Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 80/2017

Endurgreiðsla tryggingarfjár.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 80/2017

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 20. nóvember 2017, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnd gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 5. febrúar 2018, og athugasemdir álitsbeiðanda, mótteknar 13. febrúar 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar þann 13. mars 2018.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Með leigusamningi, dags. X 2015, tók álitsbeiðandi á leigu herbergi í eigu gagnaðila að C. Um var að ræða tímabundinn leigusamning frá X 2015 til X 2016, sem var síðar framlengdur til X 2017. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé að fjárhæð X kr.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðili hafi ekki endurgreitt álitsbeiðanda tryggingarfé að fullu eftir uppsögn hennar á samningi aðila og flutning úr hinu leigða. Gagnaðili hafi haldið eftir X kr. af tryggingarfénu sem hafi verið samtals X kr.

Eftir að álitsbeiðandi hafi flutt út í X, eins og samið hafi verið um við gagnaðila, hafi hún sent fjölmarga tölvupósta þar sem beðið hafi verið um endurgreiðslu tryggingarfjárins en engin svör fengist. Þann 26. september hafi álitsbeiðandi loks fengið X kr. endurgreiddar. Í kjölfarið hafi gagnaðili í langan tíma hvorki svarað tölvupóstum né síma en álitsbeiðandi að lokum fengið tölvupóst þess efnis að hún hafi ekki hreinsað herbergið og þess vegna hafi gagnaðili haldið eftir X kr. af tryggingarfénu.

Í greinargerð gagnaðila kemur fram að meðfylgjandi sé uppsagnarbréf álitsbeiðanda. Gagnaðili hafni því að hafa ekki endurgreitt álitsbeiðanda tryggingu. Þær hafi verið búnar að setja niður tíma til að hittast í lok leigutíma, en álitsbeiðandi aldrei haft tíma til þess og farið til útlanda. Þá hafi álitsbeiðandi skilið eftir hillur á veggjum og fleira, sem gagnaðili hafi þurft að taka niður og henda, auk þess að spartla og mála.

III. Forsendur

Deilt er um uppgjör við lok leigutíma. Álitsbeiðandi greiddi gagnaðila X kr. í tryggingarfé í upphafi leigutíma. Aðilar komust að samkomulagi um lok leigutíma X 2017. Gagnaðili hefur þegar endurgreitt álitsbeiðanda X kr. af tryggingarfénu en heldur eftir eftirstöðvunum á þeim forsendum að þrifum hafi verið ábótavant við lok leigutíma og hún þurft að mála.

Í 39. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, segir að leigusala sé rétt að krefja leigjanda um tryggingu fyrir réttum efndum á leigusamningnum, þ.e. fyrir leigugreiðslum og skaðabótum vegna tjóns á hinu leigða sem leigjandi ber ábyrgð á samkvæmt ákvæðum laganna eða almennum reglum. Samkvæmt 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. sömu laga er leigusala óheimilt að ráðstafa tryggingarfé eða taka af því án samþykkis leigjanda, nema genginn sé dómur um bótaskyldu leigjanda. Þó er leigusala jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfénu til greiðslu á vangoldinni leigu, bæði á leigutímanum og við lok hans. Tryggingarfé í vörslu leigusala skal vera verðtryggt, en ber ekki vexti. Að leigutíma loknum skal leigusali segja til um svo fljótt sem verða má hvort hann gerir kröfu í tryggingarfé eða hefur uppi áskilnað um það.

Gagnaðili heldur eftir hluta af tryggingarfénu á þeim forsendum að þrifum hafi verið ábótavant og hún hafi þurft að mála. Samkvæmt 63. gr. húsaleigulaga skal leigjandi skila húsnæði að leigutíma loknum í hendur leigusala í sama ástandi og hann tók við því. Ber leigjandi óskerta bótaábyrgð á allri rýrnun húsnæðisins eða spjöllum á því, að svo miklu leyti sem slíkt telst ekki eðlileg afleiðing venjulegrar eða umsaminnar notkunar húsnæðisins eða stafar af atvikum sem voru leigjanda sannanlega óviðkomandi. Samkvæmt 64. gr. laganna verður leigusali að lýsa bótakröfu sinni skriflega, eða hafa uppi áskilnað þar að lútandi, innan tveggja mánaða frá skilum húsnæðisins. Óumdeilt er með aðilum að leigutíma lauk X 2017. Ekki liggja fyrir gögn um að gagnaðili hafi lýst bótakröfu innan tveggja mánaða frá því tímamarki og þegar af þeirri ástæðu ber gagnaðila að skila álitsbeiðanda eftirstöðvum tryggingarfjár, X kr., ásamt verðbótum.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að gagnaðila beri að endurgreiða álitsbeiðanda tryggingarfé að fjárhæð X kr. ásamt verðbótum.

Reykjavík, 13. mars 2018

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira