Hoppa yfir valmynd

Brattáss ehf.,kærir ákvörðun Fiskistofu, að veita Fengi ÞH-207 skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins þann 7. apríl 2017.

Skrifleg áminning - Afladagbækur - Færsla afladabóka - Viðurlög.

Stjórnsýslukæra

Með tölvubréfum, dags. 4. og 10. ágúst 2017, kærði Jón Þorsteinsson f.h. Brattáss ehf., Ægissíðu 11, 610 Grenivík, þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017, að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207, skipaskrárnúmer 2125 skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins þann 7. apríl 2017.Kæruheimild er í 18. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017, um að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207 (2125) skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins þann 7. apríl 2017.

Málsatvik

Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 15. maí 2017, þar sem Fiskistofa tilkynnti Brattási ehf. að stofnunin hefði mál félagsins til meðferðar og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir og senda gögn. Þar kemur fram m.a. að við skoðun á afladagbókum hjá Fiskistofu þann 8. maí 2017 hafi komið í ljós að róður Fengs ÞH-207 (2125) sem farinn hafi verið þann 7. apríl 2017 hafði ekki verið færður í afladagbók skipsins vegna aprílmánaðar 2017. Þann 7. apríl 2017 kl. 07:45 hafi báturinn haldið til grásleppuveiða frá Grenivík og komið til hafnar þar sama dag kl. 18:30 og landað þar 1.075 kg af óslægðri grásleppu, 3 kg af rauðmaga, 13 kg af óslægðum skarkola í vs-afla, 10 kg af óslægðri ýsu, 450 kg af óslægðum þorski og 163 kg af óslægðum þorski í vs-afla. Einnig var þar gerð grein fyrir því að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skuli allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stundi veiðar í atvinnuskyni halda sérstakar afladagbækur. Ennfremur er þar vísað til 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur, þar sem kemur fram að öllum skipstjórum íslenskra fiskiskipa sé skylt að halda rafræna afladagbók, 4. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar sem fjallar um afladagbækur í bókarformi þar sem kemur fram að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hefur verið að færa slíka afladagbók og 4. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar þar sem kveðið er á um að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju. Þá var þar gerð grein fyrir því að brot gegn framangreindum ákvæðum laga og reglugerða varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, og einnig gerð grein fyrir efni 24. gr. laga nr. 116/2006 þar sem kemur fram að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé fyrir mælt í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, og 15. gr. laga nr. 57/1996 þar sem kveðið er á um viðurlög við brotum á ákvæðum laganna. Fiskistofa hafi mál þetta til meðferðar. Áður en ákvörðun verði tekin um hvort beitt verði viðurlögum sé kæranda gefinn kostur á að koma að andmælum og athugasemdum sem skyldu berast Fiskistofu eigi síðar en 2. júní 2017.Með tölvubréfi, dags. 16. maí 2017, bárust Fiskistofu athugasemdir frá Jóni Þorsteinssyni, f.h. Brattáss ehf. Þar segir að við skoðun á afladagbókum hjá Fiskistofu þann 8. maí 2017 hafi komið í ljós að grásleppuróður hjá Feng ÞH-207 (2125) þann 7. apríl 2017 hafi ekki verið skráður í afladagbók skipsins. Við skoðun hjá kæranda komi fram að gleymst hafi að skrá í afladagbókina róðurinn þann dag.Með bréfi, dags. 27. júlí 2017, tók Fiskistofa ákvörðun um að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207 (2125) skriflega áminningu. Þar er vísað til málsatvikalýsingar sem gerð var grein fyrir í framangreindu bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 15. maí 2017, og einnig sömu laga og reglugerða og þar er gerð grein fyrir. Einnig kemur þar fram að samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skuli allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stundi veiðar í atvinnuskyni halda sérstakar afladagbækur. Þessi regla sé áréttuð í 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 746/2016, sbr. og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar. Þá segi í 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 746/2016 að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hafi verið að færa slíka afladagbók. Í 4. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar sé svo kveðið á um að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst sé að bryggju. Brot gegn framangreindum ákvæðum laga og reglugerða varði viðurlögum samkvæmt VI. kafla laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 24. gr. laga nr. 116/2006 sé kveðið á um að Fiskistofa skuli veita áminningar og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé fyrir mælt í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar. Í 15. gr. laga nr. 57/1996 segi að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfi hafi brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varði sviptingu veiðileyfis, skuli leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skuli svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. 15. gr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Fiskistofa hafi sent Brattási ehf. bréf, dags. 15. maí 2017, þar sem veittur hafi verið frestur til 2. júní 2017 til að koma að andmælum. Í andmælum kæranda komi fram að gleymst hafi að færa afladagbókina. Fyrir liggi í málinu að skipstjóri skipsins Fengs ÞH-207 (2125) hafi ekki fært afladagbók í veiðiferð sinni 7. apríl 2017. Telji Fiskistofa þá háttsemi varða við 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða ásamt 1. mgr. 2. gr. og 4. mgr 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur, sbr. og 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 164/2017, um hrognkelsaveiðar. Ennfremur kom þar fram að Fiskistofa meti brotið sem fyrsta minni háttar brot samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Þá kom þar fram að ákvörðunin væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins innan eins mánaðar frá því að kæranda barst ákvörðunin samkvæmt 18. gr. laga nr. 57/1996 og einnig kom þar fram að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

Málsástæður í stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru sem barst barst ráðuneytinu með tölvubréfum, dags. 4. og 10. ágúst 2017, kærði Jón Þorsteinsson. f.h. Brattáss ehf. þá ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017, að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207 (2125) skriflega áminningu.Í stjórnsýslukærunni segir að kæranda hafi láðst að skrá veiðiferð á grásleppu í afladagbók þann 7. apríl 2017 og staðfest það í andmælum í tölvubréfi til Fiskistofu, dags. 16. maí 2017. Þar hafi komið fram að kærandi hafi gleymt að færa afladagbókina í umrætt sinn, í fyrsta skipti frá upphafi þegar farið hafi verið að færa afladagbækur. Kærandi telji að þetta sé of harður dómur og geti illa sætt sig við að hafa ítrekunaráhrif vegna úrskurðarins í gildi næstu tvö ár.Með bréfi, dags. 26. september 2017, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um málið, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.Í umsögn Fiskistofu, dags. 9. október 2017, segir m.a. að ekki sé ágreiningur um málsatvik en kæranda hafi verið veitt skrifleg áminning þar sem hann hafði gleymt að færa einn róður í afladagbók. Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996 komi fram að við fyrsta minni háttar brot skuli Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu. Reglan feli í sér matskennda ákvörðun að því leyti að það sé látið í hendur stjórnvaldi að meta að nokkru leyti hvað sé „minniháttar“ brot. Af því leiði samkvæmt eðlilegri rökleiðslu að sum brot geti verið svo smávægileg að þau flokkist ekki undir skilgreininguna „minniháttar“. Sé það hins vegar mat stjórnvaldsins, að um sé að ræða minniháttar brot, þá sé mælt fyrir um að veita skuli útgerð áminningu. Þegar staðið sé frammi fyrir mati á því hvort um minniháttar brot sé að ræða eða ekki, sé rétt að huga að lögskýringargögnum sem komu fram í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að lögum nr. 163/2006 og fjalli um áminningu skv. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 57/1996. Þar segi að við ákvörðun þess hvort um minni háttar brot teljist vera að ræða í skilningi þessara lagaákvæða sé eðlilegt að litið verði m.a. til þess hvort ætla megi að brot hafi í för með sér umtalsverðan ávinning fyrir hlutaðeigandi útgerð og/eða tengda aðila, hversu mikilvægum hagsmunum brot ógni og hvort það hafi verið framið af ásetningi eða gáleysi. Það megi fallast á að það að gleyma að færa einn róður á smábáti raski ekki framangreindum hagsmunum. Hins vegar hafi sú framkvæmd viðgengist að telja slíkt til minni háttar brota, óháð stærð báts eða ávinningi, hagsmunum eða ásetningi en það komi til skoðunar að breyta þessari framkvæmd. Það verði að horfa til 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um meðalhóf, sérstaklega þegar til grundvallar liggi mat á eðli brotsins, þ.e. hvort brot flokkist sem minni háttar eða ekki. Eins verði að líta til forsögu hins brotlega, þ.e. hvort hann eigi sér brotasögu eða þá háttsemi að fara ekki að leiðbeiningum. Ekki virðist vera slíku til að dreifa í þessu máli. Þá vísar Fiskistofa til úrskurðar atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í máli ANR17040044/0.07, dags. 30. júní 2017.Umsögn Fiskistofu fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017. 2) Bréf Fiskistofu, dags. 15. maí 2017. 3) Brotaskýrsla veiðieftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 8. maí 2017, ásamt ljósriti af afladagbók, vigtarnótu og mynd með upplýsingum um feril skipsins. 4) Tölvubréf Jóns Þorsteinssonar til Fiskistofu, dags. 16. maí 2017. Með bréfi, dags. 16. október 2017, sendi ráðuneytið kæranda ljósrit af framangreindri umsögn Fiskistofu, dags. 9. október 2017, og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við umsögnina.Með tölvubréfi, dags. 18. október 2017, frá Brattási ehf., upplýsti kærandi að félagið geri ekki athugasemdir við umsögn Fiskistofu, dags. 9. október 2017. 

RökstuðningurI. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu þann 10. ágúst 2017, með tölvubréfi, dags. sama dag en einnig hafði ráðuneytinu borist kvörtun frá kæranda með tölvubréfi, dags. 4. ágúst 2017, sem ráðuneytið svaraði með bréfi, dags. 8. ágúst 2017. Kærufrestur í málinu sem er einn mánuður, sbr. 18. gr. laga nr. 57/1996, var því ekki liðinn þegar stjórnsýslukæran barst ráðuneytinu.
II. Hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 27. júlí 2017, um að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207 (2125) skriflega áminningu byggir á því að brot kæranda samkvæmt framangreindum lögum nr. 57/1996 hafi verið fólgið í því að afladagbók skipsins Fengs ÞH-207 (2125) hafi ekki verið færð fyrir eina veiðiferð þann 7. apríl 2017.Ákvörðunin er byggð á því að með framangreindri háttsemi hafi verið brotið gegn 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur, sem sett er samkvæmt heimild í 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en í umræddu lagaákvæði segir m.a.:
„Skal reglugerð kveða nánar á um þær upplýsingar sem skrá skal í afladagbækur, form þeirra og skil til Fiskistofu.“ ( http://www.althingi.is/lagas/146a/2006116.html
Það hefur verið gert með reglugerð nr. 746/2016, um afladagbækur, en í 6. gr. reglugerðarinnar eru talin upp þau atriði sem skrá skal í afladagbækur. Ákvæði 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, er svohljóðandi: 
"Í lok hverrar veiðiferðar og áður er lagst er að bryggju skal afladagbók skips vera að fullu færð." 
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skulu allir skipstjórnarmenn veiðiskipa sem stunda veiðar í atvinnuskyni halda sérstakar afladagbækur. Einnig segir í 4. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur, að afladagbók á bókarformi skuli ávallt vera um borð í þeim fiskiskipum þar sem heimilað hafi verið að færa slíka afladagbók. Þá segir í 4. mgr. 7. gr. sömu reglugerðar að afladagbókin skuli vera að fullu færð í lok hverrar veiðiferðar og áður en lagst er að bryggju.Fyrir liggur í málinu að skipstjóri skipsins Fengs ÞH-207 (2125) færði ekki afladagbók í veiðiferð sinni þann 7. apríl 2017.Af hálfu kæranda hefur því ekki verið mótmælt að afladagbók skipsins hafi ekki verið færð fyrir umrædda veiðiferð þann 7. apríl 2017 en því borið við að hann hafi gleymt að færa afladagbókina.Þegar litið er til framanritaðs verður að telja að kærandi í máli þessu hafi brotið gegn 1. mgr. 17. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 4. mgr. 7. gr. reglugerðar nr. 746/2016, um afladagbækur.
III. Brot gegn þeim ákvæðum sem fjallað er um í II. kafla hér að framan varða viðurlögum samkvæmt 24. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Þar er kveðið á um að Fiskistofa skuli beita áminningum og svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef brotið sé gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim eftir því sem nánar sé mælt fyrir um í lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar.Í 15. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, er svohljóðandi ákvæði: 
"Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim.Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu."( http://www.althingi.is/lagas/142/1996057.html )
Í framangreindu ákvæði 15. gr. laga nr. 57/1996 kemur fram að Fiskistofa skal svipta skip leyfi til veiða í atvinnuskyni ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta minni háttar brot er Fiskistofu þrátt fyrir framangreint ákvæði heimilt í stað þess að svipta skip leyfi að veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.Eins og atvikum þessa máls er háttað teljast skilyrði framangreinds ákvæðis vera uppfyllt og samkvæmt því ekki forsendur til að fallast á kröfu kæranda um að víkja frá beitingu viðurlaga. Um er að ræða fyrsta brot kæranda en útgerð skipsins, áhöfn eða aðrir sem í þágu útgerðarinnar starfa hafa ekki samkvæmt gögnum málsins áður orðið uppvís að brotum sem þýðingu hafa við úrlausn þessa máls.Þegar litið er til þessa er fallist á það með Fiskistofu að um minni háttar brot sé að ræða sem varði viðurlögum samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 116/2006.Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017, um að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207 (2125) skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins þann 7. apríl 2017.Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 27. júlí 2017, um að veita Brattási ehf., útgerð skipsins Fengs ÞH-207, skipaskrárnúmer 2125 skriflega áminningu fyrir að hafa ekki fært afladagbók í veiðiferð skipsins þann 7. apríl 2017.

Fyrir hönd sjávarrúvegs- og landbúnaðrráðherra

 

Jóhann Guðmundsson

 

Sigríður Norðmann

 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira