Hoppa yfir valmynd

726/2018. Úrskurður frá 9. febrúar 2018

Úrskurður

Hinn 9. febrúar kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 726/2018 í máli ÚNU 18010001.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 2. janúar 2018, kærði A afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni hans um aðgang að gögnum. Beiðni kæranda snýr að tilteknum upplýsingum um akstursgjöld til alþingismanna.

Eins og þetta mál er vaxið taldi úrskurðarnefndin óþarft að beita heimild 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 til að veita skrifstofu Alþingis kost á að láta nefndinni í té rökstutt álit á málinu eða afrit af þeim gögnum sem kæra lýtur að. Þá þykir óþarft að rekja það frekar sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir meðal annars að undir ákvæðið falli einvörðungu þeir aðilar sem falið er að fara með stjórnsýslu og teljast til handhafa framkvæmdarvalds í ljósi þrískiptingar ríkisvaldsins. Undir ákvæðið falli ekki aðrir opinberir aðilar, t.d. dómstólar og stofnanir Alþingis. Eðlilegt kunni þó að vera að þessir aðilar hagi störfum sínum þannig að þeir fylgi sambærilegum reglum og fram koma í upplýsingalögum.

Að framansögðu er ljóst að starfsemi Alþingis og stofnana þess fellur utan gildissviðs upplýsingalaga. Það á við þótt Alþingi virðist í einhverjum mæli horfa til laganna þegar því berast beiðnir um afhendingu gagna. Þar sem ekki er unnt að óska aðgangs að gögnum hjá Alþingi á grundvelli laganna er heldur ekki unnt að kæra synjun Alþingis um afhendingu tiltekinna gagna til úrskurðarnefndar um upplýsingamál á grundvelli 20. gr. þeirra. Með vísan til framangreinds ber að vísa máli þessu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 2. janúar 2018, vegna afgreiðslu skrifstofu Alþingis á beiðni um aðgang að gögnum er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum