Hoppa yfir valmynd

751/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Deilt var um rétt kæranda til aðgangs að reikningum sem gefnir voru út í tilefni af árshátíð Reykjanesbæjar árið 2017. Synjun bæjarins byggðist á því að um einka-, fjárhags- og viðskiptamálefni einstaklinga og lögaðila væri að ræða en úrskurðarnefndin féllst ekki á það. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að veita kæranda aðgang að reikningunum en þó þannig að bankaupplýsingar einstaklinga yrðu afmáðar.

Úrskurður

Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 751/2018 í máli ÚNU 18010002.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 10. janúar 2018, kærði A synjun Reykjanesbæjar á beiðni hans um aðgang að rafrænum endurritum greiddra reikninga vegna árshátíðar Reykjanesbæjar árið 2017.

Kærandi lagði fram beiðni til Reykjanesbæjar, dags. 22. nóvember 2017, um aðgang að reikningunum. Í ákvörðun Reykjanesbæjar, dags. 11. desember 2017, var beiðni hans synjað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, en þar kemur fram að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari nema sá samþykki sem í hlut á, og að sömu takmarkanir gildi um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í kæru til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kom fram að kærandi féllist ekki á röksemdir Reykjanesbæjar, þar sem ekki hefði verið sýnt fram á að gögnin innihéldu upplýsingar sem réttlættu synjun á beiðni hans; þar að auki mættu þeir sem ættu í viðskiptum við sveitarfélagið vera við því búnir að mæta samkeppni og átta sig á að upplýsingalög giltu um starfsemi hins opinbera.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 22. janúar 2018, gaf úrskurðarnefndin Reykjanesbæ kost á að gera athugasemdir við kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni, sbr. 2. mgr. 22. gr. upplýsingalaga. Frestur var veittur til 6. febrúar 2018. Jafnframt óskaði nefndin eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. Umsögnin barst með bréfi, dags. 5. febrúar 2018. Afrit gagnanna barst úrskurðarnefndinni þann 1. mars 2018. Meðal gagnanna voru reikningar sem gefnir höfðu verið út af einstaklingum og lögaðilum vegna útseldrar þjónustu í tengslum við árshátíð sveitarfélagsins.

Í umsögn Reykjanesbæjar var synjun beiðni um aðgang að gögnunum rökstudd með vísan til 9. gr. upplýsingalaga. Vísað var til athugasemda við lagagreinina í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012, um að við mat stjórnvalds á því hvort upplýsingar sem gögn hefðu að geyma væru þess eðlis að rétt væri að undanþiggja þær aðgangi almennings yrði að taka mið af því hvort upplýsingarnar væru samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær ættu ekkert erindi við allan þorra manna.

Því næst kom fram að þar sem sumir reikninganna væru útgefnir af einstaklingum en ekki lögaðilum, ættu ummæli úr 9. gr. um fjárhagsmálefni einstaklinga við í málinu, þ.e. að almennt væri óheimilt að veita upplýsingar um tekjur og fjárhagsstöðu einstaklinga nema það byggðist á sérstakri lagaheimild. Í tengslum við reikninga lögaðila kæmi fram í athugasemdunum að óheimilt væri að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Þar að auki lægi samþykki viðkomandi einstaklinga og lögaðila fyrir því að reikningar þeirra yrðu afhentir ekki fyrir.

Að endingu stóð í umsögninni: „Vakin er athygli á því að framangreindir aðilar kunna að hafa mikla hagsmuni af því að umræddir reikningar verði ekki afhentir, með vísan til þess að nú styttist í að árshátíð kærða vegna ársins 2018 verði haldin. Það myndi setja aðra aðila í samkeppnisrekstri á svæðinu í óeðlilega stöðu ef fyrir liggja allar upplýsingar um verð og önnur kjör.“

Kæranda var gefinn kostur með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, að koma á framfæri frekari athugasemdum vegna kærunnar í ljósi umsagnar Reykjanesbæjar. Frestur var veittur til 28. febrúar 2018. Engar athugasemdir bárust frá kæranda.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að rafrænum endurritum greiddra reikninga vegna árshátíðar Reykjanesbæjar árið 2017. Reikningarnir voru gefnir út ýmist af einstaklingum eða lögaðilum vegna sölu á þjónustu í tengslum við árshátíðina. Reykjanesbær hefur synjað kæranda um aðgang að reikningunum með vísan til 9. gr. upplýsingalaga.

Ákvæði 9. gr. upplýsingalaga felur í sér undantekningu frá þeirri meginreglu sem fram kemur í 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. sömu laga. Í 9. gr. segir:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.

Í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 segir að í greininni megi finna nokkurs konar vísireglu um það hvenær rétt sé að halda leyndum upplýsingum um einkahagsmuni. Þá segir eftirfarandi:

Stjórnvaldi, eða öðrum aðila sem ákvörðun tekur á grundvelli laganna, er með öðrum orðum ætlað að vega og meta umbeðin gögn með tilliti til þess hvort upplýsingar sem þau hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi almennings. Við það mat verður að taka mið af því hvort upplýsingarnar séu samkvæmt almennum sjónarmiðum svo viðkvæmar að þær eigi ekkert erindi við allan þorra manna.

Að því er varðar takmörkun upplýsingalaga á aðgangi að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila segir í athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum:

Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þannig er óheimilt að veita upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni. Hér skiptir miklu að lagt sé mat á tilvik hverju sinni með hliðsjón af hagsmunum þess lögaðila sem upplýsingar varða. Við matið þarf almennt að vega saman hagsmuni viðkomandi lögaðila af því að upplýsingum sé haldið leyndum gagnvart þeim mikilvægu hagsmunum að upplýsingar um ráðstöfun opinberra hagsmuna séu aðgengilegar almenningi. Þegar lögaðilar gera samninga við opinbera aðila, þar sem ráðstafað er opinberum hagsmunum, getur þetta sjónarmið haft mikið vægi við ákvörðun um aðgang að upplýsingum.

Að því er varðar takmörkun að aðgangi að upplýsingum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, segir í athugasemdunum:

Erfitt er að tilgreina nákvæmlega þau sjónarmið sem stjórnvaldi er rétt að leggja til grundvallar við mat á því hvaða einkamálefni einstaklinga eru þannig vaxin að þau réttlæti undanþágu frá upplýsingarétti í hverju tilviki. Oft koma sérstakar reglur um þagnarskyldu í veg fyrir að aðgang megi veita að upplýsingum. Þegar þeim reglum sleppir má hafa í huga ýmis lagaákvæði sem sett hafa verið í sama augnamiði. Þannig er engum vafa undirorpið að viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt lögum um persónuvernd eru allar undanþegnar aðgangi almennings skv. 9. gr. Þar má t.d. nefna upplýsingar um litarhátt, kynþátt, stjórnmálaskoðanir og trúarbrögð, upplýsingar um hvort maður hafi verið grunaður, ákærður eða dæmdur fyrir refsiverðan verknað, upplýsingar um kynlíf manna og heilsuhagi, lyfja-, áfengis- og vímuefnanotkun, svo og upplýsingar um félagsleg vandamál. Aðrar upplýsingar sem geta talist viðkvæmar samkvæmt almennum viðmiðum í íslenskum rétti kunna einnig að falla undir ákvæðið þótt þær teljist ekki viðkvæmar persónuupplýsingar samkvæmt persónuverndarlögum. Hér undir geta til að mynda fallið upplýsingar um fjármál einstaklinga og upplýsingar sem lúta beinlínis að öryggi þeirra.

Eins og sjá má á framangreindu er 9. gr. upplýsingalaga ætlað að standa vörð um mikilvæga og viðkvæma viðskipta- og einkahagsmuni. Að því er varðar fjárhags- eða viðskiptahagsmuni lögaðila er sérstök áhersla lögð á rétt almennings til upplýsingar um ráðstöfun opinberra fjármuna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur undir höndum þá reikninga sem beiðni kæranda lýtur að. Líkt og þegar hefur verið nefnt eru þeir útgefnir bæði af einstaklingum og lögaðilum í tilefni af vinnu listamanna á árshátíð Reykjanesbæjar, sem er opinber aðili. Reikningarnir geyma allir upplýsingar af svipuðu tagi, þ.e. lýsingu á þjónustunni sem veitt var auk upphæðar sem Reykjanesbær var krafinn um. Að mati úrskurðarnefndarinnar er í reikningunum hvorki að finna upplýsingar um mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila, né einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari. Er hér litið til þess að ekki er um neinar þær upplýsingar að ræða sem nefndar eru í dæmaskyni í tilvitnuðum athugasemdum við 9. gr. í frumvarpi því er varð að upplýsingalögum, né upplýsingar sambærilegar þeim viðkvæmu upplýsingum sem þar eru nefndar. Úrskurðarnefndin tekur fram að þótt þar sé vísað til upplýsinga „um fjármál einstaklinga“ verður ekki talið að einstakur reikningur listamanns fyrir skemmtun á árshátíð gefi slíka innsýn í fjármál viðkomandi að að rétt sé að takmarka aðgang að honum og víkja þannig til hliðar upplýsingarétti almennings um ráðstöfun opinberra fjármuna. Með vísan til framangreinds verður hin kærða ákvörðun felld úr gildi og lagt fyrir Reykjanesbæ að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Úrskurðarnefndin hefur þó lagt til grundvallar að sanngjarnt sé og eðlilegt að bankaupplýsingar einstaklinga, sem finna má á sumum reikninganna, fari leynt, sbr. t.d. úrskurði nefndarinnar í málum nr. 661/2016 og 666/2016.

Úrskurðarorð:

Reykjanesbæ ber að veita kæranda, A, aðgang að reikningum vegna árshátíðar bæjarins árið 2017, en áður skal afmá úr þeim bankaupplýsingar einstaklinga.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir              Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira