Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd jafnr%C3%A9ttism%C3%A1la

Mál nr. 6/2020 - Úrskurður

Mál nr. 6/2020

 

 

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

mennta- og menningarmálaráðherra

 

Skipun í embætti. Hæfnismat. Sönnun.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla með því að skipa karl í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis. Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að ýmissa annmarka hefði gætt af hálfu kærða við mat á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut. Samandregið hefði kærði vanmetið kæranda samanborið við karlinn varðandi menntun hennar, reynslu hennar af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika hennar og hæfni hennar til að tjá sig í riti, en allt hefðu þetta verið fortakslaus skilyrði sem birtust í starfsauglýsingu kærða. Að þessu virtu og með hliðsjón af nánari umfjöllun kærunefndarinnar um einstaka matsþætti starfsauglýsingarinnar taldist kærandi hafa leitt nægar líkur að því að henni hefði verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita bæri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt því kom það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Að mati kærunefndarinnar tókst sú sönnun ekki af hálfu kærða. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 27. maí 2020 er tekið fyrir mál nr. 6/2020 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með kæru, dagsettri 2. mars 2020, kærði A ákvörðun mennta- og menningarmálaráðherra um að skipa karl í embætti ráðuneytisstjóra. Kærandi telur að með skipuninni hafi ráðherra brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
  3. Kæran ásamt fylgigögnum var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 4. mars 2020. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 25. mars 2020, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 30. mars 2020.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 15. apríl 2020, með athugasemdum við greinargerð kærða og sem kynnt var kærða með bréfi kærunefndar, dagsettu 16. apríl 2020. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 30. apríl 2020, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 4. maí 2020. Með sama bréfi var kærandi upplýst um að málið væri tekið til úrlausnar og var kærði jafnframt upplýstur um það bréfi, dagsettu sama dag.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti laust til umsóknar embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu 8. júní 2019. Í auglýsingunni kemur fram að mennta- og menningarmálaráðherra fari með yfirstjórn ráðuneytisins og beri ábyrgð á öllum stjórnarframkvæmdum þess. Allar embættisfærslur starfsmanna séu gerðar í umboði ráðherra. Helstu verkefni sem heyri undir ráðuneytið séu skipulag, rekstur og starfsmannahald ráðuneytisins, fræðslumál, þ.á m. kennslu- og skólamál, námsaðstoð, vísindamál, safnamál, menningarminjar, listir og menning, höfundaréttur, íslensk fræði, íþrótta- og æskulýðsmál og mál er varði fjölmiðla. Þá sinni ráðuneytið fjölbreyttu erlendu samtarfi á sviði menntunar, menningar og vísinda. Einnig kom fram að ráðuneytinu sé skipt í fimm skrifstofur. Skrifstofu mennta og vísinda, skrifstofu menningarmála, skrifstofu stefnumótunar og fjárlagagerðar, skrifstofu laga og stjórnsýslu og skrifstofu yfirstjórnar. Ráðuneytið starfi sem ein heild en skrifstofur hafi forræði á sínum málaflokkum eftir því sem efni standi til. Ráðuneytisstjóri annist samræmingu á starfsemi skrifstofa og sjái, ásamt skrifstofustjórum, um miðlun upplýsinga til ráðherra.
  6. Þá var tekið fram í auglýsingunni að ráðuneytisstjóri stýri ráðuneytinu undir yfirstjórn mennta- og menningarmálaráðherra. Ráðherra setji ráðuneytisstjóra erindisbréf þar sem kveðið skuli á um starfssvið og starfsskyldur, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Starfssvið og starfsskyldur ráðuneytisstjóra séu víðtækar og beri ráðuneytisstjóri m.a. fjárhagslega og faglega ábyrgð gagnvart ráðherra á starfsemi ráðuneytisins. Þá beri ráðuneytisstjóra að veita ráðherra upplýsingar og ráðgjöf þannig að ráðherra geti sinnt lögbundnu hlutverki sínu og stefnumótun og sé vel upplýstur varðandi þau mál sem unnið sé að. Ráðuneytisstjóra beri einnig að stuðla að framgangi og árangri löggjafar á málefnasviði ráðuneytisins og að afgreiðsla mála á hverjum tíma sé fagleg. Þá beri ráðuneytisstjóra enn fremur að samhæfa stefnumótun á öllum málefnasviðum ráðuneytisins, stuðla að samhentri stjórnsýslu og samræma stefnu og aðgerðir ráðuneytisins við vinnu annarra ráðuneyta þegar málefni og málefnasvið skarist. Ráðuneytisstjóri skuli með reglubundnum hætti halda verkefnafundi með skrifstofustjórum sem og almenna starfsmannafundi í ráðuneytinu.
  7. Í auglýsingunni voru jafnframt skilgreindar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur: Háskólamenntun sem nýtist í starfi, embættis- eða meistarapróf er skilyrði; Þekking á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins; Reynsla af opinberri stjórnsýslu; Þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds er æskileg; Leiðtogahæfileikar og umfangsmikil stjórnunarreynsla; Færni í mannlegum samskiptum; Mjög góð íslensku- og enskukunnátta; Kunnátta í einu Norðurlandamáli æskileg; Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
  8. Með bréfi kærða, dagsettu 19. ágúst 2019, var umsækjendum tilkynnt um skipan hæfnisnefndar sem var ætlað að fjalla um umsóknir um embætti ráðuneytisstjóra í samræmi við 19. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Í gögnum málsins er að finna ráðningaráætlun hæfnisnefndar, dagsetta 19. ágúst 2019. Þar var gert ráð fyrir því að umsækjendum skyldi raðað niður í fjóra flokka, þ.e. (1) mjög vel hæfur, (2) vel hæfur, (3) hæfur og (4) ekki hæfur. Ráðherra staðfesti ráðningaráætlunina 22. ágúst 2019.
  9. Alls bárust þrettán umsóknir. Hæfnisnefndin fór yfir umsóknargögn og komst að þeirri niðurstöðu að tíu umsækjendur uppfylltu hæfnisskilyrðin. Voru þeir umsækjendur boðaðir í viðtöl við nefndina. Kærandi var í þeim hópi. Sömu spurningar voru lagðar fyrir umsækjendur í viðtölunum. Eftir viðtölin voru fimm umsækjendur boðaðir í annað viðtal við nefndina og var kærandi í þeim hópi. Að loknum seinni viðtölum var það niðurstaða hæfnisnefndarinnar að fjórir umsækjendur væru mjög vel hæfir til að gegna embættinu, tveir karlar og tvær konur, sbr. umsögn nefndarinnar, dagsetta 27. september 2019. Voru þau boðuð til viðtals við ráðherra. Kærandi var aftur á móti ekki þar á meðal. Að loknum þeim viðtölum ákvað ráðherra að skipa einn umsækjendanna, karl, í embætti ráðuneytisstjóra.
  10. Með tölvubréfi kæranda, sendu 12. nóvember 2019, óskaði hún eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni um skipunina og öllum gögnum málsins. Með bréfi kærða, dagsettu 25. nóvember 2019, barst umbeðinn rökstuðningur. Þá fékk kærandi afhentan hluta af umbeðnum gögnum en tekið var fram í bréfi kærða að það væri mat ráðuneytisins að takmarkaður væri aðgangur að hluta að skjölum þar sem það væri mat ráðuneytisins að einkahagsmunir annarra væru ríkari en kæranda, sbr. 17. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
  11. Með bréfi kæranda, dagsettu 2. desember 2019, gerði hún athugasemdir við afhendingu gagnanna sem hún taldi ekki í samræmi við 15. gr. stjórnsýslulaga. Þá fór hún fram á frekari afhendingu gagna. Hún ítrekaði þá beiðni sína með tölvubréfum, sendum 15., 17. og 23. desember 2019. Öll gögn málsins voru afhent kæranda með bréfi kærða, dagsettu 13. janúar 2020.
  12. Í rökstuðningi kærða fyrir skipuninni segir að á grundvelli viðtala og allra annarra gagna sem legið hafi fyrir hafi ráðherra ákveðið að bjóða einum umsækjendanna embætti ráðuneytisstjóra. Hann hafi lokið BA-gráðu í guðfræði við Háskóla Íslands árið 2001, meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu (MPA) frá Háskóla Íslands árið 2006 og meistaraprófi í lögfræði (ML) frá Háskólanum í Reykjavík 2019. Hann hafi starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari hjá Kópavogsbæ frá árinu 2006. Hann hafi starfað í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu sem aðstoðarmaður ráðherra frá árinu 1999 til 2006. Á árunum 1998 til 1999 hafi hann starfað sem framkvæmdastjóri hjá Reykvískri útgáfu. Í störfum sínum hjá Kópavogsbæ hafi hann meðal annars setið í stýrihópi vegna innleiðingar á spjaldtölvum í grunnskólum Kópavogs og unnið að heildarstefnumótun Kópavogsbæjar þar sem heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna séu staðfærð og myndi yfirstefnu bæjarins. Hann hafi unnið að innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Kópavogsbæ, en það verkefni hafi leitt til samstarfs bæjarins við Unicef á Íslandi. Verkefnið hafi verið kynnt erlendum stofnunum svo sem eins og World Council on City Data og OECD sem hafi lýst áhuga á samstarfi. Hann hafi einnig haft forgöngu um innleiðingu gæðakerfis hjá Kópavogsbæ þar sem um sé að ræða breytt verklag í allri stjórnsýslu bæjarins. Samhliða ofangreindum störfum hafi hann sinnt ýmsum stjórnarsetum, störfum sem kjörinn fulltrúi og félagsstörfum. Hann hafi verið í stjórn Landsvirkjunar frá árinu 2007 til 2011 og þar af formaður frá 2007 til 2008. Frá 2003 til 2008 hafi hann verið varaformaður útvarpsráðs og síðar Ríkisútvarpsins ohf. Á árunum 1997-2007 hafi hann verið varaþingmaður. Frá árinu 1999 til 2006 hafi hann verið varamaður í stjórn Norræna fjárfestingabankans. Hann hafi verið stjórnarformaður Fjárfestingastofu Íslands frá 1999 til 2006. Hann hafi setið í stjórnum Vímulausrar æsku, Umhyggju og Sjónarhóls. Hann hafi verið varabæjarfulltrúi í Kópavogi á árunum 1990-1998.
  13. Kærði telji því ljóst að sá sem skipaður hafi verið hafi fjölþætta menntun sem nýtist í starfi og reynslu af umfangsmiklum stjórnunarstörfum hjá hinu opinbera, bæði sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari Kópavogsbæjar og sem aðstoðarmaður ráðherra. Hann hafi leitt árangursríkt stefnumótunar- og umbótastarf hjá Kópavogsbæ og þannig sýnt ótvírætt leiðtogahæfileika í verki sem ráðherra telji mikilvæga, ekki síst í ljósi stjórnsýsluúttektar í ráðuneytinu og úrbótavinnu sem af henni leiði í starfi, skipu- og verklagi. Vinna hans að innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna og Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hjá Kópavogsbæ falli vel að tækifærum til þróunar og nýsköpunar á málefnasviði ráðuneytisins og í stjórnsýslu þess. Þá hafi hann reynslu sem varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar Ríkisútvarpsins ohf., einnar stærstu undirstofnunar og síðar félags, á málefnasviði ráðuneytisins.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  14. Kærandi telur að með skipun í embætti ráðuneytisstjóra hafi ráðherra brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008. Kærandi verið látin gjalda kynferðis síns, en reynsluminni og minna menntaður karlmaður hafi verið skipaður í embættið.
  15. Gögn málsins sýni að ráðningarferlið hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna og að kærandi hafi ekki fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins. Þá hafi við meðferð málsins vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu, en að sama skapi hafi verið gert meira úr reynslu þess sem skipaður hafi verið á ákveðnum sviðum en efni hafi staðið til. Kærandi hafi frekari menntun og meiri og fjölbreyttari starfsreynslu og sé því hæfari en sá sem skipaður hafi verið til að gegna umræddu embætti.
  16. Óljóst sé hvaða vægi hver matsþáttur, sem hafi komið fram í auglýsingu, hafi haft. Í ráðningaráætlun hæfnisnefndar hafi ekki verið fjallað neitt um það. Meðal þeirra gagna sem kærandi hafi fengið afhent í lok janúar 2020 hafi verið ódagsett skjal sem ekki hafi borið neina fyrirsögn. Ætla megi að þar komi fram einhvers konar flokkun á umsækjendum, en óljóst sé frá hverjum skjalið stafi.
  17. Í skjalinu séu settir upp tólf flokkar og virðast einkunnir gefnar í formi lita fyrir ellefu af þessum flokkum en þeir séu:
    • Menntun. Háskólapróf.
    • Núverandi starf (ekki veitt einkunn).
    • Menntun sem nýtist í starfi.
    • Þekking á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis.
    • Reynsla af opinberri stjórnsýslu.
    • Þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds.
    • Leiðtogahæfni.
    • Stjórnunarreynsla.
    • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.
    • Færni í mannlegum samskiptum.
    • Enskukunnátta og kunnátta í einu Norðurlandamáli.
    • Trúverðugleiki, áhugi, drifkraftur og metnaður.
  18. Ekki komi fram í töflunni hvað hver flokkur hafi mikið vægi við matið. Samkvæmt töflunni virðast gefnar tvær einkunnir fyrir hæfniskröfuna „Háskólapróf sem nýtist í starfi, embættis- eða meistarapróf er skilyrði“. Annars vegar fyrir „Menntun. Háskólapróf“ og hins vegar „Menntun sem nýtist í starfi“. Þá sé hæfnisskilyrðinu „Leiðtogahæfileikar og umfangsmikil stjórnunarreynsla“ skipt upp í tvo matsþætti, annars vegar „Leiðtogahæfni“ og hins vegar „Stjórnunarreynsla“. Hæfniskrafa um mjög góða íslenskukunnáttu virðist ekki metin, en hæfnisþáttunum um mjög góða enskukunnáttu og kunnáttu í einu Norðurlandamáli sé slegið saman í einn matsþátt. Þá sé í töflunni að finna eftirfarandi matsþátt sem hafi ekki komið fram í auglýsingu um starfið: „Trúverðugleiki, áhugi, drifkraftur, metnaður.“
  19. Gerð sé alvarleg athugasemd við að ekki liggi fyrir nein gögn um vægi hvers matsþáttar. Vegna skorts á gögnum sé heldur ekki hægt að sjá hvort hæfnisnefndin hafi ákveðið vægi matsþátta fyrir fram eða breytt þeim eftir viðtöl við umsækjendur. Þá liggi ekki fyrir neinar skýringar á því hvers vegna sumir matsþættir hafi verið metnir tvisvar, öðrum skipt upp í tvo matsþætti og enn öðrum slegið saman í einn.
  20. Við samanburð á niðurstöðum varðandi kæranda og aðra umsækjendur megi sjá að ekki sé samræmi í einkunnagjöf nefndarinnar til kæranda og þeirra.
  21. Í auglýsingu hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýtist í starfi og hafi verið gerð krafa um embættis- eða meistarapróf.
  22. Kærandi hafi lokið Cand. jur. prófi frá Háskóla Íslands í júní 1992, með fyrstu einkunn. Síðari hluta námsins hafi hún stundað nám við Kaupmannahafnarháskóla í sex mánuði. Hún hafi öðlast réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1994. Þá hafi hún lokið meistaragráðu LL.M. í Evrópurétti frá Háskólanum í Lundi í júní 2005 með ágætiseinkunn. Hún hafi stundað sænskunám við Háskólann í Gautaborg og Folkuniversitetet í Gautaborg í eina önn á árinu 1994. Þá hafi hún lokið stjórnendaþjálfun og námskeiði IMG Deloitte „Stjórnendur framtíðarinnar“ í samvinnu við Endurmenntun Háskóla Íslands, alls 118 klst. Einnig hafi hún lokið stjórnendaþjálfun fyrir stjórnendur hjá Stjórnarráðinu „Stjórnun til árangurs“ hjá Opna Háskólanum í HR.
  23. Sá sem hafi verið skipaður hafi minni menntun en kærandi og miðað við umsóknargögn hafi hann ekki hlotið stjórnendaþjálfun.
  24. Kærandi og karlinn sem starfið hlaut hafi verið talin mjög vel hæf hvað menntun varðaði.
  25. Í öðru lagi hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu þekkingu á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í umsögn hæfnisnefndar segi að við mat á matsþættinum hafi nefndin litið til þekkingar á menntamálum (leikskólastig, grunnskólastig, framhaldsskólastig, háskólastig), vísindum, nýsköpun, menningarmálum (listir, söfn, menningararfur, fjölmiðlun, íslensk tunga, íþrótta- og æskulýðsstarf) og þekkingar á starfi undirstofnana ráðuneytis.
  26. Kærandi segir óumdeilt að þrír af þeim umsækjendum sem hafi verið boðaðir í viðtal hafi mjög góða þekkingu á verkefnasviði ráðuneytisins og sé ekki gerð athugasemd við mat hæfnisnefndar um að þau séu mjög vel hæf hvað þennan þátt varði. Aftur á móti sé gerð athugasemd við það mat nefndarinnar að sá sem hafi verið skipaður hafi yfirgripsmikla þekkingu á verkefnasviði ráðuneytisins og teljist því mjög vel hæfur, en að kærandi hafi aðeins góða þekkingu á verkefnasviði ráðuneytisins og teljist því vel hæf. Ekki standi rök til að gera þann mun á þeim.
  27. Samkvæmt umsögn hæfnisnefndar hafi sá sem skipaður hafi verið haft góða þekkingu á rekstri leik- og grunnskóla og komið með virkum hætti að stefnumótun sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Kópavogsbæjar og bæjarritari. Hann hafi setið í stýrihópi vegna innleiðingar spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs. Einnig segi að í viðtölum hafi komið fram að hann hefði beitt sér markvisst í starfi sínu fyrir umbótum í grunnskólakerfinu og bættri líðan barna. Þá hafi hann sem aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra verið í formennsku fyrir átaksverkefni til atvinnusköpunar á sviði nýsköpunar. Í umsögninni segi jafnframt að hann hafi góða þekkingu á rekstri og starfsumhverfi menningarstofnana í Kópavogi og hafi reynslu og þekkingu af sviði fjölmiðlunar eftir setu í útvarpsráði um fimm ára skeið. Þá hafi hann sem varabæjarfulltrúi meðal annars verið formaður íþróttaráðs og formaður byggingarnefndar Skíðamiðstöðvar og Íþróttahússins Smárans.
  28. Í umsóknargögnum hans komi ekki fram að hann hafi góða þekkingu á rekstri leik- og grunnskóla og hafi komið með virkum hætti að stefnumótun, heldur komi þar fram að hann sé sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Kópavogsbæjar og að það sé stoðsvið sem veiti annarri starfsemi þjónustu, þar á meðal varðandi fjárhagsáætlanir og fjárhagseftirlit. Þá segi: „Þar af leiðandi hef ég góða þekkingu á starfsemi menntasviðs bæjarins þar sem rekstur grunn- og leikskóla er meðal verkefna. Meðal verkefna sem stjórnsýslusvið hefur komið að með beinum hætti er innleiðing spjaldtölva í grunnskólum Kópavogs …“. Verði því ekki séð að ályktun hæfnisnefndar um þetta atriði eigi sér stoð í gögnum málsins. Í því sambandi sé einnig bent á að rekstur leik- og grunnskóla sé í höndum sveitarfélaga og heyri rekstrarþáttur skólanna því ekki beint undir starfssvið mennta- og menningarmálaráðuneytis.
  29. Sá sem skipaður hafi verið sé eini umsækjandinn sem nefndin vísi til að hafi veitt upplýsingar um þennan lið í viðtölum. Ekkert hafi komið fram í umsögn nefndarinnar um það hvernig hann hafi beitt sér fyrir umbótum í grunnskólakerfinu og bættri líðan barna. Engin skrifleg gögn liggi fyrir um hvað hafi komið fram í viðtalinu og engar upplýsingar séu um þetta atriði í umsóknargögnum hans.
  30. Þá verði ekki séð að formennska hans í átaksverkefni til atvinnusköpunar á sviði nýsköpunar skipti máli, enda falli nýsköpun undir málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis en ekki mennta- og menningarmálaráðuneytis.
  31. Í umsögn um kæranda segi að ætla megi að hún hafi í störfum sínum fyrir Alþingi öðlast þekkingu á ýmsum málaflokkum sem tengist verkefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytis, án þess að það hafi komið fram í umsókn hennar. Þá segi að störf hennar sem fulltrúi forsætisráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel og störf sem EES-sérfræðingur hafi tengst mennta-, vísinda- og nýsköpunarmálum. Einnig sé fjallað um að hún hafi víðtæka reynslu af kennslu á háskólastigi, hafi kennt við Viðskiptaháskólann á Bifröst, við Háskólann í Reykjavík og sé aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands. Þá hafi hún sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu komið að þjóðmenningarmálum og yfirlestri lagafrumvarpa frá fagráðuneytum, meðal annars mennta- og menningarmálaráðuneytinu, einkum á sviði höfundaréttar, Lánasjóð íslenskra námsmanna, laga um grunnskóla og fleira.
  32. Í fyrsta lagi sé gerð athugasemd við eftirfarandi ummæli í umsögn: „Ætla má að [kærandi] hafi í störfum sínum fyrir Alþingi (nefndaritari fastanefnda, aðstoðarforstöðumaður og forstöðumaður nefndasviðs, aðallögfræðingur) öðlast þekkingu á ýmsum málaflokkum sem tengjast verkefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytisins, án þess að það komi fram í umsókn hennar.“ Allir þeir sem hafi starfað innan Stjórnarráðs Íslands og teljist hafa góða þekkingu á starfsemi þess, sbr. 3. gr. reglna nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir sem meti hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands, þekki vel til umfangsmikillar starfsemi nefndasviðs Alþingis og viti að nefndaritarar og forstöðumenn hafi yfirgripsmikla þekkingu á málefnasviðum ráðuneyta og þeim frumvörpum sem ráðherrar leggi fram. Kærandi hafi starfað á nefndasviði Alþingis í tíu ár, frá 1995-2005. Fyrstu starfsár hennar á sviðinu hafi nefndaritarar verið fjórir talsins og fastanefndir þingsins tólf og hafi þrír af nefndariturunum verið ritarar tíu af þeim nefndum. Í slíkri vinnu hafi verið óhjákvæmilegt að allir nefndaritarar kæmu á einhvern hátt að störfum allra nefnda. Kærandi hafi verið forstöðumaður nefndasviðs í fimm og hálft ár og hafi á þeim tíma haft yfirumsjón með störfum allra nefndaritara og aðstoðað þá við flókin verkefni. Á þessu tímabili hafi verið samþykktur fjöldi nýrra heildarlaga, meðal annars lög um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, lög um námsstyrki, kvikmyndalög, skylduskil til safna, Námsmatsstofnun, þjóðminjalög, safnalög og lög um húsafriðun, auk þess sem samþykktar hafi verið breytingar á fjölmörgum lögum, svo sem lögum um Ríkisútvarpið, Lánasjóð íslenskra námsmann, grunnskóla, Háskóla Íslands og höfundalög. Í rúm tvö ár eftir það hafi hún gegnt stöðu aðallögfræðings Alþingis og verið forstöðumaður forsetaskrifstofu og hafi þá verið í samskiptum við ráðuneyti, þar á meðal mennta- og menningarmálaráðuneyti, vegna ýmissa mála. Kærandi hafi gert ráð fyrir að nefndarmenn í hæfnisnefnd hefðu lágmarksþekkingu á störfum Stjórnarráðsins og Alþingis og því þyrfti ekki að skýra starfssvið nefndaritara, forstöðumanns nefndasviðs og aðallögfræðings Alþingis frekar út fyrir þeim. Hafi nefndarmönnum þótt óljóst að hvaða leyti hún hefði komið að málum á málefnasviði ráðuneytisins, eins og ráða megi af umsögn, hefði þeim verið í lófa lagið að afla frekari gagna um það frá henni eða spyrja að því í viðtalinu.
  33. Í öðru lagi sé gerð athugasemd við þau ummæli í umsögn nefndarinnar að störf kæranda í sendiráðinu í Brussel og sem EES-sérfræðingur hafi tengst mennta-, vísinda- og nýsköpunarmálum og að farið sé ranglega með í skýrslu nefndarinnar að hún hafi aðeins verið í stýrihópi um framkvæmd EES-samningsins frá 2014-2017 sem fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hið rétta sé að í þessum störfum hafi hún öðlast mikla innsýn í störf og málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis. Kærandi hafi frá árinu 2014 verið fulltrúi og síðar varaformaður stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins, fyrst skipuð af forsætisráðherra sem fulltrúi fjármála- og efnahagsráðuneytisins frá júlí 2014 til janúar 2016 og frá þeim tíma fulltrúi forsætisráðuneytisins og varaformaður hópsins sem stýrt hafi vinnu hans, meðal annars allan tímann sem kærandi hafi verið fulltrúi forsætisráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel, þ.e. til áramóta 2019-2020. Á þessum tíma hafi verið unnið mikið umbótastarf í Stjórnarráðinu í EES-málum með þátttöku allra ráðuneyta og þings. EES-gagnagrunnur (hópvinnukerfi) hafi verið tekinn í notkun, bæði innan Stjórnarráðsins og síðar fyrir þing, hagsmunaaðila og almenning, innleiðing og upptaka EES-gerða sé í sögulega góðri stöðu, unnið hafi verið að forgangslista ríkisstjórnar í EES-málum og þá hafi verið útdeilt takmörkuðu fjármagni til þeirra ráðuneyta sem mest hafi þurft á að halda í átak við innleiðingu og upptöku gerða. Víðtæk samvinna hafi verið á milli ráðuneyta og vinnu stýrt af forsætisráðuneyti og hafi kærandi haldið utan um þessa vinnu. Það séu engar ýkjur að EES-mál séu einn umfangsmesti málaflokkur flestra ráðuneyta og sama gildi um EES-áætlanir á sviði menntamála og vísinda í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Unnið sé að því að tryggja þátttöku í þeim áætlunum 2021-2027 í sendiráði Íslands í Brussel fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins og í samvinnu við menntamála-, forsætis- og utanríkisráðuneyti auk annarra ráðuneyta hér heima. Virðist hæfnisnefnd ekki hafa haft neinn skilning eða þekkingu á mikilvægi þessara starfa eða þeirri þekkingu sem kærandi hafi öðlast í gegnum þau, þó að hún hafi gert grein fyrir þeim í umsóknargögnum og fjallað um þau í viðtali við hæfnisnefndina.
  34. Þá sé í þriðja lagi gerð athugasemd við það sem segi í umsögninni um að kærandi hafi komið að þjóðmenningarmálum. Hið rétta sé að þjóðmenningarmál hafi heyrt undir þá skrifstofu sem hún hafi starfað á í forsætisráðuneytinu og hafi hún því góða yfirsýn yfir þann málaflokk.
  35. Einnig sé gerð athugasemd við það sem segi að kærandi hafi „komið að“ yfirlestri lagafrumvarpa frá fagráðuneytum, meðal annars mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Hið rétta sé að hún hafi í þrjú og hálft ár sem skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu komið að lestri velflestra lagafrumvarpa ráðuneyta og ráðgjöf við ráðuneytin um gæði lagasetningar og löggjafarmál, hafi kennt og borið ábyrgð á námskeiði og málstofum um lagagerð í lagadeild Háskóla Íslands sem aðjúnkt frá 2007 og skipulagt og kennt á námskeiðum Stjórnarráðsskólans um lagagerð fyrir starfsmenn Stjórnarráðsins, auk þess að hafa ritað ritrýndar fræðigreinar um lagagerð og samið handbók um gerð og frágang lagafrumvarpa sem nýtt sé og lesin í öllu Stjórnarráðinu. Hún hafi því unnið beint að frumvörpum sem menntamálaráðherra hafi lagt fram og þekkt vel efni þeirra og verið í miklu sambandi við starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
  36. Þá sé rétt að halda til haga að kærandi hafi áralanga reynslu af kennslu á háskólastigi og hafi kennt námskeið í lögfræði við þrjá háskóla.
  37. Af framangreindu sé ljóst að kærandi hafi mjög góða þekkingu á málefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Það verði ekki séð að rök hafi verið fyrir því mati hæfnisnefndar að sá sem skipaður hafi verið sé mjög vel hæfur og kærandi aðeins vel hæf þegar komi að þekkingu á málefnasviði ráðuneytisins. Því hefði réttilega átt að meta hana mjög vel hæfa í þessum matsþætti.
  38. Í þriðja lagi hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu reynslu af opinberri stjórnsýslu. Í umsögn hæfnisnefndar segi að við mat á þessum flokki hafi nefndin litið til þeirra starfa sem teljist til opinberrar stjórnsýslu og gefið þeim vægi eftir umfangi, fjölbreytni og lengd starfstíma.
  39. Það hafi verið niðurstaða nefndarinnar að fimm umsækjendur, þar með talin kærandi og umræddur karl, hafi öll fjölþætta og langvarandi reynslu af störfum sem teljist til opinberrar stjórnsýslu og væru því öll mjög vel hæf í þessum flokki.
  40. Í fyrsta lagi sé á það bent að í umsögninni verði ekki séð að raunverulega hafi verið litið til umfangs, lengdar starfstíma og fjölbreytni við matið.
  41. Ekki standi rök til þess að leggja reynslu þess sem skipaður hafi verið af opinberri stjórnsýslu til jafns við reynslu annarra í þessum hópi. Þannig liggi fyrir að kærandi hafi 25 ára reynslu af opinberri stjórnsýslu og af þeim tíma hafi hún gegnt yfirmannsstöðu í 20 ár, en hún hafi verið skrifstofustjóri í 10 ár, yfirmaður á Alþingi í átta ár og aðallögfræðingur Samkeppniseftirlitsins í tæp tvö ár.
  42. Til samanburðar hafi sá sem skipaður hafi verið aðeins 12 ára reynslu af opinberri stjórnsýslu, þótt í umsögninni sé ýmist talað um 12 eða 13 ára reynslu, sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Kópavogsbæjar. Frá þeim tíma beri að draga tveggja ára nám hans í lögfræði sem hann hafi stundað á þeim tíma sem hann hafi starfað hjá Kópavogsbæ, en hann hafi lokið því námi árið 2019. Í umsögninni sé starf hans sem aðstoðarmaður ráðherra talið hafa veitt honum reynslu af opinberri stjórnsýslu. Slíkt starf sé allt annars eðlis en störf embættismanna og starfsmanna ráðuneyta og veiti ekki sambærilega reynslu. Á þeim tíma sem hann hafi starfað sem aðstoðarmaður ráðherra virðist hann hafa lokið bæði BA-námi í guðfræði (2001) og meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu (2006) og hljóti námstími að dragast frá þegar tímalengd starfsreynslu sé metin. Þá sé gerð athugasemd við að í umsögninni sé meistarapróf hans í opinberri stjórnsýslu talið honum til tekna í þessum flokki en það hafi ekki verið gert hjá öðrum kvenkyns umsækjanda, enda geti slík menntun ekki talist veita reynslu af opinberri stjórnsýslu. Þá hafi honum einnig verið talið til tekna að hafa verið varabæjarfulltrúi í Kópavogi í átta ár og varaþingmaður í tíu ár, auk þess sem seta hans í útvarpsráði og stjórn Landsvirkjunar sé talin til reynslu af opinberri stjórnsýslu.
  43. Mat hæfnisnefndar um þennan þátt standist ekki nokkra skoðun. Í fyrsta lagi sé orðum aukið að sá sem skipaður hafi verið hafi verið varaþingmaður í 10 ár. Hann hafi verið varaþingmaður tvö kjörtímabil, annars vegar eftir Alþingiskosningar sem hafi farið fram í maí 1999 og hins vegar eftir kosningar í maí 2003, eða í átta ár. Á þeim tíma hafi hann setið samtals í 108 daga á Alþingi á árunum 1999-2004, á sama tíma og hann hafi gegnt starfi aðstoðarmanns ráðherra. Ekki verði séð að eðlilegt sé að leggja þessa reynslu, sem og setu hans í útvarpsráði og stjórn Landsvirkjunar sem hann hafi setið í á sama tíma og hann hafi verið aðstoðarmaður ráðherra og síðar starfsmaður Kópavogsbæjar, við aðra reynslu hans af opinberri stjórnsýslu, enda sé það ekki gert hjá öðrum umsækjendum sem til dæmis hafi setið í úrskurðarnefndum og gegnt fleiri aukastörfum meðfram sínum störfum fyrir ríki og sveitarfélög.
  44. Í ljósi framangreinds hafi reynsla hans af opinberri stjórnsýslu verið verulega ofmetin í umsögn hæfnisnefndar og hefði hann frekar átt að lenda í flokki með þeim umsækjendum sem nefndin hafi talið vel hæf, en í þeim flokki hafi verið umsækjendur sem öll hafi samtals meiri en tíu ára reynslu af störfum sem teljist til opinberrar stjórnsýslu. Í því sambandi sé rétt að benda á að allir aðrir en sá sem skipaður hafi verið sem taldir hafi verið mjög vel hæfir við mat á þessum matsþætti hafi 23 til 30 ára reynslu af opinberri stjórnsýslu, en hans reynsla nái í mesta lagi 15-16 árum, sé tekið tillit til þess náms sem hann hafi stundað.
  45. Í fjórða lagi hafi komið fram í auglýsingu um starfið að þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds væri æskileg. Í umsögn hæfnisnefndar segi að við mat í þessum flokki hafi nefndin litið til starfa sem teljist til reksturs og starfsmannahalds og þeim gefið vægi eftir umfangi, fjölbreytni og lengd starfstíma.
  46. Hæfnisnefndin hafi talið fjóra umsækjendur mjög vel hæfa hvað varði reynslu af rekstri og starfsmannahaldi þar sem þau hafi öll í störfum sínum borið víðtæka ábyrgð á rekstri og starfsmannahaldi um langt árabil, ýmist í ráðuneytum, ríkisstofnunum eða miðlægri stjórnsýslu sveitarfélags.
  47. Hæfnisnefndin hafi talið kæranda vel hæfa hvað varði reynslu af rekstri og starfsmannahaldi og sé það niðurstaða nefndarinnar að hún hafi rekstrarreynslu sem millistjórnandi (skrifstofustjóri og forstöðumaður og skrifstofustjóri án mannaforráða) í um 14 ár með hléum, bæði hjá Alþingi og innan Stjórnarráðsins og að reynsla hennar af starfsmannahaldi sé fyrst og fremst bundin við þau störf.
  48. Kærandi telji engin rök fyrir því að sá sem skipaður hafi verið og hinir þrír umsækjendurnir hafi verið metin mjög vel hæf en hana vel hæfa.
  49. Í umsögn hæfnisnefndar segi um þann sem skipaður hafi verið að hann hafi reynslu af starfsmannahaldi sem millistjórnandi (sviðsstjóri og bæjarritari) hjá Kópavogsbæ í um þrettán ár. Þá segi: „Í umsóknargögnum og viðtali kom fram að sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs og bæjarritari beri [sá sem skipaður hafi verið] ábyrgð á fjármálastjórnun og starfsmannahaldi sveitarfélagsins, að auki hafi [sá sem skipaður hafi verið] verið framkvæmdastjóri hjá litlu einkafyrirtæki í eitt ár og borið þar rekstrarlega ábyrgð.“ Ítrekað sé að umrædd þrettán ár séu í raun tólf og að af þeim hafi hann verið í sem svari til tveggja ára náms í lögfræði, en náminu hafi lokið á árinu 2019.
  50. Sú niðurstaða hæfnisnefndar að meta kæranda vel hæfa en ekki mjög vel hæfa sé fráleit. Fyrst beri að nefna að hún hafi verið forstöðumaður nefndasviðs Alþingis í tæp sex ár. Eins og fram hafi komið í umsókn hennar hafi starfið falist í því að vinna árlega fjárhagsáætlun og leggja hana fyrir fjármálaskrifstofu Alþingis. Í því hafi meðal annars falist að áætla laun starfsmanna, kostnað vegna ferða þingmanna/nefnda innanlands og rekstur veitingaþjónustu fyrir nefndir þingsins á fundum. Í umsókn kæranda hafi verið tekið fram að um hafi verið að ræða meiri rekstrarábyrgð en skrifstofustjórar í ráðuneytum beri. Á þessum tíma hafi starfað um 25 manns á nefndasviði. Áður en kærandi hafi tekið við starfi forstöðumanns nefndasviðs hafi hún verið aðstoðarforstöðumaður sviðsins og staðgengill forstöðumanns í um þrjú ár. Þá hafi hún verið skrifstofustjóri lögfræðisviðs fjármálaráðuneytisins í sex ár, en í skýrslu hæfnisnefndar sé misfarið með hve lengi hún hafi starfað sem slík og tilgreint að hún hafi starfað þar frá 2009-2012. Hið rétta sé að hún hafi gegnt embætti skrifstofustjóra frá því í nóvember 2009 þar til í október 2015. Í ráðuneytinu hafi hún haft mannaforráð og stýrt starfi sviðsins og þeirra sérfræðinga sem þar hafi starfað, en þau hafi öll tekið þátt í umfangsmiklu endurreisnarstarfi í kjölfar hrunsins. Kærandi hafi stýrt þar og tekið þátt í vinnu við gerð verkefna og lagafrumvarpa um gjaldeyrismál og losun fjármagnshafta, útgreiðslu séreignarsparnaðar, lögmæti verðtryggingar, ríkisaðstoðarmál og fleira. Einnig hafi hún gegnt starfi skrifstofustjóra í forsætisráðuneytinu í þrjú og hálft ár þegar hún hafi haldið til Brussel og stýrt og tekið þátt í stórum verkefnum þvert á ráðuneyti. Þannig hafi hún gegnt stjórnunarstöðum sem forstöðumaður nefndasviðs og skrifstofustjóri í Stjórnarráðinu í 15 og hálft ár, eða þremur og hálfu ári lengur en annar karlkyns umsækjandi og sá sem skipaður hafi verið. Einnig hafi hún verið í stjórnendateymi Samkeppniseftirlitsins sem yfirlögfræðingur stofnunarinnar.
  51. Þá veki athygli að undir þessum lið hafi ekkert verið fjallað um þekkingu umsækjenda á lögum um opinber fjármál, en þekking á þeim lögum og framkvæmd þeirra sé lykilatriði fyrir ráðuneytisstjóra, ekki síst ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytisins sem þurfi að stýra vinnu við fjármögnun mennta- og vísindaáætlana á verkefnasviði ráðuneytisins. Kærandi hafi umfangsmikla þekkingu á lögum um opinber fjármál, enda komið að samningu frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um opinber fjármál, túlkun laganna, sótt fundi og mætt á fundi fjárlaganefndar Alþingis um meðferð frumvarpanna á meðan hún hafi starfað í fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Ekki verði séð að allir þeir sem metnir hafi verið mjög vel hæfir hafi sambærilega þekkingu á þessu sviði og undirstriki þessi niðurstaða vanþekkingu hæfnisnefndar á Stjórnarráði Íslands.
  52. Kærandi hafi því jafn mikla eða meiri reynslu en að minnsta kosti hluti þeirra umsækjenda sem taldir hafi verið mjög vel hæfir hvað varði reynslu af rekstri og starfsmannahaldi og því hafi hæfnisnefndin gert lítið úr hæfni hennar og ranglega flokkað hana sem vel hæfa í þessum flokki. Málefnalegt hefði einnig verið að líta sérstaklega til reynslu af störfum úr Stjórnarráði Íslands við mat á þessum þætti.
  53. Í fimmta lagi hafi í auglýsingu um embættið verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu leiðtogahæfileika og umfangsmikla stjórnunarreynslu. Í umsögn hæfnisnefndar segi að við mat í þessum flokki hafi nefndin litið til þeirra starfa sem teljist til stjórnunar og leiðtogahlutverks og þeim gefið vægi eftir umfangi, fjölbreytni og lengd starfstíma. Við mat á leiðtogahæfileikum hafi verið litið til þess hvernig umsækjendur hafi gert grein fyrir reynslu sinni sem leiðtogar, þeirra dæma sem þeir tækju því til stuðnings og sýn þeirra á leiðtogaþætti starfs ráðuneytisstjóra. Ekki verði séð að þau gögn sem lögð hafi verið fram um viðtöl við umsækjendur skapi grundvöll fyrir það mat að kærandi sé aðeins metin hæf í þessum matsþætti. Þá sé ljóst að ekki sé hægt að draga þær ályktanir af umsóknargögnum og ekki hafi verið haft samband við meðmælendur.
  54. Miðað við framlagðan viðtalsramma hafi verið spurt um leiðtogahæfileika í þremur spurningum í fyrsta viðtali og einni spurningu í síðara viðtali, sbr. eftirfarandi umfjöllun.
  55. Í fyrra viðtali hafi verið óskað eftir því að umsækjendur segðu frá því starfi sem þeir hefðu mest mannaforráð og hver nálgun þeirra hafi verið við stjórnun og rekstur í þeim aðstæðum.
  56. Miðað við þau gögn, sem liggi fyrir um það sem fram hafi farið í viðtalinu, hafi kærandi fyrst svarað spurningunni með því að gera grein fyrir því að hún hafi haft mest mannaforráð í starfi sínu sem forstöðumaður nefndasviðs Alþingis. Þá hafi hún fjallað um störf sín og helstu áskoranir sem stjórnandi á vinnustað þar sem vinnuálag sé mjög mikið og starfsmannahópurinn fjölbreyttur. Þá hafi hún fjallað um störf sín hjá Samkeppniseftirlitinu þar sem hún hafi verið hluti af stjórnunarteymi og starfsmannahópurinn verið öðruvísi samansettur en á Alþingi. Einnig hafi hún fjallað um uppbyggingu sína á lagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og þær áskoranir að stýra einsleitum sérfræðihópi en þurfa að leita til annarra skrifstofa eftir stoðþjónustu. Einnig hafi hún fjallað þar um áskoranir við að vera stjórnandi sem ekki sé ætlaður tími til að sinna stjórnun og stjórnun á mjög stórum verkefnum á árunum eftir hrun sem oft hafi gengið þvert á skrifstofur ráðuneytisins.
  57. Séu svör kæranda borin saman við svör þeirra umsækjenda sem hafi verið metin mjög vel hæf, þar á meðal sá sem skipaður hafi verið, verði ekki séð hver munurinn sé. Í svari þess sem skipaður hafi verið komi fram að hann hafi haft mest mannaforráð í því starfi sem hann hafi þá þegar verið í. Undir hann hafi heyrt fjórir deildarstjórar sem einnig höfðu mannaforráð og þá hafi sérfræðingar heyrt undir hann. Fram hafi komið að hann hafi sagt að hann treysti fólki en vilji vera upplýstur. Hann haldi iðulega stutta fundi þar sem fólk fái „feedback“ og hann efli það í að sýna frumkvæði.
  58. Ekki verði séð að svör umsækjenda við þessari spurningu geti verið grundvöllur þess að gefa umsækjendum þá mismunandi einkunn varðandi leiðtogahæfileika sem hæfnisnefndin hafi gert.
  59. Í fyrra viðtalinu hafi umsækjendur verið beðnir um að nefna dæmi um faglegt frumkvæði sitt í starfi eða innleiðingu breytingar sem þeir hafi stýrt/komið að og sem þeir séu stoltir af þegar þeir líti til baka. Svarið hafi gjarnan mátt vísa til starfs á sviði mennta- og menningarmála.
  60. Kærandi hafi tiltekið í svari sínu lagagerð almennt og faglegt frumkvæði hennar í því að bæta alla vinnu við þingmálaskrá, en hún hafi haldið utan um þá vinnu í fjármálaráðuneytinu. Nú séu komnir skýrir ferlar fyrir frumvarpsvinnu ráðuneyta og hafi þessi breyting á ferlum og verklagi snert öll ráðuneyti. Þá hafi hún einnig nefnt dæmi af kennslu um lagagerð og aðferðafræði í kringum hana.
  61. Í svari þess sem skipaður hafi verið hafi hann tiltekið gæðakerfi sem hafi verið mikil breyting, innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ISO staðalinn.
  62. Ekki verði séð að svör umsækjenda við þessari spurningu geti verið grundvöllur þess að gefa þeim þá mismunandi einkunn varðandi leiðtogahæfileika sem hæfnisnefndin hafi gert.
  63. Þá hafi umsækjendur verið beðnir um að nefna dæmi um árangursrík samskipti þeirra við stjórnsýsluna/stjórnmálamenn og þekkingu þeirra á uppbyggingu stjórnsýslunnar í fyrra viðtalinu.
  64. Í svari sínu hafi kærandi nefnt dæmi um að hún hafi verið ráðin ópólitískur nefndaritari á Alþingi og kynnst og starfað með þingmönnum og ráðherrum úr öllum flokkum. Þá hafi hún sagt að hún hefði unnið mjög vel með þeim fjórum ráðherrum í fjármálaráðuneytinu og fjórum ráðherrum í forsætisráðuneytinu sem hún hafi starfað með og hafi henni aldrei lent illa saman við ráðherra. Fram hafi komið að hún passi sig á að vera ekki einungis „já-manneskja“ og það komi fyrir að hún hafi þurft að skrifa minnisblöð til ráðherra og vera honum ósammála.
  65. Í svari þess sem skipaður hafi verið komi fram að hann hafi lært opinbera stjórnsýslu og unnið hjá ráðuneyti og sveitarfélagi í 20 ár og verið í daglegum samskiptum við stjórnmálamenn þann tíma. Hann sé „loyalisti“ og fólk þurfi ekki að efast um heilindi hans en hann segi sína meiningu. Ekki verði séð að hann hafi nefnt nein dæmi um árangursrík samskipti við stjórnsýsluna/stjórnmálamenn.
  66. Ekki verði séð að svör umsækjenda við þessari spurningu geti verið grundvöllur þess að gefa þeim þá mismunandi einkunn varðandi leiðtogahæfileika sem hæfnisnefndin hafi gert.
  67. Í seinna viðtalinu hafi umsækjendur verið spurðir að því hver þeim finnist vera munurinn á stjórnanda og leiðtoga. Einnig hvað það sé sem geri þá að leiðtoga umfram það að vera góður stjórnandi.
  68. Í svari kæranda hafi komið fram að í stjórnun felist að stjórna og leiðbeina, en til að vera leiðtogi þurfi meira til en að stýra sinni deild, vera skipulagður og hlúa að fólki. Það krefjist víðari sýnar, sem stjórnandi þurfi auðvitað líka að hafa, en leiðtogi taki erfiðar ákvarðanir í þágu heildarinnar og hugsi um hagsmuni hennar. Mikið af þessu geti verið lært en annað sé frá náttúrunnar hendi og auðvitað læri maður af mistökum sínum. Þá hafi komið fram í máli hennar að hún hafi komið út sem skipuleggjandi og greinandi í svokölluðum „360° mötum“ og að hún hafi reynslu af að stýra fólki og standa með því og vera tengiliður við aðra stjórnendur.
  69. Í svari þess sem skipaður hafi verið komi fram að það sé lykilatriði að draga fram það besta í öllum. Hann reyni að dreifa ábyrgð og valdi og treysta fólki en vilji vera upplýstur og tala við sitt fólk. Þá fjalli hann nokkuð um samningatækni. Fram hafi komið að samkvæmt samningafræðum geti leiðtogi greint hagsmuni og allir farið frá borði sáttir og sem sigurvegarar. Hann fái sínu fram en þeir sem sitji við borðið fái líka ávinning af niðurstöðunni. Þessi fræði gangi út á að greina hagsmuni, gefa sér tíma í það og hlusta. Sé einhver ekki að kveikja þýði ekki endilega að endurtaka eða segja hægar, eitthvað annað sé þá að trufla viðkomandi en manns eigin hagsmunir.
  70. Ekki verði séð að svör umsækjenda við þessari spurningu geti verið grundvöllur þess að gefa þeim þá mismunandi einkunn varðandi leiðtogahæfileika sem hæfnisnefndin hafi gert. Þá verði ekki séð að neitt í umsóknargögnum veiti ástæðu til að gera þennan mikla mun á þeim hvað þennan matsþátt hafi varðað.
  71. Í umsögn hæfnisnefndar segi um þrjá aðra umsækjendur en kæranda að þau hafi í viðtölum, með viðmóti, miðlun á sýn og faglegri nálgun, sýnt að þau séu mjög vel hæf hvað þennan þátt hafi varðað.
  72. Hvað kæranda hafi varðað hafi nefndin metið hana hæfa hvað varði leiðtogahæfileika. Segi að svör hennar og viðmót í viðtölum hafi borið vott um áræðni og drifkraft. Þau hafi miðlað að nokkru leyti skýrri og faglegri sýn hennar á stjórnendahlutverkið. Svör hennar um starfið hafi á hinn bóginn verið nokkuð afmörkuð og hafi að mati nefndarinnar ekki miðlað nægilega skýrri framtíðarsýn um starfið og nálgun á því. Nú þegar öll gögn málsins hafi verið afhent sé ómögulegt að sjá af hverju nefndin dragi þessa ályktun sína, enda ekkert í gögnum málsins sem styðji þessa niðurstöðu. Af viðtalsramma sé augljóst hvaða spurningum sé ætlað að meta leiðtogahæfileika og hafi verið gerð grein fyrir svörum við þeim hér að framan. Engin af þeim spurningum hafi snúið að „framtíðarsýn um starfið og nálgun á því“. Ekki verði séð að í svörum við umræddum spurningum að þau sem metin hafi verið mjög vel hæf hafi „miðlað framtíðarsýn um starfið og nálgun á því“ á betri hátt en kærandi. Í þessu sambandi sé bent á að í svari við lokaspurningunni í síðara viðtalinu, sem kæranda hafi verið boðið í, hafi hún fjallað um hvaða breytingar hún myndi vilja gera á starfsemi ráðuneytisins og hvernig hún myndi vilja framkvæma þær breytingar. Þá hafi hún miðlað framtíðarsýn sinni og reynslu af breytingastjórnun við fleiri tilfelli í viðtölunum tveimur, en svo hafi virst sem nefndin hafi ekki litið til þess við störf sín.
  73. Í viðtalinu hafi kærandi látið þess sérstaklega getið að hún hafi nokkrum sinnum sem stjórnandi verið metin af fagfólki og ávallt komið vel út, sem og að hún hafi sem háskólakennari fengið mjög góðar umsagnir fyrir námskeið sín og kennslu. Ekki virðist hafa verið litið til þessara gagna. Þá hefði verið eðlilegt að leita eftir umsögnum umsagnaraðila um þennan þátt.
  74. Í niðurstöðu nefndarinnar komi fram að fjórir umsækjendur hafi verið metnir mjög vel hæfir hvað varði reynslu af stjórnun.
  75. Athygli veki að í umfjöllun um þá umsækjendur sem teljist mjög vel hæfir sé ekkert fjallað um umfang og fjölbreytni stjórnunarstarfa þeirra, en matið hafi átt að miðast við þessa þætti, sbr. ummæli í umsögninni.
  76. Nefndin hafi talið kæranda vel hæfa hvað þennan matsþátt hafi varðað. Í umsögninni segi að hún og aðrir sem hafi talist vel hæfir hafi öll haft allnokkra reynslu sem æðstu stjórnendur eða millistjórnendur, en að reynsla þeirra af stjórnun sé styttri og/eða faglega afmarkaðri en þeirra umsækjenda sem töldust mjög vel hæfir í matsþættinum.
  77. Með vísan til þess sem fram komi hér að framan mótmæli kærandi því að reynsla hennar af stjórnun sé styttri/eða faglega afmarkaðri en þeirra sem töldust mjög vel hæf. Þannig liggi fyrir að stjórnunarreynsla hennar sé bæði umfangsmeiri og lengri en stjórnunarreynsla hins karlkyns umsækjandans. Þá hafi hún lengri og fjölbreyttari stjórnunarreynslu en sá sem skipaður hafi verið og fjölbreyttari stjórnunarreynslu en annar kvenkyns umsækjandinn. Jafnframt hefði verið málefnalegt að líta sérstaklega til reynslu af störfum úr Stjórnarráði Íslands við mat á þessum þætti.
  78. Þá komi fram í umsögn hæfnisnefndar að umsækjendur í þriðja mati hafi verið spurðir út í framtíðarsýn fyrir ráðuneytið og menntakerfið á Íslandi, þar með talið hverjar væru helstu áskoranir sem íslenskt menntakerfi stæði frammi fyrir. Þessi spurning hafi verið ívilnandi fyrir þá umsækjendur sem séu starfsmenn mennta- og menningarmálaráðuneytisins.
  79. Í auglýsingu hafi verið gerð krafa um að umsækjendur hefðu færni í mannlegum samskiptum. Í umsögn komi fram að við mat á þessum þætti hafi einkum verið stuðst við viðtöl nefndarmanna við umsækjendur. Þar hafi allir umsækjendur komið vel fyrir og að á grundvelli viðtalanna væri ekki forsenda til að gera upp á milli þeirra.
  80. Vegna þessa sé tekið fram að erfitt geti reynst að meta færni í mannlegum samskiptum einungis út frá viðtölum við umsækjendur og verði það seint talið gefa fullnægjandi mynd af hæfni á samskiptasviðinu. Nefndin hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni hvað þennan matsþátt hafi varðað, enda hefði verið einfalt fyrir nefndina að hafa samband við umsagnaraðila til að spyrjast fyrir um þennan þátt eða leggja fyrir umsækjendur próf til að meta færni þeirra á þessu sviði.
  81. Af umsögn hæfnisnefndar megi ráða að nefndin hafi metið tvo matsþætti saman, annars vegar matsþátt sem snúi að kröfu um mjög góða íslensku- og enskukunnáttu og hins vegar matsþátt um kunnáttu í Norðurlandamáli. Það sé mat nefndarinnar á grundvelli umsóknaragagna og viðtala að umsækjendur uppfylli allir skilyrði um mjög góða íslensku- og enskukunnáttu. Einnig að allir nema þrír umsækjendur, þar á meðal sá sem skipaður hafi verið, teldust mjög hæf þegar komi að kunnáttu í Norðurlandamáli, en þau hafi stúdentspróf í dönsku en ekki hafi reynt á kunnáttu þeirra í Norðurlandamálum í störfum þeirra. Aðrir umsækjendur hafi töluverða reynslu af norrænu samstarfi og hafi ýmist verið við nám eða störf á Norðurlöndum.
  82. Óeðlilega lítill munur sé á hæfni þeirra umsækjenda sem séu altalandi og skrifandi á Norðurlandamáli, og gert þar lítið úr þeim og öðrum umsækjendum sem hafi aðeins einfalt stúdentspróf og enga reynslu af beitingu þeirra tungumála í störfum sínum. Þá sé óeðlilegt að það sé ekki talið umsækjendum til tekna að hafa lært og starfað erlendis og þar notað dönsku og ensku sem vinnumál.
  83. Loks hafi í auglýsingu verið gerð krafa um hæfni umsækjenda til að tjá sig í ræðu og riti. Í umsögn hæfnisnefndar segi að allir umskæjendur hafi reynslu af skriftum og flutningi munnlegra erinda og uppfylli því þetta hæfnisskilyrði. Þá segi að við mat á þessum matsþætti hafi nefndin litið til umfangs ritstarfa – bókaskrifa, gerð lagafrumvarpa og reglugerða og skýrslugerða. Einnig hafi verið horft til reynslu við flutning erinda á innlendum og erlendum vettvangi.
  84. Alvarlegar athugasemdir séu gerðar við framangreinda niðurstöðu nefndarinnar. Með umsókn hennar hafi fylgt ritskrá yfir ritrýndar greinar, bókakafla, handbækur og skýrslur. Þá liggi fyrir að hún hafi samið fjölda lagafrumvarpa, reglugerða og nefndarálita og hafi mikla reynslu af fundastjórn og því að halda erindi um lögfræðileg málefni. Eins og fram hafi komið í umsókn kæranda sé hún aðjúnkt við lagadeild Háskóla Íslands og hafi kennt lögfræði við þrjá íslenska háskóla í 24 ár. Þá hafi hún verið skólastýra Stjórnarráðsskólans um níu mánaða skeið árið 2017. Þá hafi hún verið nefndarmaður í áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda á sviði iðnaðar, úrskurðað í fjölda mála frá árinu 2001, auk þess sem hún hafi skrifað margar ákvarðanir, álit og skýrslur í starfi sínu sem aðallögfræðingur Samkeppniseftirlitsins.
  85. Um hæfni þess sem skipaður hafi verið segi í þessum matsþætti: „[Sá sem skipaður var] getur ekki um ritverk í umsókn sinni en af umsókninni að dæma og þeim verkefnum sem hann hefur komið að má gera ráð fyrir að hann sé vel ritfær. Hann hefur reynslu af flutningi eigin erinda og af ræðuskrifum fyrir ráðherra.“
  86. Ótrúlegt sé að hæfnisnefndin hafi dregið þá ályktun af umsókn hans og verkefnum „sem hann hefur komið að“ að hann sé vel ritfær og leggi það að jöfnu við gífurlega reynslu af samningu og yfirlestri lagafrumvarpa, ritun úrskurða, ákvarðana, reglugerða, nefndarálita og handbóka og útgáfu ritrýndra fræðigreina.
  87. Í ljósi framangreinds sé mat á hæfni umsækjenda til að tjá sig í ræðu og riti mjög ábótavant.
  88. Þegar allt framangreint sé virt sé ljóst að hæfni kæranda hafi verið mjög vanmetin og að hún hefði átt að vera metin mjög hæf í öllum matsþáttum og hefði átt að fá fleiri stig en sá sem skipaður hafi verið í embættið. Þá hefði hún augljóslega átt að vera í hópi þeirra sem hæfnisnefndin hafi talið hæfasta til að hljóta embættið. Niðurstaða nefndarinnar sé því óforsvaranleg og í andstöðu við verðleikaregluna sem feli í sér að ráða eigi hæfasta umsækjandann.
  89. Eins og sýnt hafi verið fram á liggi fyrir að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns við skipunina, enda hafi verið færð fram rök fyrir því að hún hafi verið hæfari til að gegna embættinu en sá sem það hafi fengið. Ekki verði séð að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun ráðherra um skipun í embættið.
  90. Í þessu sambandi skuli bent á að mörg ákvæði jafnréttislaga hafi beinlínis þann tilgang að bæta stöðu kvenna á vinnumarkaði sérstaklega. Þannig sé í lögunum lögð sú skylda á atvinnurekendur að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Í þessu felist meðal annars sú skylda að gæta þess að ekki sé gengið fram hjá hæfum konum við ráðningu í störf. Ljóst sé að jafnréttislög yrðu fremur þýðingarlítil nema meginreglur kaflans séu skýrðar svo við núverandi aðstæður að konu skuli veita starf, sé hún að minnsta kosti jafnt að því komin, að því er varði menntun og annað, sem máli skipti, og karlmaður sem við hana keppi, séu fáar konur á starfssviðinu. Í skýrslu forsætisráðherra um jafnréttismál 2018-2019 sé fjallað um hlut kynjanna í störfum forstöðumanna ríkisstofnana, þar með talið ráðuneytisstjóra. Komi þar fram að í upphafi árs 2019 hafi forstöðumenn ríkisstofnana, þar með taldir ráðuneytisstjórar, verið 156 talsins, en þar hafi konur sem gegni stöðum forstöðumanna eða ráðuneytisstjóra verið samtals 65 sem sé 42% af fjölda forstöðumanna. Þar með hljóti það að teljast sérstaklega mikilvægt að ákvörðun um ráðningu í störf forstöðumanna ríkisstofnana og ráðuneytisstjóra séu reist á málefnalegum og forsvaranlegum grundvelli. Ekki verði séð að umrædd ráðning hafi verið reist á slíkum grundvelli í þessu tilfelli heldur hafi kærandi verið látin gjalda kynferðis síns með því að reynsluminni og minna menntaður karlmaður hafi verið skipaður í embættið. Síðari rökstuðningur kærða vegna skipunarinnar þyki heldur ekki hafa sýnt fram á að sá sem skipaður hafi verið hafi verið hæfari til að gegna stöðunni en kærandi.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  91. Kærði segir að með bréfi, dagsettu 1. ágúst 2019, hafi kærði falið nefnd að leggja mat á hæfni umsækjenda um embætti ráðuneytisstjóra, sbr. 19. gr laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Kærði hafi staðfest ráðningaráætlun hæfnisnefndarinnar 22. ágúst 2019. Í ráðningaráætluninni sé að finna lýsingu á matsferlinu sem sé skipt upp í fyrsta, annað og þriðja mat. Hafi nefndin átt að skila álitsgerð til kærða þegar nefndin hefði talið sig hafa aflað nægilegra gagna til að skila vel rökstuddu mati á hæfni umsækjenda. Hæfnisnefndin hafi skilað umsögn sinni 27. september 2019.
  92. Í niðurstöðum nefndarinnar komi fram að samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laga um Stjórnarráð Íslands stýri ráðuneytisstjórar ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra. Með hliðsjón af þessari lagaskyldu ráðuneytisstjóra telji nefndin að hæfnisskilyrði um þekkingu á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytis og um reynslu af opinberri stjórnsýslu, séu sérlega mikilvæg við mat á hæfni umsækjenda. Þá segi að í ljósi þess hve víðtækar starfsskyldur ráðuneytisstjóra séu þar sem hann beri meðal annars ábyrgð gagnvart ráðherra á starfsemi ráðuneytis og stýri upplýsingagjöf til ráðherra, telji nefndin að hæfnisskilyrðið um stjórnunarreynslu sé jafnframt mjög mikilvægt. Þá séu hæfnisskilyrðin um menntun og þekkingu og reynslu á sviði reksturs og starfsmannahalds mikilvæg að mati nefndarinnar. Rétt og málefnalegt sé að gera þá kröfu til ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneyti að hann búi yfir leiðtogahæfileikum, hæfni í mannlegum samskiptum og búi yfir hæfni til að tjá sig í ræðu líkt og auglýsing hafi kveðið á um. Tungumálakunnátta hafi einnig verið þýðingarmikil, meðal annars í ljósi þess umfangsmikla alþjóðlega samstarfs sem fari fram á vettvangi ráðuneytisins.
  93. Ákvörðun um skipun í embætti ráðuneytisstjóra sé matskennd stjórnvaldsákvörðun og í samræmi við það verði að játa ráðherrum nokkurt svigrúm við mat á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda liggi fullnægjandi upplýsingar fyrir til að slíkt mat geti farið fram.
  94. Niðurstaða nefndarinnar sé reist á heildstæðu mati á umsækjendum. Með vísan til þess sem fram komi í umsögn hennar hafi það verið niðurstaða nefndarinnar að fjórir umsækjendur hefðu staðið öðrum umsækjendum framar og teldust allir mjög vel hæfir til að gegna embætti ráðuneytisstjóra. Kærandi hafi verið metin vel hæf.
  95. Í 2. mgr. 19. gr. laga um Stjórnarráð Íslands komi fram að niðurstaða hæfnisnefndar sé ráðgefandi við skipun í embætti. Þá komi fram að hæfnisnefndir starfi í samræmi við sérstakar reglur sem forsætisráðherra setji.
  96. Hæfnisnefndir meti umsækjendur út frá hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum en ekki kyni og þeim sé ætla að tryggja að enn frekar sé faglega staðið að ráðningum í æðstu embætti innan Stjórnarráðsins. Í frumvarpi því sem hafi orðið að lögum um Stjórnarráð Íslands komi fram að þrátt fyrir að um sé að ræða ráðgefandi hæfnisnefndir verði að ætla að veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður verði að vera fyrir hendi ætli ráðherra að horfa fram hjá áliti hæfnisnefndarinnar. Kærði telji að þær hlutlægu og málefnalegu ástæður hafi ekki verið til staðar í þessu tilfelli, enda hafi nefndin metið fjóra af þrettán mjög vel hæfa þar sem kynjahlutfallið hafi verið jafnt.
  97. Ráðherra hafi boðað þær tvær konur og tvo karla sem hæfnisnefndin hafi metið mjög vel hæfa til lokaviðtala, en kærandi hafi ekki verið í þeim hópi. Álit hæfnisnefndar hafi ekki komið í veg fyrir sjálfstætt mat ráðherra heldur hafi mat nefndarinnar verið hluti af þeim þáttum sem ráðherra hafi byggt mat sitt á. Í kjölfar þessa hafi ráðuneytisstjóri verið skipaður. Fullnægjandi gögn hafi legið til grundvallar mati og ákvörðun ráðherra í máli þessu. Það þyki því ljóst að það hafi verið aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, sem hafi legið til grundvallar ákvörðun ráðherra um að skipa karlinn í embætti ráðuneytisstjóra umfram aðra umsækjendur, meðal annars kæranda.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  98. Kærandi segir meðal annars að óljóst sé hvort tilvísun greinargerðar kærða til niðurstöðukafla umsagnar hæfnisnefndarinnar sé ætlað að veita frekari upplýsingar um það hvert innbyrðis vægi matsþátta hafi verið hjá nefndinni. Í skýrslu nefndarinnar hafi ekki verið fjallað um trúverðugleika, áhuga, drifkraft og metnað sem nefndin hafi lagt sérstakt mat á miðað við yfirlitsskjal nefndarinnar. Sé það svo séu þær upplýsingar mjög óskýrar, en af þeim verði ráðið að nefndin hafi haft eftirfarandi skoðun á einstökum hæfnisskilyrðum sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið:
    1. Þekking á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins: Sérlega mikilvægt.
    2. Reynsla af opinberri stjórnsýslu: Sérlega mikilvægt.
    3. Stjórnunarreynsla: Mjög mikilvægt.
    4. Háskólamenntun sem nýtist í starfi, embættis- eða meistarapróf skilyrði: Mikilvægt.
    5. Þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds: Mikilvægt.
    6. Mjög góð íslensku- og enskukunnátta: Tungumálakunnátta er þýðingarmikil.
    7. Kunnátta í einu Norðurlandamáli: Tungumálakunnátta er þýðingarmikil.
    8. Leiðtogahæfileikar: Rétt og málefnalegt skilyrði.
    9. Færni í mannlegum samskiptum; Rétt og málefnalegt skilyrði.
    10. Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti: Rétt og málefnalegt skilyrði.
  99. Í skýrslu nefndarinnar sé ekki fjallað um trúverðugleika, áhuga, drifkraft og metnað sem nefndin hafi lagt sérstakt mat á miðað við yfirlitsskjal nefndarinnar.
  100. Þessi flokkun skýri ekki niðurstöður nefndarinnar, en ekki verði séð að niðurstöður hennar miðist við hana. Þá liggi ekki fyrir að ráðherra hafi tekið afstöðu til vægis ólíkra sjónarmiða áður en starf nefndarinnar hafi byrjað, en fræðimenn hafi talið slíkt æskilegt.
  101. Það sé rétt að veitingavaldshafi, í þessu tilviki ráðherra, hafi nokkurt svigrúm til að afmarka hvaða skilyrði séu gerð til hæfni starfsmanns. Þessi grundvöllur sé markaður með auglýsingu um starfið, en talið hafi verið að veitingavaldshafi sé bundinn af þeim hæfnisskilyrðum sem talin séu upp í auglýsingu. Það sé aftur á móti ekki rétt að veitingavaldshafi hafi nokkurt svigrúm til að meta „hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum“. Ráða megi af skrifum fræðimanna og álitum umboðsmanns Alþingis að tvær reglur takmarki þetta svigrúm veitingavaldshafa. Það sé annars vegar rannsóknarreglan og hins vegar verðleikareglan. Ekki verði séð að ráðherra hafi gætt að skyldum sínum samkvæmt þessum tveimur reglum.
  102. Í greinargerð kærða sé ekki vikið einu orði að þeim athugasemdum sem séu gerðar við mat hæfnisnefndarinnar í kæru eða þeim ábendingum sem þar komi fram um mistök í starfi nefndarinnar og rangar og ófullnægjandi upplýsingar sem nefndin lagði til grundvallar í starfi sínu.
  103. Vegna þessa sé nauðsynlegt að benda á með hliðsjón af því sem segir í athugasemdum að baki 19. gr. frumvarps þess sem hafi orðið að lögum um Stjórnarráð Íslands, að það sé alveg ljóst að ábyrgðin á skipun í embætti sé ráðherra en ekki nefndarinnar. Ráðherra beri því að fara ítarlega yfir öll þau gögn sem liggi til grundvallar niðurstöðu hæfnisnefndar. Í þessu tilviki hefði einfaldur samanburður á umsóknargögnum kæranda og umfjöllun um hana í umsögn hæfnisnefndar leitt í ljós að mat nefndarinnar hafi verið ófullnægjandi og í mörgum tilvikum beinlínis rangt.
  104. Liggi því fyrir að ráðherra hefði borið að boða kæranda í viðtal á grundvelli verðleikareglunnar, enda hafi verið sýnt fram á að hún hafi verið hæfari en að minnsta kosti hluti þeirra umsækjenda sem boðaðir hafi verið í viðtal hjá ráðherra. Með því að leggja mjög gallaða umsögn hæfnisnefndar til grundvallar gagnrýnislaust hafi ráðherra brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga. Þá hafi það leitt til þess að ákvörðun ráðherra hafi ekki verið í samræmi við verðleikaregluna, enda hafi karlkyns umsækjandi, sem hafi verið reynsluminni og minna menntaður en kærandi, verið skipaður í starfið. Með því hafi ráðherra mismunað umsækjendum um starf á grundvelli kyns og fari sú skipun gegn 26. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  105. Kærði segir að með vísan til greinargerðar kærða megi vera ljóst að verðleikareglunni hafi verið fylgt við skipun í embætti ráðuneytisstjóra sem og að ráðherra hafi borið ábyrgð á ráðningarferlinu.
  106. Þrátt fyrir að ekki hafi komið fram í ráðningaráætlun hvert innbyrðis vægi þeirra matsþátta, sem fram hafi komið í auglýsingu um embættið, hafi verið hjá hæfnisnefndinni sé ljóst að það hafi verið aðrar ástæður en kyn, fæðingar- og foreldraorlof eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, sem hafi legið til grundvallar ákvörðun ráðherra við skipunina.

    NIÐURSTAÐA

  107. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  108. Ákvörðun kærða um skipun ráðuneytisstjóra var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til nokkurrar hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 2/2020.
  109. Í þessu tilviki þarf einnig að hafa hliðsjón af viðfangsefnum mennta- og menningarmálaráðuneytis samkvæmt 7. gr. forsetaúrskurðar nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands sem og lögbundnu hlutverki ráðuneytisstjóra samkvæmt V. kafla laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands. Samkvæmt 1. mgr. 16. gr. laganna stýra þeir ráðuneytum undir yfirstjórn ráðherra. Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laganna er hverri fagskrifstofu ráðuneytis stýrt af skrifstofustjóra undir yfirstjórn ráðuneytisstjóra.
  110. Í 19. gr. laga nr. 115/2011 er gert ráð fyrir aðkomu ráðgefandi nefnda í aðdraganda skipunar ráðuneytisstjóra, sbr. einnig reglur nr. 393/2012 um ráðgefandi nefndir er meta hæfni umsækjenda um embætti við Stjórnarráð Íslands. Eins og að framan greinir skilaði slík nefnd kærða mati á umsækjendum. Niðurstaða nefndarinnar var sú að fjórir umsækjendur stæðu þar fremstir og var karlinn sem starfið hlaut þar á meðal en ekki kærandi.
  111. Í málatilbúnaði sínum fyrir nefndinni hefur kærði upplýst að þrátt fyrir að um sé að ræða ráðgefandi hæfnisnefnd verði að ætla að veigamiklar hlutlægar og málefnalegar ástæður verði að vera fyrir hendi ætli ráðherra að horfa fram hjá áliti hennar. Slíkar ástæður hafi ekki verið til staðar í þessu tilviki. Að þessu virtu gerir kærði niðurstöðu hinnar ráðgefandi nefndar að sinni eigin niðurstöðu. Í málatilbúnaði kærða kemur þó einnig fram að álit hinnar ráðgefandi nefndar hafi ekki komið í veg fyrir sjálfstætt mat kærða heldur hafi mat nefndarinnar verið hluti af þeim þáttum sem kærði hafi byggt mat sitt á. Þegar af þessari ástæðu er ljóst að röksemdir hinnar ráðgefandi nefndar lágu til grundvallar ákvörðun kærða að því marki sem kærði byggir ekki á öðru fyrir nefndinni.
  112. Í auglýsingu kærða á umræddu starfi voru, eins og áður greinir, skilgreindar eftirfarandi menntunar- og hæfniskröfur: „Háskólamenntun sem nýtist í starfi, embættis- eða meistarapróf er skilyrði; Þekking á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins; Reynsla af opinberri stjórnsýslu; Þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds er æskileg; Leiðtogahæfileikar og umfangsmikil stjórnunarreynsla; Færni í mannlegum samskiptum; Mjög góð íslensku- og enskukunnátta; Kunnátta í einu Norðurlandamáli æskileg; Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.“
  113. Að mati kærunefndarinnar voru þessar kröfur málefnalegar og rúmuðust innan svigrúms kærða til að skilgreina menntunar- og hæfniskröfur starfsins.
  114. Í tilefni af þeim málatilbúnaði kæranda að athugasemd sé gerð við það að ekki liggi fyrir nein gögn um vægi hvers matsþáttar telur kærunefndin vert að geta þess að kærða var ekki skylt að setja fram tölfræðilegt vægi einstakra matsþátta. Þá hefur kærði rakið fyrir nefndinni sjónarmið um mat á vægi hvers þáttar fyrir sig og vísað um það til umfjöllunar í umsögn hinnar ráðgefandi nefndar.
  115. Í gögnum málsins er að finna ódagsett matsblað sem merkt er með þrenns konar litum, þ.e. grænum, gulum og rauðum. Kærandi finnur að því í málatilbúnaði sínum að þarna sé að finna matsþátt sem ekki hafi komið fram í starfsauglýsingu, þ.e. „trúverðugleiki, áhugi, drifkraftur, metnaður“. Allt eru þetta atriði sem að mati kærunefndarinnar var viðbúið að kæmu til skoðunar við ráðningu í embætti ráðuneytisstjóra og þurfti ekki að geta sérstaklega um það í starfsauglýsingu að skortur á einum eða fleiri þessara eiginleika gæti unnið gegn umsækjendum í samanburði við aðra umsækjendur. Hvað sem því líður þá er ekki vikið að þessum þætti í endanlegri umsögn hinnar ráðgefandi nefndar, en í fyrrgreindu matsblaði eru kærandi og karlinn sem starfið hlaut sett í sama flokk (grænmerktan) hvað þetta varðaði.
  116. Hin ráðgefandi nefnd taldi bæði kæranda og þann sem starfið hlaut mjög vel hæf hvað varðaði kröfuna um menntun sem nýtist í starfi. Cand.jur-gráða kæranda í lögfræði er ígildi bæði grunn- og meistaranáms á því sviði. Til viðbótar bjó kærandi að LLM-námi í lögfræði frá Háskólanum í Lundi. Karlinn hafði lokið BA-prófi í guðfræði. Þá hafði hann lokið meistaraprófi í opinberri stjórnsýslu (MPA) frá Háskóla Íslands og meistaraprófi í lögfræði (ML) frá Háskólanum í Reykjavík. Með hliðsjón af eðli starfs ráðuneytisstjóra og lýsingu á því í starfsauglýsingu verður guðfræðimenntun karlsins ekki talin nýtast með sama hætti og grunnnám kæranda í lögfræði í slíku starfi. Þegar af þessari ástæðu stóð kærandi karlinum framar varðandi kröfuna um menntun sem nýtist í starfi. Við þessari niðurstöðu hrófla ekki þau námskeið sem tilgreind voru í starfsumsóknum kæranda og karlsins.
  117. Varðandi kröfu um að umsækjendur hefðu þekkingu á verkefnasviði mennta- og menningarmálaráðuneytisins þá taldi ráðgefandi nefndin þann sem starfið hlaut mjög vel hæfan en kæranda vel hæfa. Í starfsumsókn karlsins kemur meðal annars fram að árið 2010 hafi menningarmál Kópavogsbæjar verið færð undir stjórnsýslusvið. Deildarstjóri menningarmála sé þannig undirmaður hans. Karlinn vinni þar með að stefnumótun og rekstri málaflokksins. Sveitarfélagið reki Listasafn Kópavogs – Gerðarsafn, Náttúrufræðistofu Kópavogs, Salinn, Bókasafn Kópavogs og Héraðsskjalasafn Kópavogs. Þá kemur fram í starfsumsókn karlsins að sviðið sem hann veitir forstöðu veiti menntasviði sveitarfélagsins stoðþjónustu, en síðarnefnda sviðið annast leik- og grunnskólamál sveitarfélagsins. Nefnir hann sem dæmi í þessum efnum aðkomu sína að spjaldtölvuvæðingu grunnskóla sveitarfélagsins, en hann mun hafa setið í stýrihópi þess verkefnis. Þá kemur fram í starfsumsókninni að hann var í mörg ár formaður íþróttaráðs sveitarfélagsins auk þess sem hann var varaformaður útvarpsráðs og síðar stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. Að öllu þessu virtu og með vísan til fyrirliggjandi upplýsinga um reynslu kæranda og karlsins telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu að karlinn hafi staðið kæranda framar í þessum matsflokki.
  118. Í þessu samhengi skal þess getið að ekki er unnt að fallast á það með kæranda að reynsla karlsins tengd starfsemi leikskóla og grunnskóla eigi ekki að teljast honum til tekna á þeirri forsendu að rekstur þeirra heyri undir sveitarfélög, enda verður ráðið af forsetaúrskurði nr. 119/2018 að fræðslumál, þ.m.t. starfsemi leik- og grunnskóla heyra undir málefnasvið mennta- og menningarmálaráðuneytis. Var því að mati kærunefndarinnar ekki tilefni til að líta fram hjá reynslu karlsins á þessu sviði í þessum matsflokki, þ.m.t. reynslu hans af innleiðingu spjaldtölva í grunnskóla sveitarfélagsins.
  119. Aftur á móti má fallast á athugasemdir kæranda um að ekkert hafi komið fram í umsögn hinnar ráðgefandi nefndar um það hvernig sá sem starfið hlaut hafi í viðtölum sýnt að hann hafi beitt sér markvisst í starfi sínu fyrir umbótum í grunnskólakerfinu og bættri líðan barna. Þessum málatilbúnaði hefur kærði ekki svarað fyrir kærunefndinni, þótt tilefni hafi verið til þess. Hvað sem þessu líður hróflar þetta ekki við framangreindri niðurstöðu kærunefndarinnar um mat á kæranda og karlinum í þessum matsflokki.
  120. Kærandi gerir einnig athugasemd við að formennska karlsins í átaksverkefni til atvinnusköpunar á sviði nýsköpunar hafi verið talin skipti máli, enda falli nýsköpun undir málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis en ekki mennta- og menningarmálaráðuneytis. Jafnvel þótt fallast megi á þetta með kæranda þá verður ekki fram hjá því litið að sjálf fékk kærandi metna reynslu sína í þessum matsflokki af því að hafa komið að fjölda úrlausna í áfrýjunarnefnd hugverkaréttinda, en samkvæmt forsetaaúrskurði nr. 119/2018 falla hugverkaréttindi á sviði iðnaðar undir málefnasvið atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis. Nægir þetta því ekki til að hrófla við fyrrgreindri niðurstöðu kærunefndarinnar.
  121. Hin ráðgefandi nefnd mat kæranda og þann karl sem starfið hlaut mjög vel hæf í matsflokknum um reynslu af opinberri stjórnsýslu. Kærunefndin getur ekki fallist á það með kæranda að draga eigi þann tíma frá starfsreynslu umrædds karls sem hann nýtti til náms meðfram störfum sínum. Hið sama á við um hlutastörf karlsins meðfram aðalstarfi. Þrátt fyrir þetta er ljóst að kærandi á lengri reynslu að baki en karlinn af opinberri stjórnsýslu. Enda þótt aukinn starfsaldur kæranda að þessu leyti samanborið við karlinn leiði ekki sjálfkrafa til þess að hún verði metin hæfari en karlinn í þessum flokki þá verður ekki fram hjá því litið að mati kærunefndarinnar að kærandi hafði á þessum tíma aflað sér reynslu og þekkingar sem hafa verulegt vægi í opinberri stjórnsýslu að því marki sem hún nýtist í störfum ráðuneytisstjóra, svo sem sérþekkingar í tengslum við gerð og frágang lagafrumvarpa, mikillar reynslu á sviði EES-réttar, þ.m.t. sem fulltrúi og síðar varaformaður stýrihóps um framkvæmd EES-samningsins, reynslu af starfi skrifstofustjóra í tveimur ráðuneytum og loks þekkingar á stjórnsýslu Alþingis. Heilt á litið stóð kærandi framar karlinum í þessum matsflokki að mati kærunefndarinnar.
  122. Að mati kærunefndarinnar eru fjórða og fimmta krafa starfsauglýsingar nokkuð tengdar. Sú fyrri varðar þekkingu og reynslu á sviði reksturs og starfsmannahalds en hin síðari varðar leiðtogahæfileika og umfangsmikla stjórnunarreynslu. Síðari flokknum skipti hin ráðgefandi nefnd upp í tvo undirflokka. Í öllum tilvikum var sá sem starfið hlaut metinn mjög vel hæfur af ráðgefandi nefndinni. Kærandi var aftur á móti metin vel hæf varðandi fyrri flokkinn og jafnframt þegar kom að stjórnunarreynslu, en aðeins metin hæf varðandi leiðtogahæfileika.
  123. Hvað viðvíkur þekkingu og reynslu á sviði rekstrar og starfsmannahalds telur kærunefndin að þegar litið er heildstætt á starfsreynslu kæranda og karlsins sem starfið hlaut, þ.m.t. reynslu karlsins af stjórnarstörfum og úr einkageira, sé ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu hinnar ráðgefandi nefndar, sem ráðherra lagði til grundvallar, um að karlinn stæði kæranda þar framar. Varðandi vægi þessa þáttar í heildarmati á umsækjendum verður að halda því til haga að hér var um að ræða þekkingu og reynslu sem aðeins var sögð „æskileg“ í starfsauglýsingu kærða. Vegur sá þáttur þar af leiðandi ekki jafn þungt og þættir sem gerðir voru að fortakslausum skilyrðum í starfsauglýsingunni.
  124. Varðandi næsta flokk, þ.e. leiðtogahæfileika og umfangsmikla stjórnunarreynslu, fjallaði hin ráðgefandi nefnd sérstaklega um hvorn þátt fyrir sig í umsögn sinni.
  125. Hvað varðar leiðtogahæfileika telur kærunefndin að fullt tilefni hafi verið fyrir kærða, ekki síst í ljósi rannsóknarreglu stjórnsýsluréttarins, að ræða við umsagnaraðila umsækjenda þegar slíkir huglægir þættir yrðu kannaðir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fyrir liggur aftur á móti að ekki var rætt við umsagnaraðila umsækjenda um þetta atriði. Þá gætir einnig ósamræmis af hálfu kærða við mat á þessu atriði, en kærði hefur ekki sett fram haldbærar skýringar á því ósamræmi fyrir nefndinni. Þannig ritar hin ráðgefandi nefnd að svör kæranda í viðtali hafi ekki miðlað nægilega skýrri framtíðarsýn um starfið og nálgun á því. Af umsögninni verður ráðið að þetta hafi unnið gegn kæranda í matinu. Í fundarpunktum vegna viðtals kærða við karlinn á síðari stigum ráðningarferlis kemur fram að aðspurður um framtíðarsýn á starfið hafi hann svarað því til að hann ætli ekki að lýsa sinni framtíðarsýn á starfið, enda sé það annarra að móta hana. Í ljósi afstöðu karlsins, sem vænta verður að hafi verið hin sama stuttu áður í viðtali við hina ráðgefandi nefnd, er ekki unnt að líta svo á að það vinni gegn kæranda í samanburði við karlinn að hafa ekki miðlað nægilega skýrri framtíðarsýn á starfið. Nærtækast er því að líta svo á að karlinn hafi ekki staðið kæranda framar í þessum undirflokki í matinu á hæfni þeirra.
  126. Enda þótt fallast megi á það sem segir í mati hinnar ráðgefandi nefndar um að stjórnunarreynsla kæranda sé faglega afmarkaðri en reynsla karlsins, þá verður einnig að líta til þess að hluti af stjórnunarreynslu kæranda var af störfum á vettvangi Stjórnarráðsins, en það horfir kæranda nokkuð til framdráttar í matinu. Þrátt fyrir þetta telur kærunefndin ekki tilefni til að gera athugasemd við þá niðurstöðu kærða að karlinn hafi staðið kæranda framar í þessum þætti matsins, einkum í ljósi langrar starfsreynslu hans sem bæjarritara (sviðsstjóra stjórnsýslusviðs) eins allra stærsta sveitarfélags landsins, en undir karlinn í því starfi heyrðu rúmlega 60 starfsmenn.
  127. Varðandi kröfu um færni í mannlegum samskiptum þá mat hin ráðgefandi nefnd kæranda og þann sem starfið hlaut jöfn í þeim þætti og var engum umsækjanda raðað framar þeim að þessu leyti. Enda þótt fallast megi á það með kæranda að tilefni hafi verið til að ræða við umsagnaraðila umsækjenda varðandi þennan þátt þá fengu kærandi og karlinn jákvæða umsögn að þessu leyti þannig að ekki hallaði á kæranda í þessum þætti.
  128. Í starfsauglýsingu var einnig áskilin mjög góð íslensku- og enskukunnátta. Í umsögn hinnar ráðgefandi nefndar voru allir umsækjendur taldir búa yfir mjög góðri enskukunnáttu. Stóðu kærandi og sá sem starfið hlaut þar með jafnfætis. Kærandi gerir athugasemd við að ekki hafi verið vikið að kröfum um mjög góða íslenskukunnáttu í þessum þætti matsins. Að mati kærunefndarinnar er ekki tilefni til að gera athugasemd við það verklag, enda lá fyrir að umsækjendurnir höfðu íslensku að móðurmáli og að sérstakur áskilnaður í starfsauglýsingu um hæfni til að tjá sig í ræðu og riti var tekinn fyrir síðar í umsögn hinnar ráðgefandi nefndar, en vikið er að þeim þætti hér á eftir.
  129. Hvað varðar það sem fram kom í starfsauglýsingu um að kunnátta í einu Norðurlandamáli væri æskileg þá gerir kærunefndin ekki athugasemd við þá niðurstöðu hinnar ráðgefandi nefndar að meta kæranda mjög vel hæfa en karlinn sem starfið hlaut vel hæfan í þessum matsflokki, enda naut kærandi þar með góðs af því að hafa aflað sér þekkingar umfram það stúdentspróf sem karlinn bjó yfir.
  130. Hvað varðar áskilnað starfsauglýsingar um hæfni umsækjenda til að tjá sig í ræðu og riti þá voru kærandi og sá sem starfið hlaut metin mjög vel hæf ásamt öðrum umsækjendum af hinni ráðgefandi nefnd. Fram kemur þó að karlinn sem starfið hlaut hafi ekki getið um nein ritverk í umsókn sinni. Í ljósi umfangsmikillar reynslu kæranda í þessum efnum, en starfsferill hennar bar með sér að mikið hefði reynt á textavinnu í störfum hennar, sbr. einkum vinnu hennar við lagafrumvörp og reglugerðir og skrif ritrýndra greina, bókakafla og handbóka, hefði að mati kærunefndarinnar verið nauðsynlegt af hálfu kærða að rökstyðja sérstaklega hvernig karlinn sem starfið hlaut gæti talist standa kæranda jafnfætis í þessum efnum. Umfjöllun í umsögn hinnar ráðgefandi nefndar um að slíkt megi ráða af umsókn hans og þeim verkefnum sem hann hefði komið að getur ekki talist fullnægjandi rökstuðningur að þessu leyti. Verður að mati kærunefndarinnar að líta svo á að hér hafi kærða borið að raða kæranda framar karlinum, en ekki er gerð athugasemd við það að þau hafi verið metin jafnhæf varðandi færni til að tjá sig í ræðu.
  131. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Í 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 kemur meðal annars fram að séu líkur leiddar að því að við ráðningu hafi einstaklingum verið mismunað á grundvelli kyns skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Samkvæmt 5. mgr. sömu lagagreinar skal kærunefndin við nánara mat á þessu taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu.
  132. Eins og rakið er hér að framan gætir ýmissa annmarka af hálfu kærða við mat á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut, en eins og áður segir lagði kærði til grundvallar umsögn hinnar ráðgefandi matsnefndar að þessu leyti og taldi ekki forsendur til að víkja frá því mati. Með hliðsjón af öllu framangreindu telur kærunefndin að kærði hafi vanmetið kæranda samanborið við karlinn varðandi menntun hennar, reynslu hennar af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika hennar og hæfni hennar til að tjá sig í riti, en allt voru þetta fortakslaus skilyrði sem birtust í starfsauglýsingu kærða.
  133. Að þessu virtu og með hliðsjón af fyrri umfjöllun kærunefndarinnar um einstaka matsþætti starfsauglýsingarinnar telst kærandi hafa leitt nægar líkur að því að henni hafi verið mismunað á grundvelli kyns við ráðninguna þannig að beita beri 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 við úrlausn málsins. Samkvæmt þessu kemur það í hlut kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Málatilbúnaður kærða fyrir nefndinni hefur aftur á móti verið því marki brenndur að þar skortir verulega á efnislegan rökstuðning. Þannig er ekki brugðist við fjölda athugasemda sem kærandi rekur í löngu máli í kæru sinni til nefndarinnar. Þær ályktanir sem kærunefndin hefur dregið hér að framan um einstaka matsþætti leiða þó í ljós að ríkt tilefni var fyrir kærða að svara mörgum þeirra athugasemda kæranda.
  134. Heilt á litið nægja þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu ekki til þess að ályktað verði að sá sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf.
  135. Að öllu framangreindu virtu hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um skipun í embætti ráðuneytisstjóra, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Kærði, mennta- og menningarmálaráðherra, braut gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla við skipun í embætti ráðuneytisstjóra mennta- og menningarmálaráðuneytis sem auglýst var 8. júní 2019.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Arnar Þór Jónsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum