Hoppa yfir valmynd

753/2018. Úrskurður frá 31. júlí 2018

Félagasamtök óskuðu eftir upplýsingum um tekjur Isavia ohf. af gjaldskyldum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Í synjun Isavia var vísað til þess að umbeðin gögn væru ekki fyrirliggjandi auk þess sem þau væru undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga þar sem þau lytu að fjárhags- og viðskiptahagsmunum félagsins. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál taldi ekki unnt að ráða að tekin hefði verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig og óljóst hvaða gögn Isavia segði ekki fyrirliggjandi og hvaða gögn teldust undanþegin upplýsingarétti kæranda. Að mati úrskurðarnefndarinnar skorti verulega á að tekin hefði verið rökstudd afstaða til beiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir. Hin kærða ákvörðun var því felld úr gildi og lagt fyrir Isavia að taka beiðni kæranda til nýrrar meðferðar.

Úrskurður

Hinn 31. júlí 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 753/2018 í máli ÚNU 18020004.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 8. febrúar 2018, kærðu félagasamtökin Samgöngufélagið töf á afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni um aðgang að gögnum. Með bréfi, dags. 21. apríl 2017, óskaði Samgöngufélagið eftir því við Isavia að upplýst yrði um tekjur sem Isavia hafi af gjaldskyldum bílastæðum við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli. Í beiðninni er tekið fram að óskað sé eftir því að upplýst verði um tekjur af afnotum þessara bílastæða síðastliðin þrjú almanaksár og jafnframt að sem nákvæmast verði upplýst hvernig þessum tekjum hafi verið varið. Auk þess óskist upplýst hver fjöldi gjaldskyldra bílastæða sé nú og breytingar á fjölda þeirra síðastliðin þrjú almanaksár. Enn fremur er spurt hver hafi tekið ákvörðun um þessa gjaldtöku á sínum tíma, í hvað formi ákvörðunin hafi verið og einnig hverju það sæti að gjaldtaka sé ekki viðhöfð á bílastæðum við aðra flugvelli í umráðum Isavia og tekjur sem við það fengjust nýttar t.d. til að leggja bílastæðin slitlagi þar sem þess væri þörf. Gagnabeiðnin var ítrekuð með tölvupósti, dags. 28. nóvember 2017.

Kæran var kynnt Isavia með bréfi, dags. 13. febrúar 2018, og veittur frestur til afgreiðslu beiðninnar. Isavia svaraði kæranda með bréfi, dags. 21. febrúar 2018. Þar segir að Isavia veiti ekki upplýsingar um skiptingu tekna félagsins umfram það sem komi í ársreikningi og ársskýrslu félagsins sem aðgengileg sé á heimasíðu þess. Beiðninni sé því hafnað með vísan til 9. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 enda um mikilvæga viðskiptahagsmuni að ræða. Þá sé áréttað að upplýsingalög veiti einungis rétt til aðgangs að fyrirliggjandi gögnum, að öðrum skilyrðum uppfylltum, en veiti ekki rétt til þess að gögn séu útbúin eða spurningum svarað.

Með tölvupósti, dags. 22. febrúar 2018, kærði Samgöngufélagið synjun Isavia á gagnabeiðninni.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. febrúar 2018, var kæran kynnt Isavia og veittur kostur á að koma á framfæri og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn Isavia, dags. 26. mars 2018, segir m.a. að í beiðni kæranda frá 21. apríl 2017 sé óskað eftir upplýsingum um ýmislegt er varði gjaldtöku á bílastæðum á Keflavíkurflugvelli og víðar, ákvarðanatöku þar um og ráðstöfun tekna. Ekki sé óskað eftir aðgangi að tilteknum fyrirliggjandi gögnum heldur upplýsingum og útskýringum um mál er varði fjárhagsleg málefni Isavia. Upplýsingaréttur almennings á grundvelli upplýsingalaga nái einungis til fyrirliggjandi gagna en feli ekki í sér rétt til að gögn séu sérstaklega tekin saman eða útbúin. Þar að auki falli upplýsingar úr bókhaldi undir mikilvæga fjárhags- og viðskiptahagsmuni, sbr. 2. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Þess vegna hafi beiðni kæranda verið hafnað. Tekið er fram að þar sem upplýsingabeiðnin taki ekki til fyrirliggjandi gagna hjá kærða sé ekki um nein gögn að ræða til að afhenda úrskurðarnefndinni í trúnaði.

Umsögn Isavia var kynnt kæranda með bréfi, dags. 9. apríl 2018, og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 24. apríl 2018, kemur m.a. fram að öðru verði vart trúað en að upplýsingar um árlegar tekjur Isavia ohf. af bílastæðagjöldum séu tiltækar og fyrirliggjandi í gögnum, sem félagið varðveiti, annað hvort í sérstökum skjölum á pappír og eða á rafrænu formi. Ekki ætti því að þurfa að ráðast í sérstaka vinnu til að taka þessar upplýsingar saman eða útbúa. Sé einkennilegt að þær komi ekki fram í ársreikningum félagsins. Ef upplýsingarnar séu ekki tiltækar hljóti það að vekja spurningar um stjórnun og fjárreiður Isavia og kalla á sérstakar skýringar.

Niðurstaða

Í málinu er deilt um afgreiðslu Isavia ohf. á beiðni kæranda um upplýsingar um tekjur Isavia af bílastæðum við Keflavíkurflugvöll.

Í hinni kærðu ákvörðun og í umsögn félagsins til úrskurðarnefndar um upplýsingamál kemur fram að umbeðin gögn séu ekki fyrirliggjandi auk þess sem þau séu undanþegin upplýsingarétti almennings á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga. Af svörum félagsins má þó ekki ráða að tekin hafi verið afstaða til hvers liðs gagnabeiðninnar fyrir sig. Þannig liggur ekki ljóst fyrir af svörum félagsins hvaða gögn með upplýsingum, sem fallið geta undir gagnabeiðni kæranda, eru fyrirliggjandi og eru að mati félagsins undanþegnar upplýsingarétti kæranda á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga og hvaða gögn eru ekki fyrirliggjandi.

Þá er vísað til þess í umsögn Isavia til úrskurðarnefndarinnar að gagnabeiðni kæranda lúti að fjárhags- og viðskiptahagsmunum félagsins en ljóst er að sú fullyrðing á síður við um beiðni kæranda um upplýsingar um fjölda gjaldskyldra bílastæða og breytingar á fjölda þeirra síðastliðin þrjú almanaksár, hver hafi tekið ákvörðun um gjaldtöku á bílastæðum á sínum tíma og í hvaða formi hún hafi verið. Að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál skortir verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir Isavia ohf. að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. Við þá afgreiðslu ber félaginu að að fjalla um hvern og einn lið upplýsingabeiðninnar, taka afstöðu til þess hvaða gögn, ef nokkur, heyra undir viðkomandi lið og heimfæra álitaefnið undir viðeigandi ákvæði upplýsingalaga.

Úrskurðarorð:

Beiðni Samgöngufélagsins, dags. 21. apríl 2017, er vísað til Isavia ohf. til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira