Hoppa yfir valmynd

Nr. 47/2018 - Úrskurður

KÆRUNEFND HÚSAMÁLA

ÚRSKURÐUR

uppkveðinn 14. ágúst 2018

í máli nr. 47/2018

 

A

gegn

B

 

Kærunefndina skipa í þessu máli Auður Björg Jónsdóttir hæstaréttarlögmaður, Valtýr Sigurðsson hæstaréttarlögmaður og Eyþór Rafn Þórhallsson verkfræðingur. 

Aðilar málsins eru:

Sóknaraðili:  A.

Varnaraðili:   B.

Krafa sóknaraðila er að viðurkennt verði að varnaraðila beri að endurgreiða leigu að fjárhæð X kr.

Með kæru, dags. 31. maí 2018, mótteknu 7. júní 2018, beindi sóknaraðili til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við varnaraðila. Með bréfi kærunefndar, dags. 7. júní 2018, var varnaraðila gefinn kostur á að tjá sig um efni kærunnar. Með bréfi kærunefndar, dags. 20. júní 2018, var ítrekuð beiðni um greinargerð vegna kæru sóknaraðila og upplýst að málið yrði tekið til úrlausnar á grundvelli þeirra gagna sem þegar liggi fyrir bærist greinargerð ekki innan tiltekins frests. Greinargerð gagnaðila barst ekki.

I. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Aðilar gerðu tímabundinn leigusamning frá 1. desember 2017 til 1. desember 2018, um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila að C. Vegna ástands hins leigða hætti sóknaraðili við að leigja íbúðina og snýst ágreiningur um hvort varnaraðila beri að endurgreiða sóknaraðila leigu sem hún greiddi fyrirfram vegna desember 2017.

II. Sjónarmið sóknaraðila

Sóknaraðili segir að við undirritun leigusamnings hafi hún greitt leigu fyrirfram vegna desember 2017. Hún hafi ætlað að flytja inn í íbúðina 1. desember í samræmi við efni samningsins. Við afhendingu íbúðarinnar hafi innbú varnaraðila enn verið þar. Þá hafi íbúðin verið óhrein, auk þess sem klóaklykt hafi verið í henni og myglublettir. Ljóst hafi verið frá upphafi að svo verulegar vanefndir hafi verið á efni samningsins af hálfu varnaraðila við afhendingu að sóknaraðila hafi verið nauðugur einn sá kostur að skila lyklum að húsnæðinu og rifta samningnum fyrirvaralaust. Hún hafi áréttað riftun sína í tölvupósti 12. desember 2017. Í framhaldi af þessum málalyktum hafi sóknaraðili ítrekað óskað eftir að fá fyrirframgreiddu leiguna endurgreidda en varnaraðili ekki svarað henni.

Ósanngjarnt sé og andstætt góðri viðskiptavenju af hálfu leigusala að bera umræddan húsaleigusamning fyrir sig, með tilliti til efni samnings, stöðu samningsaðila og atvika að öðru leyti.

III. Niðurstaða

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir kærunefnd og verður því úrlausn málsins byggð á þeim gögnum og sjónarmiðum sem sóknaraðili hefur lagt fyrir nefndina.

Aðilar gerðu tímabundinn samning, dags. 22. nóvember 2017, vegna tímabilsins frá 1. desember 2017 til 1. desember 2018 um leigu sóknaraðila á íbúð varnaraðila. Sóknaraðili greiddi leigu að fjárhæð X kr. inn á reikning lögmanns varnaraðila 30. nóvember 2017. Vegna ástands hins leigða við upphaf leigutíma skilaði sóknaraðili strax lyklum eignarinnar og ítrekaði riftun með skriflegum hætti með tölvupósti til lögmanns gagnaðila 12. desember 2017 þar sem hún óskaði eftir endurgreiðslu á hinni fyrirframgreiddu leigu. Engin svör bárust við þessari kröfu sóknaraðila. Ómótmælt er þannig að sóknaraðili hafi rift samningi aðila með lögmætum hætti 1. desember 2018. Ber gagnaðila því að endurgreiða sóknaraðila X kr. sem hún hafði greitt fyrirfram fyrir desember 2017.

 


 

ÚRSKURÐARORÐ:

Varnaraðila ber að endurgreiða sóknaraðila fyrirframgreidda leigu að fjárhæð X kr.

 

Reykjavík, 14, ágúst 2018

 

 

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum