Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 7/2018

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

Úrskurður

uppkveðinn 13. mars 2018

í máli nr. 7/2018 (frístundahúsamál)

A

gegn

B

Þriðjudaginn 13. mars 2018 var ofangreint mál tekið fyrir í kærunefnd húsamála og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður.

Kærunefndina skipa í málinu Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur.

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili: A, leigutaki hluta lóðar nr. X, í landi C.

Varnaraðili: B, eigandi lóðar nr. X.

Krafa sóknaraðila er að kærunefnd húsamála úrskurði hæfilegt leigugjald fyrir X fermetra spildu úr lóðinni C síðastliðin X ár og til framtíðar næstu 20 ár.

Þann 2. febrúar 2018 barst kærunefnd húsamála kæra sóknaraðila, dags. 29. janúar 2018.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að sóknaraðili hefur síðustu X ár haft afnot af hluta lóðar nr. X, í landi C, samkvæmt munnlegum samningi aðila án þess að náðst hafi samkomulagi um hæfilegt árlegt leiguverð.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili greinir frá því að lóðir nr. X og X við C hafi verið í sameiginlegri leigu hjá D. Skiptingin á spildunum hafi verið í hlutföllunum 2,3/7,5, 2,6/7,5 og 2,6/7,5. E hafi afsalað sér eignarrétti að lóðunum til tiltekins einstaklings sem hafi afsalað þeim til varnaraðila við hjónaskilnað þeirra.

Aðilar séu sammála um að sóknaraðili leigi lóðina af varnaraðila og að skjóta deilunni til kærunefndar húsamála til afgreiðslu og úrskurðar.

III. Niðurstaða

Eftir því sem segir í kæru sóknaraðila hafa aðilar ekki gert skriflegan leigusamning um lóð varnaraðila en sóknaraðili hefur haft afnot hennar síðustu X ár. Aðilar hyggjast gera skriflegan leigusamning um téða lóð og óska þess að kærunefnd húsamála ákvarði leigugjaldið.

Kærunefnd húsamála er á grundvelli laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús, nr. 75/2008, í tveimur tilvikum veitt heimild til að ákvarða leigugjald með bindandi hætti fyrir aðila leigusamnings um lóð undir frístundahús. Í 1. mgr. 12. gr. laganna segir að eingöngu sé hægt að skjóta máli samkvæmt þeirri grein til kærunefndar húsamála að frístundahús standi á lóð tveimur árum áður en uppsögn ótímabundins samnings tekur gildi, sbr. 1. mgr. 10. gr., eða tveimur árum áður en tímabundinn samningur hefði fallið úr gildi skv. 2. mgr. 10. gr. Í 1. tölul. 5. mgr. sömu greinar segir að nú hafi leigusali nýtt sér málskotsrétt sinn og geti hann þá fyrir kærunefnd húsamála haft uppi kröfu um hver skuli vera ársleiga í framlengdum leigusamningi, sbr. 13. gr. laganna. Í ákvæðinu er þannig kveðið á um að kærunefnd húsamála leggi mat á ársleigu í tilvikum þar sem leigusamningur hefur verið framlengdur á grundvelli 12. gr. laganna. Það á ekki við í því máli sem hér um ræðir.

Þá segir í 10. mgr. 12. gr. laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús að hafi aðilar samnings hvenær sem er á leigutíma gert samning um áframhaldandi leigu, um kaup leigutaka á lóð eða um innlausn leigusala en ekki náð samningum um verð geti þeir sameiginlega skotið máli sínu til kærunefndar og haft uppi kröfur um fjárhæð leigu, innlausnarverð eða kaupverð, sbr. 13.-15. gr. Kærunefnd telur að heimild þessi sé bundin við að leigusamningur hafi þegar verið gerður og aðilar vilji semja um áframhaldandi leigu. Í 1. mgr. 3. gr. laga um frístundabyggð segir að leigusamningur um lóð undir frístundabyggð skuli vera skriflegur, auk þess sem fjárhæð leigunnar skuli koma fram í samningi skv. 4. tölulið 2. mgr. ákvæðisins. Þar sem aðilar málsins hafa ekki gert leigusamning á grundvelli laga um frístundabyggð um téða lóð verður ekki lagt mat á ársleigu á grundvelli þessa ákvæðis, þrátt fyrir að aðilar hafi sameinast um að skjóta málinu til kærunefndar.

Að framangreindu virtu telur kærunefnd ljóst að ágreiningur í máli þessu heyrir ekki undir ákvæði laga um frístundabyggð og leigu lóða undir frístundahús. Kæru sóknaraðila ber því að vísa frá.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kæru sóknaraðila, dags. 29. janúar 2018, er vísað frá kærunefnd húsamála.

Reykjavík, 13. mars 2018

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum