Hoppa yfir valmynd

Nr. 71/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 71/2018

 

Störf stjórnar húsfélags.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, mótteknu 23. júlí 2018, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið B X-X, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 10. september 2018, greinargerð gagnaðila, dags. 13. september 2018, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 18. september 2018, og athugasemdir gagnaðila, dags. 26. september 2018, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. október 2018.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B X-X í C, alls 24 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar í húsi nr. X. Ágreiningur er um ýmis störf stjórnar gagnaðila.

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að niðurfelling gjalda hjá stjórn gagnaðila sé ólögleg samkvæmt 65. og 69. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.
  2. Að viðurkennt verði að aðalfundur 8. maí 2018 hafi ekki verið samkvæmt lögum og ákvarðanir sem teknar hafi verið á fundinum ekki skuldbindandi fyrir álitsbeiðanda þar sem stjórn gagnaðila hafi kosið um sína eigin tillögu og hagmuni.
  3. Að viðurkennt verði að fallið skuli frá hækkun síðustu húsgjalda vegna hagsmuna stjórnar gagnaðila við tillögu sína.
  4. Að viðurkennt verði að bókari verði kosinn á hverju ári og að fundargerð verði lesin upp í lok fundar svo hægt sé að gera athugasemdir eins og lög um fjöleignarhús geri ráð fyrir.
  5. Að viðurkennt verði að fundur sem haldinn hafi verið 24. maí 2018 um reglur á síðu gagnaðila sé ólögmæt vegna dræmrar fundarsóknar og ekki löglega boðaðs fundar og því ekki skuldbindandi fyrir álitsbeiðanda.
  6. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila sé skylt að veita allar upplýsingar um rekstur og stöðu gagnaðila þar með talið yfirlit frá bönkum, sbr. 69. gr. laga um fjöleignarhús.
  7. Að viðurkennt verði að álitsbeiðandi og aðrir íbúar þurfi ekki að greiða lögfræðikostnað til að verja laun og hlunnindi stjórnar gagnaðila, þar sem íbúar hússins séu ekki aðilar málsins.
  8. Að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila skuli fara eftir almennum reglum um fjöleignarhús.

Í álitsbeiðni kemur fram að ágreiningur snúist um niðurfellingu gjalda til stjórnar gagnaðila sem álitsbeiðandi telji vera ólöglega þar sem um sé að ræða laun eða hlunnindi og því séu þau skattskyld samkvæmt 65. og 69. gr. laga um fjöleignarhús. Óskað sé eftir úttekt á rekstri gagnaðila þar sem farið verði yfir launamál stjórnenda, stjórnarhætti og hlutverk þess, meðal annars í ljósi misvísandi upplýsinga um laun stjórnar gagnaðila og ríka fjárþörf. Ýmislegt orki tvímælis þegar rýnt sé í rekstur gagnaðila, en þó sé í lagi að greiða sanngjörn laun fyrir þessi störf. Álitsbeiðandi telji að núverandi rekstrarform þjóni hvorki hagsmunum hennar né annarra eigenda. Þegar spurt hafi verið af hverju laun stjórnarmanna væru ekki í ársreikningi hafi svarið verið á þessa leið: „Af því að hann er settur inn í rekstur án þess að færa út og inn“. Þetta fyrirkomulag gefi ekki rétta mynd af ársreikningi og telji álitsbeiðandi þessa aðferð því ekki löglega. Bókari hafi gefið út áætlun sem gefi upp laun til stjórnenda og hafi hún reynst nokkuð rétt. Þetta telji stjórn gagnaðila að hafi verið gert vegna krafna um meiri gagnsæi um launakostnað gagnaðila. Ekki hafi fengist uppgefið hver sé launakostnaður hvers stjórnarmanns heldur hafi einn verið tekinn út fyrir og kostnaður vegna hans verið tekinn út þar sem hann eigi minni eignarhluta, hinir stjórnarmennirnir eigi stærri eignarhluta.

Á aðalfundi 8. maí 2018 hafi nokkrir eigendur mótmælt hækkun húsgjalda en þar sem stjórn gagnaðila hafi greitt atkvæði með tillögu sinni hafi hún verið samþykkt með 11 atkvæðum af 15. Ekki sé hægt að tala um lækkun gjalda eins og stjórnin haldi fram þar sem framkvæmdir séu í húsinu og samþykkt hafi verið að hver og einn bæri ábyrgð á greiðslum fyrir þær þar sem hússjóður tæki ekki lán fyrir framkvæmdunum. Því fái eigendur tvo greiðsluseðla, annan fyrir hússjóð og hinn fyrir framkvæmdum.

Fyrirkomulagið sé þannig að það sé til rekstrarsjóður og tveir framkvæmdasjóðir. Framkvæmdasjóður 1 sé hlutfallsskiptur og í framkvæmdasjóð 2 sé greitt fyrir umræddar framkvæmdir. Þangað greiði allir eftir sínum eignarhluta og stjórn gagnaðila einnig á meðan á framkvæmdunum standi. Samþykkt hafi verið að safna aukalega fyrir fyrirtæki sem sjái um framkvæmdina í eitt ár og síðasta greiðsla hafi verið 1. maí 2018. Gjöldin hafi því átt að falla niður í sama horf og áður. Þau hafi verið 16.241 kr. vegna íbúðar álitsbeiðanda en hækkað í 21.826 kr. eftir síðasta aðalfund. Á meðan söfnun hafi staðið hafi það verið 30.029 kr. fyrir íbúð álitsbeiðanda.

Enn fremur telji álitsbeiðandi að stjórn gagnaðila geti ekki sjálf tekið þátt í ákvarðanatöku og afgreiðslu um hækkun húsgjalda þar sem hún eigi sérstakra persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta, sbr. 65. og 69. gr. laga um fjöleignarhús.

Álitsbeiðandi telji rétt að bókari skuli ekki vera sjálfskipaður heldur kosinn árlega. Að fundargerð skuli lesin upp á fundum svo að hægt sé að gera athugasemdir og minnst skuli á fyrirspurnir í fundargerð. Álitsbeiðandi hafi oftar en einu sinni lagt fram fyrirspurnir um framkvæmdasjóð 1 en lítið verið um svör af hálfu stjórnar gagnaðila. Bókari hafi gefið þá skýringu að hann væri til dæmis notaður til að skipta um teppi á stigahúsi sem standist ekki skoðun samkvæmt lögum um fjöleignarhús þar sem sú framkvæmd sé hlutfallsskipt.

Tillaga sem álitsbeiðandi hafi lagt fyrir aðalfund 20. júní 2017 hafi verið svohljóðandi: „Í staðinn fyrir niðurfellingu húsgjalda væri föst krónutala t.d. 10.000 – 15.000 kr. fyrir þá sem eru í stjórn hverju sinni og þeir yrðu aldrei nema þrír á launum.“ Þessari tillögu hafi verið stungið undir stól af stjórn gagnaðila, hún hafi aldrei verið rædd og ekki kosið um hana.

Í greinargerð gagnaðila segir að varðandi fyrstu kröfu álitsbeiðanda sé það svo að stjórnarmenn gagnaðila hafi veitt stjórnarmönnum niðurfellingu allt frá árinu 2012. Reyndar hafi það verið svo að á því ári hafi verið um að ræða öll húsgjöld, þ.m.t. af hlutfallsskiptum framkvæmdasjóði.

Núverandi fyrirkomulag húsgjalda stjórnarmanna sé það að formaður og húsvörður, sem einnig sé stjórnarmaður, fái niðurfellingu að fullu af jafnskiptum húsgjöldum. Þriðji stjórnarmaðurinn fái helming af jafnskiptum húsgjöldum niðurfelld. Þessi leið hafi síðast verið samþykkt af öllum þeim sem hafi mætt á löglega boðaðan húsfund 20. júní 2017, meðal annars af álitsbeiðanda.

Þegar litið sé til 2. töluliðar í kröfugerð álitsbeiðanda líti gagnaðili svo á að um sé að ræða 3. tölul. fundargerðar aðalfundar frá 8. maí 2018. Kröfugerð álitsbeiðanda lúti að því hvort heimilt sé að stjórnarmenn taki þátt í ákvörðunum um húsgjöld. Þeirri nálgun sé einfaldlega hafnað að stjórnarmönnum í húsfélagi sé óheimilt að taka þátt í umræðum og atkvæðagreiðslu um almenn málefni gagnaðila. Þá sé þeirri nálgun álitsbeiðanda hafnað að ákvarðanir sem teknar hafi verið á fyrrgreindum fundi séu ekki skuldbindandi fyrir álitsbeiðanda, enda hafi hún sótt fundinn. Vísi gagnaðili til 1. og 2. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús hvað þetta varði.

Varðandi 3. tölulið kröfugerðar álitsbeiðanda vísi gagnaðili til sömu grunnraka og varðandi 2. tölulið kröfugerðar álitsbeiðanda. Ákvörðun hafi verið tekin með réttum hætti og álitsbeiðandi setið fundinn.

Í 4. tölulið kröfugerðar álitsbeiðanda sé þess krafist að bókari verði kosinn á hverju ári og fundargerð lesin upp í lok hvers fundar. Gagnaðili geri sér ekki að fullu grein fyrir því hvort álitsbeiðandi sé að benda á að kjósa þurfi gjaldkera við stjórnarkjör, en sé það svo sé á það bent að stjórn gagnaðila skipti með sér verkum, sbr. 66. gr. laga um fjöleignarhús. Sé það hins vegar svo að álitsbeiðandi sé að vísa til starfa tiltekins einstaklings hjá tilteknu fyrirtæki sé á það bent að stjórn gagnaðila sé heimilt að fela sjálfstæðum verktaka, til dæmis húsfélagaþjónustu, að annast tiltekin verkefni, sbr. 4. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús. Það sama eigi við um þjónustu lögmanns sem riti þessa greinargerð fyrir hönd gagnaðila.

Gagnaðili taki tillit til og muni framvegis taka mið af 64. gr. laga um fjöleignarhús varðandi upplestur fundargerðar í lok hvers fundar, en því skuli haldið til haga að engar athugasemdir hafi verið gerðar á þeim fundum sem álitsbeiðandi vísi til í umfjöllun sinni, jafnvel þótt eftir þeim hafi verið leitað.

Krafa álitsbeiðanda, sem snúi að því er virðist að reglum á facebook síðu gagnaðila, sé vert að taka fram að síða þessi sé leið stjórnar gagnaðila til að veita félagsmönnum aðgang að gögnum gagnaðila. Henni sé ætlað að auka gagnsæi innan gagnaðila. Um sé að ræða einfaldar og háttvísar reglur og sé í raun umfram þjónustu af hálfu stjórnar gagnaðila, þ.e. umfram skyldu. Því telji gagnaðili að líta verði til þeirra sjónarmiða sem að ofan greini, sem og að þær hátternisreglur, sem stjórnin hafi birt, séu hvorki íþyngjandi né flóknar og stuðli að því að fasteignaeigendur og félagsmenn gagnaðila geti með skjótum hætti náð til stjórnarmanna með þau málefni sem helst brenni á þeim, og í einhverjum tilvikum fengið svör við þeim.

Í athugasemdum álitsbeiðenda segir meðal annars að gagnaðili hafi nú sent aukareikning á íbúa hússins jafnskipt að fjárhæð 8.400 kr. Hér hafi stjórn gagnaðila tekið ákvörðun fyrir alla íbúa hússins án þess að kalla saman húsfund til að fá samþykki fyrir greiðslu þessa reiknings. Álitsbeiðandi telji að þessi innheimtuaðferð sé ekki lögleg, sbr. 39. og 58. gr. laga um fjöleignarhús, þar sem æðsta vald sé í höndum húsfundar.

Í jafnskipta framkvæmdasjóðnum séu 288.000 kr. á ársgrundvelli en aldrei hafi fengist svör við því hver sé tilgangur hans nema einna helst til að jafna óvæntar greiðslur. Nú viti enginn hvernig staðan sé á þessum reikningi og erfitt sé að fá upplýsingar þar um frá stjórn gagnaðila sem hunsi spurningar líki henni þær ekki. Álitsbeiðandi telji að stjórn gagnaðila sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varði málefni gagnaðila, rekstur hans, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu, sbr. 69. gr. laga um fjöleignarhús.

Þá telji álitsbeiðandi að stjórn gagnaðila geti ekki ráðið lögfræðing án samþykkis löglega boðaðs húsfundar. Álitsbeiðandi neiti að greiða lögfræðikostnað til að yfirfara gögn hjá stjórn gagnaðila en gagnaðili geti svarað álitsbeiðninni án þess að eigendur séu ábyrgir fyrir lögmannskostnaði.

Þá segir að það að sitja fundi sé ekki það sama og samþykki þar sem andmælaréttur sé fyrir hendi.

Formaður húsfélagsins hafi einnig verið kjörinn gjaldkeri og verið það í allmörg ár og enn fremur sé talið að gagnaðili sé með útúrsnúninga þar sem ekki sé minnst á að ekki megi kaupa þjónustu bókara eða sjálfstætt starfandi verktaka og ekki sé nefnt á nafn af hálfu álitsbeiðanda heldur að það sé skylda að kjósa um kaup á slíkri þjónustu á hverjum aðalfundi.

Í athugasemdum gagnaðila segir að samkvæmt ströngustu kröfum laga um fjöleignarhús þá sé stjórn og framkvæmdastjóra skylt að veita eigendum upplýsingar um þau atriði sem varða málefni gagnaðila og hafi gagnaðila reynst best að nýta facebook til þess. Hins vegar telji stjórn gagnaðila að ef veita eigi upplýsingar um bækur félagsins, reikninga og fylgisskjöl verði slíkt gert í persónu og þá jafnan að viðstöddum stjórnarmanni, rétt eins og lög geri ráð fyrir. Þá komi slíkar upplýsingar fram í ársreikningi hvers árs. Þá hafi álitsbeiðandi ekki nýtt sér rétt sinn, telji hún á sig hallað, að beina formlegu erindi til stjórnar gagnaðila um málefni sem tekin verði fyrir á næsta aðal- eða húsfundi, sbr. 59. gr. laga um fjöleignarhús. Þá sé látið að því liggja að óánægja sé með aukainnheimtu sem gagnaðili hafi staðið fyrir, en til að halda staðreyndum til haga þá séu engin húsgjöld, hvorki regluleg innheimta né sérinnheimta vegna halla á rekstrarsjóði í vanskilum. Með öðrum orðum, allir hafi greitt sinn hlut. Rétt þyki að upplýsa álitsbeiðanda að til standi að boða til húsfundar, og sé því skorað á hana að koma þeim fundarefnum sem hún óski eftir að tekin verði fyrir til stjórnar í samræmi við 59. gr. laga um fjöleignarhús. Þá sé það von gagnaðila að mál þetta verði leitt til lykta með fljótum og farsælum hætti.

Álitsbeiðandi hafi beint ágreiningi sínum gegn húsfélaginu og það sé því aðili málsins. Því sé enn vísað til 4. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús hvað þennan kröfulið varði.

Gagnaðili, og stjórn hans, reyni eftir fremsta megni að fara eftir almennum reglum, skráðum jafnt sem óskráðum. Stjórn gagnaðila hafi lagt sig fram eftir fremsta megni að koma upplýsingum til eigenda hvað varði rekstur gagnaðila og vegna innheimtu sem staðið hafi yfir nú í ár vegna framkvæmda.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að ólögmætt sé að fella niður húsfélagsgjöld hjá stjórnarmönnum gagnaðila. Óumdeilt er í máli þessu að þeir eigendur sem hafa tekið að sér að sitja í stjórn gagnaðila hafi þess í stað fengið felld niður hluta hússjóðsgjalda, þ.e. gjöld vegna jafnskipts kostnaðar. Samkvæmt 3. mgr. 49. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, skulu gjöld í hússjóð ákveðin og þeim skipt í samræmi við reglur 45. gr. um skiptingu sameiginlegs kostnaðar. Í nefndri 45. gr. segir að sameiginlegum kostnaði skuli skipt niður á hlutaðeigandi eigendur eftir þeim reglum sem kveðið sé á um í ákvæðinu og þar undir B lið er tilgreindur sá kostnaður sem greiðist að jöfnu, en um er að ræða ýmsan viðhalds- og rekstrarkostnað. Kærunefnd fær ekki ráðið að lög um fjöleignarhús geri ráð fyrir að stjórnarmönnum séu greidd laun fyrir störf sín en að það sé ekkert í lögunum sem komi í veg fyrir það. Þannig telur kærunefnd að gagnaðili geti tekið ákvörðun þar um á húsfundi á grundvelli C liðar 45. gr. laga um fjöleignarhús. Sé þetta samþykkt á löglega boðuðum húsfundi sé um að ræða bindandi ákvörðun fyrir aðila húsfélagsins. Kærunefnd telur að með þessu fyrirkomulagi sé ekki um breytingu á kostnaðarskiptingu að ræða heldur nemi laun sömu fjárhæð og jafnskiptar greiðslur viðkomandi í hússjóð og kröfunum þannig skuldajafnað. Þessari kröfu álitsbeiðanda er því hafnað. Kærunefnd bendir aftur á móti á að eðlilegt sé að skýrt komi fram í ársreikningum húsfélagsins innheimt hússgjöld annars vegar og greidd laun hins vegar.

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að ákvarðanir teknar á aðalfundi 8. maí 2018 séu ekki skuldbindandi fyrir hana þar sem stjórn gagnaðila hafi kosið um sína eigin tillögu og hagsmuni. Ætla má að um sé að ræða tillögu um ákvörðun hússjóðsgjalda samkvæmt 3. tölul. fundargerð aðalfundarins. Þar var tekin ákvörðun um að hækka greiðslur í hlutfallsskiptan framkvæmdasjóð með samþykki 11 atkvæða af 15. Álitsbeiðandi vísar til þess að þeir eigendur, sem jafnframt séu í stjórn gagnaðila, hafi kosið um tillöguna og þeir séu ekki til þess bærir þar sem þeir eigi sérstakra persónulegra og fjárhagslegra hagsmuna að gæta. Samkvæmt gögnum málsins greiða stjórnarmenn í framkvæmdasjóð eftir eignarhlutdeild sinni eins og aðrir eigendur og því er ekki unnt að fallast á að þeir hafi ekki verið til þess bærir að greiða atkvæði um þessa tillögu á þeirri forsendu sem álitsbeiðandi krefur. Kærunefnd telur því að umrædd ákvörðun sé skuldbindandi fyrir álitsbeiðanda.

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að fallið skuli frá hækkun síðustu húsgjalda vegna hagsmuna stjórnar gagnaðila við tillögu sína. Kærunefnd telur að ekkert sé því til fyrirstöðu að þeir eigendur sem skipi stjórn gagnaðila taki jafnframt ákvörðun um hússjóðsgjöld. Hins vegar telur kærunefnd að stjórn gagnaðila sé ekki bær til ákvarðanatöku um það hvort henni beri að fá greiðslur fyrir stjórnarsetu, sbr. 65. gr. laga um fjöleignarhús.

Kærunefnd telur að ætla megi að álitsbeiðandi eigi við endurskoðanda þegar hún fer fram á að viðurkennt verði að bókari skuli kosinn á hverju ári. Samkvæmt 1. mgr. 73. gr. laga um fjöleignarhús skal endurskoðandi, sem kjörinn skal á aðalfundi til eins árs í senn, endurskoða reikninga húsfélagsins. Ekki verður ráðið af fundargerð aðalfundar frá 8. maí 2018 að endurskoðandi hafi verið kosinn á þeim fundi. Að því virtu er það niðurstaða kærunefndar að boða skuli til húsfundar þar sem úr þessu verði bætt og endurskoðandi kosinn til eins árs.

Þar sem gagnaðili hefur fallist á að lesa upp fundargerðir við lok funda telur kærunefnd ekki þörf á að taka til sérstakrar umfjöllunar kröfu álitsbeiðanda í þá veru. Kröfu þeirri er því vísað frá kærunefnd.

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að húsfundur frá 24. maí 2018 sé ólögmætur með vísan til þess að fundarsókn hafi verið dræm og ekki hafi verið löglega boðað til fundarins. Kærunefnd telur að ekki sé unnt að fallast á ólögmæti húsfundar með vísan til dræmrar fundarsóknar. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga um fjöleignarhús skal stjórn húsfélags boða til almenns fundar með minnst 4 og mest 20 daga fyrirvara. Í fundarboði skal greina tíma og stað fundarins og þau mál sem fyrir verða tekin og meginefni tillagna. Í gögnum málsins liggur fyrir fundarboð þar sem tími, staður og efni fundarins var tilgreint en hvorki liggur fyrir með hvaða hætti boðað var til fundarins né hvaða dag það var gert. Þegar af þeirri ástæðu getur kærunefnd ekki tekið frekari afstöðu til þessarar kröfu álitsbeiðanda og er henni því vísað frá.

Í 6. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús segir að stjórn og framkvæmdastjóra sé skylt að veita eigendum upplýsingar og skýringar um öll atriði er varða málefni húsfélagsins, rekstur þess, sameiginlegt viðhald, efnahag og fjárhagsstöðu. Skulu eigendur hafa rétt til að skoða bækur félagsins, reikninga og fylgiskjöl með hæfilegum fyrirvara en þó jafnan að viðstöddum stjórnarmanni. Álitsbeiðandi krefst viðurkenningar á því að stjórn gagnaðila sé skylt að veita allar upplýsingar um rekstur og stöðu gagnaðila þar með talið yfirlit frá bönkum. Með hliðsjón af framangreindu ákvæði skal gagnaðili veita álitsbeiðanda aðgengi að öllum þeim upplýsingum sem varða gagnaðila og hún óskar eftir að fá að skoða.

Stjórn gagnaðila fékk lögmann til þess að annast um að rita greinargerð í máli þessu og svara athugasemdum álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að hún þurfi ekki að taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna þessa. Samkvæmt 3. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús getur stjórn húsfélags ráðið framkvæmdastjóra eða annan starfsmann sér til aðstoðar við daglegan rekstur. Sé það gert gefi stjórnin starfsmanninum fyrirmæli, ákveði laun hans og önnur kjör og hafi eftirlit með því að hann uppfylli starfsskyldur sínar. Í 4. mgr. sömu greinar segir að stjórninni sé einnig heimilt með sama hætti að fela sjálfstæðum verktaka, til dæmis húsfélagaþjónustu, að annast tiltekin verkefni. Kærunefnd telur að ákvörðun stjórnar gagnaðila um að ráða lögmann til aðstoðar við að svara álitsbeiðninni falli undir nefnda 4. mgr. og því hafi ekki þurft að boða til húsfundar til ákvörðunar þar um.

Þá krefst álitsbeiðandi þess að viðurkennt verði að stjórn gagnaðila skuli fara eftir almennum reglum um fjöleignarhús. Kærunefnd telur ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um þessa almennu kröfu álitsbeiðanda og er henni því vísað frá.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að heimilt sé að taka ákvörðun um laun til stjórnarmanna vegna starfa í þágu húsfélags á húsfundi.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi sé bundinn af ákvörðun aðalfundar frá 8. maí 2018 um hækkun gjalda í framkvæmdasjóð.

Það er álit kærunefndar að boða skuli til húsfundar þar sem kosinn verði endurskoðandi til eins árs.

Það er álit kærunefndar að stjórn gagnaðila skuli veita álitsbeiðanda aðgengi að öllum gögnum gagnaðila.

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðandi skuli taka þátt í greiðslu kostnaðar vegna lögmannsþjónustu.

Öðrum kröfum álitsbeiðanda er vísað frá.

 

Reykjavík, 31. október 2018

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                                                  Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum