Hoppa yfir valmynd

742/2018. Úrskurður frá 6. júní 2018

Úrskurður

Hinn 6. júní 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 742/2018 í máli ÚNU 17120004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 21. desember 2017, kærði A, blaðamaður, ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um synjun beiðni um aðgang að upplýsingum um styrktarsamning hljómsveitarinnar við sjóðsstýringarfyrirtækið GAMMA. Í kæru kemur fram að framkvæmdastjóri hljómsveitarinnar hafi hafnað beiðninni á þeirri forsendu að efni samningsins sé trúnaðarmál á milli aðila. Kærandi telur hins vegar afar mikilvægt að fjárhagsleg tengsl einkaaðila við ríkisreknar stofnanir, einnig menningarstofnanir, séu uppi á borðum. Sérstakar ástæður þurfi að vera fyrir hendi til að leynd eigi að ríkja um þessi tengsl.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 21. desember 2017, var Sinfóníuhljómsveit Íslands kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Sinfóníuhljómsveitar Íslands, dags. 3. janúar 2018, kemur í upphafi fram að styrktaraðili hljómsveitarinnar, GAMMA, hafi birt á vef sínum frétt um styrkinn sem hljómsveitin nýtur samkvæmt umbeðnum samningi. Engin leynd hafi því hvílt yfir efni samningsins hvað það varðar. Fyrirtækið hafi viljað líta svo á að með afhendingu samningsins yrði veittur aðgangur að upplýsingum um fjárhags- og viðskiptahagsmuni fyrirtækisins, sem eðlilegt og sanngjarnt sé að fari leynt samkvæmt 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þar sem fyrirtækið hafi ekki viljað ljá samþykki sitt fyrir afhendingu samningsins telji Sinfóníuhljómsveit Íslands sér óheimilt að afhenda hann með vísan til ákvæðisins, þar sem áskilið sé samþykki þess er eigi í hlut.

Með bréfi, dags. 4. janúar 2018, var kæranda kynnt umsögn kærða og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, sem bárust þann 15. janúar 2018, kemur fram að hann telji erfitt að sjá hvernig upplýsingar sem fram kunni að koma í umbeðnum samningi geti falið í sér viðkvæmar og mikilvægar fjárhags- eða viðskiptaupplýsingar um GAMMA. Framkvæmdastjóri Sinfóníunnar hafi vísað til þess að upphæðir samningsins séu opinberar, líkt og þær séu aðalatriðið og annað aukaatriði. Frekari efnisatriði samningsins kunni að vera áhugaverð í opinberri umræðu. Þá minnir kærandi á að vega þurfi hagsmuni viðkomandi einkaaðila gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Vandséð sé hvernig trúnaðarhagsmunir einkafyrirtækisins sem hér um ræði geti vegið þyngra en hagsmunir almennings af því að fá upplýsingar um viðskiptasamband þess við ríkisstofnun.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum um styrktarsamning Sinfóníuhljómsveitar Íslands og GAMMA Capital Management hf. Sinfóníuhljómsveitin hefur afmarkað beiðni kæranda við afrit af samningnum, en synjun beiðninnar byggist á því að hann hafi að geyma upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Í ákvæðinu segir orðrétt:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Í greinargerð með frumvarpi til upplýsingalaga nr. 140/2012 segir að 9. gr. frumvarpsins feli í sér nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

„Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.“

Þá er enn fremur tiltekið í greinargerðinni:

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir máli að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.“

Í rökstuðningi sínum fyrir hinni kærðu ákvörðun hefur Sinfónuhljómsveit Íslands fyrst og fremst vísað til þess að GAMMA Capital Management hf. hafi litið svo á að samningurinn hafi að geyma upplýsingar sem falli undir ákvæðið og hafi þar af leiðandi ekki veitt samþykki sitt fyrir afhendingu hans. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál tekur fram að þessi röksemd getur ekki ein og sér leitt til þeirrar niðurstöðu að gögn falli undir 9. gr. upplýsingalaga, enda er það ekki í höndum þeirra einkaaðila sem um ræðir að meta hvort sanngjarnt sé og eðlilegt að þau fari leynt. Að fenginni afstöðu fyrirtækisins bar Sinfóníuhljómsveit Íslands að framkvæma sjálfstætt mat á því hvort efni samningsins væri þess eðlis að rétt væri að undanskilja hann upplýsingarétti almennings. Við matið bar enn fremur að hafa hliðsjón af framanröktum sjónarmiðum um ráðstöfun opinberra hagsmuna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér afrit samningsins, sem er fjórar blaðsíður að lengd og hefur að geyma 11 tölusett samningsákvæði. Yfirskrift samningsins er: „Samstarfs- og kynningarsamningur“ og í 1. gr. segir að með honum verði GAMMA bakhjarl Sinfóníuhljómsveitar Íslands til fjögurra ára, eða út starfsárið 2019-20. Með samningnum skuldbindur fyrirtækið sig til að greiða tiltekna fjárhæð árlega sem skuli vera verðtryggð miðað við vísitölu neysluverðs. Í staðinn skulu firmamerki fyrirtækisins og auglýsingar þess birt með tilteknum hætti í kynningarefni hljómsveitarinnar, fyrirtækið fær miða á tónleika hennar og rétt til að fá hljóðfæraleikara hljómsveitarinnar til tónleikahalds. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál er augljóst að samningurinn felur í sér verulega ráðstöfun opinberra hagsmuna, þar sem einkaaðila er með samningnum gert kleift að hagnýta sér ýmsa þætti í starfsemi Sinfóníuhljómsveitar Íslands, sem er ríkisstofnun og starfar á grundvelli laga, sbr. lög nr. 36/1982.

Þegar einkaaðilar velja að styrkja opinbera aðila og áskilja sér með samningi endurgjald fyrir styrkinn verða þeir almennt að sæta því að upplýsingaréttur almennings taki til slíkra samningsákvæða með hliðsjón af þeim veigamiklu hagsmunum almennings að geta kynnt sér hvernig staðið er að samningsgerðinni og fá upplýsingar um endurgjaldið. Mikið þarf því til að koma svo fallist verði á að hagsmunir GAMMA af því að samningurinn fari leynt vegi þyngra en hagsmunir almennings af aðgangi að honum.

Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál hefur samningurinn ekki að geyma neinar þær upplýsingar sem talist geta varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins nægjanlega til að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Verður ákvörðun Sinfóníuhljómsveitar Íslands um synjun beiðni kæranda því felld úr gildi og lagt fyrir hljómsveitina að veita kæranda aðgang að honum í heild sinni.

Úrskurðarorð:
Sinfóníuhljómsveit Íslands ber að veita kæranda, A, aðgang að samstarfs- og kynningarsamningi hljómsveitarinnar og GAMMA Capital Management hf., dags. 7. september 2016.



Kjartan Bjarni Björgvinsson
varaformaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum