Hoppa yfir valmynd

736/2018. Úrskurður frá 6. apríl 2018

Úrskurður

Hinn 6. apríl 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 736/2018 í máli ÚNU 17090007.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 25. september 2017, kærði A, blaðamaður Fréttablaðsins, synjun Ríkisútvarpsins ohf. (hér eftir RÚV) á beiðni um aðgang að sátt í máli RÚV og B. Með tölvupósti, dags. 25. september 2017, óskaði kærandi eftir upplýsingum frá RÚV varðandi það hvað sátt RÚV og B vegna stefnu hans á hendur fréttamönnum RÚV fól í sér, þar með talið hve háa greiðslu RÚV þurfti að greiða vegna málsins. Beiðninni var synjað samdægurs með vísan til þess að sáttin væri trúnaðarmál og að RÚV myndi ekki tjá sig frekar um efni hennar en það sem kæmi fram í tilkynningu lögmanns B.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. september 2017, var kæran kynnt RÚV og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og afritum af gögnum sem kæran lýtur að. Með tölvupósti, dags. 27. september 2017, svaraði RÚV því að félagið teldi sig þegar búið að veita kæranda upplýsingar. Meðfylgjandi var tölvupóstur RÚV til kæranda, dags. 25. september, þar sem fram kemur að lögmaður B hafi heimilað RÚV að upplýsa um þá fjárhæð sem félagið ætti að greiða vegna málsins. Um sé að ræða málskostnað og miskabætur, samtals að fjárhæð 2,5 milljónir króna. Með tölvupósti, dags. 27. september 2017, fór úrskurðarnefnd um upplýsingamál þess á leit við RÚV að félagið upplýsti hvort það teldi kæranda eiga rétt til aðgangs að afriti af samkomulaginu, sbr. 1. mgr. 18. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012.

Umsögn RÚV barst þann 25. október 2017. Í umsögninni kemur fram að samkomulag hafi verið gert utan réttar um lyktir einkamáls sem B höfðaði á hendur RÚV og nánar tilgreindum fréttamönnum. Málið hverfist því um það hvort upplýsingalög nr. 140/2012 standi því í vegi að RÚV geti leyst úr ágreiningi fyrir dómstólum í almennu einkamáli með sátt, í þessu tilviki utan réttar, þannig að slík sátt sé bundin trúnaði, og svo sem algengt sé þegar lyktir dómsmála séu annars vegar. RÚV bendir á að aðilar dómsmála telji það oft þjóna hagsmunum sínum að leiða erfið og viðkvæm mál til lykta með samkomlagi sín á milli, sem feli í sér endanleg málalok og jafnframt þannig að þau séu bundin trúnaði. Ef ekki sé hægt að tryggja slíkan trúnað geti það, a.m.k. í einhverjum tilvikum, staðið slíkum málalyktum í vegi. Í þessu samhengi sé jafnframt þess að gæta, að þótt rekstur dómsmála fari alla jafna fram fyrir opnum tjöldum, í samræmi við meginreglu um opinbera málsmeðferð, þá séu hömlur á aðgangi almennings að gögnum dómsmáls. Um slíkan aðgang fari í grunninn eftir 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála en ekki upplýsingalögum. Þá hafi þegar verið upplýst um fjárhæð miskabóta og málskostnaðar sem samkomulagið fól í sér, ásamt því að lögmaður stefnanda sendi frá sér stutta fréttatilkynningu þar sem málalokum var lýst í samræmi við samkomulagið.

RÚV telur áhöld vera um hvort samkomulagið falli undir gildissvið upplýsingalaga, hvað þá þegar búið er að upplýsa um fjárhæðir. Sé þá haft í huga að lögin taki ekki til dómsmála almennt og ekki að sjá að það eitt að samkomulag sé gert utan réttar breyti neinu í  því samhengi. Reyni því á lagaskil laga nr. 140/2012 annars vegar og laga nr. 91/1991 hins vegar, og málið að því leytinu til jafnvel fordæmisgefandi. Þá er tekið fram að RÚV telji eðlilegt að hinum aðila samkomulagsins sé gefinn kostur á að tjá sig um beiðnina, þ.m.t. hvort hann sé samþykkur því að aðgangur sé veittur að því í ljósi 9. gr. laga nr. 140/2012. Hafi því afrit af erindinu verið sent lögmanni stefnanda.

Umsögn RÚV var kynnt kæranda með bréfi, dags. 30. október 2017, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Kærandi svaraði samdægurs. Í athugasemdum kæranda kemur m.a. fram að kæran byggi á því grundvallarsjónarmiði að fjölmiðlar gæti gagnsæis í sínum fréttaflutningi. Þetta eigi ekki síst við um ríkisrekinn fjölmiðil en tilveruréttur slíks reksturs hljóti að vera sá að þar séu fagleg sjónarmið höfð í fyrirrúmi. Málið snúi með beinum hætti að almannahagsmunum. Það geti ekki verið samningsatriði hvort fréttaflutningur sé réttur eða rangur. Ef frétt er röng eða vafasöm í einhverjum atriðum eigi almenningur rétt á því að vita það. Þá eigi fjölmiðill engan annan kost en að draga fréttina til baka eða leiðrétta hana og biðjast velvirðingar. Ef fréttastofa sjái ekkert athugavert við vinnubrögð sín, úrvinnslu og frétt hljóti hún að standa við hana. Fyrirspurnin um eðli samkomulagsins snúi að þessu. Engu skipti þó fengist hafi upplýsingar um fjárhæð miskabóta sem RÚV greiddi. Slík atriði geti ekki verið afstæð og samningsatriði milli lögmanna og þeirra sem reka fréttastofuna. Þetta snúi beinlínis að trúverðugleika fréttastofu allra landsmanna.

Með erindi, dags. 6. mars 2018, óskaði úrskurðarnefnd um upplýsingamál eftir afstöðu B til þess að aðgangur verði veittur að samkomulaginu. Engin svör bárust. 

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um ákvörðun RÚV um að synja beiðni kæranda, sem er blaðamaður, um aðgang að samkomulagi sem félagið gerði við B í kjölfar meiðyrðamáls sem hann höfðaði gegn félaginu.

Ákvörðun RÚV er aðallega reist á því að sáttin falli ekki undir gildissvið upplýsingalaga nr. 140/2012 heldur lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 14. gr. þeirra laga. Í 4. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er fjallað um gildissvið laganna gagnvart öðrum lögum og þjóðréttarasamningnum. Segir þar m.a. í 2. mgr. að upplýsingalög gildi ekki um þinglýsingu, aðfarargerðir, kyrrsetningu, löggeymslu, lögbann, nauðungarsölu, greiðslustöðvun, nauðasamninga, gjaldþrotaskipti, skipti á dánarbúum eða önnur opinber skipti, né heldur um rannsókn sakamáls eða saksókn. Hvergi kemur þar fram að málsskjöl í einkamáli í vörslum þeirra sem falla undir upplýsingalög séu undanþegin upplýsingalögum. Í 1. og 5. mgr. 14. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála er mælt fyrir um rétt þeirra, sem hafa lögvarinna hagsmuna að gæta, til aðgangs að staðfestu eftirriti af málsskjölum og upplýsingum úr þingbók eða dómabók. Ákvæðið veitir því rétt til aðgangs að málsskjölum í einkamáli óháð því hvort aðili málsins fellur undir gildissvið upplýsingalaga. Standa því engin rök til þess að telja málsskjöl í einkamáli í vörslum aðila sem falla undir upplýsingalög nr. 140/2012 vera undanþegin gildissviði laganna. Verður því leyst úr aðgangi kæranda að sáttinni á grundvelli 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings með þeim takmörkunum er greinir í 6.–10. gr. laganna.

Í málinu kemur til skoðunar hvort 9. gr. upplýsingalaga standi því í vegi að aðgangur verði veittur að samkomulaginu en samkvæmt 1. málsl. ákvæðisins er óheimilt að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á.  Í athugasemdum við ákvæði 9. gr. í frumvarpi til upplýsingalaga segir að vega og meta þurfi umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingarnar séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verði að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna. 

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér efni skjalsins sem ber heitið „samkomulag“ og er dagsett 22. september 2017. Í samkomulaginu fellst RÚV á að greiða tiltekna upphæð í miskabætur og lögmannskostnað gegn því að felldar verði niður kröfur á hendur félaginu. Í 4. tl. samkomulagsins er tiltekið að það skuli teljast trúnaðarmál. Í því samhengi bendir úrskurðarnefnd um upplýsingamál á að það leiðir af ákvæðum upplýsingalaga að réttur til aðgangs að upplýsingum er lögbundinn og verður ekki takmarkaður nema á grundvelli laga. Þeir sem falla undir upplýsingalög geta ekki vikið frá ákvæðum upplýsingalaga með því slíkum samningsákvæðum.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur í úrskurðarframkvæmd litið til markmiða upplýsingalaga um aðhald að opinberum aðilum og gegnsæi við meðferð opinberra hagsmuna við skýringar á undantekningarákvæðum laganna. Í samkomulagi RÚV og B felst ráðstöfun á opinberu fé sem almenningur á ríkan rétt til að kynna sér. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur ekkert koma fram í texta samkomulagsins sem getur talist til einkamálefna einstaklinga sem komið geti í veg fyrir rétt almennings til aðgangs að henni. Er þar meðal annars horft til þess að greinargóðar upplýsingar um efni samkomulagsins hafa birst opinberlega, þ. á m. af hálfu RÚV. Þetta gildir þó ekki um lítinn hluta samkomulagsins, þar sem vikið er að hugsanlegum ráðstöfunum B í framtíðinni. Um þennan hluta þykja hagsmunir hans af því að upplýsingar fari leynt vega þyngra en takmarkaðir hagsmunir almennings af því að aðgangur að þeim verði veittur. Verður því lagt fyrir RÚV að veita kæranda aðgang að samkomulaginu eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðarorð:

Ríkisútvarpinu ohf. er skylt að veita kæranda, A, aðgang að samkomulagi félagsins og B, dags. 22. september 2017. Áður ber að afmá síðustu fjórar línurnar í 3. tölul. samkomulagsins.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                      Friðgeir Björnsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum