Hoppa yfir valmynd

723/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Úrskurður

Hinn 9. febrúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 723/2018 í máli ÚNU 17050010.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 22. maí 2017, kærði A, f.h. Landverndar, synjun Umhverfisstofnunar, dags. 8. maí 2017, á beiðni um aðgang að gögnum í vörslum stofnunarinnar. Þann 11. apríl 2017 fór kærandi þess á leit við stofnunina að veittur yrði aðgangur að gögnum um samning Landsnets og Umhverfisstofnunar um sérstakt eftirlit stofnunarinnar vegna framkvæmda við Þeistareykjalínu 1 og Kröflulínu 4. Óskað var eftir afriti samningsins sjálfs auk allra gagna um framkvæmd eftirlitsins, annarra gagna málsins og lista yfir málsgögn. Með tölvupósti, dags. 19. apríl 2017, var kæranda veittur aðgangur að samningnum auk þess sem veittar voru upplýsingar um framkvæmd eftirlits með framkvæmdunum. Með tölvupósti, dags. 26. apríl 2017, ítrekaði kærandi beiðni sína um öll gögn málsins en ekki hafi borist listi úr málaskrá, gögn um samskipti við verkkaupa og verktaka á hans vegum svo sem tölvupóstssamskipti, skrá um símtöl eða önnur skráning vegna fyrirhugaðra eftirlitsferða. Slík gögn hljóti að vera fyrirliggjandi. Þá megi ætla að ráðleggingar til verkkaupa séu með einhverjum hætti skráðar. Einnig megi ætla að einhvers konar vinnustundabókhald liggi fyrir auk útgefinna reikninga. Samdægurs fékk kærandi sendan reikning vegna eftirlits sem Umhverfisstofnun sendi Landsneti. Með tölvupósti, dags. 5. maí 2017, ítrekaði kærandi gagnabeiðni sína. Með tölvupósti, dags. 8. maí 2017, svaraði Umhverfisstofnun kæranda því að ekki væri um fleiri gögn að ræða.

Í kæru er tekið fram að kærð sé synjun Umhverfisstofnunar um aðgang að lista yfir málsgögn og öllum gögnum máls vegna eftirlitssamnings stofnunarinnar við Landsnet frá 18. maí 2016 vegna Kröflulínu 4 og Þeistareykjalínu 1 sem ekki hafi verið afhent kæranda. Nánar tiltekið sé beðið um alla tölvupósta, munnleg og skrifleg samskipti við samningsaðila Umhverfisstofnunar, Landsnet og aðra aðila er málinu tengjast, þar með talið eftirlitsaðila Landsnets og verktaka Landsnets, auk annarra gagna um aðdraganda samningsins og framkvæmd hans á gildistíma hans.

Kærandi segist líta svo á að Umhverfisstofnun hafi synjað um afhendingu annarra gagna sem málinu tengjast en ekki sé unnt að fallast á að engin frekari gögn séu til. Það leiði af eðli máls að frekari gögn hljóti að finnast í einhverju formi, annað hvort hjá kæranda sjálfum eða hjá öðrum aðilum. Þannig hafi því í raun verið hafnað að afhenda kæranda m.a. málaskrá, tölvupósta, munnleg og skrifleg samskipti við leyfishafa, Landsnet og aðra aðila er málinu tengjast, auk annarra gagna sem tengjast málinu.

Kærandi byggir á því að öll gögn sem óskað var aðgangs að heyri undir lög nr. 23/2006 um upplýsingarétt um umhverfismál, sbr. 3. tl. 3. gr. laganna og að afhenda beri bæði gögn sem séu í fórum kærða sjálfs og annarra, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Kærandi telur að gögn málsins geti ekki verið undanþegin upplýsingarétti með vísan til ákvæða laga nr. 140/2012. Undanþága um vinnugögn geti ekki átt við heldur beri kærði skýlaus skylda bæði til að halda gögnum til haga og afhenda þau þegar um umhverfismál sé að ræða. Enga heimild sé að finna í lögum nr. 23/2006 til að afhenda ekki málaskrá og önnur gögn. Kærði hafi ekki skýrt af hverju kærandi hafi ekki fengið afhenta útprentun úr málaskrá eða önnur gögn. Því hafi aðeins verið haldið fram að gögnin væru ekki til. Kærða beri að halda skrá um mál og varðveita málsgögn þannig að þau séu aðgengileg en um kærða gildi reglur IV. kafla laga nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn hvað varði skráningu, skjalastjórn og skjalavörslu. Þá gildi 2. mgr. 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 um kærða.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 24. maí 2017, var kæran kynnt Umhverfisstofnun og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Umsögn Umhverfisstofnunar er dagsett 13. júní 2017. Þar segir m.a. að Umhverfisstofnun hafi upplýst kæranda um að ákveðið hafi verið að víkja frá ákvæði samnings Umhverfisstofnunar og Landsnets um að skila skuli skýrslu eftir hverja eftirlitsferð. Einnig hafi verið gerð grein fyrir því að Umhverfisstofnun ráðgerði að nota svipuð vinnubrögð og við frágang við Kárahnjúkavirkjun, þ.e. að við lok jarðvinnu yrðu teknar saman ábendingar um hvað mætti betur fara. Að frágangi loknum muni fara fram umhverfisúttekt á vegum Landsnets þar sem unnt verði að koma á framfæri frekari ábendingum um frágang. Því liggi ekki fyrir eftirlitsskýrslur.

Tekið er fram að beiðni kæranda um lista yfir málsgögn hafi ekki verið gefinn gaumur en úr því hafi verið bætt. Ekki hafi verið stofnað mál í málaskrá stofnunarinnar um framkvæmd samningsins en hins vegar hafi verið stofnað mál um samningsgerðina og hafi öll gögn þess máls verið send kæranda. Umhverfisstofnun hafi sent kæranda þau skilaboð með tölvupósti, dags. 9. júní 2017, að skilningur stofnunarinnar á beiðni um skrá yfir símtöl væri að um væri að ræða yfirlit yfir símtöl úr síma sérfræðings til Landsnets. Ekki hafi borist athugasemdir við þennan skilning. Slíkt yfirlit sé ekki fyrirliggjandi hjá Umhverfisstofnun, sbr. 5. gr. laga nr. 23/2006. Þá kemur fram að Landvernd hafi þann 12. júní 2017 fengið senda verkskýrslu fyrir verkefnið sem keyrð hafi verið úr verkbókhaldskerfi Fjársýslu ríkisins. Auk þess hafi verið gerð grein fyrir framkvæmd eftirlitsins á fundi með Landvernd. Stofnunin telur því að veittar hafi verið munnlegar upplýsingar um eftirlitið. Þá upplýsir stofnunin að fundist hafi tvö tölvuskeyti sem varði samninginn og þau send kæranda þann 7. júní 2017. Haft hafi verið samband við byggingafulltrúa Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar og byggingafulltrúa Norðurþings til að kanna hvort einhver gögn væru þar að finna. Byggingafulltrúi Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar hafi sagt samskipti einkum hafa verið í formi samtala fyrir utan punkta frá fundi, dags. 30. júní 2016. Ekki væru fyrirliggjandi gögn um framkvæmd eftirlitsins hjá Norðurþingi skv. upplýsingum byggingafulltrúa. Umhverfisstofnun geri ekki ráð fyrir að ítarlegri gögn finnist hjá öðrum. Tölvuskeyti, þar sem óskað hafi verið afstöðu viðkomandi sveitarfélaga til samningsins, hafi verið send kæranda þann 7. og 8. júní 2017. Þá hafi kærandi fengið senda aðra tölvupósta en þá sem tilheyrðu máli um undirbúning samningsins ásamt yfirliti úr málaskrá.

Umsögn Umhverfisstofnunar var kynnt kæranda með bréfi, dags. 19. júní 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem kemur fram í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Úrskurðarnefndin hefur haft hliðsjón af öllum gögnum málsins við úrlausn þess.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Umhverfisstofnunar á beiðni kæranda um aðgang að gögnum. Í umsögn Umhverfisstofnunnar er því borið við að kæranda hafi verið afhent gögn eftir að kæra barst úrskurðarnefnd um upplýsingamál og að engin frekari gögn séu fyrirliggjandi.

Réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur til þeirra gagna sem fyrirliggjandi eru þegar beiðni um aðgang berst, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um upplýsingarétt um umhverfismál nr. 23/2006 og 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. laga nr. 23/2006 og 20. gr. laga nr. 140/2012 er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum og synjunar á beiðni um að afhenda gögn á tiltæku formi. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu Umhverfisstofnunar að ekki séu önnur gögn í vörslum hennar sem heyra undir gagnabeiðni kæranda en þau sem þegar hafa verið afhent. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá. Nefndin tekur fram að með þessu er ekki tekin afstaða til þess hvort Umhverfisstofnun hafi sinnt skyldum sínum um skráningu mála og vistun gagna, sbr. 26. og 27. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 og lög nr. 77/2014 um opinber skjalasöfn. Það kemur eftir atvikum í hlut annarra aðila að hafa eftirlit með því hvort stjórnvöld sinni þessum skyldum með fullnægjandi hætti, einkum æðri stjórnvalda, dómstóla og umboðsmanns Alþingis.

Úrskurðarorð:

Kæru A, f.h. Landverndar, dags. 22. maí 2017, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum