Hoppa yfir valmynd

Nr. 64/2017 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 64/2017

 

 

Kostnaðarskipting. Þakgluggar.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

     Með bréfi, dags. 13. september 2017, beindi húsfélagið A 16–28, hér eftir nefnt álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

     Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994.

     Auk álitsbeiðni var greinargerð gagnaðila, dags. 3. október 2017, lögð fyrir nefndina. Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 12. janúar 2018.

 

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

     D16–28 er sjö íbúða raðhús. Álitsbeiðandi er húsfélag eignarinnar og gagnaðilar eru eigendur eins eignarhluta. Ágreiningur er um skiptingu kostnaðar vegna skipta á gluggum á þaki húss gagnaðila.

 

Kröfur álitsbeiðanda eru:

 

Að viðurkennt verði að gagnaðilar skuli ein bera kostnað við skipti á þakgluggum á húsi sínu.

 

     Í álitsbeiðni kemur fram að allir eigendur ofangreinds sjö íbúða raðhúss við D hafi samþykkt á húsfundi, 7. maí 2017, þakviðgerð á íbúðum D 22 og 24 vegna leka. Í tilboði hafi verið gert ráð fyrir 3.000.000 kr. kostnaði við verkið en að vinna við gluggaskipti á eign gagnaðila yrði unnin sem aukaverk í tímavinnu og að greitt yrði sérstaklega fyrir þá vinnu. Ágreiningur sé nú með aðilum um hvernig skipta beri kostnaði vegna þakglugganna. Álitsbeiðandi telji að gagnaðilar skuli ein bera þann kostnað með vísan til 9. gr. fjöleignarhúsalaga, nr. 26/1994, þar sem segi að við úrlausn þess hvort um sameign eða séreign sé að ræða eigi að líta til þess hvernig staðið hafi verið að byggingu hússins eða viðkomandi hluta þess og hvernig byggingarkostnaði hafi verið skipt. Álitsbeiðandi telji að þar sem hver eignarhluti hafi í upphafi kostnað byggingu síns hluta teljist gluggar á húsi gagnaðila séreign þeirra. Þá hafi tíðkast í húsinu að hver eigandi bæri kostnað af sínum eignarhluta, svo sem gluggaskiptum. Aðeins séu þakgluggar á þremur eignarhlutum af sjö.

 

            Í greinargerð gagnaðila segir að í tilboði verktakans sem annaðist viðgerð á þakinu hafi komið fram að hann myndi vinna við gluggaskipti á eign gagnaðila og að fyrir þá vinnu yrði greitt sérstaklega. Allir eigendur hússins hafi samþykkt tilboðið skriflega. Þakgluggar á eign gagnaðila voru ónýtir og nauðsynlegt að skipta þeim út enda ekki unnt að gera við leka frá þakinu öðruvísi. Gluggaskiptin hafi verið óhjákvæmileg og eigi að vera sameiginlegur kostnaður eigenda. Gluggarnir séu hluti af þakinu og fara eigi með kostnað vegna vinnu við þá skv. 8. gr. fjöleignarhúsalaga. Með vísan til skilgreiningar laganna á hugtökunum sameign og séreign beri gagnaðilum þannig að greiða þann hluta sem sé inni í séreignarhluta þeirra, þ.e. glerið í gluggunum sjálfum og vinnu við þann gluggabúnað sem sé inni í séreign. Álitsbeiðanda beri að greiða kostnað við vinnu við ytri gluggaumbúnað og kostnaði skuli skipt eftir hlutfallstölum í sameign. Gagnaðilar hafi sjálf greitt glerið í gluggana og á reikningi sé sundurliðað hvað sé kostnaður við vinnu við gluggana að utan og hvað sé kostnaður vegna vinnu innan íbúðar.    

III. Forsendur

Ágreiningur er um hvort kostnaður við skipti á ytri umbúnaði á þakgluggum íbúðar gagnaðila skiptist á alla eigendur. Ákvæði 3. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, kveður á um að allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, falli undir sameign fjöleignarhúss. Kærunefnd hefur í fyrri álitsgerðum talið að ytri gluggaumbúnað, sbr. ákvæði 3. tölul. 8. gr., beri að skýra sem þann hluta gluggans sem liggi utan glers. Kostnaður við viðhald á ytri gluggaumbúnaði sé þannig sameiginlegur kostnaður allra eigenda hússins, sbr. 1. tölul. 43. gr. laganna. Um skiptingu hans fer samkvæmt meginreglu A-liðar 1. mgr. 45. gr. laganna um skiptingu samkvæmt eignarhlutföllum. Er þannig ekki unnt að fallast á kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðilar beri ein kostnað vegna skipta á þakgluggum sem teljast til sameiginlegs ytra byrðis hússins.

 

Sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, fellur aftur á móti undir séreign viðkomandi íbúðareiganda, sbr. 5. tölul. 5. gr. laganna, og kostnaður við viðhald á honum er með sama hætti sérkostnaður viðkomandi íbúðareiganda, sbr. 50. gr. laga nr. 26/1994. Þetta á þó ekki við ef viðhaldsþörf þar stafar af orsökum sem háðar eru sameiginlegu viðhaldi ytra byrðis hússins heldur er húsfélag þá ábyrgt gagnvart einstökum eigendum og afnotahöfum, sbr. 52. gr. laganna.

 

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að deila beri kostnaði við skipti á ytri umbúnaði á þakgluggum gagnaðila á alla eigendur eftir hlutfallstölum eignarhluta þeirra í sameign.

 

 

Reykjavík, 12. janúar 2018

 

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson                                                                  Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum