Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd h%C3%BAsam%C3%A1la

Mál nr. 52/2020 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 52/2020

 

Kostnaðarþátttaka húsfélags: Gluggaskipti. Gólf.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með rafrænni álitsbeiðni, dags. 5. maí 2020, beindi A, hér eftir nefnd álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 18. maí 2020, athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 25. maí 2020, og athugasemdir gagnaðila, dags. 28. maí 2020, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 3. júlí 2020.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið C, alls 30 eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á 5. hæð hússins. Ágreiningur er um kostnaðarþátttöku gagnaðila vegna gluggaskipta og lagfæringa á gólfi í íbúð álitsbeiðanda.  

Kröfur álitsbeiðanda eru:

  1. Að viðurkennt verði að gagnaðili greiði álitsbeiðanda 824.981 kr. sem sé helmingur fjárhæðar vegna gluggaskipta.
  2. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að skoða hvort enn sé raki í vegg í íbúð álitsbeiðanda.
  3. Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða helming kostnaðar vegna skemmda á gólfi í íbúð álitsbeiðanda, sem hafi verið ónýtt þar sem hún hafi þurft að bíða í eitt og hálft ár til að geta skipt um glugga og tvö ár þar til lagfæringar voru gerðar vegna raka í vegg.

Í álitsbeiðni kemur fram að álitsbeiðandi hafi keypt íbúð sína í janúar 2018 en ekki verið upplýst um alvarlegt ástand vegna leka í öllum gluggum og 90% raka í vegg nálægt sameiginlegum svölum. Fyrri eigandi hafi greitt álitsbeiðanda 200.000 kr. til þess að koma til móts við kostnað hennar við lagfæringar, en það hafi verið of lítið þar sem heildarkostnaður hafi numið 2-2.500.000 kr. Um mitt árið 2018 hafi D verið fengnar til að starfa fyrir gagnaðila.

Einu ári eftir að álitsbeiðandi hafi fyrst óskað eftir svörum frá gagnaðila hafi hann sagt að hún þyrfti að greiða kostnað vegna ástandsskoðana. Álitsbeiðandi hafi gert það og gagnaðili fengið þær. Tiltekið fyrirtæki, sem hafi gert ástandsskoðun fyrir framkvæmd gagnaðila í lok árs 2016, hafi vitað af raka í vegg. Hvorki hafi neitt verið gert í því né gluggamálum þótt fyrir lægi að þörf væri á viðgerðum. Fyrirtækið hafi mælt með því að setja kítti í glugga, en það hafi ekki hjálpað. Gólfið hafi verið alveg ónýtt vegna leka og raka. Ástandsskoðanir, sem hafi verið gerðar í lok árs 2018 og byrjun árs 2019, hafi sýnt að karmar á öllum gluggum væru ónýtir að utan og að leki stafaði þaðan. Jafnframt að það borgaði sig ekki að laga þetta. Þetta ástand hefði verið til staðar í langan tíma eða meira en þrjú ár, miðað við útlitið. Ráðlagt hafi verið að skipta um glugga. Þá hafi verið mældur 90% raki í veggnum.

Á húsfundi í mars 2019 hafi verið samþykkt að skipta um alla glugga í húsinu. D og gagnaðili hafi mælt með tilteknu fyrirtæki og séð um efnisval. Ákveðið hafi verið að álitsbeiðandi myndi hafa frumkvæði að því að skipta um glugga og gagnaðili greiddi helming af heildarkostnaði samkvæmt mati D. Formaður gagnaðila hefði áður samþykkt það.

D og álitsbeiðandi hafi pantað glugga. Skipting á heildarkostnaði hafi verið reiknuð út, bæði af D og verktakanum. Niðurstaðan hafi verið sú að skipta honum í tvennt. Gagnaðili og D myndu sjá um að laga raka í vegg, sem hafi jafnframt komið utan frá. Ekki hafi þó verið komin bráðabirgðalausn fyrr en í desember 2019 og töfin hafi valdið skemmdum á bæði gamla og nýja gólfinu. Frá upphafi hafi álitsbeiðandi beðið D um að staðfesta allt framangreint með samningi og í fundargerð, en það hafi ekki verið gert. Verktakinn hafi einnig fengið staðfest frá D að hann ætti að senda reikning vegna helmings af heildarkostnaðinum til gagnaðila eftir að formaður gagnaðila hafi sagt þeim að gera það.

Skipt hafi verið um gluggana í maí 2019 og álitsbeiðandi þegar greitt helming kostnaðar vegna þess. Í lok árs 2019 hafi álitsbeiðandi fengið þær upplýsingar frá verktakanum að gagnaðili hefði ekki enn greitt sinn hluta. Stjórn gagnaðila hafi þá sagt að álitsbeiðandi ætti að sjá um það og senda gagnaðila reikning vegna helmings kostnaðarins til þess að fá hann endurgreiddan. Álitsbeiðandi hafi gert það en ekki fengið endurgreitt. Síðan hafi formaður gagnaðila neitað að hafa samþykkt að greiða helming kostnaðar vegna gluggaskiptanna.

Frá upphafi hafi verið skýrt að álitsbeiðandi þyrfti að greiða kostnað vegna opnanlegu glugganna og svalahurðarinnar. Engu að síður hafi verið reiknað með að hún myndi greiða helming kostnaðarins og gagnaðili hinn helminginn. Álitsbeiðandi hafi einnig spurt hvort gagnaðili vildi mæla raka í veggnum og sjá hvort komið hefði verið í veg fyrir hann með bráðabirgðalausninni en því hafi ekki verið svarað.

Gagnaðili vilji aðeins greiða álitsbeiðanda 300.000 kr. en draga frá þeirri greiðslu 200.000 kr. sem hún hafi fengið greiddar frá seljanda íbúðarinnar.

Í greinargerð gagnaðila segir að hann hafi staðið í viðamiklum utanhúss framkvæmdum árið 2017 þar sem húsið hafi verið sprunguviðgert, málað og skipt um þak. Þá hafi eigendum verið gefinn kostur á gluggaskiptum. Tiltekið fyrirtæki hafi verið fengið til að halda utan um framkvæmdina ásamt ábyrgðarúttekt í framhaldi af ástandsskýrslu fyrirtækisins og viðgerðartillögum frá árinu 2015. D hafi tekið við rekstri gagnaðila eftir lok framkvæmdanna.

Í fundargerð aðalfundar, sem haldinn hafi verið 13. mars 2018, kemur fram að framkvæmdum hafi lokið árið 2017 en að það sé enn leki á 5. hæð sem þurfi að laga. Hér sé verið að vísa í glugga sem hafi verið lekur. Hann hafi verið staðsettur í eldhúsi íbúðar álitsbeiðanda en nú sé búið að breyta því í svefnherbergi. Fyrirtækið hafi staðfest við fyrrverandi eiganda íbúðar álitsbeiðanda 18. apríl 2018 að nýr gluggi væri tilbúinn og í framhaldinu færu fram viðgerðir á leka. Stjórn húsfélagsins hafi í framhaldinu fengið tiltekið fyrirtæki til að gera ábyrgðarúttekt á framkvæmdinni, sem hafi lokið árið 2017, áður en verktakaábyrgðir rynnu út. Í framhaldi af því hafi athugasemdum verið safnað saman frá íbúum um hvað mætti betur fara. Álitsbeiðandi hafi keypt íbúðina eftir að framkvæmdum hafi lokið, en ábyrgðarúttekt hafi verið ólokið og hún því sent inn athugasemdir.

Athugasemdir álitsbeiðanda hafi snúið að raka í horni og leka meðfram gleri og fögum á gluggum á austurhlið íbúðarinnar. Óskað hafi verið eftir því að fög yrðu stillt af til þess að koma í veg fyrir áframhaldandi raka í rýminu. Fyrirtækið hafi svarað 16. október 2018 eftir skoðun. Það hafi ekki talið að þau atriði, sem athugasemdir álitsbeiðanda vörðuðu, féllu undir ábyrgðarúttektina þar sem þáverandi eigandi hefði ekki óskað eftir gluggaskiptum í þessum framkvæmdum. Eins hafi verið með athugasemd vegna rakaskemmdar í horni eldhúss en úttektaraðili hafi vísað til þess að um væri að ræða gamlar rakaskemmdir.

Fyrri eigandi íbúðar álitsbeiðanda hafi ekki upplýst um neitt af þessum atriðum sem álitsbeiðandi geri athugasemdir við þegar undirbúningur fyrir framkvæmdirnar hafi staðið yfir á sínum tíma og því hafi þetta ekki verið hluti af þeim framkvæmdum sem gagnaðili hafi þá staðið að. Þetta hafi verið staðfest með ábyrgðarúttekt og svörum fyrirtækisins sem hafi einnig upplýst að ástæðu þess sé að rekja til þess að fyrri eigandi hafi nokkrum árum áður látið yfirfara gluggana og skipt þeim út og því ekki séð ástæðu til að endurnýja þá að þessu sinni.

Bæði þessi atriði sem álitsbeiðandi geri athugasemdir við ætti hún að hafa séð við skoðun og kaup á íbúðinni, en að endingu hafi hún fengið bætur greiddar úr hendi fyrri eiganda. Það hafi verið án aðkomu og vitundar stjórnar gagnaðila en fullyrt hafi verið í póstum að það hafi verið með vitund og samþykki stjórnar. Álitsbeiðanda sé bent á að klára þetta mál með fyrri eiganda, án aðkomu gagnaðila.

Álitsbeiðandi hafi fengið verktaka til að taka út ástand glugganna og hann skilað matsskýrslu um hvað mætti betur fara, auk tilboðs í lagfæringar. Við það mat hafi verið upplýst um leka frá sameiginlegum svölum og bent á hvar slíkur leki væri og að vegna hans hafi myndast raki í útvegg í íbúðinni sem hafi valdið rakabletti í parketi í horni eldhúss. Stjórn gagnaðila hafi fengið verktaka til að þétta í sprungur á sameiginlegum svölum 5. hæðar, ásamt því að fara á aðrar sameiginlegar svalir á öðrum hæðum og yfirfara sömu sprunguskil og þétta þar sem talin hafi verið þörf á.

Álitsbeiðandi hafi verið upplýst um það munnlega og jafnframt verið tjáð að það gæti tekið tíma fyrir rakann að fara úr veggnum eftir viðgerðina og tilgangslaust væri að rakamæla þetta strax og sjá til hvort viðgerðin hafi leyst málið.

Varðandi opnanleg fög og leka inn með gluggum, hafi fyrirtækið upplýst álitsbeiðanda um að þetta væri á hennar ábyrgð og stafaði af lélegu viðhaldi. Verktakinn hafi einnig upplýst að gluggar þurfi töluvert viðhald. Í ástandsskýrslu frá árinu 2015 komi fram að ástand glugga sé almennt gott.

Álitsbeiðandi hafi tekið tilboði verktaka og hafið framkvæmdir án vitundar stjórnar gagnaðila. Verktakinn hafi lagt fram tilboð A og tilboð B. Tilboð B hafi verið dýrara og álitsbeiðandi tekið því. Hún hafi þannig ákveðið sjálf að taka því sem henni hafi hugnast betur, án þess að gera það upp við stjórn gagnaðila eða leggja fyrir húsfund og fá samþykki fyrir því að fara í framkvæmdirnar. Hún fullyrði þó að henni hafi verið lofað að gagnaðili myndi greiða helming af dýrara tilboðinu sem enginn kannist við að hafa lofað, enda skipti það ekki máli þar sem húsfundur eða stjórn gagnaðila kannist ekki við að hafa gefið slíka heimild. Að framkvæmdunum loknum hafi álitsbeiðandi farið fram á að gagnaðili greiddi helminginn af dýrara tilboðinu. Til standi að fjalla um þetta á húsfundi.

Gagnaðili telji að aðeins sé unnt að fara eftir 37. og 38. gr. laga um fjöleignarhús. Á forsendum þeirra ákvæða hafi stjórn gagnaðila ákveðið að leggja fram sáttatillögu um að greiða helming í kostnaði álitsbeiðanda samkvæmt lægra tilboðinu, en að til frádráttar kæmi greiðsla sem álitsbeiðandi hafi þegar fengið frá fyrri eiganda. Ekkert skriflegt hafi verið lagt fram hér um, heldur hafi verið að kanna grundvöll sátta sem hægt væri að leggja fyrir húsfund. Álitsbeiðandi hafi þó hafnað tilboðinu. Samskipti við álitsbeiðanda hafi verið í gegnum D þar sem tölvupóstar er varði þetta mál hafi verið komnir úr samhengi og sendir á marga einstaklinga. Ákveðið hafi verið að einn einstaklingur myndi svara fyrir málið til að reyna að hafa yfirsýn. Álitsbeiðanda beri að taka þetta upp á húsfundi og leggja fyrir aðra eigendur. Óskað hafi verið eftir því að álitsbeiðandi upplýsti hver hefði veitt henni loforð um greiðsluþátttöku en það hafi ekki tekist.

Kröfu álitsbeiðanda um greiðslu vegna gluggaframkvæmda sé hafnað þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að um hafi verið að ræða nauðsynlegar framkvæmdir sem ekki hafi verið hægt að bíða með að leggja fyrir húsfund. Auk þess hafi ekki verið nauðsynlegt að taka tilboði B í stað tilboðs A sem hafi verið vegna lágmarksviðgerða.

Gagnaðili hafi munnlega upplýst álitsbeiðanda um að viðgerð á sprungu í útvegg á sameiginlegum svölum 5. hæðar hafi farið fram og rakamæling muni fara fram þegar rakinn sé farinn úr veggnum.

Gagnaðili hafni bótagreiðslu vegna gólfefna. Álitsbeiðandi hafi mátt vita af rakabletti í horni þegar hún hafi keypt íbúðina, enda sé rík skoðunarskylda við kaupin og hluta af raka í rýminu megi rekja til vanrækslu fyrri eiganda þar sem gluggabúnaður/krækjur hafi ekki verið nægilega þéttur þannig að vatn hafi átt greiða leið inn þegar það hafi blásið.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að lögum samkvæmt megi byrja á framkvæmdum sem séu nauðsynlegar til að forða frekara tjóni, án samþykkis stjórnar húsfélags. Álitsbeiðandi hafi ítrekað síðan í byrjun 2018 beðið gagnaðila og D um að taka málið upp á húsfundi en þeir hafi ekki orðið við því.

Í lok árs 2018 hafi stjórn gagnaðila beðið álitsbeiðanda um að panta ástandsskoðun vegna allra glugga í íbúð hennar og raka í vegg. Þau hafi fengið skýrsluna og tilboðið í febrúar 2019 eftir að þau höfðu fengið myndefni og myndbönd. Þau hafi vitað af málinu löngu fyrir þann tíma, án þess að hjálpa til og vinna að lausn, sem hafi þurft að koma til strax til að forða enn meira tjóni á parketi, vegg og fyrir einangrun.

Stjórn gagnaðila hafi verið búin að samþykkja framkvæmdina eftir að D höfðu mælt með því að skipta um alla glugga og fara eftir tilboði B. Það hafi verið gert á húsfundi í mars 2019. Málið hafi verið rætt eftir fundinn við D og formann gagnaðila. Formaðurinn hafi verið búinn að samþykkja að velja tilboð B, fyrir hönd gagnaðila, áður en það hafi verið pantað. D geti staðfest það.

Það sé skýrt að ástandsskýrslan fjalli um alla gluggana, bæði norður- og austanmegin, og það sé sannað tjón sem stjórn gagnaðila hafi vitað af. Tilboðið, sem hafi verið samþykkt, sé einnig fyrir alla glugga. Það hafi ekki bara verið einn gluggi sem hafi lekið. Stjórn gagnaðila og fyrrnefnt fyrirtæki hafi vitað það og séu því ekki segja rétt frá stöðu glugganna. Þá geti þau ekki sagt út frá myndum að það hafi enginn leki verið og ekkert að gluggunum. Þau hafi vitað af lekanum. Myndirnar hafi verið teknar eftir útgáfu ástandsskýrslunnar. Það hafi verið alvarlegt ástand áður og þurft að skipta um karmana að utan, og gluggalista.

Í athugasemdum gagnaðila segir að vegna myndbands, sem álitsbeiðandi leggi fram, sé stjórn gagnaðila ekki sérfræðingur í viðgerðum húsa eða skemmdum, en fyrrnefnd fyrirtæki hafi farið á staðinn og skoðað málið og bent á að það væri á ábyrgð eiganda að þetta væri í lagi. Einnig hafi fyrirtækið staðfest að um væri að ræða gluggann sem hefði þegar verið lagaður.

Álitsbeiðandi hafi verið hvött til að leggja fram skýrslu sem sýndi fram á nauðsynlegar viðgerðir og liggi hún fyrir frá verktakanum. Þar sé hvergi greint frá bráðaviðgerðum sem þurfi að fara fram. Fullyrðingum um að stjórn gagnaðila hafi samþykkt framkvæmdir sé mótmælt.

Jafnframt séu gerðar athugasemdir við það að stjórn gagnaðila hafi haft vitneskju um að breyta gerð glugga á einhvern hátt eða viljað breyta pöntun. Hvorki sé um að ræða neitt sem hafi komið til afgreiðslu eða umræðu til stjórnar gagnaðila né borist til eyrna hennar. Álitsbeiðandi sé ein til frásagnar um að hafa fengið staðfestingu frá stjórn gagnaðila eða íbúafundi um að taka tilboði eða hefja framkvæmdir.

III. Forsendur

Deilt er um hvort gagnaðila beri að greiða hlutdeild í kostnaði vegna endurnýjunar á gluggum í íbúð álitsbeiðanda.

Samkvæmt 3. tölul. 8. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994, fellur allur ytri gluggaumbúnaður, bæði á séreignarhlutum og sameign, undir sameign fjöleignarhúss. Kærunefnd telur í þessu sambandi að ytri gluggaumbúnað, sbr. ákvæði 3. tölul. 8. gr. laganna, beri að skýra sem þann hluta glugga sem liggur utan glers. Aftur á móti telst sá hluti gluggaumbúnaðar sem er inni í séreign, svo og gler í gluggum og hurðum, séreign, sbr. 5. tölul. 5. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 43. gr. laga um fjöleignarhús fellur undir sameiginlegan kostnað allur kostnaður, hverju nafni sem hann nefnist, sem snertir sameign fjöleignarhúss, bæði innan húss og utan, sameiginlega lóð þess og sameiginlegan búnað og lagnir, sem leiðir af löglegum ákvörðunum stjórnar húsfélagsins, almenns fundar þess og þeim ráðstöfunum sem einstakur eigandi hefur heimild til að gera.

Samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga um fjöleignarhús fer stjórn húsfélags með sameiginleg málefni húsfélagsins á milli funda og sér um framkvæmd viðhalds og rekstur sameignarinnar og öll önnur sameiginleg málefni í samræmi við ákvæði laga þessara, önnur lög og samþykktir og ákvarðanir húsfunda.

Samkvæmt ástandsskýrslu á gluggum í íbúð álitsbeiðanda, dags. 18. febrúar 2019, lak víða inn með rúðum og voru gluggalistar orðnir lélegir og þétting á milli steins og glugga var víða ónýt. Heilt yfir þörfnuðust gluggarnir töluverðs viðhalds eða endurnýjunar. Álitsbeiðandi tók tilboði verktaka um að endurnýja alla glugga og svalahurð í íbúð hennar og kveður gagnaðila hafa fallist á það munnlega að greiða helming kostnaðar vegna framkvæmdarinnar. Gagnaðili neitar því að hafa samþykkt það.

Í fundargerð aðalfundar, sem haldinn var 13. mars 2018, kemur fram að viðgerðum utanhúss hafi lokið á síðasta ári og að lokaúttekt hafi farið fram. Einnig kom fram að það væri leki á 5. hæð sem þyrfti að laga. Í skýrslu stjórnar, sem fjallað var um á húsfundinum, kemur fram að þótt framkvæmdum sé formlega lokið standi eftir tvö atriði sem verktakar séu með á sinni könnu. Í því tilliti var tekið fram að enn virtist vera til staðar leki austanmegin hjá sameiginlegum svölum en lekinn væri aðallega sjáanlegur í eldhúsi í íbúð álitsbeiðanda. Álitsbeiðandi segir að á þessum fundi hafi jafnframt verið tekin ákvörðun um að taka tilboði verktaka um endurnýjun glugga í íbúð hennar en ekki er að finna bókun þess efnis í endurriti húsfundar. Segir hún að starfsmaður D hafi mælt með því að taka tilboði B og hafi formaður gagnaðila samþykkt það og jafnframt sagt að það ætti að senda gagnaðila reikninginn. Í tilboði B fólst að endurnýja alla glugga og svalahurð í íbúðinni. Í ástandsskoðun er jafnframt gert ráð fyrir valkosti A sem er að skipta um gler, gluggalista og opnanleg fög eftir þörfum og kíttun á milli steins og glugga. Ljóst er að leið A er ódýrari leið.

Í gögnum málsins liggja fyrir tölvupóstsamskipti aðila. Með tölvupóstum álitsbeiðanda til gagnaðila og D í desember 2018 óskaði hún eftir að gluggar hennar yrðu metnir vegna leka. Áður hafði hún einnig upplýst gagnaðila um leka með tölvupóstum og óskað eftir mati á þeim. Með tölvupósti formanns gagnaðila 10. desember 2018 lagði hann til að hún fengi matsmann til að gera skriflega ástandsskýrslu sem meðal annars staðfesti leka utan frá, sem hún og gerði, sbr. fyrrnefnd ástandsskýrsla, dagsett 18. febrúar 2019.

Ákvæði 39. gr. laga um fjöleignarhús kveður á um að allir hlutaðeigandi eigendur eigi óskorðaðan rétt á að taka þátt í öllum ákvörðunum sem varða sameignina, bæði innan húss og utan. Bar álitsbeiðanda því að bera ákvörðun um að ganga að tilboði í framkvæmdir á gluggum á íbúð hennar undir húsfund. Ekki liggur þó fyrir ákvörðun húsfundar hér um. Samkvæmt tölvupósti verktaka 21. maí 2020 kemur fram að bæði hann og starfsmaður D hefðu sérstakega tekið fram við álitsbeiðanda að hluti kostnaðar við gluggaskiptin væri kostnaður sem, að réttu, ætti að falla undir sameiginlegan kostnað hússins en hún yrði þó að fá það sérstaklega samþykkt á húsfundi. Hafi álitsbeiðandi sent verktakanum tölvupóst í lok mars 2019 um að gagnaðili væri búinn að samþykkja að skipt yrði um glugga en samþykki þar um liggur ekki fyrir meðal gagna málsins. Gegn neitun gagnaðila telur kærunefnd að álitsbeiðanda hafi ekki tekist sönnun þess að samþykkt hafi verið tillaga á húsfundi um að taka valkosti B um gluggaskipti á íbúð hennar. Að mati kærunefndar hefur álitsbeiðandi ekki sýnt fram á að framkvæmdin hafi verið brýn ráðstöfun til að koma í veg fyrir yfirvofandi tjón eða að gagnaðili hafi sýnt af sér afhafnaleysi hvað glugga álitsbeiðanda varðar. Gat álitsbeiðandi þannig ekki farið í gluggaskiptin á grundvelli 37. eða 38. gr. laganna.

Kærunefnd telur þó tilefni til að benda á að unnt er að leggja fyrir húsfund tillögu um að gagnaðili greiði kostnað vegna gluggaskiptanna með vísan til 4. mgr. 40. gr. laga um fjöleignarhús.

Álitsbeiðandi fer einnig fram á að viðurkennt verði að gagnaðila beri að skoða hvort enn sé raki í tilteknum útvegg í íbúð hennar. Í greinargerð gagnaðila segir að til standi að rakamæla vegginn þegar hann sé þornaður. Álitsbeiðandi mótmælir þessu ekki í athugasemdum sínum. Verður því að leggja til grundvallar að til standi af hálfu gagnaðila að verða við þessari kröfu álitsbeiðanda og því ekki tilefni til að taka hana til efnislegrar úrlausnar í máli þessu. Er þessari kröfu því vísað frá kærunefnd.

Að lokum gerir álitsbeiðandi kröfu um að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða helming af kostnaði vegna skemmda á gólfi í íbúð hennar þar sem skemmdirnar sé að rekja til þess að hún hafi þurft að bíða í eitt og hálft ár með að skipta um glugga og tvö ár þar til lagfæringar voru gerðar vegna raka í vegg.

Í 1. mgr. 52. gr. laga um fjöleignarhús segir að húsfélag sé ábyrgt gagnvart einstökum eigendum og afnotahöfum vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra og stafar af vanrækslu á viðhaldi sameignar, búnaði hennar og lögnum eða mistökum við meðferð hennar og viðhald, sbr. 1. og 2. tölul. Samkvæmt 3. tölul. 1. mgr. 43. gr. laganna falla undir sameiginlegan kostnað skaðabætur, bæði innan og utan samninga, sem húsfélagi sé gert að greiða og tjón á séreignum eða eignum annarra vegna bilunar eða vanrækslu á viðhaldi á sameign og sameiginlegum búnaði, sbr. 52. gr.

Álitsbeiðandi byggir á því að skemmdir á gólfi íbúðar hennar sé að rekja til þess að gagnaðili hafi vanrækt að ráðast í gluggaviðgerðir og lagfæringar á lekum vegg í íbúð hennar. Því beri gagnaðila að bæta þetta tjón. Leggur hún ekki fram gögn því til stuðnings. Gagnaðili vísar aftur á móti til þess að rakablettur hafi myndast í parketi vegna vanrækslu fyrri eiganda þar sem gluggabúnaður/krækjur hafi ekki verið nægilega þéttur og fær það stoð í tölvupósti verktakans sem skoðaði íbúðina vegna úttektar á verki vegna ábyrgðar verktaka. Þannig hafi vatn átt greiða leið inn þegar það hafi blásið. Telur kærunefnd að álitsbeiðanda hafi ekki tekist að sanna að skemmdir á parketi séu vegna vanrækslu gagnaðila og því er ekki unnt að fallast á kröfu hennar hér um að svo stöddu.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðila beri að greiða helming kostnaðar vegna gluggaskipta.

Það er álit kærunefndar að hafna beri kröfu álitsbeiðanda um að gagnaðili greiði kostnað vegna skemmda á parketi.

Kröfu álitsbeiðanda um rakamælingu í vegg er vísað frá.

 

Reykjavík, 3. júlí 2020

f.h. kærunefndar húsamála

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum