Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd kosningam%C3%A1la

Úrskurður nr. 2/2022 - Kæra vegna meðferðar persónuupplýsinga við birtingu framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar

Ár 2022, laugardaginn 14. maí, kom úrskurðarnefnd kosningamála saman til að úrskurða um kæru A vegna meðferðar persónuupplýsinga við birtingu framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar og kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

nr. 2/2022

Mál þetta úrskurða Berglind Svavarsdóttir, Anna Tryggvadóttir og Unnar Steinn Bjarndal.

I.

Með tölvupósti, dags. 2. maí 2022, leitaði kærandi, A, til landskjörstjórnar með kæru sem varðar birtingu kennitölu hennar í auglýsingu um framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar. Með tölvupósti landskjörstjórnar, dags. 9. maí 2022, var kæran framsend úrskurðarnefnd kosningamála. Í tölvupóstinum, sem jafnframt var beint til kæranda, var athygli vakin á því að það kynni að vera mögulegt að beina erindinu sem kvörtun til Persónuverndar. Með tölvupósti úrskurðarnefndar kosningamála til kæranda, dags. 10. maí 2022, var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar kosningamála skv. 22. gr. kosningalaga nr. 112/2021 og veittur frekari frestur til að koma rökstuðningi til nefndarinnar. Svar kæranda barst nefndinni með tölvupósti, dags. 11. maí 2022.

 

II.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi á framboðslista vegna sveitarstjórnarkosninga hinn 14. maí 2022. Með vísan til 47. gr. kosningalaga auglýsti yfirkjörstjórn sveitarfélagsins framboðslistann á heimasíðu sveitarfélagsins. Í auglýsingunni koma fram nöfn frambjóðenda, kennitölur, heimilisföng og starfsheiti.

 

Í erindi kæranda kemur meðal annars fram að þrátt fyrir að skylt sé að láta kennitölu fylgja framboðstilkynningu til yfirkjörstjórnar, ásamt nafni frambjóðanda, telji hún brot á persónurétti að birta kennitölur frambjóðenda opinberlega. Að mati kæranda hafi meginregla um jafnræði, öryggi og persónuvernd verið sniðgengin við útfærslu ákvæða reglugerðar um framboð og meðmæli við sveitarstjórnarkosningar, nr. 330/2022.

 

III.

Fjallað er um auglýsingu framboðslista í 1. mgr. 47. gr. kosningalaga. Þar kemur m.a. fram að yfirkjörstjórn sveitarfélags auglýsi framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningar eigi síðar en 30 dögum fyrir kjördag.

 

Með heimild í 1. mgr. 47. gr. kosningalaga hefur dómsmálaráðherra sett reglugerð um framboð og meðmæli við sveitarstjórnarkosningar, nr. 330/2022. Í 18. gr. reglugerðarinnar er fjallað um auglýsingu framboðslista við sveitarstjórnarkosningar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að þegar niðurstaða yfirkjörstjórnar sveitarfélags liggi fyrir um gildi framboða við sveitarstjórnarkosningar skuli hún auglýsa framboðslistana á vef sveitarfélagsins og á vef landskjörstjórnar 30 dögum fyrir kjördag. Í 2. mgr. ákvæðisins segir:

 

Á framboðslistum sem yfirkjörstjórn auglýsir skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram:

  1. Heiti stjórnmálasamtaka sem bjóða fram listann og listabókstafur þeirra.
  2. Nöfn frambjóðenda, sbr. 4. gr., hvers lista í réttri röð.
  3. Kennitala frambjóðenda.
  4. Lögheimili frambjóðenda, eins og það er skráð í þjóðskrá og birt í kjörskrá. Lögheimili skal rita í þágufalli. Ekki skal tilgreina póstnúmer.
  5. Staða eða starfsheiti frambjóðenda, sbr. 4. mgr. 4. gr.

 

Í 22. gr. kosningalaga er fjallað um úrskurðarnefnd kosningamála. Í 2. mgr. 22. gr. kemur fram að eftirtöldum ákvörðunum megi skjóta til nefndarinnar:

 

  1. Synjun Þjóðskrár Íslands um að taka kjósanda á kjörskrá, sbr. 3. mgr. 4. gr., og um leiðréttingar á kjörskrá skv. 32. gr., sbr. 33. gr.
  2. Ákvörðun landskjörstjórnar og yfirkjörstjórnar sveitarfélags um gildi framboðslista og önnur atriði er þau varða, sbr. 45. og 46. gr.
  3. Ákvörðun yfirkjörstjórnar um kjörgengi frambjóðenda í sveitarstjórnarkosningum, sbr. 48. gr.
  4. Ákvörðun landskjörstjórnar um gildi framboðs til forsetakjörs, sbr. 2. mgr. 50. gr.
  5. Kæru vegna ólögmætis sveitarstjórnarkosninga, sbr. 128. gr.
  6. Kæru vegna ólögmætis forsetakjörs og þjóðaratkvæðagreiðslna, sbr. 129. gr.
  7. Kæru vegna ólögmætis íbúakosninga sem haldnar eru á grundvelli sveitarstjórnarlaga.
  8. Ákvörðun sem landskjörstjórn tekur samkvæmt öðrum lögum.

 

Í erindi kæranda kemur fram að hún telji að kæra hennar geti verið byggð á 8. tölul. 2. mgr. 22. gr. kosningalaga nr. 112/2021. Þar sem kæran lýtur að auglýsingu framboðslista, sem yfirkjörstjórn viðkomandi sveitarfélags birtir, er ótvírætt að ekki er um að ræða ákvörðun landskjörstjórnar. Getur kærandi því ekki stutt kæru sína við kæruheimild 8. tölul. 2. gr. 22. gr. kosningalaga. Í þessu sambandi er rétt að árétta að kennitala kæranda var birt í auglýsingu um framboðslista á vefsíðu sveitarfélagsins en ekki á vefsvæðinu kosning.is.

 

Í 2. mgr. 22. gr. kosningalaga eru tæmandi taldar í átta töluliðum þær ákvarðanir sem eru kæranlegar til úrskurðarnefndar kosningamála. Ákvarðanir yfirkjörstjórna sveitarfélaga  samkvæmt 47. gr. kosningalaga og reglugerð nr. 330/2022 eru þar ekki á meðal. Er kærunni því vísað frá nefndinni.

 

Úrskurðarorð:

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd kosningamála.

 

Reykjavík, 14. maí 2022.

 

Berglind Svavarsdóttir

 

Anna Tryggvadóttir                                                                          Unnar Steinn Bjarndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum