Hoppa yfir valmynd

Nr. 31/2018 - Álit

Viðgerðir á rafmagni.

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

 

í máli nr. 31/2018

 

Viðgerðir á rafmagni.

 

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 10. mars 2018, mótteknu 10. apríl 2018, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, C og D, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994. Greinargerð gagnaðila barst ekki þrátt fyrir ítrekun kærunefndar þar um.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 28. maí 2018.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið E, alls þrjá eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi efstu hæðar hússins en gagnaðilar eru eigendur íbúða á miðhæð og kjallara. Ágreiningur er um viðgerðir á rafmagni í sameign hússins.

Krafa álitsbeiðanda er:

     Að viðurkennt verði að álitsbeiðanda sé heimilt að láta framkvæma rafmagnsviðgerðir í        sameign í samræmi við skýrslur Mannvirkjastofnunar á kostnað allra eigenda hússins,        ákvörðun húsfundar 2. mars 2018 og tiltekið kostnaðarmat.

Í álitsbeiðni kemur fram að frá árinu 2012 hafi álitsbeiðandi ítrekað reynt að koma nauðsynlegum rafmagnsviðgerðum í gegn, en gagnaðilar og fyrrum eigendur staðið í vegi fyrir því.

Þann 2. mars 2018 hafi verið haldinn löglegur húsfundur um rafmagnsmálin. Áður hafi álitsbeiðandi boðað og haldið fjóra löglega fundi um þessi mál og nauðsynlegar viðgerðir á húsi. Gagnaðilar hafi hunsað alla fundi um rafmagnið. Enn hafi engar viðgerðir farið fram á biluðu og hættulegu rafmagni.

Hætta sé á neista og rafsjokki samkvæmt tveimur skýrslum Mannvirkjastofnunar, dags. 14. ágúst 2012 og 8. apríl 2016. Einnig samkvæmt niðurstöðu yfirmanns í rafmagnsöryggissviði Mannvirkjastofnunar, sbr. bréf hans dags. 4. janúar 2017.

Lífi fólks sé þannig stofnað í hættu og húsinu í heild. Þá sé álitsbeiðandi ósátt við að greiða úr eigin vasa fyrir nauðsynlega fundi, matsmann og lögmann svo og ryðstíflur í sameiginlegu niðurfallsröri vegna andstöðu gagnaðila við nauðsynlegar viðgerðir.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi greinir frá því að ágreiningur sé á milli eigenda hússins um rafmagn í sameign. Hún lýsir því að gagnaðilar hafi neitað að samþykkja viðgerð á rafmagninu þrátt fyrir niðurstöðu Mannvirkjastofnunar um að rafmagnsbilun sé fyrir hendi. Gagnaðilar hafa ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því þessi málflutningur álitsbeiðanda lagður til grundvallar niðurstöðu málsins.

Í 67. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, segir að þegar um sé að ræða fjöleignarhús með sex eignarhlutum eða færri sé ekki þörf á að kjósa og hafa sérstaka stjórn og fara þá allir eigendur í félagi saman með það vald og þau verkefni sem stjórnin annars færi með.  Þó er heimilt í slíkum húsum að fela einum eiganda að einhverju leyti eða öllu verkefni stjórnar og skal þá beita ákvæðum laganna um stjórn eftir því sem við á. Í húsinu eru þrír eignarhlutar og ekki verður ráðið af gögnum málsins svo ótvírætt sé að verkefni stjórnar hafi verið falin einum eiganda. Álitsbeiðanda var því heimilt að boða til húsfundar sem haldinn var 2. mars 2018.

Í 2. mgr. 60. gr. laga um fjöleignarhús kemur fram að í fundarboði skuli meðal annars greina þau mál sem verði tekin fyrir og meginefni tillagna. Í fundarboði álitsbeiðanda kom fram eftirfarandi dagskrá: „1. Nauðsynlegar viðgerðir í samræmi við skýrslur Mannvirkjastofnunar frá 2012 og 2016. Farið yfir 3ja kostnaðarmat fagmanns/4 fundir voru haldnir áður um nauðsynlegar rafmagnsviðgerðir frá 2012. 2. Rukkanir gegn húsfél/hússjóði. Stærstu rukkanir vegna matsmanns, ógreiddur skattur, ryðstífla (miðhæð). Prókúruhafi kosinn.“ Í fundargerð húsfundarins segir að tekin hafi verið ákvörðun um að ráða tiltekið fyrirtæki til þess að framkvæma viðgerðir á rafmagni í sameign hússins.

Kærunefnd telur að nægilega skýrt komi fram í fundaboði að nauðsyn var að taka þegar í stað ákvörðun um viðgerð á rafmagnsbúnaði í sameign hússins. Ákvöðun húsfundar telst því lögmæt.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda sé heimilt að láta framkvæma viðgerðir á rafmagnsbúnaði hússins í samræmi við skýrslu Mannvirkjastofnunar.

Reykjavík, 28. maí 2018

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira