við Lagardère travel retail ehf.  vegna samkeppninnar, allt frá því sex mánuðum fyrir upphaf forvals þann 19. október 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland, dags 2. og 4. mars 2015, þ.m.t. tölvubréfum og fundargerðum.

  • Krafist er aðgangs að þeim upplýsingum sem afmáðar hafi verið í samningsdrögum Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf.

Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 5. tölulið gagnabeiðni eru eftirfarandi:

  • Krafist er afhendingar á sameiginlegri viljayfirlýsingu Isavia og Lagardère travel retail ehf., „Agreement of Intent“, dags. 9. september 2014, án útstrikunar.

  • Krafist er afhendingar á undirrituðum samningi Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 4. mars 2015, án útstrikunar. Þá sé krafist afhendingar á viðauka 2, 4 og 5 án útstrikunar.

  • Krafist er afhendingar viljayfirlýsingar Isavia ohf. og Joe Íslands ehf., dags 15. september 2014, án útstrikunar.

  • Krafist er afhendingar á undirrituðum samningi Isavia ohf. og Joe Íslands ohf., dags. 2. mars 2015, og viðauka við samninginn án útstrikunar.

Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 6. tölulið. gagnabeiðni eru þær að krafist sé aðgangs að þeim upplýsingum sem afmáðar voru í stjórnarfundargerðum sem afhentar voru kæranda.

Athugasemdir kæranda við synjun kærða á beiðni um upplýsingar er heyra undir 5. tölulið. gagnabeiðni eru eftirfarandi:

  • Krafist er aðgangs að fundargerð fundar milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 29. ágúst 2014 án útstrikunar.

  • Kærandi telur ótrúverðugt að aðeins ein fundargerð sé til af fundum Isavia ohf. með þátttakendum á tímabilinu og er varði samkeppnina. Í gögnum málsins sé t.d. víða vísað til funda með þátttakendum.

Kærandi telur ljóst að Isavia ohf. hafi ekki afhent öll þau gögn sem tengjast samkeppninni og sem heyri undir gagnabeiðni kæranda. Því er óskað sjálfstæðrar rannsóknar úrskurðarnefndar um upplýsingamál á því hvaða gögn sem falli undir beiðni kæranda hafi ekki verið afhent og að Isavia ohf. verði gert að afhenda öll þau gögn sem falla undir beiðnina.

Málsmeðferð

1.

Með bréfi, dags. 1. mars 2017, var kæran kynnt Isavia ohf. og fyrirtækinu veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir hinni kærðu ákvörðun. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefndinni yrði innan sama frests látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæra lyti að.

Með bréfi, dags. 2. mars 2017, óskaði lögmaður Isavia ohf. eftir því að fá ljósrit af fylgigögnum með kæru. Í bréfinu kemur fram að kærði telji sig hafa orðið við afhendingu allra umbeðinna gagna þann 17. janúar 2017. Auk þess sé kröfugerð kæranda mjög óskýr og telji kærði hana ekki fullnægja almennum reglum stjórnsýsluréttar um skýrleika kröfugerðar. Væri þeim tilmælum beint til úrskurðarnefndar um upplýsingamál að vísa kærunni frá eða skora á kæranda að senda nefndinni skýrari kröfugerð. Eins og kröfugerð kæranda væri háttað væri kærða vandi á höndum að svara kærunni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál sendi kæranda tölvubréf þann 3. mars 2017 og óskaði eftir afstöðu hans til þess sem þar kæmi fram. Kærandi sendi úrskurðarnefnd um upplýsingamál umsögn, dags. 8. mars 2017. Þar er því mótmælt að gagnabeiðnin sé ekki nógu skýr. Tekið er fram að Isavia ohf. hafi ekki tilgreint þau skjöl sem haldið var eftir og því væri nauðsynlegt að krefjast allra gagna sem málinu tengdust.

Umsögn Isavia ohf. er dagsett 6. apríl 2017. Þar kemur fram að þeim gögnum sem afhent hafi verið megi gróflega skipta í þrjá flokka. Í fyrsta lagi séu tölvupóstsamskipti starfsmanna kærða í tengslum við samkeppnina, í öðru lagi séu gögn sem tengist samningsviðræðum kærða við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í veitingahluta samkeppninnar og í þriðja lagi sé um að ræða endanlega samninga við sömu aðila og fylgiskjöl. Hvað varði fyrsta flokkinn hafi gögn verið afhent að mestu án útstrikana. Nokkrar undantekningar hafi þó verið á þessu, einkum hvað varði viðkvæmar fjárhagsupplýsingar, s.s. upplýsingar um veltu, fjárfestingar og boð í veltutengt gjald. Hvað varði gögn í flokki tvö hafi nokkuð verið strikað út í þeim enda um að ræða viðræður um einkaréttarlega samninga þar sem tillögur að orðalagi hafi gengið á milli aðila. Þessi gögn væru vinnugögn og undanþegin upplýsingarétti. Þrátt fyrir að það væri mat kærða að stór hluti umbeðinna og afhentra gagna væru vinnugögn hafi félagið nýtt heimild 11. gr. upplýsingalaga og veitt aukinn aðgang að gögnunum.

Isavia ohf. ítrekar að félagið hafi afhent kæranda öll þau gögn sem óskað hafi verið eftir en strikað hafi verið yfir þann hluta gagnanna sem óheimilt sé að afhenda lögum samkvæmt. Öll skjöl hafi hins vegar verið afhent. Fram kemur að samningaviðræður hafi að hluta farið þannig fram að drög að samningi og fylgiskjölum hafi verið send á milli aðila með tillögum að breytingum sem sumar hafi verið samþykktar en aðrar ekki. Isavia ohf. telji þessi gögn vera vinnuskjöl í skilningi upplýsingalaga nr. 140/2012 enda um að ræða tillögur og vangaveltur um endanlegan texta í einkaréttarlegum samningi aðila. Strikað hafi verið yfir þessar tillögur og vangaveltur að hluta. Mikilvægt sé að árétta að um sé að ræða samningaviðræður sem hafi farið fram eftir að samkeppninni var lokið. Kærandi hafi ekki verið aðili að samningaviðræðunum og geti því ekki byggt rétt sinn á 14. gr. laganna um aðgang að gögnunum. Tekið er fram að endanlegir samningar og fylgiskjöl hafi verið afhentir kæranda og að einungis hafi verið strikað yfir viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar sem varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækjanna, svo sem sölu-, markaðs- og fjárfestingaáætlanir.

Isavia ohf. tekur fram, hvað varðar kröfu um aðgang að fundargerðum stjórnar Isavia ohf., að félagið hafi komið því á framfæri við lögmann kæranda þann 19. desember 2016, að beiðnin væri of almenn og hafi verið óskað eftir því að hún yrði afmörkuð frekar. Þann 20. desember hafi lögmaður kæranda afmarkað beiðnina á þann hátt að beiðst væri allra hluta fundargerða, „hverju nafni sem þeir nefnast og hvort sem þeir viðkvæmar fjárhags-, viðskipta- og samkeppnisupplýsingar þar sem það ætti við, varða samkeppnina beint eða óbeint (tilhögun samkeppni, forval, efnisval, frestir, bréfaskipti við bjóðendur, tilboð, einkunnagjöf, samningar í kjölfar samkeppni o.s.frv.“ Isavia ohf. kveðst hafa afhent umbeðin gögn samkvæmt þessari afmörkun. Óskað hafi verið eftir afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar gagnanna þar sem þau innihaldi viðkvæmar viðskiptaupplýsingar um þau fyrirtæki. Bæði fyrirtækin hafi fallist á afhendingu að því gefnu að strikað yrði yfir þær.

Isavia ohf. bendir á að þar sem ekki sé um að ræða gögn sem varði kæranda, tilboð hans eða samskipti við hann, þá eigi 14. gr. upplýsingalaga ekki við í málinu heldur 5. gr. laganna. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 580/2015 þar sem þátttakandi í tæknilegum hluta samkeppni hafi átt rétt til tillögum annars þátttakanda er lutu að þeim hluta á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga en rétt til aðgangs að tillögum í fjárhagslegum hluta samkeppninnar á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga þar sem hann hafi ekki verið þátttakandi í þeim hluta.

Isavia ohf. telur þau gögn sem varði samningaviðræður fyrirtækisins við rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vera vinnugögn. Fyrst og fremst sé um að ræða drög að samningum sem hafi gengið á milli aðila til athugasemda. Endanlegir samningar hafi hins vegar verið afhentir með viðeigandi yfirstrikunum, sbr. 9. gr. upplýsingalaga, sbr. 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Aðeins hafi verið strikað yfir viðkvæmustu upplýsingarnar.

Fram kemur í umsögninni að Isavia ohf. hafi þann 13. mars 2017 afhent kæranda fimm svarbréf Isavia ohf. til allra þátttakenda í samkeppninni sem öll væru dagsett 21. ágúst. Úrskurðarnefnd hafi verið sent afrit bréfanna.

Kærði gerir athugasemdir við einstaka liði í kærunni. Hvað varði fullyrðingu kæranda um að gögn málsins bendi til þess að Isavia hafi gefið a.m.k. tveimur þátttakendum kost á að aðlaga fyrri tilboð þá segir kærði það ekki vera rétt heldur hafi Isavia beðið Lagardère travel retail ehf.og SSP um að aðskilja tilboð um rekstur verslana og veitinga í tilboðum sínum svo hægt væri að meta tilboð þeirra í samræmi við önnur tilboð í samkeppninni, fyrir verslanir annars vegar og veitingastaði hins vegar.

Hvað varði fundargerðir stjórnar Isavia ohf. þá hafi fyrir þann 29. september 2014 verið haldnir samningafundir við þá sem valdir voru til samningaviðræðna. Fundargerðir hafi ekki verið ritaðar á þessum fundum en afrakstur þeirra hafi verið viljayfirlýsingarnar dags. 9. og 14. september.

Hvað varði 1. tölulið gagnabeiðni kæranda segist kærði aldrei hafa svarað tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. þar sem óskað var eftir fundi. Allir umbeðnir tölvupóstar hafi verið afhentir.

Hvað varði tölvubréf Lagardère travel retail ehf. dags. 26. mars 2014, sbr. 2. tölulið gagnabeiðni, hafi bréfinu aldrei verið svarað með beinum hætti. Um sé að ræða spurningar frá Lagardère travel retail ehf. sem tekið hafi verið við í fyrirspurnarferli fyrri hluta forvalsins en allir þátttakendur hafi  átt þess kost  að senda inn fyrirspurnir til kærða. Spurningum og svörum hafi verið safnað saman í eitt skjal sem sent var til allra þátttakenda í ferlinu þann 31. mars 2014, þ. á m. til kæranda.

Varðandi 3. tölulið gagnabeiðninnar kveðst Isavia ohf. þegar hafa sent kæranda þau bréf sem send voru til hans og annarra þátttakenda þann 22. apríl 2014. Hvað varði fyrirspurnir Lagardère travel retail ehf. sem fram komi í tölvubréfum frá maí 2014 og svör við þeim, eigi það sama við og fram hafi komið varðandi fyrri hluta forvalsferlisins. Í seinni hluta ferlisins hafi þátttakendum verið gefinn kostur á að senda inn fyrirspurnir. Öllum fyrirspurnum ásamt svörum við þeim hafi verið safnað saman í eitt skjal sem sent hafi verið til þátttakanda þann 30. maí. Kærandi hafi þegar fengið skjalið afhent.

Varðandi gögn er tengist framlengingu á skilafresti rekur Isavia ohf. að fyrirtækið hafi fengið nokkrar munnlegar beiðnir frá þátttakendum um framlengingu á skilafresti. Þar sem svigrúm hafi myndast í tímaáætlun verkefnisins um eina viku hafi verið tekin ákvörðun um að leyfa umsækjendum að njóta þess. Lagardère travel retail ehf. hafi skilað sínum gögnum innan upphaflega frestsins. Engin frekari samskipti hafi átt sér stað milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. um frestun skiladags eftir 14. maí 2014. Lagardère travel retail ehf. hafi ekki lagt fram aðra beiðni um frestun.

Hvað varði tölvubréf Joe Ísland ehf., dags. 7. maí 2014 og IGS, dags. 14. maí 2014, hafi Isavia ohf. talið rétt að afmá annars vegar nafn félags sem hafi ekki tekið þátt í samkeppninni og hins vegar ráðgjafarfyrirtækis sem IGS hafði ráðið.

Hvað varðar 4. tölulið í gagnabeiðni kæranda segist Isavia ohf. hafa, þann 13. mars 2017, sent kæranda bréf Isavia ohf. til hluta þátttakenda frá 21. ágúst 2014. Kærði hafi ekki svarað tölvubréfi Joe Ísland ehf. frá 16. september. Þann 15. september hafi samningaviðræður verið í gangi og þær hafi ekkert með mat á umsóknum að gera. Matsferli hafi lokið með bréfum sem send hafi verið út 21. ágúst 2014. Hvað varði aðgang að viðhengi sem fylgdi tölvubréfinu hafi verið afmáðar tölur sem sendar hafi verið í miðjum samningaviðræðum en Isavia ohf. hafi verið að reyna að semja um enn hagstæðari niðurstöðu fyrir félagið. Isavia ohf. segir sömu sjónarmið eiga við um beiðni um aðgang að ýmsum fjárhagslegum þáttum tilboðs Joe Íslands.

Hvað varði aðra þætti beiðni kæranda undir 4. tölulið telur Isavia ohf. öll umbeðin skjöl vera vinnuskjöl í skilningi 8. gr. upplýsingalaga auk þess sem afmáð hafi verið úr þeim fjárhagsupplýsingar sem sanngjarnt sé að leynt fari í skilningi 9. gr. upplýsingalaga auk þess sem upplýsingarnar séu viðkvæmar viðskiptaupplýsingar í skilningi samkeppnisréttar sbr. 10. gr. samkeppnislaga. Um sé að ræða tölvubréf sem hafi gengið á milli Isavia ohf. og einkaaðila eftir að samkeppni lauk og eftir að tilkynnt hafi verið um töku tilboðs. M.ö.o. hafi endanleg niðurstaða verið komin í ferlinu og því aðeins um að ræða samskipti í aðdraganda samningsgerðarinnar. Í tölvubréfunum komi ekki fram endanleg ákvörðun um við hverja skyldi samið enda hafi hún þegar legið fyrir, þ.e. með töku tilboða. Telja verði að tölvubréfin uppfylli skilyrði um að teljast vinnugögn enda um að ræða tölvubréf til að leiða samkeppnisferli sem þá hafði í raun breyst í samningsferli til endanlegra lykta, með samningi við þá bjóðendur sem valdir voru til samningsgerðar.

Isavia ohf. segir orðalag 1. mgr. 8. gr. um að gögn teljist ekki lengur til vinnugagna hafi þau verið afhent öðrum, fari ekki saman við það sem komi fram í athugasemdum með 8. gr. frumvarpsins. Undantekningar séu gerðar varðandi það skilyrði. Sérstakt verði að telja að eðli vinnuskjals breytist við það eitt að vera afhent þriðja aðila, algerlega óháð efni þess, en slík túlkun hafi ekki stoð í athugasemdunum með frumvarpinu. Nauðsynlegt sé að skoða nánar hverjar undantekningarnar séu. Í sérstökum athugasemdum með 8. gr. frumvarps til upplýsingalaga komi fram að eðlilegt sé að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að gögnum sem verði til í ferli þegar samningar séu gerðir við einkaaðila, enda þurfi þá að vega og meta ýmis sjónarmið og gögn í slíku ferli sem endurspegli ekki endilega að hvaða niðurstöðu sé stefnt. Af þessari umfjöllun virðist helst koma til álita að Isavia ohf. sé heimilt að synja um aðgang að gögnum sem verði til eftir að samkeppnisferli lýkur og fram að þeim tíma er samningur liggur fyrir, enda um að ræða endanlega samningsgerð við einkaaðila. Þessi lögskýring samrýmist einnig vel ákvæðum dönsku upplýsingalaganna sem hafi verið höfð að fyrirmynd við samningu íslensku laganna, en í athugasemdum með frumvarpi að lögum nr. 140/2012 komi fram að samkvæmt dönsku upplýsingalögunum sé ekki talað um vinnuskjöl heldur „innri vinnugögn“ og að reglurnar um þau séu sambærilegar við reglurnar í íslensku upplýsingalögunum. Í dönsku upplýsingalögunum sé notast við hugtakið „interne documenter“ um vinnuskjöl. Meginreglan samkvæmt dönsku lögunum sé að gögn missi „interne karakter“ við að vera afhent utanaðkomandi aðilum. Í 2. mgr. 23. laganna sé þó undantekningarákvæði sem nái til þess þegar afhendingin sé af lögfræðilegum toga (retlige grunde), vegna vísindarannsókna eða af öðrum sambærilegum ástæðum. Það sé því ekki svo í öllum tilvikum að gögn sem afhent eru utanaðkomandi aðilum hætti að teljast „innri gögn“ heldur hljóti að þurfa að meta hvert tilvik fyrir sig.

Isavia ohf. fjallar sérstaklega um tölvubréf, dags. 7. október 2014, þar sem Lagardère travel retail ehf. þakkar tveimur íslenskum valnefndarmönnum sérstaklega fyrir traustið. Því sé alfarið vísað á bug að valnefndarmennirnir hafi verið í umfangsmiklum samskiptum við Lagardère travel retail ehf.. Á þessum tíma hafi verið búið að tilkynna niðurstöðu samkeppninnar og samningaviðræður hafnar við Lagardère travel retail ehf. Kærði tekur fram að hann hafi ekki undir höndum nein samskipti milli valnefndarmannsins Frank Gray og Lagardère travel retail ehf. enda hafi engin slík samskipti átt sér stað. Umræddur Frank Gray hafi komið að málinu sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi.

Isavia ohf. segir óheimilt að afhenda fjárhagsupplýsingar sem óskað var eftir í 4. og 5. tölulið. gagnabeiðni kæranda með vísan til fyrri röksemda.

Hvað varðar 6. tölulið gagnabeiðninnar kveðst Isavia ohf. hafa afhent kæranda allar stjórnarfundargerðir þar sem fjallað hafi verið um samkeppnina. Ekkert hafi verið fjallað um þetta mál í fundargerðum stjórnar Isavia ohf. frá nóvember 2014 til mars 2015. Sérstakur fundur sem vísað hafi verið til í fundargerð stjórnarfundar þann 4. september 2014 hafi ekki verið haldinn. Hvað varði afmáðar upplýsingar úr tilteknum stjórnarfundargerðum þá lúti þær að fyrirtæki sem sé í skuld við kærða og því um að ræða upplýsingar sem séu algerlega óviðkomandi samkeppni. Upplýsingarnar séu viðkvæmar fjárhagsupplýsingar viðkomandi fyrirtækis.

Um gagnabeiðni kæranda samkvæmt 7. tölulið segir kærði engar aðrar fundargerðir vera fyrirliggjandi. Á samningafundum með aðilum hafi „Agreement of Intent“ verið jafngildi fundargerðar en niðurstaða fundarins hafi verið tekin saman með þeim hætti. Hvað varði afmáðar upplýsingar þá vísi kærði til fyrri röksemda varðandi vinnuskjöl og fjárhagsupplýsingar. Kærði ítrekar að ekkert hafi verið fjallað um samkeppnina í stjórn á þessu tímabili. Varðandi samskipti Isavia ohf. við þátttakendur á tímabilinu 5.-13. mars 2014 hafi  enginn fundur verið haldinn með þátttakendum í forvalsferlinu. Kærði hafi ekki haldið fund með Lagardère travel retail ehf. heldur hafi fulltrúi Lagardère travel retail ehf. mætt í höfuðstöðvar kærða til að afhenda umsókn félagsins. Hvað varði aðra tölvupósta sem kærandi telji upp þá segir kærði að á þessu tímamarki hafi verið búið að tilkynna niðurstöður forvalsferlisins og samningafundir hafnir. Það sé því alls ekki óeðlilegt að samskipti við þá aðila hafi aukist á þeim tímapunkti.

Isavia ohf. kveðst hafa reynt að fylgja þeim sjónarmiðum sem fram komi í erindi Samkeppniseftirlitsins til Kaffitárs, dags. 8. júlí 2016. Þar sé fjallað um þær skorður sem 10. gr. samkeppnislaga setji miðlun mikilvægra viðskiptaupplýsinga. Þar komi fram að almennt séu upplýsingar varðandi verð og magn viðkvæmustu viðskiptaupplýsingarnar en að viðkvæmar upplýsingar geti einnig verið upplýsingar um viðskiptamannaskrár, framleiðslukostnað, framleiðslutölur, veltu, sölutölur, afkastagetu, vöruvöndun, markaðsáætlanir, áhættuliði, fjárfestingar, tækniaðferðir svo og rannsókna- og þróunarstarf og afrakstur þess. Isavia ohf. telur það geta vandað meðferð úrskurðarnefndar um upplýsingamál á málinu ef nefndin leiti álits Samkeppniseftirlitsins á því hvort einstök gögn sem málið fjalli um séu þess eðlis að samkeppnislög nr. 44/2005 setji afhendingu þeirra skorður. Sé af þeirri ástæðu skorað á úrskurðarnefndina að afla slíks álits hjá Samkeppniseftirlitinu. Rík ástæða sé til þess í ljósi ummæla nefndarinnar um að hún hafi ekki forsendur til þess að meta þessi sjónarmið eins og ítrekað hafi komið fram í úrskurði nefndarinnar nr. 579/2016.

2.

Umsögn Isavia ohf. var kynnt kæranda með bréfi, dags. 11. apríl, og honum veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Í athugasemdum kæranda, dags. 23. maí 2017, ítrekar kærandi að hann eigi rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Því eigi ákvæði 9. gr. upplýsingalaga ekki við í málinu og ætti aðeins að koma til skoðunar hvort gögnin séu vinnugögn og þar með undanþegin upplýsingarétti á grundvelli 5. töluliðar 6. gr. laganna.

Kærandi mótmælir því að kærða sé óheimilt að veita aðgang að þeim upplýsingum sem afmáðar voru. Í úrskurðum úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015 og 586/2015 hafi málsástæðum um að afhending fjárhagsupplýsinga úr tilboðum bjóðenda bryti gegn lögum, þ.m.t. samkeppnislögum nr. 44/2005, verið hafnað. Héraðsdómur Reykjavíkur hafi einnig hafnað málsástæðunni með þeirri athugasemd að hún væri „langsótt“. Áréttað er að valnefnd kærða hafi gefið bjóðendum einkunnir í fjárhagslegum þætti samkeppninnar fyrir fjóra aðskilda þætti. Af því leiði að upplýsingagjöf um fjárhagslega þætti samninganna, þ.m.t. þá þætti sem taki til framtíðaráætlana á leigutímanum eða breytingar á tilboðum í endanlegum samningum, sé bein forsenda þess að hægt sé að leggja mat á lögmæti einkunnagjafarinnar og samkeppninnar í heild sinni. Þá bendir kærandi á að hagsmunir opinberra fyrirtækja af því að halda leynd yfir ráðstöfun opinberra hagsmuna eða fjármuna víki að meginreglu fyrir hagsmunum almennings skv. 9. gr. upplýsingalaga. Þeir hagsmunir víki því einnig fyrir upplýsingarétti aðila skv. 14. gr. laganna. Auk þess hafi aðili að upplýsingamáli ekki lögvarða hagsmuni af því að halda leyndum upplýsingum um ákvarðanir sem kunni að vera ámælisverðar eða ólögmætar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 676/2017.

Kærandi mótmælir því að 14. gr. upplýsingalaga gildi ekki um rétt hans til upplýsinga eftir að búið sé að samþykkja tilboð annarra þátttakenda í samkeppninni. Í fyrsta lagi hafi samkeppninni ekki lokið fyrr en í mars 2015 þegar endanlegir samningar voru undirritaðir við Joe Ísland ehf. og Lagardère travel retail ehf. Ljóst sé af kafla 7.3. í skilmálum að samningalotan var hluti samkeppninnar. Í öðru lagi hafi komið fram í bréfi kærða til kæranda þann 21. ágúst 2014 að leitað yrði til hans ef samningar næðust ekki við sigurvegara samkeppninnar. Í þriðja lagi hafi komið fram í fyrrnefndum úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur að tryggja beri fullkomið gagnsæi um ákvarðanatöku í kjölfar samkeppninnar skv. 14. gr. upplýsingalaga. Þá undirstrikar kærandi að jafnvel þótt 14. gr. upplýsingalaga eigi ekki við þá beri að afhenda samninga sem gerðir voru í kjölfar samkeppninnar með trúnaðarupplýsingum ásamt viðaukum. Vísað er til úrskurðar úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. A-233/2006 þar sem fram komi að almenningur eigi rétt á afhendingu samninga í kjölfar útboðs.

Kærandi mótmælir því að fjárhagslegir þættir tilboða séu viðkvæmar viðskipta- og samkeppnisupplýsingar fyrirtækja. Álit Samkeppniseftirlitsins, dags. 8. júlí 2016, hafi enga þýðingu hvað varði mat á þessu.

Ítrekað er að kærandi hafi sjálfstæða hagsmuni af því, sem þátttakandi í samkeppninni, að geta kannað hversu langt hafi verið gengið í því að veita Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. réttindi sem ekki hafi verið kveðið á um í skilmálum samkeppninnar og hafi ekki komið fram í tilboðum þeirra. Því sé kæranda nauðsynlegt að trúnaði sé aflétt af samningum kærða í heild sinni. Áréttað er að það sé sjálfstæð röksemd fyrir afléttingu trúnaðar af öllum fjárhagsupplýsingum að hægt sé að kynna sér hvernig opinberum gæðum sé úthlutað í samkeppnum af þessu tagi og hvernig farið sé með almannafé. Þannig geti það t.d. mögulega haft sjálfstæða þýðingu hvort samningaviðræður hafi raunverulega farið fram til hækkunar eða lækkunar þeirra tilboða sem skilað var eða hvort kærði hafi náð hagstæðum samningum eða ekki. Þá sé einnig mikilvægt að þátttakendur í samkeppnum hafi möguleika á að ganga úr skugga um að útboðsferli hafi verið eðlilegt.

Kærandi mótmælir því að úrskurður úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 580/2015 sé fordæmi fyrir því að hann eigi ekki rétt til aðgangs að gögnunum á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga. Þá mótmælir kærandi því að tvíhliða skrifleg samskipti kærða við tvo sigurvegara samkeppninnar teljist „vinnuskjöl“ enda sé það í andstöðu við skýrt orðalag 8. gr. upplýsingalaga. Gögnin hafi ekki verið einungis til „eigin nota“ kærða heldur hafi þau verið afhent öðrum. Slík gögn teljist ekki vinnugögn en hugtakið sé túlkað þröngt sbr. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 579/2015.

Kærandi telur þær fullyrðingar kærða að tiltekin gögn séu ekki fyrirliggjandi, vera ótrúverðugar, a.m.k. á köflum. Því er þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál óski a.m.k. formlegrar staðfestingar kærða á því að hann hafi leitað þeirra gagna sem hann er krafinn um. Kærandi telur nauðsynlegt að kærði staðfesti formlega að leitað hafi verið að samskiptum við einstaka bjóðendur í samkeppninni í tölvupósthólfi Frank Gray og/eða að Frank Gray sjálfur lýsi þessu yfir með formlegum hætti.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur um málsatvik, málsástæður aðila og lagarök í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

1.

Eins og að framan greinir var í beiðni kæranda frá 5. desember 2016 óskað eftir því að Isavia ohf. afhenti eftirfarandi gögn:

  1. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014.

  2. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014.

  3. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014.

  4. Öll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við sömu aðila, frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar.

    1. Beiðnin tekur til allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili.

    2. Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til Lagardère Services, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 1.

    3. Sérstaklega er óskað eftir afriti af bréfi ISAVIA ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað er til í bréfi á fskj. 2.

  5. Samninga ISAVIA ohf. við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga.

  6. Allar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar.

  7. Allar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna.

Eftir samskipti við lögmann Isavia ohf. afmarkaði kærandi beiðni sína frekar að því er varðar 4. tölulið. Mun kærandi hafa fallist á að Isavia ohf. væri heimilt að halda eftir gögnum sem vörðuðu samkeppnina hvorki beint né óbeint.

Hin kærða ákvörðun var síðan tekin með bréfi lögmanns Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017. Þar kemur fram að Isavia ohf. hafi tekið saman og farið yfir hin umbeðnu gögn og leitað afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar þeirra. Isavia ohf. telur að réttur kæranda til aðgangs að gögnunum sé reistur á 5. gr. upplýsingalaga, enda sé ekki um að ræða gögn sem varði gagnabeiðanda, tilboð hans eða samskipti við hann. Þá séu gögn sem varði samningaviðræður Isavia ohf. við rekstraraðila í Flugstöð Leifs Eiríkssonar vinnugögn sem séu undanþegin upplýsingarétti, en almenningur eða aðilar geti eftir atvikum átt rétt á aðgangi að endanlegum samningum við slíka rekstraraðila. Þrátt fyrir þetta hafi Isavia ohf. ákveðið að veita kæranda aukinn aðgang að hinum umbeðnu gögnum á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga að því marki sem aðrar reglur standi því ekki í vegi.

Isavia ohf. hafi farið yfir hin umbeðnu gögn og strikað yfir þær upplýsingar sem óheimilt sé að veita aðgang að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Af hálfu Isavia ohf. er vísað til þess að komist hafi verið að þessari niðurstöðu með hliðsjón af áliti Samkeppniseftirlitsins sem fram komi í bréfi stofnunarinnar til kæranda, dags. 8. júlí 2016, þar sem fjallað sé almennt um 10. gr. samkeppnislaga og skorður á miðlun mikilvægra viðskiptaupplýsinga sem geti raskað samkeppni. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að fyrirtækið hafi leitað afstöðu Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. til afhendingar gagnanna. Bæði fyrirtækin hafi verið sátt við afhendingu gagnanna að því gefnu að strikað yrði yfir viðkvæmar fjárhags-, viðskipta- og samkeppnisupplýsingar þar sem það eigi við.

2.

Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 2. mars 2017, er þeim tilmælum beint til nefndarinnar að vísa kærunni frá eða skora á kæranda að senda nefndinni skýrari kröfugerð. Telur Isavia ohf. að fyrirtækið hafi orðið við gagnabeiðni kæranda og að það veki furðu að ákvörðun Isavia ohf. hafi verið kærð án þess að kærandi hafi fyrst beint erindi til Isavia ohf. með ósk um afhendingu þess sem ekki hafi verið afhent. Þá sé kröfugerð kæranda mjög óskýr og telji Isavia ohf. að hún fullnægi ekki „almennum reglum stjórnsýsluréttar um skýrleika kröfugerðar“.

Þegar hin kærða ákvörðun um synjun lá fyrir stóð kæranda til boða að kæra ákvörðunina til úrskurðarnefndarinnar á grundvelli 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga eða að óska endurupptöku Isavia ohf. með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Er heimild til kæru samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu ekki háð því að fyrst hafi verið leitað endurupptöku samkvæmt því síðarnefnda. Í ljósi þessa verða ekki gerðar athugasemdir við að kærandi hafi kært ákvörðun Isavia ohf. um synjun um aðgang að gögnum til úrskurðarnefndarinnar.  

Af kæru er ljóst að kærandi gerir tvenns konar athugasemdir við afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Annars vegar telur kærandi að Isavia ohf. hafi verið óheimilt að synja honum um aðgang að þeim hlutum hinna umbeðnu gagna sem Isavia ohf. ákvað að strika yfir. Hins vegar að Isavia ohf. hafi í vörslum sínum gögn sem falli undir beiðni kæranda en fyrirtækið hafi hvorki kosið að afhenda kæranda né synja honum formlega um aðgang að. Er unnt að fjalla um kæruna í þeim búningi sem hún er og ekki tilefni til að úrskurðarnefndin leiðbeini kæranda um nákvæmari framsetningu kærunnar. Enn síður leiðir framsetning kærunnar til frávísunar hennar og er kröfu Isavia ohf. þar að lútandi því hafnað.

Á hinn bóginn athugast að samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er aðeins heimilt að bera synjun um aðgang að gögnum sem eru fyrirliggjandi hjá Isavia ohf. undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Að því marki sem í ljós er leitt að beiðni kæranda um gögn beinist að gögnum sem ekki eru fyrirliggjandi verður kæru vísað frá.    

3.

Úrskurðarnefndinni hefur hvoru tveggja verið látin í té þau gögn sem Isavia ohf. afhenti kæranda, þar sem kæranda var synjað um aðgang að hluta umbeðinna gagna með því að strika yfir upplýsingar sem þar koma fram, og sömu gögn án útstrikana.

Isavia ohf. útbjó sérstök hefti með hinum umbeðnu gögnum sem eru blaðsíðumerkt og hafa hvoru tveggja kærandi og Isavia ohf. vísað til þessara blaðsíðutala í málatilbúnaði sínum. Verður hér á sama hátt vísað til tiltekinna blaðsíðna eftir því sem tilefni er til og til umræddra hefta sem málsgagna.

4.

Svo sem að framan greinir telur Isavia ohf. að réttur kæranda til afhendingar gagnanna verði ekki reistur á 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, er lýtur að rétti aðila að upplýsingum um hann sjálfan, heldur 5. gr. sömu laga um rétt almennings. Beiðni kæranda er reist á fyrrnefnda ákvæðinu.   

Sambærilegur ágreiningur var uppi milli kæranda og Isavia ohf. í máli því er nefndin fjallaði um í úrskurði nr. 579/2015. Eins og þar er rakið er samkvæmt 1. mgr. 14. gr. skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að fyrirliggjandi gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan. Ákvæðið hefur verið skýrt svo að undir það falli ekki eingöngu þau tilvik þegar einstaklingur eða lögaðili óskar eftir upplýsingum sem beinlínis fjalla um hann sjálfan, heldur taki hún einnig til þeirra tilvika þegar upplýsingarnar varða viðkomandi með þeim hætti að hann hafi sérstaka hagsmuni umfram aðra af því að fá aðgang að gögnunum. Er þessi skýring meðal annars reist á ummælum í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga þar sem fram kemur að með orðalaginu að gagn skuli geyma „upplýsingar um hann sjálfan“ sé vísað til þess að upplýsingar þurfi að varða viðkomandi aðila sérstaklega og verulega umfram aðra. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur litið svo á að þátttakandi í útboði teljist „aðili máls“ í skilningi þessa ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ. á m. gögnum frá öðrum þátttakendum í útboði, sem verða til áður en til samninga er gengið við tiltekinn bjóðanda. Vísast um þetta meðal annars til úrskurða nefndarinnar í málum nr. A-307/2009, A-377/2011, A-407/2012, A-409/2012, A-472/2013, 532/2014, 541/2014 og 570/2015. Eins og rakið er í úrskurði nefndarinnar nr. 579/2015 fer um upplýsingarétt bjóðanda samkvæmt 5. gr. eftir það tímamark. Í úrskurðinum komst nefndin að þeirri niðurstöðu að sömu sjónarmið ættu við um samkeppni þá er mál þetta lýtur að.

Fyrir liggur að þann 21. ágúst 2014 var kæranda tilkynnt að niðurstaða samkeppni um útleigu á leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar væri sú að hann væri ekki fyrsti valkostur Isavia ohf. og að aðeins yrði gengið til viðræðna við kæranda ef viðræður við þriðja aðila færu út um þúfur. Þann 1. október 2014 var kæranda tilkynnt að ekki hefði verið gengið að tillögu hans í samkeppninni heldur væri samningaviðræðum lokið við annað fyrirtæki. Af gögnum málsins verður ráðið að með bréfi, dags. 21. ágúst 2014, hafi kæranda verið tilkynnt um niðurstöðu samkeppninnar. Í samræmi við fyrri úrskurði nefndarinnar verður því að miða við að kærandi eigi rétt til aðgangs að gögnum er varða samkeppnina samkvæmt 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga og urðu til fyrir það tímamark. Á hinn bóginn eigi kærandi rétt til aðgangs að gögnum er urðu til eftir það tímamark samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laganna.  

5.

Ágreiningur kæranda og Isavia ohf. um hina kærðu ákvörðun er margþættur. Kærandi telur hvoru tveggja að Isavia ohf. hafi haldið eftir gögnum sem falli undir beiðni sína og gerir athugasemdir við að upplýsingar í hinum afhentu gögnum hafi í fjölda tilvika verið afmáðar. Að því er hið síðarnefnda varðar hefur Isavia ohf. vísað í hinni kærðu ákvörðun með almennum hætti til þess að hin umbeðnu gögn séu vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga og að veittur hafi verið aukinn aðgangur að þeim á grundvelli 11. gr. upplýsingalaga. Þær upplýsingar sem hafi verið afmáðar falli á hinn bóginn undir 9. gr. laganna. Verður síðan ekki annað ráðið af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, en að fyrirtækið byggi synjanir sínar um aðgang að umræddum upplýsingum jöfnum höndum á 5. tölulið 6. gr. sbr. 8. gr. og einnig 9. gr. upplýsingalaga.

Þar sem afgreiðsla kærunnar varðar fjölmörg tilvik þar sem reynir á tiltölulega sambærileg álitaefni telur úrskurðarnefndin rétt að gera grein fyrir nokkrum almennum sjónarmiðum sem hún leggur til grundvallar niðurstöðu sinni í málinu.

Í fyrsta lagi hefur kærandi í mörgum tilvikum fært fyrir því rök að Isavia ohf. búi yfir gögnum sem falli undir gagnabeiðni kæranda en Isavia ohf. hafi kosið að afhenda ekki. Neitar Isavia ohf. því ítrekað gagnvart úrskurðarnefndinni í bréfi sínu til nefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, að slík gögn sé að finna í gagnasafni fyrirtækisins. Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga er hlutverk úrskurðarnefndar um upplýsingamál afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi og er réttur samkvæmt hvoru tveggja 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. afmarkaður við gögn sem eru fyrirliggjandi hjá þeim aðilum sem falla undir gildissvið laganna. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds að ræða í skilningi upplýsingalaga. Af þessum sökum er kærum er beinast að slíkum afgreiðslum almennt vísað frá úrskurðarnefndinni. Á hið sama við þegar fyrir liggur, á þeim tímapunkti er nefndin fellir úrskurð sinn, að kærandi hefur fengið aðgang að umbeðnu gagni sem kæra lýtur að.

Í öðru lagi virðist það vera afstaða Isavia ohf. að hin umbeðnu gögn séu að mestu leyti vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. og 8. gr. upplýsingalaga. Er þetta afstaða fyrirtækisins þrátt fyrir að stærstur hluti gagnanna hafi sýnilega verið afhentur öðrum hvorum viðsemjenda þess, Lagardère travel retail ehf. eða Joe Ísland ehf., enda í flestum tilvikum um að ræða samskipti Isavia ohf. við þá.

Hefur Isavia ohf. í þessu samhengi bent úrskurðarnefndinni á að um sé að ræða samskipti milli Isavia ohf. og einkaaðila eftir að samkeppni lauk og eftir að tilkynnt hafði verði um töku tilboðs. Ráða megi af sérstökum athugasemdum við 8. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum að ákveðnar undantekningar séu á 1. mgr. 8. gr. laganna er varði slík samskipti. Athugasemdirnar geri ráð fyrir að stjórnvöldum sé heimilt að hafna aðgangi að gögnum sem verði til í því ferli þegar samningar séu gerðir við einkaaðila, enda þurfi þá að vega og meta ýmis sjónarmið og gögn í slíku ferli sem endurspegli ekki endilega að hvaða niðurstöðu er stefnt. Heimilt sé að synja um aðgang að gögnum sem verði til eftir að samkeppnisferli ljúki og fram að þeim tíma er samningur liggi fyrir, enda um að ræða endanlega samningsgerð við einkaaðila. Þessi lögskýring sé í samræmi við ákvæði danskra upplýsingalaga sem hafi verið höfð að fyrirmynd við samningu íslensku laganna. Bendir Isavia ohf. í þessu samhengi á 2. mgr. 23. gr. dönsku upplýsingalaganna þar sem kveðið sé á að um að gögn sem afhent séu utanaðkomandi teljist ekki lengur vinnugögn nema „afhendingin sé af lögfræðilegum toga (retlige grunde), vegna vísindarannsókna eða af öðrum sambærilegum ástæðum“ svo sem fram kemur í bréfi Isavia til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017. Það sé því ekki svo í öllum tilvikum að gögn sem afhent séu utanaðkomandi aðilum hætti að teljast vinnugögn og meta þurfi hvert tilvik fyrir sig.

Vegna þessa skal tekið fram að samkvæmt 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga tekur réttur almennings til aðgangs að gögnum ekki til vinnugagna, svo sem nánar er afmarkað í 8. gr. laganna. Í 1. mgr. 8. gr. segir eftirfarandi: „Vinnugögn teljast þau gögn sem stjórnvöld eða lögaðilar skv. 2. og 3. gr. hafa ritað eða útbúið til eigin nota við undirbúning ákvörðunar eða annarra lykta máls. Nú eru gögn afhent öðrum og teljast þau þá ekki lengur til vinnugagna nema þau hafi einvörðungu verið afhent eftirlitsaðila á grundvelli lagaskyldu.“ Skýrt er af sérstökum athugasemdum við ákvæðið að um er að ræða undantekningu frá meginreglu laganna um upplýsingarétt almennings.

Í athugasemdunum segir síðan eftirfarandi:

Af orðalagi 1. mgr. 8. gr. leiðir að til að skjal teljist vinnugagn þarf almennt þremur skilyrðum að vera fullnægt. Gagn þarf þannig í reynd að vera undirbúningsgagn, það skal ritað eða útbúið af starfsmönnum stjórnvaldsins (eða lögaðilans) sjálfs og má ekki hafa verið afhent öðrum. Fyrsta skilyrðið þarfnast ekki sérstakra skýringa en er þó mjög þýðingarmikið við afmörkun hugtaksins. Í öðru skilyrðinu felst það m.a. að gögn sem útbúin eru af utanaðkomandi sérfræðingum, svo sem verktökum, fyrir stjórnvald teljast ekki til vinnugagna í skilningi 8. gr. frumvarpsins. Í þriðja skilyrðinu, þ.e. að gagn hafi ekki verið afhent öðrum, felst það m.a. að hafi skjal verið afhent einkaaðila eða stjórnvaldi t.d. með tölvupósti eða öðrum hætti, telst það almennt ekki lengur vinnugagn. Undantekningar eru þó gerðar varðandi síðastgreinda atriðið.

Að því er varðar síðastgreinda skilyrðið virðist ljóst af skýringunum að vísað sé til þess að í lokamálslið 1. mgr. og í 2. mgr. 8. gr. eru ákvæði sem fela í sér útvíkkun í afmörkuðum tilvikum á gildissviði undantekningarinnar í 1. mgr. Eiga umrædd ákvæði um útvíkkun hugtaksins vinnugagn ekki við um þau gögn sem kærandi óskaði aðgangs að og er ekki vísað til þeirra af hálfu Isavia ohf.

Að mati úrskurðarnefndarinnar er orðalag 1. mgr. 8. gr. skýrt að því leyti að gagn getur aðeins talist vinnugagn ef það er útbúið af þeim aðila sem fellur undir gildissvið upplýsingalaga og það hefur ekki verið afhent öðrum, nema að umrætt gagn falli undir þær útvíkkanir sem fram koma í lokamálslið 1. mgr. eða í 2. mgr. 8. gr. Gögn útbúin af starfsmönnum Isavia ohf. sem síðan hafa verið send til lögaðila eða einstaklinga sem ekki starfa fyrir Isavia ohf. teljast því „afhent öðrum“ og gögn sem fyrirtækinu berast frá öðrum geta ekki talist útbúin af því sjálfu sbr. 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga. Almenn ummæli í athugasemdum í frumvarpi til upplýsingalaga um 8. gr. sem vísað er til af hálfu Isavia ohf. lúta sýnilega að þeim undirstöðurökum sem búa að baki takmörkun á aðgangi að vinnugögnum, svo sem hugtakið verður skýrt sbr. framangreint, og þá bæði þegar um sé að ræða meðferð stjórnsýslumála og við gerð samninga við einkaaðila. Túlkun Isavia ohf. á umræddum skýringum haggar ekki skýru orðalagi ákvæðisins sjálfs. Annað orðalag ákvæða danskra upplýsingalaga um vinnugögn breytir heldur engu þar um.

Í þriðja lagi telur úrskurðarnefndin rétt að gera stuttlega grein fyrir almennum sjónarmiðum sem nefndin leggur til grundvallar við mat á því hvort heimilt sé að synja kæranda um aðgang að upplýsingum í gögnum með vísan til fjárhags- eða viðskiptahagsmuna fyrirtækja sem fjallað er um í gögnunum. Eins og að framan greinir verður réttur kæranda til aðgangs að hinum umbeðnu gögnum ýmist reistur á 1. mgr. 5. gr. eða 1. mgr. 14. gr. eftir því hvort hin umbeðnu gögn urðu til áður en kæranda var tilkynnt að hann væri ekki fyrsti kostur Isavia ohf. sem viðsemjandi um leigu á verslunarrými í fríhöfn Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Svo sem rakið er í fyrri úrskurðum nefndarinnar vegna ágreinings kæranda og Isavia ohf. er réttur samkvæmt 1. mgr. 14. gr. ríkari en réttur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. 

Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. er heimilt að takmarka rétt aðila samkvæmt 1. mgr. 14. gr. til aðgangs að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Á hinn bóginn er heimilt að takmarka aðgang almennings samkvæmt 1. mgr. 5. gr. á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Er óheimilt samkvæmt ákvæðinu að veita almenningi aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Báðar umræddar lagagreinar fela í sér undantekningar frá þeim meginreglum sem felast í 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsinglaga. 

Fram kemur í athugasemdum um 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga að óheimilt sé samkvæmt ákvæðinu að veita upplýsingar um „atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni“. Þá hefur verið við það miðað að við beitingu 9. gr. upplýsingalaga skuli metið hvort um sé að ræða svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni að ætla megi, með tilliti til aðstæðna í fyrirliggjandi máli, að það sé til þess fallið að valda hlutaðeigandi fyrirtæki tjóni, verði aðgangur veittur að upplýsingunum. Við matið verði að líta til þess hverju sinni hversu mikið tjónið geti orðið og hvaða líkur séu á því að það muni hljótast, verði upplýsingarnar veittar.  

Á hinn bóginn segir í athugasemdum í frumvarpi til upplýsinglaga um 9. gr. að við mat á því hvort beita skuli heimildinni þurfi almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuni séu opinberar almenningi. Er sérstaklega tekið fram að þegar lögaðilar geri samninga við opinbera aðila, sem ráðstafi opinberum hagsmunum í þeim samningum, geti þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.

Í samkeppni þeirri er mál þetta varðar þurftu þátttakendur að skila hvoru tveggja tæknilegri og fjárhagslegri tillögu til Isavia ohf. Í hinni fjárhagslegu tillögu þurfti meðal annars að koma fram fjárhagsáætlun til sjö ára um ætlaðar tekjur af sölu og rekstrarkostnað. Þá var ætlast til þess að þátttakendur tilgreindu tillögu sína þannig að greidd leiga væri sölutengd en með ákveðinni hlutfallslegri lágmarkstryggingu fyrir leigusala. Af þessum sökum innihéldu tillögur þátttakenda í hinum fjárhagslega hluta samkeppninnar hvoru tveggja upplýsingar um rekstraráætlanir þeirra til framtíðar og tilboð þeirra um leigugreiðslur til Isavia ohf. Eins og ráða má af framangreindu voru þessar upplýsingar nátengdar. Eftir að samningaviðræður hófust síðan milli Isavia ohf. og Lagardère Services og Joe Ísland ehf. urðu upplýsingar af þessum toga áfram grundvöllur viðræðnanna.

Í úrskurði nefndarinnar í máli 579/2015 var komist að þeirri niðurstöðu að kærandi ætti  rétt á aðgangi að þeim upplýsingum sem fram komu í fjárhagslegum hluta tillögu annarra þátttakenda í þeim flokki samkeppninnar sem kærandi tók þátt í. Byggði nefndin á því að kærandi hefði ríka hagsmuni af því að fá aðgang að upplýsingunum sem vörðuðu á verulegan hátt ráðstöfun opinberra gæða sem hann sjálfur sóttist eftir. Á hinn bóginn var talið í úrskurði í máli 580/2015 að heimilt hafi verið að synja kæranda þess máls, sem ekki var þátttakandi í fjárhagslegum hluta samkeppninnar, um sambærileg gögn þess hluta, enda yrði réttur hans til aðgangs að gögnum reistur á 1. mgr. 5. gr. en ekki 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Var þá einkum miðað við að umræddar upplýsingar vörðuðu fyrirhugaðan rekstur annars þátttakanda og lytu að áætlunum til fjögurra ára svo sem áætlaðar tekjur og kostnað. Í umræddum gögnum urðu tillögur um leigugreiðslur ekki aðskildar frá fjárhagslegum áætlunum umrædds þátttakanda.

Þær fjárhagslegu upplýsingar sem einkum er fjallað um í máli þessu eru af sama toga og í framangreindum málum. Með vísan til alls framangreinds leggur úrskurðarnefndin til grundvallar úrlausn sinni að kærandi eigi sem fyrr, á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga, rétt til aðgangs að fjárhagslegum tillögum er varða leigurými í Flugstöð Leifs Eiríkssonar að því leyti sem þær urðu til meðan á samkeppninni stóð. Að því marki sem réttur kæranda verði reistur á 1. mgr. 5. gr. verði kæranda á hinn bóginn synjað um aðgang að upplýsingum er varða fjárhagslegar áætlanir annarra lögaðila um rekstur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í ljósi þeirra sjónarmiða sem fram koma í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga verður kæranda á hinn bóginn veittur aðgangur að upplýsingum um leigugjald til Isavia ohf., enda um að ræða ráðstöfun opinberra hagsmuna.     

Í niðurstöðukafla hinnar kærðu ákvörðunar er til stuðnings þeirri niðurstöðu Isavia ohf. að afmá upplýsingar í afhentum gögnum á grundvelli 9. gr. tekið fram að Isavia ohf. hafi haft „hliðsjón“ af bréfi Samkeppniseftirlitsins til kæranda, dags. 8. júlí 2016. Umrætt bréf hefur verið látið úrskurðarnefndinni í té. Fjallaði Samkeppniseftirlitið þar almennt um þær hömlur sem kunna að vera á upplýsingaskiptum milli keppinauta á grundvelli 10. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005 um bann við ólögmætu samráði og komst að þeirri niðurstöðu að hluti þeirra gagna, sem fjallað var um í úrskurði úrskurðarnefndar um upplýsingamál í máli nr. 579/2015, gæti talist til mikilvægra og viðkvæmra viðskiptaupplýsinga í skilningi samkeppnisréttar. Verður ekki annað ráðið en að Isavia ohf. hafi haft hliðsjón af þessum sjónarmiðum þegar komist var að þeirri niðurstöðu að sumar þær upplýsingar sem komu fram í hinum umbeðnu gögnum vörðuðu mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja í skilningi 9. gr. upplýsingalaga. Af þessu tilefni tekur úrskurðarnefndin fram að þótt vissulega kunni að vera gagnlegt við skýringu 9. gr. upplýsingalaga að líta til sjónarmiða um beitingu 10. gr. samkeppnislaga þá eru lagaákvæðin um margt ólík, svo sem ráða má af framangreindri umfjöllun um skýringu fyrrnefnda ákvæðisins, og verndarandlag ákvæðanna er ólíkt. Verður af þessum sökum ekki fullyrt að í öllum tilvikum yrði talið heimilt að takmarka aðgang að gögnum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þótt komist yrði að þeirri niðurstöðu að þau væru „mikilvæg og viðkvæm“ þegar 10. gr. samkeppnislaga er beitt.      

Í ljósi alls framangreinds verður í eftirfarandi umfjöllun tekin afstaða til kæru að því er varðar einstaka töluliði gagnabeiðni kæranda, dags. 5. desember 2016.

6.

Í 1. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir að fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf., í sex mánuði fyrir upphaf forvals, á milli 19. október 2013 og 19. mars 2014“.  

Kærandi bendir á að þau gögn sem hann hafi fengið afhent bendi til þess að fyrirtækið Lagardère travel retail ehf. hafi í upphafi samkeppninnar með tölvubréfi, dags. 17. mars 2014, óskað eftir kvöldverðarfundi með starfsmönnum Isavia ohf. og flugfélagsins Icelandair. Svar Isavia ohf. hafi ekki verið afhent kæranda og ítreki kærandi því beiðni sína. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að ósk Lagardère travel retail ehf. hafi aldrei verið svarað og að öll umbeðin tölvubréf hafi verið afhent.

Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 14. gr., sbr. umfjöllun í 4. kafla hér að framan. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru ekki efni til að vefengja þá fullyrðingu Isavia ohf. að ósk Lagardère travel retail ehf. um kvöldverðarfund hafi ekki verið svarað. Eins og hér háttar til verður að leggja til grundvallar að umrætt gagn sé ekki fyrirliggjandi í skilningi 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Svo sem að framan greinir í 5. kafla er úrskurðarvald nefndarinnar afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi sbr. 20. gr. upplýsingalaga og er kærunni af þessum sökum vísað frá nefndinni að því er varðar 1. tölulið beiðni kæranda.  

7.

Í 2. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá upphafi forvals þann 19. mars 2014 til loka forvals þann 22. apríl 2014“.

Kærandi bendir á að samkvæmt tölvubréfi, dags. 26. mars 2014, virðist Lagardère travel retail ehf. hafa beint sex spurningum með undirliðum til Isavia ohf. skömmu eftir upphaf samkeppninnar. Isavia ohf. hafi á hinn bóginn ekki látið kæranda í té svör sín við umræddri fyrirspurn.

Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að öllum þátttakendum í samkeppninni hafi verið heimilt að senda inn fyrirspurnir vegna hennar. Hafi fyrirspurnum þátttakenda síðan verið svarað í heild sinni og svörin send til allra þátttakenda. Isavia ohf. bendir á að tiltekinn nafngreindur starfsmaður kæranda hafi fengið umrædd svör afhent. Þá verður bréf Isavia ohf. skilið á þann hátt að samhliða því að úrskurðarnefndinni voru send umrædd svör hafi kæranda verið látin þau í té á ný. Verður því að líta svo á að Isavia ohf. hafi afhent kæranda þau gögn er beiðni hans laut að þessu leyti að. Að því er varðar 2. tölulið gagnabeiðni kæranda er kæru hans af þessum sökum vísað frá nefndinni.

8.

Í 3. tölulið beiðni kæranda var af hans hálfu óskað eftir að fá afhent „[ö]ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá lokum forvals þann 22. apríl 2014 til lokunar tilboða í seinni hluta samkeppninnar þann 25. júní 2014“.

Undir þessum tölulið bendir kærandi í fyrsta lagi á að hann hafi ekki fengið afhent bréf Isavia ohf. til umræddra aðila þar sem þeim var tilkynnt um að þeir hefðu öðlast þátttökurétt í síðari hluta samkeppni fyrirtækisins. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd bréf. Er kærunni því vísað frá nefndinni að þessu leyti.

Í öðru lagi bendir kærandi á að samkvæmt tölvubréfum frá maí 2014 virðist Lagardère travel retail ehf. hafa sent ýmsar frekari fyrirspurnir til Isavia ohf. um samkeppnina. Svör við þessum fyrirspurnum hafi ekki verið afhent kæranda. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd svör. Er kærunni því vísað frá nefndinni að þessu leyti.

Í þriðja lagi rekur kærandi hvað afhent gögn beri með sér um samskipti þátttakenda við Isavia ohf. um veitingu frests til skila á tillögum í samkeppninni. Kærandi óskar eftir afhendingu annarra beiðna um fresti en frá Lagardère travel retail ehf. ef slíkar beiðnir hafi komið fram. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að nokkrar munnlegar beiðnir hafi komið frá þátttakendum um framlengingu á skilafresti. Um hafi verið að ræða óformlegar beiðnir frá fulltrúum mismunandi fyrirtækja. Af svörum Isavia ohf. má ráða að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi hjá Isavia ohf. og hefur úrskurðarnefndin ekki forsendur til að vefengja þau svör fyrirtækisins. Með vísan til 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og umfjöllunar í 5. kafla verður kærunni vísað frá úrskurðarnefndinni.

Í fjórða lagi krefst kærandi þess að úrskurðarnefndin rannsaki hvort frekari samskipti hafi átt sér stað á milli Isavia ohf. og Lagardère á tímabilinu frá 14. maí til 13. júní 2014 sem ekki hafi verið afhent kæranda um framlengingu skilafrests. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er áréttað að engin slík samskipti hafi átt sér stað. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og hefur ekki forsendur til að vefengja svör Isavia ohf. að þessu leyti um að slík gögn sé ekki að finna í vörslum fyrirtækisins. Með vísan til þess sem að framan greinir um úrskurðarvald nefndarinnar verður kærunni því vísað frá henni.

Í fimmta lagi krefst kærandi þess að sér verði afhent tiltekin tölvubréf milli Isavia ohf. og Joe Ísland ehf., dags. 7. maí 2014, á bls. 56 í málsgögnum, og milli Isavia ohf. og IGS, dags. 14. maí 2014, á bls. 59 í málsgögnum, án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017 kemur fram að í tilviki fyrri tölvubréfanna hafi verið strikað yfir nafn félags sem að lokum tók ekki þátt í samkeppninni. Í síðara tilvikinu hafi verið afmáð nöfn ráðgjafafyrirtækis sem IGS hafi ráðið.

Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla byggir réttur kæranda til aðgangs að gögnunum á 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Umrædd tölvubréf voru ekki gerð af hálfu Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og teljast þau því ekki vinnugögn í skilningi 5. tölulið 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. er heimilt að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar um einkamálaefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnum. Að mati úrskurðarnefndarinnar er vandséð hvaða hagsmunir umrædd fyrirtæki hafa að því að nöfnum þeirra sé haldið leyndum gagnvart kæranda. Verður því felld úr gildi synjun Isavia ohf. um afhendingu á hluta tölvubréfa á blaðsíðum 56 og 59 í hefti sem félagið tók saman og því gert að afhenda umrædd tölvubréf í heild sinni.       

9.

Í 4. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hans hálfu óskað eftir að afhent yrðu „[ö] ll bréfa- og tölvupóstsamskipti ISAVIA ohf. við [Joe Ísland ehf., Lagardère Services, SSP the Food Travel Experts og IGS ehf.], frá lokun tilboða þann 25. júní 2014 til dagsetninga samninga í kjölfar samkeppninnar“. Kærandi áréttaði í beiðni sinni að hún tæki til „allra afrita bréfa- og tölvupóstsamskipta ISAVIA ohf. við ofangreinda fjóra aðila vegna samkeppninnar, hverju nafni sem þau nefnast, á umræddu tímabili“ og að sérstaklega væri óskað eftir afriti af bréfi Isavia ohf. til Lagardère travel retail ehf., dags. 4. júlí 2014, sem vitnað væri til í tilteknu bréfi og afriti af bréfi Isavia ohf. til SSP the Food Travel Experts, dags. 4. júlí 2014, sem vitnað væri til í tilteknu bréfi.

Vegna þessa töluliðar beiðni sinnar gerir kærandi athugasemd við að sér hafi ekki verið afhent ýmis tölvubréf sem hin afhentu gögn beri með sér að farið hafi á milli annars vegar Isavia ohf. og hins vegar viðsemjenda þess, Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf.

Á þetta við um eftirfarandi athugasemdir kæranda á bls. 9 í kæru:

Í tölvupóstum á milli 16. september 2014 og 8. október 2014 má sjá ýmsar fyrirspurnir Joe Ísland til ISAVIA (bls. 100-102 í ágripi). Svör ISAVIA við þeim tölvupóstum eru ekki afhent. Krafist er afrita svara ISAVIA við umræddum [fyrirspurnum].

Þetta á einnig við um eftirfarandi athugasemd kæranda á sömu blaðsíðu kærunnar:

Í tölvupósti, dags 7. október 2014, þakkar fulltrúi Lagardère tveimur íslenskum valnefndarmönnum, Hlyni Sigurðssyni og Hrönn Ingólfsdóttur, sérstaklega fyrir traustið sem þau hafa sýnt Lagardère (bls. 156 í ágripi). Samskipti Hlyns og Hrannar við Lagardère virðast enda hafa verið umfangsmikil, skv. þeim gögnum sem afhend hafa verið á fskj. 1. Þá þakkar fulltrúi Lagardère einum valnefndarmanni fyrir traustið, Frank Gray. Öðrum valnefndarmönnum, Stefáni Jónssyni og Sveinbirni Indriðasyni, er ekki þakkað sérstaklega. Samkvæmt þessu má ætla að Hlynur Sigurðsson, Hrönn Ingólfsdóttir og Frank Gray hafi verið í beinum samskiptum við Lagardère vegna samkeppninnar, en ISAVIA hafi þrátt fyrir þetta ekki afhent samskipti Frank Gray við Lagardère. Krafist er afhendingar á öllum samskiptum Frank Gray við Lagardère vegna samkeppninnar, allt frá því sex mánuðum fyrir upphaf forvals, þann 19. október 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland, dags. 2. og 4. mars 2015, þ.m.t. tölvupósta og fundargerða.

Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er þessum athugasemdum svarað í einu lagi undir fyrirsögn sem vísar til blaðsíðutala í kæru, þ.e.a.s. „Bls. 9 (og efst á bls. 10)“. Færir Isavia ohf. þar rök fyrir því að umrædd tölvubréf, sem kærandi óski aðgangs að, séu vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Eins og rakið er í 5. kafla er þessi afstaða fyrirtækisins ekki í samræmi við lög og verður því að fella úr gildi synjun Isavia ohf. um aðgang að gögnum er varðar 4. tölulið beiðni kæranda, enda ljóst að fyrirtækið lagði ranglega til grundvallar að umbeðin gögn væru vinnugögn. Gögnin hafa ekki verið látin úrskurðarnefndinni í té. Verður því ekki hjá því komist að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi að þessu leyti og leggja fyrir Isavia ohf. að taka 4. tölulið beiðni kæranda til nýrrar efnismeðferðar að öðru leyti en því sem hér greinir á eftir.

10.

Að því er varðar 4. tölulið beiðni kæranda að öðru leyti er úrskurðarnefndinni unnt að taka afstöðu til kærunnar að því leyti sem hin umbeðnu gögn er falla undir þennan hluta beiðni kæranda hafa verið afhent nefndinni og fyrir liggur að Isavia ohf. hefur tekið afstöðu til afhendingar þeirra.  

Kærandi hefur í niðurlagi umfjöllunar sinnar um afgreiðslu Isavia ohf. á 4. tölulið beiðni sinnar ítrekað kröfu sínar um afhendingu allra tölvupósta og bréfaskipta þátttakenda við Isavia ohf. á tilteknu tímabili, þ.e.a.s. frá 25. júní 2014 til 4. mars 2015. Í kærunni er síðan vikið að nánar tilteknum blaðsíðum í málsgögnum sem kærandi gerir sérstakar athugasemdir við að hafi verið afhentar með útstrikunum. Málsgögn bera hins vegar með sér að afmáðar hafi verið upplýsingar úr gögnum er falli undir 4. tölulið gagnabeiðni kæranda þrátt fyrir að kærandi hafi ekki gert sérstakar athugasemdir við það í kæru. Í ljósi þess að kærandi hefur í kæru ítrekað gagnabeiðnina að því er varðar þennan tölulið verður að líta svo á að kæra hans taki einnig til synjunar um aðgang að þessum upplýsingum.

Þannig er að finna á blaðsíðum 81 og 86-87 í málsgögnum tölvubréf milli Isavia ohf. og eins þátttakandans í samkeppninni sem ráða má af efni bréfanna að sé fyrirtækið NQ ehf. sem sér um veitingarekstur undir merkjum NORD í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Kæranda var synjað um aðgang að upplýsingum um söluaukningu veitingastaðarins á tilteknum árabilum og veltu. Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingar um veltu og sölu umrædds veitingastaðar geti talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu NQ ehf. sem heimilt sé að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest ákvörðun Isavia ohf. um synjun hluta upplýsinga á blaðsíðum 81 og 86-87 í málsgögnum.

Þá er á blaðsíðum 106 og 107 að finna samskipti Isavia ohf. og Joe Ísland ehf. er varða verð á kaffi. Virðist síðarnefnda fyrirtækið hafa óskað þess að sala þess á kaffi yrði undanþegin stefnu Isavia ohf. um verðlagningu en því hafi verið tekið fálega af hálfu Isavia ohf. Var kæranda synjað um upplýsingar um verðlagningu Joe Ísland ehf. á kaffi. Umrædd tölvubréf voru ekki útbúin af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta þau ekki talist vinnugögn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að upplýsingar um verðlagningu Joe Ísland ehf. á kaffi eða samskipti um lán á stólum og notkunar á matarsölubíl séu ekki það viðkvæmar upplýsingar að heimilt hafi verið að synja kæranda um aðgang að þeim. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda kæranda umræddar upplýsingar.

Kærandi hefur tekið fram að hann geri ekki athugasemd við að sér hafi verið synjað um aðgang að þeim upplýsingum sem afmáðar hafa verið á blaðsíðu 123 í málsgögnum og mun úrskurðarnefndin því ekki taka afstöðu til þess hvort Isavia ohf. hafi verið heimilt að synja um aðgang að umræddu gagni í heild sinni.  

Að öðru leyti og eins og að framan greinir gerir kærandi sérstakar athugasemdir við að afmáðar hafi verið upplýsingar úr tilteknum blaðsíðum í málsgögnum eða að tiltekin gögn hafi ekki verið afhent. Eru þær eftirfarandi:

Í fyrsta lagi bendir kærandi á að honum hafi ekki verið afhent bréf sem Isavia ohf. hafi sent þátttakendum í samkeppninni um að þeir væru ekki fyrsti kostur fyrirtækisins í samkeppninni en kærandi hafi fengið slíkt bréf sent til sín 21. ágúst 2014. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að kæranda hafi verið afhent umrædd bréf 13. mars 2017. Má ráða að kæranda hafi nú verið látin í té umrædd svör. Af málsgögnum verður ráðið að eitt þessara bréfa sé að finna á blaðsíðum 93 og 94 í málsgögnum og að kæranda hafi ekki verið veittur aðgangur að einkunnum þess þátttakanda sem fram komu í bréfinu. Úrskurðarnefndin hefur þegar tekið afstöðu til þess að kærandi eigi á grundvelli 1. mgr. 14. gr. rétt á aðgangi að einkunnum annarra þátttakenda í samkeppninni, sbr. úrskurð nefndarinnar 15. maí 2015 í máli nr. 579/2015. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda blaðsíður 93 og 94 í heild sinni.

Í öðru lagi bendir kærandi á að með tölvubréfi, dags. 16. september 2014, frá Joe Ísland ehf. til Isavia ohf. hafi fyrrnefnda fyrirtækið komið á framfæri „nýjum tölum“. Kærandi hafi á hinn bóginn ekki fengið afhent svar Isavia ohf. við umræddu tölvubréfi. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að Isavia ohf. hafi ekki svarað umræddum tölvubréfi. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið gögn málsins og hefur ekki forsendur til að vefengja svör Isavia ohf. að þessu leyti um að slíkt svar sé ekki að finna í vörslum fyrirtækisins. Með vísan til þess sem greinir í 5. kafla um úrskurðarvald nefndarinnar verður kærunni vísað frá nefndinni að þessu leyti.

Í þriðja lagi telur kærandi að Isavia ohf. hafi verið óheimilt að synja kæranda um aðgang að þeim tölum sem fram komu í umræddu tölvubréfi Joe Ísland, dags. 16. september 2014 og finna má á blaðsíðu 99 í málsgögnum. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er aðeins bent á að umræddar tölur hafi komið fram meðan á samningaviðræðum stóð milli fyrirtækisins og Joe Ísland ehf.

Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Heimilt er að takmarka aðgang almennings samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga að gögnum á grundvelli mikilvægra fjárhags- eða viðskiptahagsmuna lögaðila með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Ráða má að í töflu þeirri er kæranda var synjað um aðgang að, og fylgdi tölvubréfi Joe Ísland til Isavia ohf., megi sjá áætlanir fyrirtækisins um tekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í samræmi við umfjöllun í 5. kafla er það mat úrskurðarnefndarinnar að slíkar áætlanir geta talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Joe Ísland sem heimilt sé að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu töflunnar, sem finna má á bls. 99 í málsgögnum.

Í fjórða lagi bendir kærandi á að sér hafi ekki verið veittur aðgangur að upplýsingum um fjárhagslega þætti tilboðs Joe Ísland ehf. sem fram komi á blaðsíðum 118 og 119 í málsgögnum. Er um að ræða upplýsingar af sama toga og fram koma á blaðsíðu 99 og fjallað er um hér að framan. Með vísan til þessa verður staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu þeirra taflna sem fram koma á blaðsíðu 118 og 119 í málsgögnum.

 

Í fimmta lagi bendir kærandi á að í tölvubréfi Lagardère travel retail ehf. til Isavia ohf., dags. 15. september 2014, séu afmáðar upplýsingar á blaðsíðu 143 í málsgögnum. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Í samræmi við umfjöllun í 4. kafla verður við það miðað að réttur kæranda til aðgangs að umræddu gagni verði reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið umrætt tölvubréf og fellst ekki á að þar komi fram nokkrar upplýsingar sem ástæða sé til að afmá á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. því gert að afhenda bls. 143. í málsgögnum í heild sinni. 

Í sjötta lagi bendir kærandi á að umrætt tölvubréf hafi haft viðhengi þar sem finna megi breyttar fjárhagslegar forsendur tilboðs Lagardère travel retail ehf. og að þær hafi verið afmáðar. Um er að ræða gögn á bls. 144-148 í málsgögnum. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið umrædd viðhengi. Á bls. 144 er að finna gagn með yfirskriftinni „Final Offer F&B + Delicatessen – Operational Plan“ og inniheldur töflu þar sem ráða má að sé að finna áætlanir fyrirtækisins um tekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta slíkar áætlanir að mati úrskurðarnefndarinnar talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Lagardère travel retail ehf. sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Verður því staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu töflunnar, sem finna má á bls. 144 í málsgögnum. Á hinn bóginn er ekki að finna slíkar upplýsingar í skjali sem hefur titilinn „Addendum to LS-NQ Proposal – Key characteristics of concession agreement“ á bls. 145-148 í málsgögnum. Verður því felld úr gildi synjun Isavia ohf. að því leyti og fyrirtækinu gert að afhenda kæranda umræddar blaðsíður.

Í sjöunda lagi bendir kærandi á að með tölvubréfi, dags. 23. desember 2014, bað Isavia ohf. Joe Ísland um ársreikning þriðja aðila og ábyrgðaryfirlýsingu frá aðila hvers nafn hefur verið afmáð úr hinu afhenta tölvubréfi. Um er að ræða gögn á blaðsíðum 108-109 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að tölvubréfið verði afhent í heild og viðhengi einnig auk svars Joe Ísland ehf. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er engar þær upplýsingar að finna í tölvubréfum á bls. 108-109 í málsgögnum sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. gert að afhenda kæranda umrædd tölvubréf í heild sinni. Isavia ohf. hefur ekki tekið afstöðu til þess hvort svar Joe Ísland sé að finna í vörslum fyrirtækisins og hefur ekki látið úrskurðarnefndinni þau í té. Verður því að vísa beiðni kæranda að þessu leyti til nýrrar efnismeðferðar hjá Isavia ohf.

Í áttunda lagi bendir kærandi á að Isavia ohf. hafi afmáð hluta tölvubréfs frá Lagardère travel retail ehf. sem finna má á bls. 155-156 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að tölvubréfið verði afhent í heild og viðhengi einnig. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umrætt tölvubréf var ekki útbúið af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla getur það ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga. Að mati úrskurðarnefndarinnar er engar þær upplýsingar að finna í tölvubréfinu á bls. 155 í málsgögnum sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður Isavia ohf. gert að afhenda kæranda umrædd tölvubréf í heild sinni.

Í níunda lagi bendir kærandi á að afmáðar hafi verið upplýsingar í nýju tilboði Lagardère travel retail ehf. sem finna megi á bls. 165-170 í ágripi. Af viðbrögðum Isavia ohf. verður ráðið að um sé að ræða sama gagn og finna má á bls. 144-148 í málsgögnum. Úrskurðarnefndin hefur þegar fjallað um aðgang kæranda að þeim gögnum og vísast til þeirrar umfjöllunar. Staðfest er því synjun á afhendingu blaðsíðu 166 en Isavia ohf. gert að afhenda blaðsíður 167-170 í heild sinni.

Í tíunda lagi bendir kærandi á að afmáðar hafi verið upplýsingar í samningsdrögum Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. sem finna megi á blaðsíðum 202, 206-207, 211-244 og 271-350 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að gögnin verði afhent í heild. Af bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, verður ráðið að umræddar upplýsingar hafi verið afmáðar á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga.

Réttur kæranda til aðgangs að umræddum gögnum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Í framangreindu bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að þau samningsdrög er málið varði hafi verið send milli Isavia ohf. og viðsemjenda þess. Voru samningsdrögin því ekki útbúin af Isavia ohf. til eigin nota fyrirtækisins og með vísan til umfjöllunar í 5. kafla geta þau ekki talist vinnugagn í skilningi 5. töluliðar 6. gr. sbr. 8. gr. upplýsingalaga.

Á blaðsíðum 188-206 er að finna drög að samningi milli Isavia ohf. og Lagardère Services ehf. Á bls. 202 hafa upplýsingar um veltutengda leigu verið afmáðar í hinum afhentu gögnum sem tilgreindar eru í hlutfallstölum. Með vísan til umfjöllunar í 5. kafla felur slík útleiga í sér ráðstöfun opinberra hagsmuna og var af þessum sökum ekki heimilt að synja kæranda um aðgang að umræddum upplýsingum. Á hinn bóginn var í viðauka á bls. 206 að finna áætlanir fyrirtækisins um sölutekjur og ýmsa kostnaðarliði vegna reksturs í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Að mati úrskurðarnefndarinnar og í samræmi við umfjöllun í 5. kafla geta slíkar áætlanir talist viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu Lagardère travel retail ehf. sem heimilt er að synja almenningi aðgangi að samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga. Með vísan til alls framangreinds skal Isavia ohf. afhenda kæranda bls. 202 í málsgögnum án yfirstrikana en staðfest er synjun fyrirtækisins að því er varðar bls. 206.

Á bls. 211-238 í málsgögnum er að fínna önnur drög að sama samningi. Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan skal Isavia ohf. afhenda kæranda þessar blaðsíður í heild sinni og án yfirstrikana. Þó er staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu á blaðsíðum 237 og 238 í málsgögnum, enda um að ræða sambærilegar upplýsingar og áður hefur verið vikið að sbr. bls. 206 í málsgögnum.

Á bls. 239-244 í málsgögnum er að finna svokallað „Side Letter“ við samning Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. og „Addendum to LS-NQ Proposal.“ Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin að framan eru ekki efni til að synja kæranda um aðgang að hluta umræddra skjala á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og skal Isavia ohf. afhenda kæranda þau án yfirstrikana.

Á bls. 256-258 í málsgögnum er að finna „Bókun sem GEV tók í OneNote“. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem hér hafa verið rakin að framan eru ekki efni til að synja kæranda um aðgang að hluta umrædds skjals á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og skal Isavia ohf. afhenda kæranda það án yfirstrikanaað því undanskildu að yfirstrikanir á nöfnum mannauðsstjóra og fjármálastjóra á blaðsíðu 257 skulu standa, enda gerir kærandi ekki athugasemd við synjanir Isavia ohf. þar að lútandi.

Á bls. 267-295 í málsgögnum er að finna önnur drög að sama samningi milli Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. Með vísan til sömu sjónarmiða og rakin hafa verið hér að framan skal Isavia ohf. afhenda kæranda þessar blaðsíður í heild sinni og án yfirstrikana. Þó er staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu á blaðsíðum 293 og 294 í málsgögnum, enda um að ræða sambærilegar upplýsingar og áður hefur verið vikið að, sbr. blaðsíður 206, 237 og 238 í málsgögnum. Af sömu ástæðum skal Isavia ohf. afhenda kæranda í heild og án yfirstrikana gögn á blaðsíðum 298-320 en staðfest er synjun á blaðsíðum 321 og 323. Einnig skal Isavia ohf. afhenda kæranda í heild og án yfirstrikana gögn á blaðsíðum 325-348 en staðfest er synjun Isavia ohf. á afhendingu á blaðsíðu 349.

11.

Í 5. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hans hálfu óskað eftir að afhentir yrðu samningar Isavia ohf. „við þá aðila sem hlutskarpastir urðu í þeim hluta samkeppninnar sem kærandi tók þátt í, þ.e. Lagardère Services og Joe Ísland, ásamt fylgigögnum og viðaukum við þá samninga“.

Í kæru bendir kærandi í fyrsta lagi á að Isavia ohf. hafi afhent sameiginlega viljayfirlýsingu Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. sem beri heitið „Agreement of Intent“, dags. 9. september 2014 sem finna megi á bls. 353-359 í málsgögnum. Í fundargerð stjórnar Isavia ohf., dags. 29. september 2014, hafi stjórn samþykkt að ganga til samninga við bjóðendur „í samræmi við fyrirliggjandi viljayfirlýsingar“. Fjárhagslegar upplýsingar, þ.m.t. um upphæðir leigugreiðslna, hafi þó verið afmáðar úr sameiginlegu viljayfirlýsingunni. Krafist sé afhendingar umrædds gagns í heild. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið beiðni kæranda.

Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 5. mgr. upplýsingalaga. Umrædd viljayfirlýsing er gerð á milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf. og getur því ekki talist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda skjalið ekki gert af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í skjalinu og kæranda hefur verið synjað um aðgang að varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið í 5. kafla telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Með vísan til þessa verður synjun Isavia ohf. þar að lútandi felld úr gildi og lagt fyrir fyrirtækið að afhenda kæranda viljayfirlýsingu þá er finna má á blaðsíðum 353-359 í málsgögnum.

Í öðru lagi bendir kærandi á að á blaðsíðum 362-388 í málsgögnum megi finna undirritaðan samning Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 4. mars 2015. Kæranda virðist sem fjárhagslegar upplýsingar um leiguverð í tiltekinni samningsgrein hafi verið afmáðar. Þá hafi allar fjárhagslegar upplýsingar í viðauka 1 verið afmáðar og viðauki 2 hafi verið afmáður í heild sinni. Þá séu allar fjárhagslegar upplýsingar í viðauka 4 afmáðar og viðauki 5 í heild sinni. Þess er krafist að umrædd gögn séu afhent í heild sinni. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið beiðni kæranda.

Réttur kæranda verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Umræddur samningur er gerður á milli Isavia ohf. og Lagardère Services og getur því ekki talist vinnuskjal í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda skjalið ekki gert af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í samningnum og viðaukum á blaðsíðum 360-384 og 386-388 í málsgögnum og kæranda hefur verið synjað um aðgang að varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið í 5. kafla telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður staðfest synjun Isavia ohf. um afhendingu viðauka 4 sem finna má á bls. 385 sbr. fyrri afstöðu nefndarinnar er varðar blaðsíður 206, 237 og 238.

Í þriðja lagi bendir kærandi á að hann hafi fengið afhenta viljayfirlýsingu Isavia ohf. og Joe Ísland, dags. 15. september 2014, sem finna má á blaðsíðum 389-391 í málsgögnum og samning milli fyrir sömu fyrirtækja, dags. 2. mars 2015, á blaðsíðum 392-410 í málsgögnum. Kærandi krefst þess að fá umrædd gögn afhent í heild og án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. er vísað til þeirra sjónarmiða sem fyrirtækið lét í ljós varðandi 4. tölulið í beiðni kæranda.    

Réttur kæranda til aðgangs að umræddum samningi og viðaukum verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga. Viljayfirlýsingin og samningurinn eru gerð á milli Isavia ohf. og Joe Ísland ehf. og geta því ekki talist vinnuskjöl í skilningi 1. mgr. 8. gr. upplýsingalaga, enda ekki gerð af Isavia ohf. til eigin nota sbr. umfjöllun í 5. kafla hér að framan. Umrædd gögn eru af sama toga og sambærilegur samningur milli Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf.og fjallað hefur verið um hér að framan. Þær fjárhagslegu upplýsingar sem fram koma í viljayfirlýsingunni, samningnum og viðaukum á blaðsíðum 389-391 og 392-409 varða leiguverð. Með vísan til þeirra sjónarmiða sem rakin hafa verið telur úrskurðarnefndin ekki að heimilt sé að takmarka aðgang að umræddum upplýsingum á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Á hinn bóginn verður staðfest synjun Isavia ohf. varðandi afhendingu viðauka 4 sem finna má á blaðsíðu 410 í málsgögnum, sbr. fyrri afstöðu nefndarinnar er varðar blaðsíður 206, 237 og 238 og 385.

12.

Í 6. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var af hálfu kæranda óskað eftir að afhentar yrðu „[a]llar fundargerðir stjórnar ISAVIA ohf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samkeppninnar“.  

Í fyrsta lagi bendir kærandi á að samkvæmt þessu taki beiðni kæranda til allra fundargerða Isavia ohf. á tímabilinu frá 19. mars 2013 til 4. mars 2015. Þrátt fyrir þetta hafi engar stjórnarfundargerðir verið afhentar fyrir tímabilið frá nóvember 2014 til mars 2015. Vakin er athygli á að á stjórnarfundi Isavia ohf. þann 4. september 2014 hafi verið sagt berum orðum að samningar við sigurvegara samkeppninnar yrðu teknir til „umfjöllunar á sérstökum fundi áður en gengið verður endanlega frá þeim til undirritunar“. Því sé ljóst að stjórnarfundargerðir séu í vörslum Isavia ohf. sem varði samningsgerð við Joe Ísland og Lagardère travel retail ehf. í mars 2015 með beinum hætti og sem ekki hafi verið afhentar kæranda. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að allar fundargerðir stjórnar Isavia ohf. þar sem fjallað sé um samkeppnina hafi verið afhentar kæranda. Ekkert sé fjallað um málið í fundargerðum stjórnar Isavia ohf. frá nóvember 2014 til mars 2015.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi í upphaflegri gagnabeiðni sinni, dags. 5. desember 2016, orðað beiðni sína um afhendingu fundargerða stjórna á þann hátt sem hér greinir að framan. Á hinn bóginn hafi Isavia ohf., með tölvubréfi dags. 19. desember 2016, lýst þeirri afstöðu sinni að sá hluti beiðninnar sem lyti að öllum fundargerðum stjórnar á tveggja ára tímabili væri of almennur með vísan til 15. gr. upplýsingalaga og nauðsynlegt væri að kærandi afmarkaði betur þann hluta beiðninnar, „t.d. við tiltekið mál“. Í kjölfar þess hafi kærandi fallist á, með tölvubréfi dags. 20. desember 2016,  að afmarka beiðni sína þannig að afmá mætti þá hluta fundargerða stjórnar sem varðaði ekki umrædda samkeppni með neinum hætti. Á hinn bóginn áréttaði kærandi að hann óskaði allra hluta fundargerða, hverju nafni sem þeir nefnast og hvort sem þeir varða samkeppnina beint eða óbeint og nefndi í dæmaskyni tilhögun samkeppni, forval, efnisval, fresti, bréfaskipti við bjóðendur, tilboð, einkunnagjöf og samninga í kjölfar samkeppni.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að vefengja þá staðhæfingu Isavia ohf. að þær fundargerðir stjórnar félagsins sem kærandi hafi fengið afhentar séu þær einu sem falli undir beiðni kæranda í þeim búningi sem hún var í eftir tölvubréf hans, dags. 20. desember 2016. Að því leyti verður að telja að kæran falli utan kæruheimildar 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga og er henni af þessum sökum vísað frá.

Í kæru kemur á hinn bóginn fram sú krafa kæranda að allar fundargerðir stjórnar á umræddu tímabili séu afhentar svo sem fram kom í upphaflegri gagnabeiðni hans. Í bréfi kæranda til úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. mars 2017, áréttar kærandi að honum sé nauðugur sá kostur að halda sig við upphaflegt orðalag gagnbeiðni sinnar. Hvað sem þessari afstöðu kæranda líður liggur fyrir að hin kærða ákvörðun laut í raun ekki að 6. tölulið upphaflegrar gagnabeiðni kæranda heldur að beiðninni í þeim búningi sem hún var í af hálfu kæranda í tölvubréfi hans til Isavia ohf, dags. 20. desember 2016. Getur kærandi ekki leitað afstöðu úrskurðarnefndarinnar til þess hvort Isavia ohf. hafi brugðist við beiðni sem hann sjálfur féll frá við afgreiðslu málsins hjá fyrirtækinu, enda fólst í hinni kærðu ákvörðun ekki að þessu leyti synjun í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarnefndin hefur á þessu stigi ekki forsendur til að leggja mat á þá afstöðu Isavia ohf., sem fram kom í tölvubréfi af hálfu fyrirtækisins til kæranda, dags. 19. desember 2016, að upphaflegur 6. töluliður gagnabeiðni kæranda, um beiðni um aðgang að öllum fundargerðum stjórnar á tilteknu tímabili, væri „of almennur með vísan til 15. gr. upplýsingalaga“. Á hinn bóginn vill nefndin árétta að samkvæmt 1. mgr. 15. gr. nægir að sá sem fer fram á aðgang að gögnum tilgreini þau „með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál“. Eins og greinir í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til upplýsingalaga fólu núgildandi lög í sér þá breytingu frá eldri upplýsingalögum nr. 50/1996 að ekki yrði lengur gerð krafa um að sá sem óskaði aðgangs að gögnum tilgreindi mál sem gögn tilheyrðu, heldur nægði að hann tilgreindi þau gögn sem hann óskaði að kynna sér eða efni þess máls sem gögnin tilheyrðu, með nægjanlega skýrum hætti til að unnt væri, án verulegrar fyrirhafnar að afmarka beiðnina við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Almennt verður t.a.m. að ætla að ef unnt er að afmarka leit í málaskrá við tiltekna gerð gagna, s.s. fundargerðir stjórnar, sé yfirleitt ekki þörf á því á grundvelli 1. mgr. 15. gr. að sá sem óski aðgangs að gögnum að öllum fundargerðum á tilteknu tímabili tilgreini frekar hvaða efnisatriði eigi að koma fram í umbeðnum fundargerðum. Þá er það aðeins í ýtrustu undantekningartilvikum sem heimilt er að hafna beiðni um gögn af því að meðferð beiðni tæki svo mikinn tíma eða krefðist svo mikillar vinnu að ekki teldist af þeim sökum fært að verða við henni sbr. 4. mgr. 15. gr. upplýsingalaga.    

Í öðru lagi bendir kærandi á að á blaðsíðum 413, 421 og 425 hafi Isavia ohf. afmáð tilteknar upplýsingar úr stjórnarfundargerðum og geti kærandi ekki gengið úr skugga um að afmáðir kaflar varði ekki samkeppnina beint eða óbeint. Er þess krafist að umrædd gögn verði afhent í heild og án yfirstrikana. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, kemur fram að þær upplýsingar sem hafi verið afmáðar séu um fyrirtæki sem Isavia ohf. eigi kröfu á og séu upplýsingarnar því alls óviðkomandi samkeppni þeirri er málið varði. Um sé að ræða viðkvæmar fjárhagsupplýsingar fyrir viðkomandi fyrirtæki. Úrskurðarnefndin hefur farið yfir þær upplýsingar sem Isavia ohf. synjaði kæranda um aðgang að með afhendingu umræddra fundargerða og eru þær í samræmi við lýsingu Isavia ohf. og féllu ekki undir gagnabeiðni kæranda í þeim búningi sem hún var í eftir tölvubréf hans, dags. 20. desember 2016. Er kærunni því vísað frá að þessu leyti, enda fól umrædd afgreiðsla Isavia ohf. ekki í sér synjun á gagnabeiðni kæranda.

13.

Í 7. tölulið beiðni kæranda til Isavia ohf. var óskað eftir að afhentar yrðu „[a]llar fundargerðir vegna funda ISAVIA ohf. með Lagardère, Joe Ísland ehf., SSP the Food Travel Experts og IGS ehf. frá 19. mars 2013 til dagsetninga samninga við Lagardère og Joe Ísland ehf. í kjölfar samskiptanna“.

Kærandi bendir í fyrsta lagi á að Isavia ohf. hafi vegna þessa liðar beiðni kæranda aðeins afhent eina fundargerð. Um sé að ræða fundargerð vegna fundar Isavia ohf. og Lagardère travel retail ehf., dags. 29. ágúst 2014. Fundargerðin sé að mestu afmáð vegna trúnaðar og sé kæranda ómögulegt að átta sig á efni hennar. Verður ekki annað ráðið en að kærandi krefjist þess að sér verði veittur aðgangur að fundargerðinni í heild sinni. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar er vísað til þess að um sé að ræða vinnuskjal og viðkvæmar fjárhagsupplýsingar.

Réttur kæranda til aðgangs að fundargerðinni verður reistur á 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga.  Fram kemur í fundargerðinni, sem að mestu er rituð á ensku, að hún sé vegna fundar þar sem fulltrúar Lagardère travel retail ehf. og Isavia ohf. áttu, hún hafi verið rituð af starfsmanni Isavia ohf. og að afrit hafi verið látið í té „participants“. Verður því að gera ráð fyrir að þótt fundargerðin hafi verið útbúin af Isavia ohf. þá hafi hún verið látin fulltrúm Lagardère í té. Telst hún því hafa verið „afhent öðrum“, sbr. orðalag 1. mgr. 8. gr. og uppfyllir því ekki lagaskilyrði til að teljast vinnugagn sem heimilt er að synja aðgangs að sbr. 5. tölulið 6. gr. upplýsingalaga svo sem nánar er fjallað um í 5. kafla. Að því er varðar 9. gr. upplýsingalaga hefur Isavia ohf. ekki útskýrt hvers vegna þær upplýsingar sem synjað er aðgangs að teljast viðkvæmar fjárhagsupplýsingar og getur úrskurðarnefndin ekki séð að svo sé. Verður af þessum sökum að fella úr gildi synjun Isavia ohf. um aðgang að hlutum fundargerðar þeirrar er finna má á blaðsíðum 457-458 í málsgögnum og skal Isavia ohf. afhenda kæranda gagnið í heild sinni.

Í öðru lagi telur kærandi það ótrúverðugt að umrædd fundargerð sé sú eina sem falli undir 7. tölulið gagnabeiðni kæranda og bendir á að í ýmsum tölvubréfum sem kærandi hafi fengið aðgang að sé vísað til funda Isavia ohf. með Lagardère travel retail ehf. og Joe Ísland ehf. Í bréfi Isavia ohf. til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2017, er á hinn bóginn áréttað að svo sé. Úrskurðarnefndin hefur ekki forsendur til að vefengja staðhæfingu Isavia ohf. og verður því að vísa kærunni frá að þessu leyti sbr. 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga.

Með vísan til alls framangreinds verður niðurstaða málsins svo sem segir í úrskurðarorði.    

Úrskurðarorð:

Isavia ohf. ber að veita kæranda, Kaffitári ehf., aðgang að eftirfarandi blaðsíðum, í heild sinni, í málsgögnum sem tekin hafa verið saman af Isavia ohf. vegna beiðni Kaffitárs ehf., dags. 5. desember 2016, um aðgang að gögnum: Blaðsíður 56, 59, 94, 106-107, 108-109, 143, 145-148, 155-156, 167-170, 202, 211-236, 239-244, 267-292, 298-320, 325-348, 353-359, 360-384, 386-388, 389-391, 392-409 og 457-458. Veita skal aðgang að blaðsíðum 256-258 í heild sinni að undanskildum nöfnum mannauðsstjóra og fjármálastjóra á blaðsíðu 257.

Staðfest er synjun Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017, að því er varðar hluta þeirra upplýsinga sem fram koma á eftirfarandi blaðsíðum í málsgögnum sem tekin hafa verið saman vegna beiðni fyrirtækisins, dags. 5. desember 2016, um aðgang að gögnum: Blaðsíður 81, 86 og 87, 99, 118-119, 144, 166, 206, 237-238, 293-294, 321, 323, 349, 385 og 410.

Að því er varðar 4. tölulið beiðni kæranda, dags. 5. desember 2016, að öðru leyti er synjun Isavia ohf., dags. 16. janúar 2017, felld úr gildi og lagt fyrir fyrirtækið að taka beiðnina til nýrrar meðferðar.

Að öðru leyti er kæru Kaffitárs ehf. vísað frá nefndinni.

 

 

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson

varaformaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum